Welfare and professionalism in Turbulent Times
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á norrænni ráðstefnu um velferðarmál og fagmennsku:
„Welfare and professionalism in Turbulent Times“
Grand Hótel, 11 ágúst 2011
Góðir gestir.
Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur öll velkomin til þessarar norrænu ráðstefnu um velferðarmál sem hér er að hefjast. Sérstaklega býð ég ykkur, erlendu gestir, hjartanlega velkomna hingað til Íslands. Það er mikilvægt fyrir okkur grannþjóðirnar að vinna saman á sem flestum sviðum, að skiptast á skoðunum og deila allri þeirri þekkingu, reynslu og kunnáttu sem við búum yfir sameiginlega. Samstarf, samráð og samkennd þjóðanna gerir okkur sterkari.
Margt er líkt með velferðarkerfum Norðurlandaþjóðanna. Þau byggja á svipuðum grunni og hugmyndafræðin að baki þeim er að mestu sú sama þótt við förum ekki alltaf sömu leiðir að markmiðunum. Nýlega var haldin ráðstefna, þar sem rætt var um Norræna velferðarmódelið og hlutverk þess í hnattvæðingunni.
Okkur verður æ betur ljóst að það felast ákveðin gildi í okkar norrænu leið í félags- og heilbrigðismálum. Leið sem hefur í daglegu tali verið kölluð Norræna velferðarmódelið. En eigum við einhverja eina skilgreiningu á sérkennum þess? Hver eru þau og hvað einkennir þetta módel? Hverjir eru megin styrkleikarnir? Eigum við lausnir og leiðir í velferðarmálum sem gætu hentað öðrum þjóðum? Getum við kennt Evrópusambandinu eitthvað? Eigum við að varðveita þau gildi og markmið sem hafa um margt sameinað okkur Norðurlandaþjóðirnar?
Sumir segja að Norræna módelið skiptist í þrjá megin þætti: 1) „félagslegt réttlæti, þar sem lögð er áhersla á jöfnuð, rétt einstaklingsins, samneyslu og ríkisrekstur á heilbrigðis og menntamálum og sérhæfðri þjónustu við þá sem þurfa á henni að halda vegna fötlunar, sjúkdóma, fátæktar eða annarra atriða. Þjónusta er veitt óháð efnhag og búsetu og því gjarna tekjutengd.
Annar þátturinn snýr að hlutverki ríkisins sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna, meðal annars til að tryggja lýðræði og mannréttindi. Þetta hlutverk krefst þess að krefst þess að almenningur treysti opinberum aðilum. Forsenda trausts er að stjórnvöld séu óspillt og stundi heiðarlega og gagmsæa stjórnsýslu.
Þriðji þátturinn sem segja má að einkenni Norræna velferðarmódelið er afstaða til rekstrar og ríkisfjármála þar sem hagkerfið er frjáls og opið en skattar háir og opinber útgjöld sömuleiðis. Þá er verkalýðshreyfingin sterk, rekin er virk vinnumarkaðspólitík og kjarasamningar eru samræmdir.
Fleiri mætti nefna hér - og kannski eru ekki allir sáttir við þessa upptalningu. Það er hins vegar mikilvægt reyna að skilgreina hvað við eigum við þegar við tölum um Norrænt velferðarmódel.
Höfum samt hugfast að ekkert módel er óumbreytanlegt og sífellt verður að leita nýrra leiða, nýta rannsóknir og reynslu til að bæta þjónustuna á hverju tíma og bregðast við nýjum og breyttum aðstæðum.
Þannig er það í dag. Við frændþjóðirnar stöndum frammi fyrir svipuðum áskorununum við rekstur velferðarkerfa okkar. Stór og mikilvæg verkefni á sviði heilbrigðis- og félagsmála eru að mestu þau sömu og lýðfræðleg þróun stefnir í sömu átt. Nú um stundir tökumst við á við erfiða tíma vegna víðtækra efnahagsþrenginga og þótt þjóðirnar séu ekki allar jafn hart keyrðar af þeirra völdum fer engin þeirra varhluta af vandanum.
Norðurlöndin gengu í gegnum efnahagserfiðleika í kringum 1990. Þjóðirnar drógu margvíslegan lærdóm af þeirri reynslu. Viðbrögðin fólust meðal annars í því að stokka upp þjónustu, löggjöf á ýmsum sviðum var endurskoðuð og ekki síst voru settar nýjar reglur varðandi réttindi einstaklinga og lántakenda gagnvart fjármagnseigendum.
Ísland slapp fremur vel í þessum þrengingum en fór þeim mun verr í bankahruninu í október 2008. Þetta var í raun hrun efnahagskerfis sem þróast hafði í stjórnmálaumhverfi sem átt sér þann draum að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins. Á þeim tíma var frelsi á öllum sviðum aukið og hlutverk ríkisins veikt.
Íslendingar fjárfestu um allan heim, tóku fé að láni og velta íslenskra banka og einstaklinga náði að verða 10-12 föld landsframleiðsla (VLF). Á einnig viku töpuðum við fimmtungi af ríkistekjum, þ.e. tekjur drógust saman og vaxtakostnaður át upp um 15% af tekjum. Þessi raunveruleiki hefur kallað á harða aðlögun íslenska ríkissjóðsins. Við verðum að hætta að lifa umfram efni og aðlaga ríkisútgjöld rauntekjum. Þetta hefur sett mark sitt á íslenska velferðarkerfið síðastliðin þrjú ár og verkinu er ekki lokið. Ég veit að þið fáið tækifæri hér á þessari ráðstefnu til að skoða þessi mál, ræða áhrif niðurskurðar og aðhalds en um leið að velta vöngum yfir nýjum tækifærum við nýjar aðstæður.
Hlutverk okkar allra, okkar Norræna velferðarsamfélags, er að gæta þeirra sem eiga undir högg að sækja, gæta barna, ýmissa jaðarhópa (marginalized groups) og berjast gegn fátækt. Samhliða uppstokkun og endurskoðun ríkisútgjalda verðum við að huga að því fólki sem er hrætt og óöruggt vegna ástandsins í heiminum, óvissu um afkomu sína, hvernig þeim og börnum þeirra reiðir af í nýju aðstæðum. Óeirðir og ofbeldi eykur á þetta óöryggi og við höfum nýlega verið minnt illilega á hvað öfgaskoðanir og sérhyggja geta leitt af sér. Við verðum að hafa hag heildarinnar í huga, óháð efnahag, litarhætti, búsetu, trúarbrögðum eða annarra sérkenna sem gera samfélög okkar svo litrík, fjölbreytt og skemmtileg.
Sjálfur tók ég við tveimur ráðuneytum, félags- og tryggingarmála annars vegar og heilbrigðismála hins vegar, og hef leitt sameiningu þessara ráðuneyta í eitt öflugt velferðarráðuneyti. Tilgangurinn var hagræðing en ekki síður að styrkja ráðuneytið og stjórnsýsluna og gera okkur betur kleift að takast á við krefjandi verkefni.
Við stöndum öll frammi fyrir brennandi spurningum um það hvernig við getum áfram rekið öflugt og gott velferðarkerfi sem mætir fjölbreyttum þörfum fólks við ólíkar aðstæður og stuðlar að jöfnuði á sama tíma og við þurfum að spara fé og jafnvel skera niður.
Auðvitað er það ábyrgð okkar á öllum tímum að fara vel með almannafé og að veita sem mesta og besta velferðarþjónustu í samræmi við þarfir fólks á sem hagkvæmastan hátt. Þessi ábyrgð er þó meira knýjandi nú en nokkru sinni. Við þurfum að endurmeta hvaða þjónusta er nauðsynleg og hver á að veita hana og greiða fyrir hana. Við verðum að vera óhrædd að ræða ný tækifæri, skoða hvað betur má gera, nýta okkur rannsóknir, reynslu og þekkingu, vera gagnrýnin og leita nýrra leiða.
Þessi ráðstefna verður sérstaklega áhugaverð þar sem hér er leitt saman fagfólk og sérfræðingar af ólíkum sviðum sem starfar á sviði rannsókna og stefnumótunar eða kemur beint að störfum í þágu notenda velferðarþjónustunnar. Þetta er einmitt einkar mikilvægt nú þegar þrengir að. Við þurfum að vera skapandi, hugsa út fyrir hefðbundinn ramma og vera óhrædd við að skoða nýjar leiðir að markmiðum okkar í velferðarþjónustu við almenning. Þetta gerum við best með þverfaglegu samstarfi, með því að brjóta niður múra milli fagstétta og fá að borðinu alla sem málið varðar, fagfólkið, rannsóknarsamfélagið, stjórnmálamenn og stefnumótendur og síðast en ekki síst notendurna sjálfa – fólkið sem þjónustan á alltaf að snúast um.
Andstreymið afhjúpar snilldina sem velgengnin dylur sagði rómverska skáldið og heimspekingurinn Hóratíus fyrir um það bil tvö þúsund árum. Þessi orð tel ég gott veganesti við upphaf ráðstefnunnar sem hér er að hefjast. Enn á ný býð ég ykkur, góðir gestir, velkomna til leiks og óska ykkur ánægjulegra og uppskeruríkra ráðstefnudaga og segi þar með ráðstefnuna setta.