Ársþing Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði ársþing Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem haldið var á Reykjum í Hrútafirði dagana 26. – 27. ágúst.
Ráðherra gerði að umtalsefni þær breytingar sem þjóðin er að ganga í gegnum á ýmsum sviðum í kjölfar efnahagshrunsins en sagði augljóst að við myndum rétta úr kútnum, nýta þau fjölmörgu tækifæri sem þjóðin hefur; auðlindir og mannauð til að endurreisa samfélagið og gera það sterkara en áður.
„Við höfum sannanlega glímt við erfiðleika í þessu landi síðustu ár en nú fer ekki á milli mála að okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn og ef vel tekst til þá verður samfélagið sterkara. Við höfum vonandi styrk til að hverfa frá þeirri vaxandi misskiptingu og því óréttlæti sem ríkti í okkar samfélagi á „froðutímanum“ fyrir hrun og fá þess í stað betra og réttlátara samfélag með meiri jöfnuði“ sagði ráðherra.
„Í mörgum efnum höfum við þurft að meta stöðu okkar upp á nýtt. Við þurfum að endurmeta margt og þá ekki hvað síst hvað það er sem gefur lífinu gildi. Við höfum þurft að sníða okkur nýjan stakk sem hæfir vexti og erum enn að glíma við að ná tökum á þeim ofvexti sem einkenndi samfélagið fyrir hrun.“
Ráðherra gerði grein fyrir helstu stærðum efnahagshrunsins þar sem um fimmtungur ríkistekna tapaðist á einni viku vegna tekjusamdráttar og vaxtakostnaðar. Hann sagðist ítrekað hafa bent á að öll úrræðin sem íslenska ríkið átti að eiga á samdráttartímum, voru notuð til að kynda þensluna á árunum fyrir hrun.
„Á sama tíma og höfuðborgarsvæðið, Akureyrarsvæðið og Austurland bjuggu við bullandi þenslu voru aukna lánveitingar til húsnæðiskaupa og skattar lækkaðir. Afleiðingarnar þekkjum við. Endurreisn Seðlabankans og viðskiptabankanna, halli á fjárlögum o.fl. þýða að á næsta ári verða vaxtagjöld ríkisins u.þ.b. 15% útgjalda ríkissjóðs. Verkefnið er að breyta eins hratt og skynsamlegt er þessum vöxtum í velferð. Þar hægðum við þó á með gerð kjarasamninga, sem reyna á þolmörkin en ýta jafnframt undir neyslu og aukin umsvif og létta á hjá heimilum landsins. Það hefur einnig verið gert með ótal aðgerðum til að koma til móts við þá sem verst fóru út úr hruninu.“
Ráðherra ræddi um fall íslensku krónunnar sem áður hefði birst í gengisfellingum og verðbólgu og lenti sem kostnaður á heimilum með hærri útgjöldum og minnkandi kaupmætti. „Erfitt ætlar að reynast að vega og meta kostnaðinn og ávinninginn af þessum veika gjaldmiðli sem fjárfestar geta leikið sér með, sem kostar hærra verðlag, hærri vaxtargjöld, hærri útgjöld í heild. Við þurfum að taka afstöðu um hvort við sættum okkur við kollsteypur á um það bil 10 ára fresti.“
Ráðherra verkefni ríkis og sveitarfélaga að takast á við breyttar aðstæður og vinna úr þeim á skynsamlegan hátt. Þetta væri og yrði áfram stór áskorun. Það lægi fyrir hver verkefnin væru en sum þeirra þyrfti að endurskipuleggja, hugsa upp á nýtt og finna nýjar, hagkvæmari og skilvirkari leiðir við framkvæmd þeirra. Sameining stofnana og ráðuneyta væri liður í þessu. Megin markmiðið væri að koma þjónustunni sem best til þeirra sem hún er ætluð en minnka stjórnunarkostnað og milliliði.
Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að efla sveitarstjórnarstigið og fela þeim ábyrgð á framkvæmd fleiri verkefna. Stór áfangi í þessa átt varð með tilfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna um síðustu áramót, sagði velferðarráðherra. Þá væri enn stefnt að því að flytja alla þjónustu við aldraða á hendur sveitarfélaganna en það þyrfti að skoða í stærra samhengi, ekki síst út frá stöðu heilbrigðisstofnana úti um land og verkefna þeirra og aðstæðum sveitarfélaga á hverjum stað.
Ráðherra sagði jafnframt fulla ástæðu til að skoða möguleika þess að sveitarfélögin taki að sér ábyrgð á heilsugæsluþjónustu, líkt og reifað sé í drögum að heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Sveitarfélög og ríki þurfi að vinna saman að því að koma upp þjónustustofnunum sem víðast, þar sem öll almenn þjónusta við íbúana verður, bæði félags- og heilbrigðisþjónusta auk annarrar þjónustu. Saman geti þessi tvö stjórnsýslustig boðið upp á enn betri þjónustu en nú er veitt.
Sameining heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti um síðustu áramót er að mörgu leyti sprottin af breyttum áherslum og hugsunarhætti í velferðarmálum sagði velferðarráðherra í ávarpi sínu: „Velferð fólks ræðst af ótalmörgum þáttum og þar eru heilbrigðismál aðeins einn af mörgum þótt mikilvægur sé. Aðrir veigamiklir þættir eru vinnumál og endurhæfing, húsnæðismál, almannatryggingar og jafnréttismál svo fátt eitt sé talið. Allt þetta þarf að skoða í samhengi og hafa í huga við skipulag og uppbyggingu grunnþjónustunnar. Við þurfum að brjóta niður múra milli verkefna, faggreina, stofnana og stjórsýslustiga og stuðla að aukinni samvinnu og samþættingu alls staðar þar sem það er líklegt til árangurs.“
Ráðherra sagði frá vinnu við gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2020 en fyrri áætlun rann sitt skeið árið 2010. Ný áætlun verður lögð fyrir Alþingi sem tillaga til þingsáætlunar á komandi vetri. Ráðherra sagði fyrstu drög liggja fyrir en nú væri unnið að því að auka við hana og færa þar inn aukna áherslu á aðra þætti sem lúta að velferðarmálum í víðara samhengi. Auk þessa stæði nú yfir vinna við endurskoðun almannatryggingalaganna og ættu tillögur að birtast í lok þessa árs. Þá væru húsnæðismálin einnig til skoðunar þar sem meðal annars væri fjallað um leiðir til að bæta stöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og jafna stöðu leigjenda og eigenda húsnæðis: „Hugmyndir eru um að taka upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta, vinna vandaðri upplýsingar um húsnæðismál og stöðu þeirra mála á hverjum tíma og gera áætlanir sem taka mið af þörfum fólks um leið og efnahagslegir þættir verði jafnframt hafðir í huga.“
Það þarf að tryggja framtíðarskipulag Íbúðalánasjóðs, sem grundvallarstoðar og stjórntæki stjórnvalda á húsnæðismarkaði, veigamiklum þætti í okkar velferðarkerfi, sagði velferðarráðherra. Þá væru atvinnumálin og það að nýta vinnufúsar hendur eitt mikilvægasta verkefnið í velferðarmálum og um leið að hindra að stór hópur heillar kynslóðar venjist á að lifa af atvinnuleysistekjum einum saman.
Ráðherra fór yfir þá vinnu sem nú stendur yfir varðandi sóknaráætlun til ársins 2020 en stórir þættir í þeirri vinnu er gerð sóknaráætlana fyrir landshluta, gerð fjárfestingaráætlunar og vinna við einföldun og samþættingu á opinberum stefnum og áætlunum.
Landshlutasamtök sveitarfélaga vinna nú að því að taka saman og forgangsraða verkefnum á sínu svæði inn í áætlunina ásamt verklýsingum og eiga að skila niðurstöðum sínum til fjármálaráðuneytisins fyrri hluta septembermánaðar. Verkefnin eiga að samræmast þeim áherslum sem lýst er í Ísland 20/20 og skulu rúmast innan þess ramma sem ráðuneytum er markaður í fjárlögum.
„Sóknaráætlunin er nýjung sem byggist ekki síst á þeirri hugsun að efla aðkomu sveitarfélaga og heimafólks við stefnumótun, þróun og uppbyggingu landssvæða. Í þessu felst veruleg aukin valdreifing með breiðari aðkomu en áður að ákvarðanatöku um forgangsröðun verkefna í hverjum landshluta. Ég tel þetta algjörlega nauðsynlegt og falla vel að stefnu um eflingu sveitarfélaga og yfirfærslu verkefna á þeirra hendur samhliða aukinni ábyrgð sem þar með fylgir.“
Ráðherra gerði að umtalsefni nýlega skýrslu um skipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi sem unnin var að frumkvæði heimamanna af stjórnendum og fagfólki heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Ráðherra sagðist fagna þessu frumkvæði, enda væru í skýrslunni margvíslegar upplýsingar sem muni koma að góðu gagni við frekari umfjöllun og ákvarðanatöku um skipan þessara mála. Þetta mál sagði ráðherra að þurfi að vinna áfram í sameiningu; ráðuneytið, stofnanirnar og heimamenn í héraði og án efa muni sú samvinna skila skynsamlegri niðurstöðu.
Fjárlagagerð fyrir næsta ár er nú á lokastigi og sagði ráðherra frá því að fulltrúar velferðarráðuneytisins hafa að undanförnu fundað með stjórnendum stofnana ráðuneytisins til að ræða um rekstrarstöðu og fagleg málefni í tengslum fjárlagavinnuna. Þessir fundir væru afar mikilvægir fyrir ráðuneytið og stofnanirnar. Enn þurfi að hagræða og draga úr útgjöldum og þar náist ekki árangur nema með góðu samráði og samstarfi.
„Það hvílir þung ábyrgð og skylda á okkur öllum að ná jafnvægi í rekstri hins opinbera en tryggja samt að almenningur hafi aðgang að allri nauðsynlegri þjónustu sem rétt er og skylt að veita í velferðarsamfélagi sem stendur undir nafni.“