Sókn gegn krabbameinum
Margir tengja októbermánuð við bleiku slaufuna, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands. Með átakinu hefur skapast hefð í íslensku samfélagi þar sem fjölmargar byggingar eru baðaðar bleikum ljóma og þorri manna ber bleiku slaufuna eða skartar bleikum klæðnaði.
Um leið og átakið lífgar upp á tilveruna minnir það okkur á alvöruna sem liggur að baki en á hverju ári greinast á Íslandi hátt í sjö hundrað konur með krabbamein. Flestar greinast með brjóstakrabbamein eða vel á annað hundrað og þar á eftir kemur lungnakrabbamein sem er nú mannskæðasta krabbameinið bæði hjá konum og körlum hér á landi.
Margt hefur áunnist í baráttunni gegn krabbameinum á þeim sextíu árum sem liðin eru frá stofnun Krabbameinsfélagsins og hafa lífshorfur sjúklinga batnað til muna og lífsgæði aukist. Þá hefur meðferð fleygt fram og forvarnir skilað árangri. Viss tímamót verða nú í haust þegar bólusetning gegn leghálskrabbameini hefst og verður hún hér eftir hluti af almennri bólusetningu barna.
Í tilefni af alþjóðakrabbameinsdeginum 4. febrúar síðastliðinn lagði ég áherslu á að ekkert yrði gefið eftir í baráttunni við þennan vágest og greindi frá þeirri ákvörðun að ráðast í gerð sérstakrar áætlunar um aðgerðir og markmið í baráttunni við krabbamein, líkt og margar aðrar þjóðir hafa gert. Nú í sumar hófst undirbúningsvinna að verkinu í velferðarráðuneytinu. Stefnumörkuninni er ætlað að standa vörð um þá góðu þjónustu sem hefur verið í boði og um leið gera enn betur í forvörnum, meðferð og stuðningi við sjúklinga og aðstandendur.
Unnið verður áfram að áætluninni í velferðarráðuneytinu á næstu mánuðum í náinni samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk, sjúklingasamtök, vísindamenn og aðra þá sem láta sig málið varða. Vonir eru bundnar við að með þessu móti sé hægt að draga fram mikilvægustu viðfangsefnin á þessu sviði og skila okkur áfram í sókn okkar gegn krabbameini.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra