Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Þing Starfsgreinasambandsins 2011: Horft til framtíðar

Þing Starfsgreinasambandsins 2011: Horft til framtíðar
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.

 *Athygli er vakin á því að ráðherra vék nokkuð frá skrifuðum texta í ávarpi sínu. 


Góðir gestir.

Kjara- og atvinnumál eru skiljanlega meginumfjöllunarefni þessa þings fyrir utan verkefni sem varða skipulagsmál sambandsins.

Erfiðum kjarasamningsviðræðum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins lauk í vor með samningi eftir fimm mánaða samningsleysi. Í viðræðunum höfðu Samtök atvinnulífsins sett fram kröfu um að málefni sjávarútvegsins yrðu til lykta leidd – áður yrði ekki samið á almennum vinnumarkaði. Þar var heldur betur skotið yfir markið, enda guggnuðu Samtök atvinnulífsins á því að halda þeirri kröfu til streitu. Engu að síður verður að leiða þetta mikla ágreiningsmál til lykta með sem víðtækastri sátt við þjóðina. Árangur mun hins vegar hvorki nást með þvingunum né hótunum og umræðan verður að fara fram á réttum vettvangi.

Kjarasamningsviðræður eru alvarlegt mál, þá er mikið í húfi fyrir marga og ekki síst krefjast slíkar viðræður yfirvegunar þegar atvinnu- og efnahagsástand er jafn erfitt og viðkvæmt og við höfum nú búið við um skeið. Mér finnst Starfsgreinasambandið hafa sýnt þessu skilning og verið málefnalegt og ábyrgt í baráttunni fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga.

Auk almennra hækkana var samið sérstaklega um auknar kjarabætur fyrir þá lægst launuðu með krónutöluhækkunum. Við ríkjandi aðstæður er algjörlega nauðsynlegt að huga sérstaklega að lægst launuðu hópunum, líkt og stjórnvöld hafa reynt að gera gagnvart því fólki í bótakerfinu sem minnst hefur milli handanna. Líkt og kveðið var á um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga í vor hafa bætur almannatrygginga verið endurskoðaðar með hliðsjón af kjarabótum á almennum vinnumarkaði.

Launajafnrétti kynja er einnig stórt mál þar sem við eigum enn töluvert langt í land, jafnt á opinberum og almennum vinnumarkaði. Við verðum að ná betri árangri þar og þar skiptir miklu máli hvernig staðið er að gerð kjarasamninga og framkvæmd þeirra. Ábyrgðin er hvoru tveggja hjá stéttarfélögum og atvinnurekendum.

Það hefur reynt verulega á velferðarkerfið að undanförnu og við sjáum vel hve miklu máli skiptir að stoðir þess séu sterkar. Það kostar sitt að standa undir öflugu velferðarkerfi en er svo sannarlega þess virði, það held ég að við getum öll verið sammála um.

Það verður að segjast sem er að þau tíðkast mjög hin breiðu spjót í samfélaginu nú um stundir. Ég skil vel reiði fólks vegna erfiðra aðstæðna þar sem margir eiga um sárt að binda. Við megum hins vegar ekki leyfa reiðinni að sundra samfélaginu og mér finnst lítilmótlegt þegar hagsmunaaðilar kynda undir sundrung og óánægju í von um að ná þannig sínu fram eða klekkja á meintum andstæðingum. Það er máttur samvinnu og samstöðu sem við þurfum helst að virkja til að bæta stöðu okkar.

Stjórnvöldum er núið um nasir aðgerðaleysi og almennu dáðleysi. Að hindra atvinnuuppbyggingu, vera á móti fjárfestingum og vilja fátt til málanna leggja annað en auknar álögur og skattpíningu margvíslega með lævíslegum lúabrögðum. Þessu og þvílíku neita ég en langar til að fara yfir nokkrar staðreyndir um samhengi hlutanna.

Frá hruni hafa tekjur ríkissjóðs dregist saman um 10–15%. Þetta er mikil blóðtaka en þar með er ekki öll sagan sögð. Vegna gífurlegrar skuldsetningar hins opinbera í kjölfar hrunsins jukust vaxtagjöld ríkissjóðs frá því að vera tiltölulega hófleg í rúma 84 milljarða króna árið 2009. Árið 2012 eru vaxtagjöldin áætluð rúmlega 78 milljarðar króna eða um 14,4% af áætluðum heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Til marks um hvers konar fjárhæðir ég er að tala um get ég nefnt að vaxtagjöld næsta árs gætu staðið undir tveimur þriðju af öllum kostnaði við heilbrigðiskerfið á Íslandi – eða um 80% af rekstrarútgjöldum allra stofnana velferðarráðuneytisins. Að mæta þessu samhliða tekjusamdrætti ríkisins getur einfaldlega ekki verið sársaukalaust. Af þessum ástæðum hefur hið opinbera ekki átt annarra kosta völ en að spara, hagræða og skera niður útgjöld. Við verðum að ná niður vaxtagjöldunum eins hratt og við getum og loka þessari hít svo við getum nýtt þessa fjármuni til uppbyggingar í þágu samfélagsins.

Atvinnuástand

Mikið atvinnuleysi frá hruni er alvarlegt mál og þótt verulega hafi dregið úr því er það engu að síður miklu meira en Íslendingar hafa alla jafna átt að venjast. Skráð atvinnuleysi í ágúst síðastliðnum var 6,7% og voru að meðaltali tæplega 11.300 skráðir án atvinnu í ágúst. Á sama tíma fyrir ári var atvinnuleysið 7,7%.

Það er sérstaklega alvarlegt þegar fólk er atvinnulaust til langs tíma. Afleiðingarnar geta verið miklar, ekki aðeins vegna skertrar afkomu fólks og fjárhagserfiðleika heldur fylgir atvinnuleysi mikið andlegt álag, það er niðurbrjótandi og eftir því sem það varir lengur minnka möguleikar fólks á því að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

Fjölbreytt og áhugaverð vinnumarkaðsúrræði eru algjör nauðsyn fyrir atvinnuleitendur og starfsendurhæfing sömuleiðis.

Vinnumarkaðsúrræði og starfsendurhæfing

Velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa að undanförnum átt gott samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um þróun starfsendurhæfingar og standa vonir til þess að hægt verði að kynna tillögur þar að lútandi í næsta mánuði. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninganna í vor.

Til að stuðla að virkni fólks sem er án atvinnu hefur verið ráðist í fjölmörg átaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunar í samstarfi við fleiri aðila. Sjónum hefur verið beint sérstaklega að ungu fólki og einnig að útlendingum sem vegna tungumálaörðugleika geta þurft á stuðningi að halda umfram aðra.

Haustið 2008 setti Vinnumálastofnun upp sérstaka starfseiningu til að liðsinna útlendingum, halda kynningarfundi, veita ráðgjöf, sinna vinnumiðlun og bjóða virkniúrræði við hæfi. Þetta hefur gefist vel sem sést til dæmis á því að á tímabilinu janúar til júní á þessu ári voru tæplega 3.300 útlendingar á atvinnuleysisskrá og rúmlega 1.400 þeirra þátttakendur í einhverjum úrræðum Vinnumálastofnunar eða um 44% þeirra.

Markmið Vinnumálastofnunar er að aldrei líði meira en þrír mánuðir frá því að atvinnuleitandi skráir sig án atvinnu þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Hlutfallsleg þátttaka Íslendinga í vinnumarkaðsúrræðum á tímabilinu janúar til júní á þessu ári var um 31% þeirra sem skráðir voru án atvinnu, samtals um 5.740 manns.

Átakið Ungt fólk til athafna hófst í byrjun árs 2010 og hefur skapað fjölda ungs fólks tækifæri til að viðhalda virkni sinni og byggja sig upp til þátttöku á vinnumarkaði.

Síðastliðið vor hófst átakið Nám er vinnandi vegur með það að markmiði að auka námstækifæri fyrir allt að eitt þúsund atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og framhaldsfræðslu.

Í september lá fyrir að rúmlega 1.100 atvinnuleitendur myndu hefja nám í haust á grundvelli átaksins og eins höfðu 1.040 ungmenni yngri en 25 ára skráð sig í framhaldsskóla á grundvelli þess.

Átakið Nám er vinnandi vegur byggist á stefnumörkun sóknaráætlunarinnar Íslands 20/20 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins tryggja sameiginlega fjármögnun verkefnisins. Áætluð útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna verkefnisins nema tæpum 7 milljörðum króna á árunum 2011–2014.

Unnið er að því að tryggja framfærslu þeirra sem hefja nám á grundvelli átaksins þegar námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Tillögur um þetta liggja fyrir og er þá miðað við að viðkomandi geti sótt um námsstyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Ég nefni einnig hér að fyrir dyrum stendur vinna við stefnumótun með áherslu á að tryggja fullorðnu fólki með litla formlega menntun aðgang að lána- eða styrkjakerfi hyggi það á verk- eða starfsnám á framhaldsskólastigi.

Verkefnið ÞOR – þekking og reynsla hefur gefið góða raun en markmiðið þar er að virkja þann hóp einstaklinga eldri en 30 ára sem hafa verið atvinnulausir í þrjá mánuði eða lengur til þátttöku í fjölbreytilegum vinnumarkaðsúrræðum. Leitað hefur verið samstarfs við fjölda fræðsluaðila, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka um virkniúrræði og þá hefur stofnunin átt í viðræðum við símenntunardeildir háskólanna en kraftar þeirra hafa til þessa lítið verið nýttir atvinnuleitendum til hagsbóta. Um 70 úrræði standa atvinnulausum nú til boða, mismunandi eftir menntun og starfsreynslu hvers og eins.  

Til viðbótar þessum verkefnum er nú í undirbúningi átak til að fjölga starfsþjálfunarúrræðum í fyrirtækjum landsins í samstarfi velferðar­ráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og samtaka aðila á vinnumarkaði.

Breyttar reglur um starfstengd vinnumarkaðsúrræði og atvinnuleysisbætur

Í byrjun september síðastliðnum samþykkti Alþingi breytingu á lögum um starfstengd vinnumarkaðsúrræði sem felur í sér að þau ganga ekki á rétt fólks til atvinnuleysisbóta. Bótarétturinn er þannig frystur meðan á þátttöku stendur í vinnumarkaðsúrræðinu. Þetta er mikilvæg breyting sem ætti að fela í sér hvata til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum og er auk þess sanngirnismál að mínu mati.

Bætt réttarstaða fólks við aðilaskipti

Ég nefni einnig að gerð hefur verið breyting á lögum um aðilaskipti sem bætir réttarstöðu starfsfólks þegar fyrirtæki sem þeir starfa hjá eru tekin til gjaldþrotaskipta og þrotabúið síðar selt. Samkvæmt lagabreytingunni ber að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem giltu hjá fyrri vinnuveitanda á þeim degi sem úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Komi til uppsagna við endurskipulagningu á rekstri þrotabús er réttur starfsfólks varinn með ákvæði um að komi til endurráðningar innan þriggja mánaða frá aðilaskiptunum skuli virða launakjör og starfsskilyrði þess eins og þau voru við gjaldþrot fyrirtækisins. Þessi lagabreyting er í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga síðastliðið vor.

Uppbót á atvinnuleysisbætur

Færð hefur verið í lög heimild til þess að ákveða í reglugerð að greidd sé uppbót á atvinnuleysisbætur í desember ár hvert. Höfð verður hliðsjón af þeim reglum sem gilda almennt um desemberuppbót í almennum kjarasamningum. Atvinnuleitandi getur ekki fengið fulla uppbót samtímis frá Atvinnuleysistryggingasjóði og vinnuveitanda heldur verða greiddar hlutfallslegar bætur í samræmi við atvinnuþátttöku eða tímabil á atvinnuleysisskrá eftir því sem það á við.

Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur og fjögurra ára bótarétt

Ákvæði í lögum sem kveða á um rétt fólks til hlutabóta á móti skertu starfshlutfalli og ákvæði um fjögurra ára bótatímabil í atvinnuleysistryggingakerfinu renna út um áramótin. Eins og þið kannist eflaust flest við hefur verið rætt um að framlengja ákvæðið um fjögurra ára bótarétt en þá er miðað við að á fjórða árinu komi þriggja mánaða hlé þar sem atvinnuleitendur fá ekki bætur. Ég veit að þessi hugmynd er umdeild. Hún er engu að síður til skoðunar og viðræður eiga sér stað um þetta í óformlegri viðræðunefnd ráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins. Sama máli gegnir um hlutabótaákvæðið sem rennur út um áramótin.

Ég er sannfærður um að hlutabæturnar eru úrræði sem skipt hafa miklu máli og nýst mörgum vel. Við verðum hins vegar að hafa hugfast hver tilgangurinn er. Þetta er vinnumarkaðsúrræði ætlað til þess að viðhalda vinnusambandi fólks og atvinnurekenda þegar óhjákvæmilegt er að minnka starfshlutfall tímabundið. Þetta er hins vegar ekki ætlað sem leið atvinnurekenda til að hagræða í rekstri og afar mikilvægt að úrræðið sé ekki misnotað.

Verkefni um vinnumiðlun fyrir atvinnuleitendur

Eins og kveðið var á um í yfirlýsingu stjórnvalda við gerð kjarasamninga verður ráðist í tilraunaverkefni um þjónustu við atvinnuleitendur í því skyni að stuðla að virkari vinnumiðlun fyrir atvinnuleitendur. Miðað er við að stéttarfélög verði helstu veitendur þjónustunnar sem nái til um fjórðungs atvinnuleitenda en Vinnumálastofnun mun skipuleggja verkefnið með hliðsjón af hugmyndum aðila vinnumarkaðarins. Árangur verkefnisins verður metinn reglubundið og mun væntanlega nýtast við endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Húsnæðismál

Meðal margvíslegra aðgerða til þess að rétta af skuldastöðu heimila hefur verið lögfest sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem greidd var í ár og aftur næsta ár, samtals um 12 milljarðar króna. Í framhaldi af skýrslu nefndar um húsnæðisstefnu eru nú að störfum vinnuhópar um útfærslu tillagna sem þar komu fram, meðal annars um fjölbreyttari valkosti í húsnæðismálum og samræmingu stuðnings við leigjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis. Unnið er að því að móta nýtt húsnæðisbótakerfi en með greiðslu húsnæðisbóta yrðu greiðslur samræmdar, hvort sem fólk á húsnæðið sem það býr í eða leigir það. Þessar aðgerðir eru einnig í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga.

Opinberar framkvæmdir

Mikið kapp hefur verið lagt á að bæta og byggja upp ný vinnumarkaðsúrræði, stuðla að endur- og símenntun og auka möguleika fólks til þess að fara í nám, samhliða ýmsum öðrum aðgerðum til þess að styrkja stöðu atvinnuleitenda og efla þá til þátttöku á vinnumarkaði þegar úr rætist. Allt skiptir þetta miklu máli en mestu varðar auðvitað að fjölga störfum og ná þannig niður atvinnuleysinu.

Það er hvorki á valdi stjórnvalda né hlutverk þeirra að skapa störf til framtíðar með beinum aðgerðum. Forsendurnar fyrir uppbyggingu efnahags- og atvinnulífs eru hins vegar á þeirra ábyrgð. Engu að síður geta stjórnvöld lagt lóð á vogarskálarnar með opinberum framkvæmdum sem leiða af sér tímabundin störf, slá á atvinnuleysið og blása byr í seglin.

Nú liggja fyrir ákvarðanir um miklar og mikilvægar framkvæmdir sem varða verkefni velferðarráðuneytisins. Samningar hafa verið gerðir um uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila víðs vegar um landið fyrir 7–9 milljarða króna og eru framkvæmdir hafnar á nokkrum stöðum. Undirbúningur að framkvæmdum við nýjan Landspítala eru á fullum skriði. Verkefnið verður boðið út eins fljótt og auðið er en framkvæmdir hefjast ekki fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum.

Auk þessa ættu fljótlega að geta hafist framkvæmdir við byggingu stúdentagarða með 280 íbúðum í Vatnsmýrinni en ríkisstjórnin samþykkti síðsumars fjárheimildir fyrir Íbúðalánasjóð sem tryggja fjármögnun framkvæmdanna. Heildarkostnaður er áætlaður um 4 milljarðar króna og mun Íbúðalánasjóður veita lán fyrir 90% kostnaðarins. Ársverk vegna þessa verkefnis eru áætluð um 300.

Þessar framkvæmdir skipta máli, því verkefnin eru nauðsynleg vegna uppbyggingar til framtíðar og tímabundin áhrif á atvinnulífið verða umtalsverð.

Góðir gestir.

Ég hef komið víða við og mál að linni en óska þess að lokum að þingið verði ykkur gott og gagnlegt.

-------------------
Talað orð gildir

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta