Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra við opnun atvinnutorgs í Reykjavík

Opnun atvinnutorgs í Reykjavík, 17. febrúar 2012 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir gestir.

Með opnun atvinnutorgs í Reykjavík og einnig í Reykjanesbæ í dag, sjáum við verða að veruleika verkefni sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og er tvímælalaust afar mikilvægt og nauðsynleg viðbót við þann stuðning og þau úrræði sem þegar standa atvinnuleitendum til boða. Markhópur verkefnisins er sá hópur ungra atvinnuleitenda sem ekki hefur áunnið sér rétt til bótagreiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði og er hvorki á vinnumarkaði né í námi. 

Því er óhætt að segja að þetta verkefni marki tímamót þar sem boðin verða úrræði fyrir ungt fólk án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistrygginga­kerfisins.

Aðdraganda verkefnisins má rekja til þess að ríkisstjórnin samþykkti í júní á liðnu ári að verja 100 milljónum króna í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir ungt fólk sem ekki er tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í kjölfarið var settur á laggir vinnuhópur með fulltrúum Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjanesbæjar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins, til að samræma þjónustu Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við þennan hóp. Atvinnutorgin í Reykjavík og Reykjanesbæ eru fyrst til að hefja starfsemi en á næstunni verða einnig opnuð atvinnutorg í hinum bæjarfélögunum tveimur; Hafnarfirði og Kópavogi.

Við búum enn við nokkuð mikið atvinnuleysi og erfiðleika á vinnumarkaði. Þetta ástand snertir fólk misjafnlega en við vitum að það bitnar hvað harðast á ungu fólki, sérstaklega því sem hefur stutta skólagöngu að baki og litla sem enga reynslu á vinnumarkaði.

Á síðustu misserum hefur verið efnt til fjölbreyttra átaksverkefna með áherslu á úrræði fyrir ungt fólk. Ég nefni hér sérstaklega átakið Ungt fólk til athafna sem felst í því að grípa sem fyrst inn í aðstæður ungra atvinnuleitenda, veita þeim ráðgjöf og styðja þá til að sækja nám, öðlast starfsréttindi eða kynnast nýjum starfsvettvangi.

Nám er vinnandi vegur er risavaxið átaksverkefni sem fól í sér að síðastliðið haust voru dyr framhaldsskólanna opnaðar fyrir öllum yngri en 25 ára sem uppfylltu inntökuskilyrði og hins vegar sköpun nýrra námstækifæra fyrir atvinnuleitendur í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og framhaldsfræðslu. Áætlað er að ríkissjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður leggi til þessa verkefnis tæpa sjö milljarða króna á árunum 2011–2014. Með þessu hefur fjölda ungs fólks verið gert kleift að hefja og stunda nám við sitt hæfi sem er ekki aðeins góður kostur fyrir það sjálft heldur einnig mikilvægur ávinningur fyrir samfélagið.

Hér eru ótalin fjölmörg önnur lögbundin vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar sem eru fjölbreytt og hafa verið byggð upp og efld verulega síðustu ár.

Það er sammerkt öllum aðgerðum sem miða að því að styðja og efla atvinnuleitendur með þátttöku á vinnumarkaði að leiðarljósi – að þær krefjast víðtækrar samvinnu og aðkomu fjölmargra aðila til að vera raunhæf og líkleg til árangurs. Þessi verkefni krefjast líka öflugrar forystu, skipulags og markvissrar eftirfylgni. Vinnumálastofnun býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði og hefur haldbærar á hverjum tíma ítarlegar upplýsingar um aðstæður á vinnumarkaði eftir landsvæðum, atvinnuástand eftir starfsgreinum, fjölda atvinnuleitenda og hvernig hópurinn greinist, svo sem eftir kyni, aldri, þjóðerni og menntun. Þar er einnig yfirsýn yfir hve lengi fólk hefur verið í atvinnuleit, þátttöku þess í vinnumarkaðsúrræðum og fleira sem mikilvægt er til að greina markhópa og skipuleggja vinnumarkaðsúrræði við hæfi.

- - - - - - - - - - -

Verkefnið um atvinnutorg sem hér er að hefjast er ætlað ungu fólki á aldrinum 16–25 ára sem er hvorki í námi né skóla. Þetta eru ungmenni sem mörg hver fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða eru að ljúka rétti sínum til atvinnuleysisbóta og munu því fyrirsjáanlega þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna að halda áður en langt um líður. Þetta er hópur sem velferðarvaktin hefur bent á að sé sérstaklega berskjaldaður fyrir afleiðingum kreppunnar og þurfi því á sérstakri athygli og stuðningi að halda umfram aðra.

Atvinnutorgið í Reykjavík og hinum sveitarfélögunum þremur, Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Kópavogi, byggist á samstarfi velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og umræddra sveitarfélaga. Lagt er upp í þessa vinnu sem tilraunaverkefni og hefur fjármögnun verið tryggð til eins árs. Árangur verður metinn reglulega og í ljósi þess verður ákvörðun tekin um framhaldið.

Áætlað er að rúmlega 400 ungmenni muni að jafnaði njóta þjónustu hjá atvinnutorgum umræddra sveitarfélaga.  Mikilvægur hluti verkefnisins felst í að hafa uppi á þeim hluta hópsins sem stendur utan kerfisins og þarf því að leita að, en þá er átt við ungmenni sem hvorki eru skráð með fjárhagsaðstoð sveitarfélags né atvinnuleysisbætur og eru ekki í vinnu eða námi.

Miðað er við að bjóða öllum þessum ungmennum úrræði - sem geta falist í starfsþjálfun eða atvinnu, námi eða námstengdum úrræðum, áfengis- eða vímuefnameðferð eða starfsendurhæfingu. Samstarf verður við símenntunarmiðstöðvar, skóla, meðferðaraðila og VIRK starfsendurhæfingarsjóð um framkvæmd þjónustunnar. Hluti hópsins mun mögulega geta nýtt sér hefðbundin vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar en sveitarfélögin leggja sjálf til störf við hæfi fyrir þau ungmenni sem um ræðir eða pláss í starfsþjálfun.

Sá hópur sem atvinnutorgin eiga að sinna er ungt fólk sem hefur átt erfitt með að fóta sig við núverandi aðstæður í samfélaginu og þarf á miklum stuðningi að halda. Það gengur ekki að þessi hópur sé afskiptur, - okkur ber skylda til þess að hjálpa þessu unga fólki til að standa á eigin fótum, skapa sér sjálfstætt líf og taka virkan þátt í samfélaginu með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Þetta er markmiðið með stofnun atvinnutorganna. Sú ráðgjöf og aðstoð sem í boði verður þarf að taka mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra sem í hlut eiga. Þess vegna er miðað við að hver ráðgjafi sinni miklum mun færri einstaklingum en alla jafna í hefðbundinni ráðgjöf Vinnumálastofnunar. Ráðnir hafa verið 12 starfsmenn til að sinna ráðgjöf hjá atvinnutorgunum í sveitarfélögunum fjórum. Helmingur þeirra er starfsmenn Vinnumálastofnunar og helmingurinn starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga.

Góðir gestir.

Ég bind miklar vonir við þetta verkefni og hef trú á að það eigi eftir að skipta sköpum fyrir ungt fólk sem nú er í erfiðri aðstöðu og þarf svo nauðsynlega á leiðsögn og liðsinni að halda.

Að lokum vil ég þakka vinnuhópnum sem unnið hefur að undirbúningi og skipulagi verkefnisins fyrir vandaða vinnu og öllum öðrum sem lagt hafa sitt af mörkum til að gera atvinnutorg að veruleika. Þetta er mikilvægt samstarf sem hér er efnt til milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélaganna, - samstarf sem ég er viss um að verði farsælt og muni hafa mikla þýðingu fyrir aðstæður og framtíðarhorfur þess unga fólks sem um er að ræða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta