Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Aðstæður fatlaðs fólks, aðbúnaður, þjónusta, viðhorf, líðan og sjálfræði

Ráðstefna í Hörpu 26. október 2011
Ávarp sem Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu flutti fyrir hönd Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.


Góðir gestir.

Það stóð til að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra yrði hér í dag. Því miður gat ekki orðið af því. Ég flyt ykkur því kveðju hans og fæ sjálf þá ánægju að segja hér nokkur orð. 

Efni þessarar ráðstefnu er merkilegt og mikilvægt. Tilefnið er tilfærsla ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga um síðustu áramót. Þetta er risavaxið verkefni sem á sér langa forsögu. Segja má að fyrst  hafi verið rætt um tilfærsluna af alvöru þegar Landssamtökin Þroskahjálp gerðu samþykkt um málið á landsþingi árið 1992 og síðar ályktaði Samband íslenskra sveitarfélaga um yfirtöku á málefnum fatlaðra á landsþingi sínu haustið 1994.

Tæpum tuttugu árum síðar er þessi mikla stjórnkerfisbreyting orðin að veruleika. Nú er mikilvægt að við fylgjum henni vel eftir, fylgjumst með framkvæmdinni og drögum lærdóm af þeirri reynslu sem þegar er fyrir hendi hjá sveitarfélögum sem sinnt hafa málefnum fatlaðs fólks sem reynslusveitarfélög eða á grundvelli þjónustusamninga.

Ég tel okkur geta verið stolt af þeirri viðamiklu rannsókn sem gerð var á stöðu og þjónustu við fatlað fólk sem gerð var við flutning málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi. Rannsóknin tók jafnt til notenda þjónustunnar, aðstandenda og starfsfólks og það er athyglisvert hvað það tókst að ná góðri þátttöku í rannsókninni. Niðurstöðurnar veita okkur mikilvægar upplýsingar um það sem betur má fara í þjónustu við fatlað fólk og munu sömuleiðis verða okkur ómetanlegar við mat á árangri af flutningi málaflokksins til sveitarfélaga.

Eitt af meginmarkmiðum breytinganna er að bæta þjónustu við fatlað fólk og auka möguleika á því að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum. Ég hef fulla trú á því að þetta takist, sérstaklega ef stjórnvöld standa vel að því að skapa þjónustunni viðeigandi umgjörð með áherslu á að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Að þessu er nú unnið.

Í velferðarráðuneytinu stendur yfir undirbúningur að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, líkt og kveðið var á um þegar gerðar voru breytingar á lögum um síðustu áramót vegna tilfærslu málaflokksins til sveitarfélaga. Í framkvæmdaáætluninni verður sett fram stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markiss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Eins verða þar settar fram tímasettar aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, vegna aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.

Af öðrum verkefnum sem þegar hefur verið hrint í framkvæmd eða eru í vinnslu nefni ég:

  • Setningu tveggja reglugerða, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk á heimilum þess og reglugerð um trúnaðarmenn sem voru skipaðir síðsumars og eru átta talsins og starfa um allt land.
  • Ný og mikilvæg lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk voru samþykkt frá Alþingi í vor.
  • Í velferðarráðuneytinu er á lokastigi gerð frumvarps um aðgerðir gegn beitingu nauðungar við fatlað fólk og er stefnt að því að leggja það fram á Alþingi á næstu vikum.
  • Starfshópur um framtíðarskipulag atvinnumála fatlaðs fólks er að störfum og er stefnt að því að sá hópur ljúki störfum fyrir næstu áramót.
  • Lokið hefur verið við gerð þriggja svokallaðra leiðbeinandi reglna sem ráðherra er heimilt að setja, í fyrsta lagi reglur um stuðningsfjölskyldur, í öðru lagi reglur vegna náms- og tækjakaupa og loks reglur um ferðaþjónustu.
  • Verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð stefnir að því að leggja fram stöðuskýrslu í næsta mánuði ásamt leiðbeiningum til sveitarfélaga um meðferð umsókna um þessa þjónustu.
  • Fulltrúar fimm ráðuneyta hafa unnið að verkefnum sem tengjast fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er áætlað að þeirri vinnu ljúki næsta vor. 
  • Loks nefni ég vinnu við svokallað SIS-kerfi sem felur í sér vandað mat á þörfum fatlaðs fólks fyrir stuðning og þjónustu. Án efa mun SIS-matskerfið verða mikilvægur liður í gæðastjórnun þjónustu við fatlað fólk, með því verður hægt að útdeila fjármunum til þjónustunnar á faglegum forsendum auk margvíslegs annars ávinnings af kerfinu.

Góðir gestir.

Það er spennandi dagskrá framundan. Fyrst kynna þær Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, frá Félagsvísindastofnun, og Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum, helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Í framhaldi af því verður fjallað um þann lærdóm sem sveitarfélögin telja hægt að draga af niðurstöðunum, við fáum að heyra af reynslu Reykjavíkurborgar sem tók við málaflokknum um síðustu áramót, reynslu Akureyrarbæjar af því að sinna þjónustu við fatlað fólk til lengri tíma og eins verður fjallað um þessar breytingar frá sjónarhóli notenda og starfsfólks sem sinnir þjónustu við fatlað fólk.

Ég er viss um að þessi ráðstefna verður okkur öllum til gagns og ánægju og vil að lokum þakka öllum þeim sem stóðu að undirbúningi hennar og þeim fyrirlesurum sem hér munu deila okkur af reynslu sinni og þekkingu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta