Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp velferðarráðherra við setningu Mottumars, árvekniátaks Krabbameinsfélags Íslands

 Ávarp Guðbjarts Hannessonar við setningu Mottumars, árvekniátaks Krabbameinsfélags Íslands.
1. mars 2012.


Góðir gestir, skeggjaðir og óskeggjaðir, konur sem karlar.

Upp er runninn Mottumars og er þetta er þriðja árið í röð sem Krabbameinsfélag Íslands tileinkar marsmánuð árvekniátaki gegn krabbameini hjá körlum. Mottumars hefur vakið verðskuldaða athygli. Minnt er á mikið alvörumál sem snertir svo marga en umgjörð átaksins einkennist af ákveðnum léttleika sem án efa auðveldar mörgum að ræða opinskátt um efnið sem annars reynist mörgum erfitt og jafnvel nokkuð feimnismál.

Ég hef ekki tölur um skeggsöfnun karla í átakinu 2011 en minni á að fyrsta árið söfnuðu um 38.000 karlar skeggi í tengslum við átakið sem svarar til 35% karla eldri en 18 ára. Ávinningur átaksins snýst auðvitað ekki um fjölda karla með skegg, heldur um hugarfarið að baki skeggi hvers og eins og umræðurnar sem það vekur. 

Krabbameinsfélag Íslands gegnir afar þýðingarmiklu starfi í samfélaginu á sviði forvarna, fræðslu, ráðgjafar og rannsókna á krabbameinum. Mottumars er tileinkaður körlum, sjónum er beint að forvörnum í þeirra þágu og vitundarvakningu meðal karla um hvað þeir geta sjálfir gert til að draga úr líkum á krabbameini, ekki síst með heilbrigðum lífsháttum. Eins ber að minna á þá staðreynd að því fyrr sem krabbamein greinist og meðferð hefst, þeim mun betri eru batahorfur. Þess vegna er mikilvægt að fólk þekki helstu einkenni krabbameina og leiti sér aðstoðar verði það vart við þau. 

Krabbamein er dauðans alvara. Árlega greinast að meðaltali um 715 karlar á Íslandi með krabbamein og árlega látast að meðaltali um 280 karlar úr þessum sjúkdómi. Við skulum horfa á þessar tölur með það í huga að fjöldi karla sem greinist hlýtur bata. Við getum þó örugglega gert betur og bjargað fleiri mannslífum með enn öflugri fræðslu og forvörnum, rannsóknum og markvissu starfi almennt á öllum sviðum krabbameinsvarna og meðferðar við sjúkdómnum.

Um allt þetta snýst Mottumars og því hvet ég karla til að setja rakvélarnar á hilluna um hríð og leggja góðu málefni lið. Á vefslóðinni mottumars.is er hægt að skrá sig til keppni sem tengist átakinu og sjálfsagt er að heita á Krabbameinsfélagið sem safnar fé til að efla starfsemi sína. Félagið stefnir að því að safna 35 milljónum króna og ég vona svo sannarlega að það takist, því þessum fjármunum er vel varið.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta