Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Er barnalýðræði á Íslandi?

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Grand Hótel Reykjavík, 26.-27. janúar 2012

Fundarstjóri, góðir gestir.

Er barnalýðræði á Íslandi spyrja aðstandendur málþingsins sem nú er að hefjast og ég fæ þann heiður og ánægju að hefja með nokkrum ávarpsorðum.

Ég ætla ekki að leika mig klókann með því að svara þessari spurningu en hlakka til að heyra hver niðurstaðan verður úr þeirri umræðu sem hér fer á eftir, þótt ég eigi ekki tök á því að sitja málþingið treysti ég á að geta lesið um þá umfjöllun sem hér mun eiga sér stað.

Ég hef oft velt því nokkuð fyrir mér hvað felst í orðinu barnalýðræði og hvort hægt sé að skilgreina lýðræði út frá afmörkuðum hópi fólks. Eflaust má nálgast þetta á ýmsa vegu en útgangspunkturinn hlýtur að liggja í grunnhugtakinu lýðræði og hvað í því felst.

Ég ætla mér ekki út í djúpar hugleiðingar um lýðræðishugtakið en það má þó hafa í huga að gjarna er talað um stjórnskipunarlýðræði annars vegar, sem fjallar um skipulag grunnstofnana samfélagsins og dreifingu valds og ábyrgðar  og hins vegar ákvörðunarlýðræði sem snýst um hvernig staðið skuli að töku ákvarðana sem varða hóp fólks þar sem skoðanir geta verið skiptar. Lýðræði getur verið svokallað fulltrúalýðræði (óbeint lýðræði) eða beint lýðræði sem vaxandi áhugi er fyrir í samtímanum, að minnsta kosti við ákvarðanatöku í tilteknum og vel afmörkuðum málum. Mikilvægt er að hafa í huga að ein af forsendum lýðræðis er opin og almenn umræða, aðgangur að upplýsingum, samræða og samráð. Hér ruglast oft saman lýðræði og atkvæðagreiðslur, þar sem ákvarðanir eru teknar af meirihluta án nokkurra áhrifa minnihluta eða hagsmuna heildar, atkvæðagreiðslur sem byggjast á átökum, gjarna sett fram sem barátta um sigur eða tap.

Hvað börn varðar hafa þau ekki kosningarétt og verða fyrst lögráða með fullu sjálfræði og fjárræði við 18 ára aldur. Því má með sanni segja að foreldrar og forráðamenn séu fulltrúar barna sinna og fari með allar ákvarðanir í málefnum þeirra. Þetta er hin einfalda mynd af stöðu barna í samfélaginu en að sjálfsögðu er málið miklum mun flóknara en þetta.

Leyfum börnum að vera börn meðan það varir er stundum sagt – leyfum þeim að njóta þess áhyggjuleysis sem því fylgir, - fullorðinsárin með öllum sínum áhyggjum koma nógu snemma. Aðrir segja að við eigum að kenna börnum að lifa í og taka þátt í lýðræðislegum ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi og daglegt líf, ekki aðeins að kenna lýðræði heldur að gefa þeim færi á að taka þátt í og upplifa og iðka lýðræði. Við þurfum að gera börnum kleift að axla ábyrgð á eigin lífi eftir því sem þau þroskast og við eigum að virða rétt þeirra til þess að taka ákvarðanir í málum sem varða hagsmuni þeirra og velferð eftir því sem þroski þeirra og geta stendur til.

Lýðræði er sem sagt miklu meira en formið eitt og mestu máli skiptir hvernig það er ástundað. Lýðræðissamfélag stendur því aðeins undir nafni að það geri öllum kleift eins og kostur er að vera virkir þátttakendur í skoðanaskiptum og umræðum sem síðar leiða til niðurstöðu og ákvörðunar. Fötlun, veikindi, aldur eða aðrir aðstöðutengdir þættir eiga ekki að hindra fólk frá þátttöku í lýðræðinu og miklu skiptir að samfélagið og stofnanir þess viðurkenni rétt allra til þess að koma að mikilvægum ákvörðunum, ekki síst í eigin málum.

Ég held að augu okkar allra séu óðum að opnast betur fyrir þessari sjálfsögðu kröfu, hvort sem í hlut eiga fatlaðir, aldraðir, börn eða aðrir þjóðfélagshópar sem áður fengu ekki svo miklu ráðið um eigin hag. Áherslan er í æ vaxandi mæli lögð á sjálfstæði fólks og sjálfræði á grundvelli mannréttinda sem eiga að vera sjálfsögð, þótt þau geti á stundum verið vandmeðfarin. 

Lýðræðið á að skapa frelsi, réttindi og áhrif en það verður jafnframt að þjóna hagsmunum heildarinnar. Þannig þarf að kenna börnum að axla ábyrgð og þjálfa upp skilning og innsæi fyrir þörfum annarra.

Ef ég held mig við umfjöllun um börnin þá er það jafnan svo að foreldrar telja sig vita hvað börnum þeirra er fyrir bestu. Oft er það rétt en samt sem áður réttlætir það ekki að börnum sé stjórnað og stýrt með boðum og bönnum eða að ákvarðanir um þeirra hag séu teknar að þeim forspurðum. Foreldrar og forráðamenn eru ekki óskeikulir og ekki alltaf samstíga heldur þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem varða hagsmuni barna. Algengt dæmi um erfið mál af því tagi eru forræðisdeilur þar sem börn geta orðið bitbein og réttur þeirra algjörlega fyrir borð borinn þegar verst lætur.

Ég nefndi áðan mikilvægi upplýsinga og samráðs við iðkun lýðræðis. Réttur barna til upplýsinga um málefni sem þau varðar er mikilvægur og samráð sömuleiðis. Árið 1997 voru samþykkt frá Alþingi lög um réttindi sjúklinga þar sem er að finna sérreglur um sjúk börn og upplýsingar um heilsufar og meðferð þeirra. Þetta var mikilvægt skref á sínum tíma og er í lögunum sérstaklega kveðið á um að sjúkum börnum skuli veittar upplýsingar að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. 

Í júní í fyrra samþykkti Alþingi töluverðar breytingar á barnaverndarlögum í því skyni að gera barnaverndarstarf markvissara. Frumvarp til breytinganna var afar vel undirbúið og var byggt á fenginni reynslu af gildandi löggjöf með ítarlegri skoðun. Með endurskoðuninni voru lögfest ýmis nýmæli sem snúa sérstaklega að því að skýra og bæta réttarstöðu barna og auka rétt þeirra til þátttöku við ákvarðanir sem þau varða. Hliðsjón var höfð af þróun barnaverndarréttar á alþjóðavettvangi og þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sérstaklega samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þingsályktunar frá 16. mars 2009 um lögfestingu hans.

Góðir gestir.

Síðastliðið haust fór fram fyrirtaka hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu barna á Íslandi og ég sé í dagskrá að niðurstöðurnar verða til umfjöllunar hér á eftir. Við eigum að taka alvarlega ábendingar barnaréttarnefndarinnar og vinna að úrbótum í samræmi við þær og eins tel ég mikilvægt að við stígum þau skref sem þarf til að binda í lög Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 1992.

Á erlendum mælikvörðun höfum við fengið þann dóm að Ísland sé besta land í heimi fyrir konur og börn. Látum það samt ekki glepja okkur því við getum gert enn betur. Föllum ekki í þá gryfju að meta einfaldlega stöðu barna eftir veraldlegum gæðum og fjármagni, því heimurinn er sem betur fer flóknari en svo. Þrátt fyrir hremmingar liðinna ára er ég sannfærður um að réttarstaða barna á Íslandi sé almennt býsna góð og sömuleiðis almennar aðstæður íslenskra barna. Engu að síður getum við og eigum að gera betur og stuðla að barnvænna samfélagi.

Ef við getum lært af þeim kalda veruleika sem skellti okkur í jörðina eftir jörvagleði í nokkur ár, ef þetta verður til þess að við breytum gildismati, ræktum samveru og leyfum börnum okkar í auknum mæli að taka þátt í ákvörðunum undir öruggri leiðsögn, ef við drögum af þessu lærdóm börnunum okkar í hag, á hefur margt unnist.

Ég sagði fyrir mörgum árum í mínu fyrra starfi að mesta ógn við börn á Íslandi væri einstaklingshyggjan, kapphlaupið um að skara eld að eigin köku, eilíft tal um „minn rétt,“ krafan um að fá sínar persónulegu þarfir uppfylltar án þess að láta sig varða hvaða áhrif það hefði á aðra. Lýðræði er andstæða þessa í mínum huga, því í því felst ábyrg þátttaka í ákvarðanatöku með það að markmiði að bæta umhverfið fyrir heildina. Þetta er stór krafa - stórt markmið – sem ég sakna í íslensku þjóðfélagi í dag.

Stjórnvöld, stofnanir og samfélagið í heild þurfa á hverjum tíma að vera opin fyrir gagnrýni og reiðubúin að endurskoða viðhorf sín og fyrirkomulag þeirra mála sem varða velferð barna og stöðu þeirra í samfélaginu.

Kærar þakkir til allra sem hér hafa lagt hönd á plóg við undirbúning málþingsins. Megi það nýtast til þess að rýna í stöðu barna á Íslandi til gagns og leiða okkur fram á veginn til barnvænna samfélags.

Megi málþingið verða fróðlegt og skemmtilegt og kannski fyrst og fremst nytsamlegt í ykkar daglega starfi.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta