Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Fjölskyldan og barnið 2011

Ráðstefna kvenna- og barnasviðs Landspítala um fjölskylduna og barnið.
Haldin í Hörpu, 21.10.2011
Setningarávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir ráðstefnugestir.

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að segja nokkur orð við upphaf ráðstefnunnar Fjölskyldan og barnið 2011.

Hér mætist þekking og sýn fólks úr ýmsum fagstéttum velferðarþjónustunnar sem starfar á mismunandi vettvangi en á það sameiginlegt að koma að málefnum barna og fjölskyldna á einn eða annan hátt.

Ég tel mig geta fullyrt að fólk tekst vart á herðar vandasamara verkefni en að fæða í heiminn barn og ala það upp þar til það er fært um að standa á eigin fótum og takast á við lífið og tilveruna með öllu sem því fylgir. Þetta er langur vegur og verkefnin á leiðinni margbreytileg í gegnum ólík þroskaskeið sem hvert og eitt krefst mikils af foreldrunum, jafnvel þótt barnið sé heilbrigt og ekkert stórvægilegt beri út af.

Fjölskylda er heild sem þýðir að aðstæður og líðan hvers og eins hafa áhrif á hina fjölskyldumeðlimina. Í þessu sambandi má vísa til skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilbrigði sem er: fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg velferð en ekki einungis firrð sjúkdóma og vanheilinda.

Umfjöllunarefni þessarar ráðstefnu varpa ljósi á samspil þessara þátta og gefa glögga mynd af því á hve margt getur reynt í uppvexti barns og að hve mörgu er að hyggja. Þörfin fyrir sérhæft og vel menntað starfsfólk velferðarkerfisins er augljós og mikilvægi þverfaglegs samstarfs sömuleiðis.

Á liðnum árum hefur þekking fólks á áhrifum efnahagslegra og félagslegra aðstæðna á heilbrigði aukist og nú er raunar litið svo á að félagslegur ójöfnuður sé ein helsta áskorun þjóða í lýðheilsumálum og eru Evrópuþjóðir þar ekki undanskildar. Þetta er ein ástæða þess að víða hefur verið ráðist í gerð yfirgripsmikilla áætlana sem krefjast þverfaglegs samstarfs á mörgum sviðum þjóðfélagsins svo unnt sé að draga úr ójöfnuði.

Árið 1991 samþykktu íslensk stjórnvöld heilbrigðisáætlun í fyrsta sinn hér á landi og gilti hún til ársins 2001. Síðan þá hefur áætlanagerð og stefnumótun í heilbrigðismálum fest sig æ betur í sessi og skilningur fyrir mikilvægi þess að stjórnvöld hafi stefnu og skýra sýn í þessum viðamikla málaflokki farið vaxandi.

Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2020 sem stefnt er að því að leggja fyrir Alþingi í vor. Ég hef lagt áherslu á að breikka svið hennar enn frekar frá því sem verið hefur, með áherslu á að áætlunin taki til heilbrigðismála í víðum skilningi og félagslegum þáttum verði því gert hærra undir höfði en áður.

Í fyrirliggjandi drögum eru skilgreindir áhersluþættir í lýðheilsumálum þar sem þeir helstu eru: jöfnuður í heilsu og lífsgæðumlífsstílstengdir áhrifaþættirgeðheilbrigðisóttvarnirlangvinnir sjúkdómarkynheilbrigði og varnir gegn ofbeldi og slysum.

Í áætluninni verður sérstaklega fjallað um málefni barna og fjölskyldna, auk umfjöllunar um ýmsa sértæka þætti velferðarþjónustu sem varða alla aldurshópa. Ég vil einnig geta hér nýtúkominnar skýrslu ráðuneytisins um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára. Skýrslan var unnin í því ljósi að huga þurfi sérstaklega að þessu æviskeiði til að tryggja ungmennum góða, aðgengilega og samfellda heilbrigðisþjónustu, jafnframt því að vera vakandi fyrir áhættuþáttum og áhættuhópum með áherslu á forvarnir. Á þessum aldri mótast lífsstíll fólks fyrir ævina. Því skiptir miklu að hafa áhrif á þætti sem geta dregið úr slysum og lífsstílstengdum sjúkdómum eins og offitu, sykursýki og hjartasjúkdómum síðar á ævinni, auk þess sem huga þarf að misnotkun áfengis og annarra vímuefna, kynferðislegri misnotkun, kynheilbrigði og kynsjúkdómum.

Góðir gestir.

Framundan er áhugaverð dagskrá. Ég þakka kvenna- og barnasviði Landspítalans fyrir að standa fyrir þessari ráðstefnu sem án efa mun reynast mikilvægt innlegg í umfjöllun um velferð barna og fjölskyldna og bætt heilbrigði í víðum skilningi. Með þeim orðum og ósk um árangursríkan og fróðlegan dag set ég ráðstefnuna.

- - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta