Fyrsta ráðstefna Special Olympics á Íslandi
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Ráðstefna Special Olympics á Íslandi
27. febrúar 2012
Góðir gestir.
Fyrst af öllu vil ég þakka kærkomið boð um að hitta ykkur hér á þessari fyrstu ráðstefnu Special Olympics sem haldin er á Íslandi. Íþróttasamband fatlaðra hefur verið aðili að Special Olympics samtökunum frá árinu 1989 og verið umsjónaraðili samtakanna á Íslandi. Ég held að enginn velkist í vafa um hve mikilvæg aðild Íslands að samtökunum er fötluðu fólki hér á landi og hve jákvæð áhrif hún hefur haft á íþróttaiðkun og almenn viðhorf til íþrótta og þátttöku í þeim.
Töluvert hefur verið fjallað um rétt barna til þátttöku í íþróttum í tengslum við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í sáttmálanum er hvergi getið um íþróttir beinum orðum en ekki verður annað séð af handbókum um innleiðingu hans og álitsgerðum barnaréttarnefndar að í raun kveði sáttmálinn á um rétt barna til íþrótta sem leggi ákveðnar skyldur á aðildarríkin um að tryggja öllum börnum tækifæri til íþróttaiðkunar.
Við þekkjum öll slagorðið „íþróttir fyrir alla“ sem er aldeilis ekki nýtt af nálinni heldur á rætur að rekja allt aftur til upphafs ungmennafélaga hér á landi á sínum tíma. Áherslan var einmitt lögð á að allir hefðu rétt til að stunda íþróttir eftir því sem áhugi og tími leyfði. Á þessu var byggt og með brennandi áhuga að vopni og þessa skýru sýn að leiðarljósi var byggt upp ótrúlega öflugt íþróttastarf, ekki síst þegar haft er í huga að öll uppbygging starfsins og starfsemin sjálf byggðist á sjálfboðavinnu.
Þótt hugsjónin um íþróttir fyrir alla eigi sér langa sögu gildir það ekki um íþróttir fyrir fatlaða. Þessi staðreynd er öllum kunn enda hefur barátta fatlaðs fólks og samtaka þeirra í gegnum tíðina snúist að miklu leyti um að öðlast viðurkenningu á almennum mannréttindum og fullri þátttöku í samfélaginu á grundvelli þeirra.
Íþróttir fyrir fatlað fólk bárust ekki til Norðurlandanna fyrr en á sjötta áratugnum. Hér á landi má rekja upphafið til ársins 1972 þegar Sigurður Magnússon, skrifstofustjóri ÍSÍ, sótti ráðstefnu í Vestur-Þýskalandi sem fjallaði einmitt um íþróttir fyrir alla. Þar tók meðal annarra til máls maður að nafni Sir Ludvig Guttman og hélt því fram að ekki væri unnt að tala um íþróttir fyrir alla ef fatlað fólk væri þar undanskilið. Sigurður hreifst af hugmyndafræði Sir Ludvigs og í stuttu máli varð þetta til þess að Íþróttasamband Íslands tók málið upp á sína arma og setti á fót framkvæmdastjórn sem falið var að skipuleggja íþróttastarf á Íslandi fyrir fatlað fólk. Nefndin starfaði af krafti til ársins 1978 en þá var starfið orðið það blómlegt að þörf þótti fyrir stofnun sérstaks sambands til að fara með þessi málefni og Íþróttasamband fatlaðra var sett á fót. Þegar hér var komið sögu höfðu verið stofnuð fimm íþróttafélög sem höfðu íþróttir fyrir fatlað fólk á stefnuskrá sinni.
Góðir gestir.
Hér er kannski komið nóg um fortíðina, við þurfum ekki síður að ræða um hvert við stefnum og hvernig við viljum ná sem mestum og bestum árangri í starfinu framundan. Í mínum huga er besti árangurinn sem hægt er að hugsa sér í íþróttum að þær nái til sem flestra og að sem allra flestir taki virkan þátt í þeim. Þetta er sú hugmyndafræði sem samtökin Special Olympics byggjast á. Allt frá árinu 1968 hafa þau unnið að uppbyggingu íþróttastarfs fyrir fólk með þroskahömlun, íþróttaæfingar og keppni sem byggir á þátttöku allra. Allir keppa við sína jafningja og ekki þarf að uppfylla nein lágmörk til að vera með. Árið 2000 voru þátttakendur innan Special Olympics International um ein milljón manna en voru árið 2010 orðnir um þrjár og hálf milljón. Áhersla hefur verið lögð á að ná til fátækari landa og skapa börnum þar tækifæri til íþróttaiðkunar.
Í mínum huga bera ríki og sveitarfélög mikla ábyrgð á skipulagi og uppbyggingu íþróttastarfs í landinu í samvinnu við hagsmunaaðila og félagasamtök. Fyrst af öllu þurfum við að hafa skýra sýn, vita hvað við viljum og hvert við eigum að stefna. Við eigum að halda fast í hugsjónina um íþróttir fyrir alla og tryggja hana í orði og verki. Samstarf og samvinna er besta leiðin að markmiðinu en það skiptir líka miklu máli að stjórnvöld séu afdráttarlaus í þeirri afstöðu að styðja aðeins við íþróttastarf sem samræmist meginmarkmiðunum um rétt allra til þátttöku og þar sem mannréttindi eru tryggð og virt og jafnræði haft í heiðri.
Góðir ráðstefnugestir.
Við fáum að heyra raddir fólks hér á eftir sem segir frá eigin reynslu af íþróttum fatlaðs fólks og gildi þeirra. Ég ætla því ekki að hafa um það mörg orð. Það er hins vegar alveg ljóst að skipulagt íþróttastarf fyrir fatlað fólk hefur gjörbreytt aðstæðum fjölda fólks og er svo mikilvægur þáttur í lífi margra að nær ómögulegt er að ímynda sér daglegt líf þess án lífsgæðanna sem íþróttastarfið veitir því. Þess ber einnig að geta að íþróttaleikar fatlaðs fólks á borð við Special Olympics veita ekki aðeins ánægju þeim sem þar taka þátt, þessir leikar eru orðnir stórviðburður sem nýtur mikillar athygli langt út fyrir leikana sjálfa og skipta því miklu máli í því að auka sýnileika fatlaðs fólks, vinna gegn fordómum og stuðla enn frekar að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu. Í þessum efnum getum við því sagt með sanni að allir vinna.
-----------------------
Talað orð gildir