Málþing Heimila og skóla um foreldrafærni
Málþing Heimila og skóla um foreldrafærni 18. nóvember 2011
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Góðir gestir, foreldrar og forráðamenn.
Það er mér alveg sérstök ánægja að setja þetta málþing Landssamtakanna Heimila og skóla um foreldrafærni og fá tækifæri til að segja við ykkur nokkur orð.
Málefnið sem hér er til umfjöllunar er mér hugleikið eins og vænta má, enda kennari og skólastjóri til margra ára, foreldri og uppalandi og eitt sinn nemandi sjálfur í skóla. Ég tel mig því þekkja nokkuð vel til og veit hve mikið er í húfi að sinna vel og stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna og unglinga.
Það sem snýr beint að sjálfu skólastarfinu og skipulagi þess er ekki á minni könnu í núverandi starfi. Aftur á móti eru velferðarmálin í víðu samhengi nátengd mörgu sem varðar mjög aðstæður fjölskyldna, foreldra, barna og forráðamanna, jafnt innan og utan veggja skólanna frá degi til dags.
Fyrr í haust voru fulltrúar íslenskra stjórnvalda við fyrirtöku hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Barnasáttmálans. Niðurstöður barnaréttarnefndarinnar voru kynntar á opnum kynningarfundi sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir í vikunni og þið hafið eflaust sum hver sótt en nefna má að niðurstöðurnar hafa nú verið þýddar á íslensku. Það er margt athyglisvert í ábendingum barnaréttarnefndarinnar sem ástæða er til að fylgja eftir.
Það voru tímamót þegar samþykkt var fyrir tilstilli forvera míns og núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta íslenska aðgerðaáætlunin til að styrkja stöðu barna og ungmenna fyrir árin 2007–2011. Í aðgerðaáætluninni er sérstaklega fjallað um leiðir til að efla foreldrafærni og stuðning við foreldra í uppeldisstarfi. Þetta er í anda tilmæla Evrópuráðsins um þessi mál en kjarni hugsunarinnar er að fjárfesta í börnum í gegnum foreldrana með því að styrkja og efla getu þeirra til að sinna uppeldinu og mæta ólíkum og fjölbreyttum þörfum barna sinna. Það hefur viljað brenna við í gegnum tíðina að áhersla á stofnanir samfélagsins og hlutverk þeirra gagnvart börnum, uppeldi þeirra, umönnun og fræðslu hefur verið svo rík að hún hefur orðið á kostnað foreldranna í stað áherslunnar á að styrkja þá.
Ég ætla ekki að fara langt út í þessa sálma núna. Aftur á móti hef ég ákveðið að láta semja nýja aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna og verður hún unnin í samvinnu við hagsmunasamtök, svo sem Heimili og skóla. Þetta er í samræmi við hvatningu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem hvetur okkur einmitt til að samþykkja sem fyrst nýja aðgerðaáætlun á landsvísu í þágu barna sem byggð verði á mati áætlunarinnar fyrir árin 2007–2011. Nefndin beinir því einnig til okkar að veittar verði tilteknar fjárheimildir til framkvæmda, eftirfylgni verði formleg og skipulögð og jafnframt að fram fari reglulegt mat á árangri. Þetta er þörf ábending, við þurfum að halda áfram því starfi sem var hrundið úr vör með aðgerðaáætluninni sem nú er að renna sitt skeið, þótt vissulega sé hún áfram mikilvægur vegvísir fyrir stjórnvöld þar til ný áætlun hefur verið gerð.
Í öllum málaflokkum skiptir máli að hafa skýra sýn og stefnu til lengri tíma. Það þarf að setja markmið sem byggjast á bestu upplýsingum á hverjum tíma, faglegri þekkingu og greiningu á aðstæðum. Stefna má aldrei vera dautt plagg, hún á að vera lifandi, grundvöllur umræðu, þróunar og úrbóta. Ég held að þetta hafi að mörgu leyti tekist varðandi aðgerðaáætlunina til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Hún hefur haft áhrif inn í heilbrigðiskerfið, velferðarþjónustuna, stofnanaþjónustu og ekki síst inn í skólana.
Áherslan hefur farið vaxandi á einstaklingsmiðaða nálgun í allri þjónustu og þegar börn eiga í hlut á að veita þeim sem mest stuðning í nærumhverfi sínu í samráði við foreldra og forráðamenn. Í skólunum hefur áhersla á samvinnu og samráð við foreldra farið sívaxandi sem ég tel algjöra forsendu fyrir velheppnuðu skólastarfi. Unnið hefur verið að því að byggja upp úrræði fyrir börn þegar vandi steðjar að með áherslu á að hún sé veitt sem mest inni á heimilum barnanna eins og til dæmis er gert í fjölkerfameðferðinni sem verið hefur í þróun hjá Barnaverndarstofu undanfarin ár.
Árið 2009 var gerður samstarfssamningur þriggja ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga um verkefni til að efla stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Auglýst er eftir styrkjum til verkefna sem sveitarfélög geta sótt um til verkefna á eigin vegum eða sem unnin eru í samstarfi við einstaklinga eða félagasamtök og verður styrkjum úthlutað í þriðja sinn eftir áramótin. Í þessi verkefni hefur verið varið 80 milljónum króna árlega í þrjú ár. Frá upphafi hafa sveitarfélögin sýnt þessu mjög mikinn áhuga og til hafa orðið afar gagnleg og mikilvæg verkefni í þágu barna og fjölskyldna í heimabyggð.
Góðir gestir.
Það er hvorki einfalt að vera barn né uppalandi í flóknu samfélagi nútímans. Hlutverk uppalenda er afar vandasamt langtímaverkefni þar sem hvert aldursskeið barnsins færir okkur nýjar áskoranir. Hver dagur skiptir máli og þessi mikilvægu mótunarár leggja grunninn að framtíð barnanna sem fullorðinna einstaklinga. Hætturnar leynast víða og oft er erfitt að kunna fótum sínum forráð, jafnt fyrir börnin og foreldrana.
Einelti er eitt þeirra samfélagsmeina sem orðið hefur mörgum dýrkeypt á lífsleiðinni, jafnt gerendum sem þolendum. Þetta er meðal þess sem við verðum að taka höndum saman um að uppræta.
Barátta gegn áfengis- og vímuefnaneyslu er eilífðarverkefni þar sem ekki má slaka á eitt andartak og þar skiptir miklu máli hvaða fyrirmyndir við erum börnunum okkar.
Foreldrarnir eru þungamiðjan og valda mestu um það hvernig til tekst. Ábyrgð skólanna og þeirra sem þar starfa er engu að síður mjög mikil. Þar veltur á miklu að vera vakandi yfir líðan barnanna, að grípa inn í ef grunur vaknar um að eitthvað sé að. Ég fagna nýrri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Reglugerðin hefur meðal annars það markmið að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið tækifæra sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans eins og segir í grunnskólalögum. Þarna er áherslan á jákvæðan skólabrag og samskipti og sjónum beint að starfsfólki skólanna, nemendum og foreldrum í senn. Það getur verið mjög erfitt að grípa inn í mál barna þegar aðstæður eru erfiðar heima fyrir. Að takast á við grunsemdir um heimilisofbeldi, vanrækslu eða kynferðislega misnotkun er hluti af vandasömum verkefnum sem upp koma innan skólanna. Undan þeim má aldrei víkja þótt erfið séu. Börn eiga alltaf að njóta vafans og sem betur fer hefur tekist að byggja upp öflugt barnaverndarstarf með barnaverndarnefndum og fagfólki sem er fært um að fást við þessi erfiðu mál þegar upp koma. Tilkynningarskylda í barnaverndarmálum er rík og það má aldrei hunsa hana.
Ég hef ekki minnst orði á erfitt efnahagsástand og kreppu í þessu erindi. Undan því verður ekki vikist, því auðvitað setur þetta ástand mark sitt á aðstæður vegna aðhalds og niðurskurðar, líka í velferðarmálum þótt reynt hafi verið að hlífa málaflokkum eins og kostur er. Margar fjölskyldur eiga líka erfitt vegna fjárhagserfiðleika og óhjákvæmilega hefur það áhrif innan veggja heimilanna þar sem erfiðleikar eru miklir. Velferðarvaktin fylgist grannt með aðstæðum fjölskyldna, sérstaklega barnafjölskyldna, og veitir stjórnvöldum mikilvægt aðhald með upplýsingum um aðstæður tiltekinna hópa og ábendingum um það sem betur má fara.
Það hefur vakið athygli að kannanir sem gerðar hafa verið á líðan barna benda til þess að þrátt fyrir kreppu og erfiðleika henni tengdri virðast börnin upp til hópa ekki líða fyrir ástandið, jafnvel þvert á móti. Margt bendir til þess að foreldrar og börn verji meiri tíma saman en áður og að börnin kunni virkilega að meta það og líði betur en ella fyrir vikið.
Hins vegar hefur velferðarvaktin lagt áherslu á að tryggja betur en nú er gert velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra. Einnig er mikilvægt að hugað sé sérstaklega að velferð barna af erlendum uppruna.
Ég held að það sé ágætt að láta staðar numið hér. Kannski er samvera barna og foreldra það sem mestu máli skiptir þegar á heildina er litið. Það er líklega sú staðreynd sem við eigum að gera hátt undir höfði og vinna með þegar við mótun okkur stefnu í málefnum barna og fjölskyldna til næstu ára.
- - - - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)