Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Dagur sjúkraþjálfunar

Dagur sjúkraþjálfunar, 2. mars 2012
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Ágætu sjúkraþjálfarar.

Fyrst af öllu óska ég ykkur til hamingju með daginn þar sem saman fer aðalfundur félagsins og fræðsludagur með myndarlegri dagskrá sem ber órækt vitni um faglegan metnað. Það er líka skynsamlegt að tengja saman aðalfund félagsins og dag sjúkraþjálfunar. Þannig eru slegnar tvær flugur í einu höggi og örugglega er þessi haganlega tilhögun kærkomin fólki sem býr fjarri höfuðborginni og getur þannig sótt í einu lagi þessa tvo viðburði.

Mér er kunnugt um að þessi dagur sjúkraþjálfunar hefur verið haldinn í nokkur ár og eigi sér allanga forsögu sem megi rekja allt aftur til ársins 1998 þegar fyrst var efnt til viðburðar í þessa veru, þótt dagur sjúkraþjálfunar með núverandi sniði hafi fyrst verið haldinn árið 2005. Markmiðið er skýrt, að nýta daginn til að miðla þekkingu, gera félagið sýnilegra út á við og stuðla að samstöðu og samvinnu sjúkraþjálfara og styrkja sig sem fagfólk.

Sjúkraþjálfarar hafa starfað á Íslandi í hartnær 90 ár og eru þar með ein af eldri skilgreindum heilbrigðisstéttum landsins. Sjúkraþjálfarar hafa líka gert sig meira og meira gildandi í umræðu um heilbrigðismál sem er gott því það er mikilvægt að við fáum sjónarmið sem flestra þegar fjallað er um heilbrigðismál og hvað má betur fara. Samfélagið hefur þróast í þá átt á undanförnum árum að umræða er opnari og gagnsærri en áður var, sérstaklega hefur þessi krafa aukist eftir hrun og tengist auðvitað líka því að aðferðir til að gera upplýsingar aðgengilegar, skiptast á skoðunum og koma sjónarmiðum á framfæri eru allt aðrar og betri nú en áður var.

Eins og þið vitið og hafið fundið á eigin skinni þá er þrengra í búi en áður var. Fulltrúar ykkar hafa komið á minn fund til að láta mig vita að nóg sé komið, ekki verði gengið lengra í að skerða framlög til sjúkraþjálfunar. Um það má deila og engin ein rétt niðurstaða í því máli en það er engin launung á því að ég hefði viljað hafa meiri fjárveitingar til að reka heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Alls staðar hefur verið þrengt að og reynt að hagræða og spara eftir því sem nokkur kostur er án þess að ganga of nærri þjónustunni. Það er ekki einfalt verkefni og óhjákvæmilegt að tekist sé á um áherslur þar sem sjónarmið eru mörg og hagsmunir ólíkra hópa fara ekki saman. Það eru svo ótal margir þættir sem skipta máli í skipulagi heilbrigðiskerfisins, þættir sem þurfa að vera samtengdir og mynda eina heild ef vel á að vera til að tryggja notendum samfellda heilbrigðisþjónustu.

Góð heilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvæg þegar fólk velur sér búsetu og því er mikilvægt að við verjum grunnheilbrigðisþjónustu um allt land, hvort sem um er að ræða heilsugæslu, bráðaþjónustu eða sjúkraþjálfun. Það getur verið skammvinnur árangur af tíma hjá sjúkraþjálfara vegna vöðvabólgu í herðum ef þarf að aka 1–2 klukkutíma til að komast heim, kannski á vondum vegi eða lélegri færð. Því skiptir máli að þessi þjónusta, eins og önnur grunnþjónusta, sé innan seilingar. Það er hún í flestum tilvikum og sjúkraþjálfarar starfa á eða í nágrenni við flestar heilbrigðisstofnanir á landinu. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um skipulag sem verður að ganga upp til að tryggja markmið laga um heilbrigðisþjónustu.

Mikilvæg stefnumörkun er nú á lokastigi sem varðar skipulag starfsendurhæfingar um allt land sem tengist stofnun starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK árið 2008 en þá jukust framlög til starfsendurhæfingar verulega. Nú liggur fyrir í drögum frumvarp til laga um starfsendurhæfingarsjóði. Markmiðið er að til verði heildrænt, samhæft þjónustukerfi um allt land þar sem sinnt er þörfum þeirra sem af einhverjum ástæðum geta ekki tekið þátt í atvinnulífinu. Hér skiptir mestu að tryggja öllum aðgang að starfsendurhæfingu og virkniúrræðum, óháð því hvort viðkomandi hafi verið virkir á vinnumarkaði eða ekki. Þetta er mikilvægt, því annars er verið að mismuna fólki eftir stöðu og aðstæðum þess í samfélaginu. Samhæfing þjónustukerfisins felst í því að tengja saman starfsendurhæfingarsjóði, þjónustu ríkisins og þjónustu sveitarfélaga. Þetta er grundvallaratriði til að ná árangri gagnvart því fólki sem þarf á þessari þjónustu að halda. Drög að frumvarpi um starfsendurhæfingarsjóði verður kynnt á næstunni en ég stefni að því að leggja það fyrir Alþingi á vordögum.

Þær efnahagslegu þrengingar sem við höfum þurft að glíma við frá bankahruninu haustið 2008 hafa óhjákvæmilega haft sín áhrif á allan rekstur hins opinbera og rekstur heilbrigðiskerfisins er þar ekki undanskilinn. Ég tel okkur hafa tekist furðu vel að standa vörð um velferðarþjónustuna, þrátt fyrir stífa kröfu um sparnað og aðhald á öllum sviðum. Það lætur kannski ekki vel í eyrum – en ég fullyrði samt að hrunið hefur á ýmsan hátt reynst okkur þörf lexía. Við gengum að of mörgu sem gefnum hlut í samfélaginu, vorum of treg til að spyrja gagnrýninna spurninga og kannski of værukær til að ráðast í breytingar þar sem breytinga var þörf til að ná betri árangri.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2012 nema útgjöld til þeirra velferðarmála sem heyra undir ráðuneyti mitt tæpum 228 milljörðum króna – sem eru um 42% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Það skiptir svo sannarlega máli hvernig spilað er úr þessum fjármunum og okkur ber skylda til að nýta þá eins vel og mögulegt er. Meðal margvíslegra aðgerða sem gripið var til þegar kreppan skall á var að ráðast í breytingar á sviði lyfjamála með það að markmiði að stemma stigu við ört vaxandi kostnaði sem að hluta til stafaði af mikilli veikingu krónunnar. Ríkisendurskoðun birti fyrir síðustu áramót úttekt um árangur aðgerðanna sem er óhætt að segja að hafi verið vonum framar. Greiðsluþátttaka ríkisins í nokkrum dýrum lyfjaflokkum var einskorðuð við hagkvæmustu lyfin og árangurinn af því lét ekki á sér standa, jafnframt því sem aðgerðirnar leiddu til verulegrar lækkunar á verði margra lyfja. Eins má nefna að Landspítalinn hefur náð verulegum árangri í lækkun lyfjakostnaðar með útboðum. Þessar breytingar hafa snúist um að ná fram sem mestri hagkvæmri í rekstri málaflokka án þess að það bitni á öryggi eða gæðum þjónustu við notendur og það hefur svo sannarlega tekist.

Síðastliðið haust setti ég á fót ráðgjafahóp til þess að gera tillögur um skipulag heilbrigðisþjónustu og betri nýtingu fjármuna. Niðurstöður hópsins og greiningar hans á heilbrigðiskerfinu sýndu að gæði heilbrigðisþjónustu hér á landi eru almennt mikil og heildarkostnaður sem hlutfall af landsframleiðslu sambærilegur við það sem gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Engu að síður var bent á ákveðnar brotalamir í kerfinu og ýmis tækifæri til breytinga sem geta falið í sér bætta þjónustu og betri nýtingu fjármuna. Þar er einkum bent á að gera þurfi úrbætur á fyrirkomulagi skráningar og birtingar heilbrigðisupplýsinga, breytingar á greiðslufyrirkomulagi vegna heilbrigðisþjónustu, taka þurfi upp þjónustustýringu, ljúka sameiningu heilbrigðisstofnana og breyta skipulagi sjúkraflutninga. Þetta eru allt úrbætur sem ég tel nauðsynlegar og hef sett í forgang í vinnu ráðuneytisins.

Í skýrslu ráðgjafahópsins – sem er aðgengileg á vef ráðuneytisins og ég hvet ykkur til þess að skoða – eru sýnd margvísleg rök fyrir því að taka upp markvissa þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu, eða það sem stundum hefur verið kallað tilvísanakerfi. Ísland sker sig úr í samanburði við aðrar þjóðir þegar horft er til þess hve aðgangur fólks að sérfræðiþjónustu er greiður og milliliðalaus. Telja má víst að umtalsverður fjöldi fólks leiti til sérfræðinga vegna heilbrigðisvandamála sem eðlilegra væri að leysa innan heilsugæslunnar og myndi skila jafngóðum árangri. Starfshópur á mínum vegum vinnur nú að því að móta tillögur um hvernig við getum sem best útfært og tekið upp skipulagða þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu.

Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn hefur verið lagt fram á nokkrum þingum eins og þið þekkið eflaust vel – en er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Verði frumvarpið að lögum fellur niður krafa um samráð við lækni sem áskilið er í 5. gr. gildandi laga um sjúkraþjálfun. Ný lög munu hins vegar ekki breyta tilvísunarskyldunni vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við sjúkraþjálfun. Þetta eru tvö aðskilin mál, greiðsluþátttakan annars vegar og hins vegar það að taka sjúkling til meðferðar.

Góðir gestir.

Sjúkraþjálfarar starfa víða innan heilbrigðiskerfisins og á mörgum sviðum. Því skiptir miklu að sjúkraþjálfarar sinni vel sí- og endurmenntun, séu vakandi fyrir nýjungum í greininni og síðast en ekki síst er þetta ein þeirra heilbrigðisstétta þar sem fagið gerir miklar kröfur til þverfaglegs samstarfs. Dagur sjúkraþjálfunar er án efa kærkomið tækifæri fyrir sjúkraþjálfara til að hittast og fræðast og ræða fagleg mál. Megi dagurinn verða ykkur fróðlegur og ánægjulegur.

- - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta