Sanngjarnari reglur og aukin yfirsýn yfir lyfjanotkun í þágu sjúklinga
Grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um fyrirhugaðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði sem birtist í Fréttablaðinu 13. september 2011.
Fyrirhugaðar eru breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði í samræmi við frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi síðastliðið vor. Markmiðið er ekki að draga úr útgjöldum ríkisins heldur að taka upp kerfi sem er einfaldara og réttlátara en nú gildir, kerfi sem eykur jöfnuð, mismunar ekki sjúklingum eftir því hvaða sjúkdóma þeir glíma við og ver þá sem mest þurfa á lyfjum að halda gegn háum kostnaði.
Gangi áformaðar breytingar eftir munu flestir verða varir við þær en ekki á sama hátt. Þeir sem oft eru veikir, nota lyf að staðaldri eða þurfa tímabundið á mjög dýrum lyfjum að halda munu greiða minna fyrir lyfin en áður. Þeir sem alla jafna þurfa lítið á lyfjum að halda munu greiða meira en þeir hafa gert hingað til.
Nefna má raunverulegt dæmi um útgjöld öryrkja sem nú greiðir um 170.000 krónur á ári í lyfjakostnað. Útgjöld hans myndu lækka um 125.000 krónur, niður í 45.000 krónur á ári fyrir sömu lyfjanotkun.
Gildandi kerfi
Í gildandi kerfi greiðir fólk ákveðið hlutfall af verði þess lyfs sem ávísað er hverju sinni. Ekkert þak er á heildarlyfjakostnaði einstaklings sem getur því orðið mjög hár hjá þeim sem þurfa mikið á lyfjum að halda. Kerfið er flókið að því leyti að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga er mismikil eftir lyfjaflokkum og kostnaðurinn leggst því misþungt á fólk eftir sjúkdómum.
Áformaðar breytingar
Gert er ráð fyrir að sjúkratryggðir greiði lyfjakostnað að fullu upp að ákveðnu hámarki á tólf mánaða tímabili. Þá taka við stighækkandi greiðslur sjúkratrygginga og kostnaður einstaklingsins lækkar að sama skapi. Heimilt verður að ákveða með reglugerð lægri greiðsluþátttöku fyrir aldraða, börn, atvinnulausa og öryrkja og einnig að lyf vegna tiltekinna alvarlegra sjúkdóma verði undanþegin gjaldi. Miðað er við að öll lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða verði felld inn í einn flokk og þannig stuðlað að jafnræði milli sjúklingahópa. Sýklalyfjum verður bætt inn í greiðsluþátttökukerfið en í núgildandi kerfi þurfa notendur sýklalyfja að greiða fyrir þau að fullu. Einnig er gert ráð fyrir að S-merkt lyf sem notuð eru utan sjúkrahúsa og á göngudeildum sjúkrahúsa falli undir greiðsluþátttökukerfið.
Sett verður þak á hámarksútgjöld einstaklings fyrir lyf á 12 mánaða tímabili. Í drögum að reglugerð er miðað við að almennt hámark verði um 64.000 krónur en um 45.000 krónur fyrir aldraða, öryrkja, atvinnulausa og börn. Nái útgjöldin hámarkinu áður en 12 mánaða tímabilið er liðið er sótt um lyfjaskírteini og greiða sjúkratryggingar þá að fullu fyrir lyf viðkomandi það sem eftir er tímabilsins.
Spornað við fjöllyfjanotkun
Fjöllyfjanotkun er mikil hér á landi. Þetta kom skýrt fram í upplýsingum sem fengust úr lyfjagagnagrunni landlæknis við könnun á notkun lyfja seinni hluta árs 2009 og fyrri hluta árs 2010. Verstu dæmin sýndu einstaklinga sem notuðu á þessu tímabili 48 mismunandi lyf, 1.650 manns höfðu notað 20 lyf eða fleiri og um 6.500 höfðu notað 10 lyf eða fleiri.
Með frumvarpinu er áformað að taka á þessu. Því verða lyfjaskírteini ekki gefin út sjálfkrafa þegar greiðsluhámarki er náð heldur miðað við að læknir sæki um það fyrir hönd sjúklings. Þar með gefst tækifæri til að fara yfir lyfjanotkunina, hafa samband við viðkomandi lækna og óska eftir leiðréttingum ef ástæða er til.
Ávinningur af því að sporna við óhóflegri fjöllyfjanotkun er ekki síður læknisfræðilegur en fjárhagslegur því vitað er að möguleikar á mistökum og milliverkunum vegna lyfja aukast í réttu hlutfalli við fjölda þeirra lyfja sem tekin eru.
Áhersla lögð á sátt um málið
Áformaðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga hafa verið lengi í undirbúningi og markmið þeirra eru skýr. Áhersla hefur verið lögð á að kynna þær vel fyrir hagsmunaaðilum og hlusta á sjónarmið þeirra. Öryrkjabandalagið hefur lýst því yfir að það sé hlynnt boðaðri kerfisbreytingu og að hún sé réttlætismál þótt vissulega geri það ýmsar athugasemdir við frumvarpið í vandaðri umsögn til heilbrigðisnefndar Alþingis. Fleiri hafa skilað umsögnum sem mikilvægt er að skoða ofan í kjölinn. Ákveðið hefur verið að sú vinna fari fram í velferðarráðuneytinu með hliðsjón af ábendingum heilbrigðisnefndar og umsögnum sem henni bárust. Stefnt er að því að leggja endurskoðað frumvarp fyrir Alþingi á haustþingi með von um að það geti orðið að lögum fyrir áramót.
Eins og ég sagði í upphafi munu flestir finna fyrir breytingunum verði frumvarpið að lögum. Lyfjakostnaður lækkar hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda og hafa hingað til borið mestan kostnað. Hinir þurfa að greiða meira en áður.
Þetta er róttæk breyting og ég legg mikið upp úr því að um hana náist góð sátt og samstaða. Vel getur verið að einhverjar breytingar þurfi að gera á frumvarpinu frá því sem lagt var fyrir Alþingi í vor. Verkefni ráðuneytisins er að fara yfir það á næstu vikum. Þetta mál verður ekki keyrt fram af hörku í andstöðu við sjúklinga. Markmiðið er að búa til réttlátara kerfi að norrænni fyrirmynd sem er einfalt, mismunar ekki sjúklingum og ver þá fyrir háum útgjöldum sem nú þurfa að greiða mest vegna viðvarandi heilsuleysis eða erfiðra sjúkdóma.
Guðbjartur Hannesson
velferðarráðherra