Evrópuár um virkni á efri árum - samband og samstöðu kynslóða
Virkni á efri árum – samband og samstaða kynslóða
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Opnun Evrópuársins 2012, 14. mars 2012, á Grand hótel Reykjavík.
Góðir gestir.
Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin hingað í dag. Um leið vil ég þakka Landssambandi eldri borgara og Öldrunarráði Íslands fyrir að koma að skipulagningu ráðstefnunnar með velferðarráðuneytinu og öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg.
Evrópusambandið stendur fyrir Evrópuárinu 2012 sem helgað er virkni aldraðra og samstöðu milli kynslóða. Auk Íslands, Noregs og Liechtenstein taka 27 ríki Evrópusambandsins þátt í árinu svo og fjöldi stofnana og samtaka.
Á undanförnum árum hefur hlutfallslega fjölgað mjög í hópi aldraðra í Evrópu. Meðalaldur íbúa álfunnar hækkar og það stefnir í að árið 2060 verði aldurssamsetningin þannig að á móti hverjum einum á lífeyrisaldri verði tveir á vinnualdri.
Evrópuárinu er ætlað að opna augu almennings fyrir framlagi eldra fólks til samfélagsins og meðal annars er til umræðu hvernig skapa megi aukin tækifæri til að auka virkni eldri borgara og efla samstöðu kynslóðanna.
Evrópuárið markar einnig tíu ára afmæli aðgerðaáætlunar Sameinuðu þjóðanna um öldrun sem samþykkt var í Madrid árið 2002.
Nú kann einhver að spyrja sig hvað virkni aldraðra stendur fyrir?
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni snýr virkni aldraðra að þremur þáttum þ.e. heilsu, þátttöku og öryggi – eða að eldast við góða heilsu – líkamlega, andlega og félagslega – hafa tækifæri til þátttöku í samfélaginu án mismununar og í samræmi við óskir, þarfir og getu hvers og eins – og að vera tryggð fullnægjandi vernd, umhyggju og öryggi í samfélaginu.
Oft er talað um að fátt sé hinum aldraða eins mikilvægt og að halda virkni sinni, en það sem á við hinn aldraða á einnig við fólk á öðrum aldri. Við erum öll eins en höfum aðeins lagt að baki mismörg ár.
Evrópuárið 2012 leitast við að stuðla að virkni aldraðra með því að horfa til atvinnuþátttöku, samfélagsþátttöku og sjálfstæðis.
Atvinnuþátttaka
Ef við beinum fyrst sjónum að atvinnuþátttöku þá hefur hún í gegnum tíðina verið mjög mikil á Íslandi. Í aldurshópi fólks 55–64 ára var til að mynda atvinnuþátttaka rétt tæp 80% árið 2010, eða rúmlega helmingi meiri en í þeim Evrópulöndum þar sem atvinnuþátttaka er minnst hjá þessum aldurshópi eins og í Belgíu og á Ítalíu.
Hár lífeyrisaldur hér á landi sem almennt miðast við 67 ár, endurspeglar þá meginstefnu íslenskra stjórnvalda að eldra fólk sé virkt á vinnumarkaðnum a.m.k. til 67 ára aldurs og raunar vinna margir til sjötugs.
Ef við lítum á atvinnuleysi þá er langtímaatvinnuleysi meira viðvarandi hjá eldra fólki en yngra sem bendir til þess að fólki, sem komið er yfir miðjan aldur og missir vinnuna, reynist erfiðara að fá vinnu að nýju en þeim sem yngri eru.
Í könnun sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir árið 2004 meðal félaga sinna kom fram að eldra fólk er ekki talið síðri starfskraftur en hið yngra. Það er sjaldnar frá vinnu vegna veikinda og er jákvæðara í garð vinnunnar en yngra fólk. Erlendar rannsóknir sýna sömu niðurstöður.
Ein af áherslum Evrópuársins er að veita eldra fólki á vinnumarkaði betri úrkosti og aðstæður, svo sem með því að hvetja atvinnurekendur til að skapa heilsusamlegar vinnuaðstæður og aðlaga starfsaðstöðu og vinnutíma að þörfum eldri starfsmanna. Kannanir hafa sýnt að verulega dregur úr þátttöku í sí- og endurmenntun með hækkandi aldri. Með sífellt auknum kröfum á vinnumarkaði og mikilli tækniframþróun er ekki lengur litið á menntun sem átaksverk heldur sem æviverk og með símenntun viðheldur einstaklingurinn færni sinni á vinnumarkaði.
Í tilefni Evrópuársins hafa Evrópuríki verið hvött til að huga að vinnumiðlun fyrir eldri atvinnuleitendur og vinna gegn mismunun vegna aldurs á vinnumarkaðnum. Þá hefur verið hvatt til endurskoðunar á skatta- og bótakerfi, sérstaklega þar sem atvinnuþátttaka aldraðra er lítil.
Samfélagsþátttaka
Ef við skoðum næst samfélagsþátttöku aldraðra þá er rétt að undirstrika mikilvægi þess að fólk setjist ekki með hendur í skauti þegar það hættir atvinnuþátttöku. Fólk þarf að finna sér farveg til að takast á við nýjar aðstæður í lífinu og samfélagið þarf að vera reiðubúið að virða og meta framlag aldraðra eins og verðskuldað er.
Því miður virðist oft litið framhjá framlagi eldra fólks til samfélagsins sem felst meðal annars í umönnun annarra, svo sem umönnun eigin foreldra, maka, barna eða barnabarna.
Félagasamtök, eins og Rauði kross Íslands, sem byggja mikið á sjálfboðastarfi hafa óskað sérstaklega eftir eldra fólki til sjálfboðastarfa þar sem það hefur lífsreynslu sem gagnast vel.
Evrópuárinu er ætlað að tryggja aukna viðurkenningu á framlagi eldra fólks til samfélagsins og skapa því hagstæðari skilyrði.
Góðir gestir.
Evrópubúar lifa ekki aðeins lengur heldur eru þeir við betri heilsu nú en nokkru sinni fyrr. Það er þó staðreynd að heilsunni hrakar eftir því sem við eldumst. Margt er til ráða til að hægja á þeirri þróun og hægt að bæta aðstæður fólks sem á við ýmsan heilsuvanda eða fötlun að stríða.
Sjálfstæði
Virk efri ár fela í sér að stuðla að sem mestu sjálfstæði fólks svo lengi sem kostur er, svo sem með heilsueflingu og forvörnum, með því að bæta aðgengi fólks með skerta hreyfigetu, aðlaga húsnæði að þörfum hvers og eins, stuðla að aðgengilegum og ódýrum almenningssamgöngum og með því að virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga.
Á Íslandi hefur undanfarin ár verið unnið að málefnum aldraðra samkvæmt stefnu sem sett var í málaflokknum árið 2008. Þar kemur meðal annars fram að styðja skuli aldraða til búsetu á eigin heimili sem lengst. Í dag búa tæplega 80% aldraðra, 80 ára og eldri, heima. Dagvistarrýmum og skammtímarýmum hefur fjölgað en samt sem áður þarf að efla enn frekar þjónustu og búsetuúrræði fyrir einstaklinga sem ekki þurfa enn á hjúkrunarrými að halda, þ.e. úrræði sem kalla má millistigsúrræði.
Evrópuárið hvetur aðildarríki til að stuðla að sem mestu sjálfræði fólks í langtímaumönnun. Sett voru ný viðmið í íslensku stefnunni 2008 um bættan aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimilum og hafa þau viðmið verið mjög gagnlegt leiðarljós til að bæta aðbúnað á nýjum hjúkrunarheimilum og eins við breytingar á þeim eldri.
Samstaða kynslóða
Evrópuárið 2012 leggur ekki aðeins áherslu á virkni aldraðra heldur einnig á samstöðu kynslóða og að skapa samfélag sem rúmar fólk á öllum aldri. En til þess að svo geti orðið þurfum við að auka skilning í samfélagi okkar á mikilvægu framlagi ólíkra kynslóða. Stuðningur kynslóðanna hver við aðra er samfélaginu mikilvægur. Á Evrópuárinu er lögð áhersla á að kynna hvernig eldri kynslóðir geta stutt þær yngri og öfugt og þannig styrkt kynslóðaböndin.
Frá árinu 2009 hefur Evrópa haldið upp á Evrópudag kynslóðasamstöðu þann 29. apríl ár hvert. Árið 2012 verður áhersla lögð á að efna til umræðna milli nemenda og eldri borgara um hvað það merki að eldast og hvernig eldra fólk og yngra geti unnið saman að betra lífi. Dagana kringum 29. apríl er öllum skólum í Evrópu boðið að opna dyr kennslustofa sinna fyrir eldri kynslóðum og kanna hvernig skoðanaskipti kynslóðanna geti stuðlað að betri menntun.
Góðir gestir.
Flestar Evrópuþjóðir horfast í augu við ýmsar áskoranir tengdar hækkandi aldurssamsetningu þjóðar sinnar en þótt aldur Íslendinga fari líka hækkandi þá er þjóðin tiltölulega ung og fæðingartíðni á hverja konu fremur há. Íslendingar eru lengi á vinnumarkaði og fara að jafnaði ekki á eftirlaun fyrr en 67 ára og sumir jafnvel enn seinna.
Þessar staðreyndir gætu skýrt það að Íslendingar hafa minni áhyggjur af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar en aðrar Evrópuþjóðir. Jafnframt höfum við jákvæðara viðhorf til aldraðra en almennt gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum en þetta eru meðal niðurstaðna nýrrar evrópskrar könnunar sem gerð var við upphaf Evrópuársins 2012.
Evrópuárið er einstakt tækifæri til að virkja reynslu, visku og krafta eldri borgara í þágu samfélagsins. Auk þess er það tækifæri til að fá kynslóðir til að vinna saman að sanngjörnu og sjálfbæru samfélagi fyrir alla aldurshópa.
Þess er vænst að Evrópuárið 2012 verði almenningi, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum hvati til að grípa til aðgerða sem stuðla að virkri öldrun og auka samstöðu milli kynslóða.
Aldur á ekki að standa í vegi fyrir því að við getum lagt okkar af mörkum til samfélagsins.
Með þessum orðum set ég formlega Evrópuárið 2012 á Íslandi og vona að þið hafið gagn og gaman að dagskránni hér í dag.
---------------------------
Talað orð gildir