Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands 2011
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands
22. október 2011
Góðir gestir.
Þakka ykkur fyrir að bjóða mér til aðalfundar ykkar. Það er gott og nauðsynlegt fyrir mig að hitta ykkur hér. Öryrkjabandalagið er gríðarstórt félag, heildarsamtök fatlaðs fólks og tvímælalaust sterkt og mikilvægt afl í samfélaginu.
Ég veit að ykkur brennur margt á hjarta og mörg málefni sem eru ykkur ofarlega í huga, ekki síður en mér.
Síðustu ár hafa verið mörgum erfið í samfélaginu margra hluta vegna. Margir hafa barist í bökkum fjárhagslega og átt erfitt með að ná endum saman. Kjaramál almennings hafa verið áberandi í umræðunni, einkum þeirra sem þurfa að mestu eða öllu leyti að treysta á velferðarkerfið um afkomu sína, hvort sem það er í gegnum bætur almannatrygginga eða atvinnuleysisbætur eins og því miður hefur orðið hlutskipti margra vegna erfiðs atvinnuástands.
Ég ætla ekki að fegra stöðu mála eða segja fólki sem hefur áhyggjur af afkomu sinni að það hafi það gott. Aftur á móti vil ég koma því á framfæri að ríkisstjórnin hefur staðið við það að verja stöðu þeirra tekjulægstu, þar með talinna lífeyrisþega. Ég ætla að nefna dæmi þessi til staðfestingar.
Um mitt ár 2007 voru lágmarksbætur lífeyrisþega rúmar 126.000 krónur. Síðar var sett reglugerð um lágmarksframfærslutryggingu sem hefur gagnast verulega þeim sem engar tekjur hafa aðrar en bætur. Í ársbyrjun 2012 verða lágmarksbætur lífeyrisþega komnar í 203.000 krónur vegna árlegra vísitöluhækkana og hækkana sem ákveðnar voru samhliða kjarasamningum síðastliðið vor. Alls hafa þar með lágmarksbætur lífeyrisþega hækkað um 61% frá árinu 2007.
Ef horft er til útgjalda almannatrygginga sem hlutfalls af tekjum ríkissjóðs frá árinu 2006 kemur í ljós að hlutfallið hefur hækkað ár frá ári, úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
Mikilvægt mál var lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.
Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minns á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins.
Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.
En það er fleira sem hefur áhrif á afkomu fólks en bótafjárhæðir. Sérstakar vaxtabætur voru teknar upp sem hafa hjálpað verulega þeim sem búa við þunga greiðslubyrði húsnæðislána. Húsnæðismál almennt eru til skoðunar og vinnslu í velferðarráðuneytinu. Það er vilji til þess að skapa aðstæður sem gera leigumarkaðinn að raunverulegum valkosti fólks í húsnæðismálum og sömuleiðis að skapa jafnræði varðandi bætur hvort sem fólk er í eigin húsnæði eða á leigumarkaði. Þannig er stefnt að því að taka upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.
Vinna við endurskoðun almannatryggingakerfisins er komin vel á veg í velferðarráðuneytinu. Verkið er í höndum starfshóps sem ég skipaði í vor og er honum ætlað að skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyristryggingar fyrir árslok. Áður en hópurinn var skipaður hafði farið fram ítarleg greining á almannatryggingakerfinu sem hópurinn hefur nýtt sér og mótaður rammi um helstu efnisþætti þess frumvarps sem unnið er að. Þar er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um elli- og örorkulífeyri almannatrygginga, sérstakar greiðslur til að mæta þörfum eða útgjöldum í ákveðnum tilvikum eða til varnar fátækt og um stuðning við barnafjölskyldur.
Áhersla er lögð á að í nýrri löggjöf verði kveðið skýrt á um markmið og tilgang tryggingakerfisins, um réttindi og skyldur hinna tryggðu, málsmeðferð, stjórnsýslu og kæruleiðir. Einnig verði uppbygging laganna gerð skýrari, löggjöfin einfölduð og framsetningu breytt frá því sem nú er. Gengið er út frá því að sett verði sérlög um slysatryggingar sem nú er kveðið á um í almannatryggingalögunum.
Ég vil einnig geta hér um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. Meginmarkmiðið er að auka jöfnuð sjúklinga og draga úr heildarútgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda. Frumvarp um málið var lagt fram á síðasta þingi og var það tekið til umfjöllunar í félags- og trygginganefnd. Ýmsar athugasemdir og ábendingar komu fram hjá umsagnaraðilum sem nauðsynlegt þótti að fara betur yfir. Ég mun á næstunni leggja frumvarpið aftur fram á Alþingi en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar þar sem komið er til móts við athugasemdir eftir því sem efni þóttu standa til.
Ég vonast til þess að þetta frumvarp fái brautargengi og að góð sátt náist um efni þess í samfélaginu. Þetta er stórt mál og þetta er mikið réttlætismál þar sem fyrirhugaðar breytingar munu fela í sér verulega kjarabót fyrir fjölda fólks sem nú glímir við há útgjöld vegna lyfjakostnaðar. Breytingin mun auka jöfnuð og styðja betur við bakið á þeim sem nú bera mest útgjöld vegna heilsufarsvanda. Kostnaður þeirra sem nota hvað minnst af lyfjum eykst þar sem þeir greiða lyf sín að fullu þar til heildarútgjöld þeirra á tólf mánaða tímabili hafa náð ákveðnu hámarki. Aftur á móti lækkar kostnaður þeirra sem nú greiða mest og þar getur verið um háar fjárhæðir að ræða.
Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlils veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.
Góðir gestir.
Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að minnast á það stóra mál sem varð að veruleika um síðustu áramót með tilfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.
Þetta er gríðarstórt mál sem lengi hefur verið í undirbúningi. Flutningurinn um áramótin tókst vel en samhliða honum var ákveðið að ráðast í mörg og mikilvæg verkefni sem snúa að bættri stöðu fatlaðs fólks, ekki síst á sviði réttindamála. Við lagabreytingar vegna tilfærslunnar voru lögfest bráðabirðaákvæði þar sem meðal annars var kveðið á um að velferðarráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem sett verði fram stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Var jafnframt kveðið á um að þar skuli tímasetja aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, vegna aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.
Vinna við gerð þessarar framkvæmdaáætlunar stendur nú sem hæst í velferðarráðuneytinu.
Lagabreytingin um síðustu áramót fól einnig í sér fjórtán önnur stór verkefni sem hrinda þarf í framkvæmd á þessu ári eða ljúka að fullu. Ég ætla að nefna þau helstu hér á eftir:
- Settar hafa verið tvær reglugerðir, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk á heimilum þess og hins vegar reglugerð um trúnaðarmenn sem voru skipaðir síðsumars sem eru átta talsins og starfa um allt land.
- Alþingi samþykkti í vor ný og mikilvæg lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
- Nú er á lokastigi í velferðarráðuneytinu gerð frumvarps um aðgerðir gegn beitingu nauðungar við fatlað fólk og er stefnt að því að leggja það fram á Alþingi á næstu vikum.
- Að störfum er starfshópur um framtíðarskipulag atvinnumála fatlaðs fólks og er stefnt að því að sá hópur ljúki störfum fyrir næstu áramót.
- Lokið hefur verið við gerð þriggja svokallaðra leiðbeinandi reglna sem ráðherra er heimilt að setja, í fyrsta lagi reglur um stuðningsfjölskyldur, í öðru lagi reglur vegna náms- og tækjakaupa og loks reglur um ferðaþjónustu. Þessar reglur eru nú í umsagnarferli en vonandi fæ ég þær til staðfestingar fljótlega.
- Verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið að störfum frá því í maí á þessu ári og stefnir að því að leggja fram stöðuskýrslu í næsta mánuði ásamt leiðbeiningum til sveitarfélaga um meðferð umsókna um þessa þjónustu.
- Fulltrúar fimm ráðuneyta hafa unnið að verkefnum sem tengjast fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er áætlað að þeirri vinnu ljúki næsta vor.
- Ég nefni einnig hér vinnu við svokallað SIS-kerfi um mat á þjónustuþörf fatlaðs fólks. Í því felst að gera vandað mat á þörfum fatlaðs fólks fyrir stuðning og þjónustu og ég tel ótvírætt að SIS-matskerfið muni verða mikilvægur liður í gæðastjórnun þjónustu við fatlað fólk samhliða margvíslegum öðrum ávinningi af kerfinu.
Ágætu tilheyrendur.
Ég hef stiklað á stóru og langt í frá náð að fjalla um öll þau mál sem gott væri að ræða við ykkur sem hér sitjið. Ég legg mikla áherslu á samráð og samstarf við öll þau félög sem vinna að hagsmunamálum fatlaðra og tel mikinn styrk í því að geta sem oftast rætt við þau ykkar sem eruð í forystunni fyrir brýnum hagsmunamálum lífeyrisþega, öryrkja og fatlaðs fólks.
Auðvitað erum við ekki alltaf sammála um alla hluti og eins verður að segjast sem er að sú staða getur verið mjög erfitt að fara með stjórn velferðarmála þar sem viljinn stendur til aðgerða og úrbóta en stakkurinn til útgjalda er þröngt skorin og krafan snýst um aðhald í ríksfjármálum. Ég er hins vegar þakklátur góðu samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og þau fjölmörgu aðildarfélög bandalagsins sem ég hef átt samskipti við. Þið eruð sá vinur sem til vamms segir, veitið stjórnvöldum aðhald og eruð virkir og mikilvægir þátttakendur í umræðum um velferðarmál sem eru þegar allt kemur til alls einhver brýnustu málefni samfélagsins.
- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)