Brjótum múra. Fjölmenningarráðstefna á Akranesi
Ráðstefnan „Brjótum múra“ um fjölmenningu
Haldin á Akranesi 4. nóvember 2011
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Góðir gestir. Verið þið öll velkomin á Akranes.
Það er mér ánægja og heiður að fá tækifæri til að setja þessa ráðstefnu og segja nokkur orð í upphafi hennar. Ég vil líka bjóða sérstaklega velkominn gestafyrirlesara ráðstefnunnar sem kemur hingað frá Kanada; Doctor Anna Kirova, professor at the University of Alberta, it's a great pleasure for us to have you here, and we all look forward to learning more about your work on global migration and the development of learning programs for immigrant and refugee children.
Ráðstefnan er haldin með tilstyrk Progress; jafnréttis- og vinnumálaáætlunar Evrópusambandsins sem hefur það meginmarkmið að veita fé til verkefna sem stuðla að markmiðum sambandsins á sviði jafnréttis-, félags- og vinnumála með áherslu á réttindi minnihlutahópa og samfélag án aðgreiningar. Ísland á fulla aðild að Progress sem hefur veitt okkur tækifæri til að hrinda í framkvæmd mikilvægum verkefnum með þessi markmið að leiðarljósi.
Brjótum múra er yfirskrift ráðstefnunnar; myndlíking sem segir meira en mörg orð um viðfangsefnið. Hér verður meðal annars rætt hvernig við stöndum að verki, hvaða aðferðir eru líklegar til að skila árangri og hvaða verkfærum sé hægt að beita. Rétt er að hafa í huga að við brjótum ekki þá múra sem hér eru til umfjöllunar með hörkunni. Þvert á móti snýst verkefnið um sveigjanleika, gagnkvæman skilning, virðingu fyrir fólki og virðingu fyrir mannréttindum sem hornsteinn hvers samfélags.
Saga innflytjenda á Íslandi í einhverjum mæli er afar stutt. Fram undir lok 20. aldarinnar voru langflestir innflytjendur hér á landi frá hinum Norðurlandaþjóðunum en fátítt var að fólk af öðrum þjóðernum flytti hingað. Það var ekki fyrr en í byrjun tíunda áratugarins að innflytjendum frá öðrum löndum tók að fjölga að ráði. Árið 1996 voru innflytjendur á Íslandi tæplega 5.400 eða um 2% landsmanna. Þann 1. janúar 2008 voru þeir hins vegar orðnir rúmlega 25.000 eða um 8,6% mannfjöldans en árið 2010 hafði hlutfallið lækkað í 6,8%.
Þetta eru gífurlegar breytingar á skömmum tíma. Hlutfall innflytjenda er nú álíka hátt hér á landi og í Noregi og Danmörku. Aftur á móti er hlutfall annarrar kynslóðar innflytjenda mun lægra hér á landi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar tilheyrðu einungis 0,1% landsmanna annarri kynslóð innflytjenda árið 1996 en árið 2008 var hlutfallið 0,5%.
Fólki frá löndum Austur-Evrópu hefur fjölgað mest hér á landi og var hlutfall þeirra um 85% allra innflytjenda árið 2009.
Þess ber að geta að töluverður fjöldi fólks sem hingað flytur sækir um íslenskt ríkisfang. Á árunum 2000–2009 fengu um 6.000 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt eða tæplega 700 einstaklingar að jafnaði á ári.
Góðir gestir.
Þetta er heilmikið talnaflóð sem ég hef farið með hér. Tölur eru ágætar og upplýsandi eins langt og þær ná. Þær segja hins vegar ekkert um fólkið á bak við þær. Hvaða fólk er þetta, hvers vegna kom það hingað og hvað er það að gera? Hver er bakgrunnur þess, hvernig er kynjaskiptingin, aldurssamsetningin, búsetudreifingin, hver er líðan fólksins hér á landi, hverjar eru væntingar þess og hvernig er þeim mætt? Allt þetta og svo margt fleira er mikilvægt að vita og vinna með ef við viljum búa í fjölmenningarsamfélagi sem stendur undir nafni.
Rannsóknir eru mikilvægar til að veita svör við spurningum sem þessum. Ýmsar slíkar hafa verið gerðar og ég nefni hér þrjá sérstaklega. Í fyrsta lagi rannsókn sem Háskóli Íslands vann fyrir flóttamannaráð árið 2005 og snerist um reynslu og viðhorf flóttamanna sem hingað hafa komið frá upphafi. Þar komu fram áhugaverðar og gagnlegar niðurstöður um hvað vel hefur tekist og hvað betur má fara við móttöku og aðlögun flóttafólks. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki við móttöku flóttafólks og hafa þar staðið sig afar vel með heildstæðri velferðarþjónustu og ráðgjöf, ekki síst gagnvart börnunum. Eins vil ég nefna þátttöku Rauða krossins í skipulagningu og eftirfylgni vegna móttöku flóttafólks sem hefur reynst ómetanleg, jafnt fyrir stjórnvöld og hlutaðeigandi sveitarfélög, að ekki sé talað um fólkið sjálft sem hingað hefur komið.
Árið 2009 voru birtar niðurstöður úr rannsókn MIRRU: Miðstöðvar innflytjendarannsókna Reykjavíkurakademíunnar og Rauða kross Íslands. Rannsóknin heitir Staða innflytjenda á erfiðleikatímum – raddir og viðhorf og fór fram fyrri hluta árs 2009 þegar kreppan var sannarlega farin að bíta. Þetta var rýnihóparannsókn þar sem rætt við 57 manns með uppruna í 25 þjóðlöndum. Loks nefni ég viðtalsrannsóknina Pólóníu Reykjavík 2010 sem MIRRA gerði einnig en þar var rætt við tæplega 500 Pólverja á höfuðborgarsvæðinu. Því miður gefst ekki tími hér til að ræða um niðurstöður þessara rannsókna en ég hvet fólk til að kynna sér þær, enda margt áhugavert sem þar er dregið fram.
Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar gerði viðhorfskönnun um áhrif efnahagshrunsins á pólska íbúa sveitarfélagsins árið 2010 og var könnunin styrkt af þróunarsjóði innflytjendamála. Þessi könnun er smærri í sniðum en rannsóknir MIRRU en gefur gagnlegar upplýsingar. Hinar neikvæðu afleiðingar eru meðal annars aukið atvinnuleysi, samdráttur í útgjöldum og afkomuótti, en öllu jákvæðari áhrif eru vísbendingar um fjölskyldusameiningar í Reykjanesbæ, aukna áherslu á íslenskunám og aðlögun í samfélaginu, sem meðal annars kemur fram í nýtingu á stoð- og þjónustukerfi samfélagsins.
Engum þarf að koma á óvart að mjög hátt hlutfall innflytjenda sem hingað hafa komið á liðnum árum sóttist eftir atvinnu sem hér var næg í boði og betri kjörum en í heimalandinu. Í Pólóníu Reykjavík svaraði rúmlega þriðjungur þátttakenda því játandi þegar spurt var hvort þeir hefðu hugleitt í kjölfar kreppunnar að flytjast aftur til Póllands. Meiri hluti aðspurðra sagðist hins vegar vilja vera áfram á Íslandi, því ástandið væri betra hér en annars staðar og þeir sem eftir stóðu höfðu trú á því að ástandið hér stæði til bóta. Rétt er að geta þess að atvinnuleysi var nánast óþekkt meðal Pólverja, sem og meðal annarra erlendra ríkisborgara, hér á landi fyrir efnahagskreppu en hefur verið hvað mest meðal þeirra eftir hrunið.
Sýn samfélagsins á innflytjendur eins og hún var þau ár sem langflestir komu hingað til lands er umhugsunarefni. Á tímum stórframkvæmda og óhóflegrar þenslu var þörf fyrir utanaðkomandi vinnuafl, íslenskt samfélag þurfti á því að halda. Umræðan markaðist af þessu: Við þurftum fleiri iðnaðarmenn í ýmsum greinum og einnig ófaglært fólk í byggingariðnaðinn og fiskvinnslu svo eitthvað sé nefnt. Það virtist hins vegar gleymast að hverjar tvær vinnandi hendur tilheyrðu einstaklingi sem af einhverjum ástæðum hafði rifið sig upp frá heimalandinu og sett stefnuna á Ísland, ekki endilega til þess eins að vinna og hverfa svo aftur heim, heldur allt eins með von um bjarta framtíð í nýju landi. Að baki hverjum einstaklingi er iðulega fjölskylda, maki og börn sem einnig eiga væntingar um betri tíma. Það var lítið rætt um fólkið sem hingað kom sem þátttakendur í samfélaginu í víðum skilningi, aðstæður þess hér, bakgrunn þess í heimalandinu eða framtíð þess á Íslandi.
Við erum skuldbundin öllu því fólki sem hingað hefur komið og lagt mikið af mörkum til íslensks samfélags og gert það ríkara í margvíslegum skilningi. Við eigum að styðja við það fólk sem vill skjóta hér rótum og vera þátttakendur í íslensku samfélagi. Við eigum að stuðla að gagnkvæmri aðlögun, vinna gegn fordómum og efla víðsýni í samfélaginu, það er í okkar allra þágu.
Eins og ég sagði hér áðan eiga innflytjendur sér ekki langa sögu á Íslandi. Til marks um þetta er að opinber stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda var fyrst sett hér á landi árið 2007. Áður hafði starfshópur sem félagsmálaráðherra skipaði árið 2003 fjallað um þjónustu við innflytjendur á Íslandi, skipulag hennar og fyrirkomulag og sett fram þá megintillögu að þjónusta við innflytjendur skyldi samræmd í einni miðstöð sem næði til alls landsins. Öðrum hópi var farið að útfæra þetta nánar og árið 2005 skilaði hann skýrslu um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Ýmsum tillögum sem þar komu fram var fljótlega hrint í framkvæmd, svo sem með stofnun innflytjendaráðs, samræmingu og eflingu upplýsingamiðlunar til innflytjenda og eflingu rannsókna á högum þeirra ásamt þróunarstarfi um aðlögun.
Þróunarsjóður innflytjendamála var stofnaður í þessu skyni árið 2007. Ég vil nota tækifærið og segja frá því að innflytjendaráð auglýsti nýlega eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og rennur umsóknarfrestur út 25. nóvember. Að þessu sinni er áhersla lögð á þróunarverkefni sem unnin eru í sveitarfélögum og miðast að því að auka aðgengi innflytjenda að samfélaginu – og þróunarverkefni og rannsóknir sem vinna gegn fordómum, auka fjölmenningarlega færni og hvetja til virkrar þátttöku innflytjenda í samfélaginu.
Það er mikilvægt að hið opinbera hafi skýra stefnu í málefnum innflytjenda og endurskoði hana reglulega í samræmi við samfélagsbreytingar og þróun þessara mála. Rannsóknir skipta í þessu sambandi mjög miklu máli, ekki einungis á aðstæðum innflytjenda heldur einnig flóttafólks sem tekið hefur verið á móti hér á landi frá árinu 1956, þótt ekki sé það í miklum mæli.
Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er áhersla lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna í samfélaginu og tekið fram að sett verði ný lög um málefni innflytjenda.
Það er ánægjulegt að segja frá því hér að smíði frumvarps um málefni innflytjenda er langt komin í velferðarráðuneytinu og stefnt að því að leggja það fram fyrir áramót. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er markmiðið að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Þetta verður fyrsta heildstæða löggjöfin um málefni innflytjenda þar sem mælt er fyrir um á skýran hátt hvernig stjórnsýslu málaflokksins skuli háttað og verði frumvarpið að lögum tekst með því að festa í sessi ákveðið starfsumhverfi sem mótast hefur á grundvelli reynslu undanfarinna ára.
Góðir gestir.
Það er ánægjulegt að segja frá því að í dag undirritaði ég og fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands samning um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur. Með samningnum er innflytjendum gert kleift að sækja sér slíka ráðgjöf óháð búsetu, sér að kostnaðarlausu.
Ég get ekki á mér setið að nefna tímamót sem urðu í gær þegar sæti tók á Alþingi fyrsta konan af erlendum uppruna, Amal Tamimi sem kemur inn sem varamaður í þingflokki Samfylkingarinnar. Amal kom til Íslands frá Palestínu fyrir 16 árum ásamt börnum sínum og varð íslenskur ríkisborgari árið 2002.
Þetta eru svo sannarlega tímamót og hvatning til þess fólks sem sest hefur að á Íslandi í gegnum tíðina og vill svo gjarna hafa áhrif á samfélagið og þróun þess.
Það er um margt að ræða hér í dag. Ég vil þakka Rauða krossinum og Akranesbæ sérstaklega fyrir frumkvæðið að því að halda þessa ráðstefnu, öllum þeim sem stóðu að skipulagningu hennar sem og þátttakendum og gestum. Þar með set ég ráðstefnuna með ósk til okkar allra um góða og gefandi daga í þágu mikilvægs málefnis.