Ársfundur VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs
Ársfundur VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs, 12.04.2012
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Góðir ársfundargestir.
Endurhæfing á vegum VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs hófst haustið 2009 og hefur starfsemin vaxið hröðum skrefum frá upphafi. Sjóðurinn var stofnaður 19. maí 2008 til að efna ákvæði kjarasamninga sama árs um að hefja þróun nýs fyrirkomulags endurhæfingar með því að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast eða slasast þannig að starfsgeta þeirra skerðist. Þegar ég kynntist þessari hugmynd og frumkvæði aðila vinnumarkaðarins þótti mér spennandi sú áhersla að reyna að grípa mun fyrr inn í þegar einhver slasaðist eða veiktist, styrkja endurhæfingu og reyna að halda vinnusambandi á milli hins veika eða slasaða og atvinnurekandans.
Í kjarasamningum var kveðið á um greiðsluskyldu launagreiðenda til VIRK sem var 0,13% af heildarlaunum starfsmanna og jafnframt var kveðið á um sambærilegt framlag lífeyrissjóða og ríkisins. Þessir þrír aðilar myndu standa að verkefninu með sínum framlögum.
Hugmyndin mætti talsverðri andstöðu og enn eru efasemdaraddir, þrátt fyrir gott starf VIRK. Áhyggjurnar beinast að því að hér verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, þ.e. að VIRK hafi rúm fjárráð á sama tíma og hið opinbera heilbrigðiskerfi er skorið niður.
Sjálfur hef ég lagt mjög mikla áherslu á að hið opinbera kerfi og VIRK vinni náið saman, en meira um það síðar.
Á síðasta ári skipaði ég samráðsnefnd um framtíðarskipulag starfsendurhæfingar með fulltrúum fjármálaráðuneytis, Landssamtaka lífeyrissjóða, velferðarráðuneytisins og VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs. Hlutverk nefndarinnar var að leggja fram nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála almennt. Nefndin tók til starfa í júní og skilaði mér fyrir nokkru vinnu sinni sem fól í sér tillögu að frumvarpi til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Til að gera langa sögu stutta þá hefur frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi og ég býst við að mæla fyrir því áður en langt um líður, helst í næstu viku, og treysti á að málið verði afgreitt nú á vorþinginu.
Frumvarpið fjallar um starfsendurhæfingarsjóði, framlög til þeirra og rétt einstaklinga til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Markmiðið er að tryggja þeim einstaklingum sem eru með skerta starfsgetu vegna veikinda eða slysa atvinnutengda endurhæfingu. Áhersla er lögð á að hún skuli vera þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfa saman með það að leiðarljósi að gera sem flestum kleift að vera virkir á vinnumarkaðnum.
Frumvarp eins og þetta er ekki hrist fram úr erminni. Á undanförnum árum og áratugum hafa viðhorf til þessara mála tekið verulegum breytingum. Í samvinnu og skoðanaskiptum þeirra aðila sem gerst þekkja til þessara mála hefur ný hugmyndafræði rutt sér til rúms í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað víðast annars staðar á Vesturlöndum. Hér á ég við það sem við köllum virka velferðarstefnu – eða það sem á ensku kallast active social policy. Í stað þess að leggja megináherslu á að tryggja fólki með skerta starfsgetu fjárhagslega framfærslu og láta þar við sitja, er horft til þess efla virkni fólks og getu til þátttöku í samfélaginu, ekki síst atvinnuþátttöku.
Öryrkjabandalagið, Landssamtökin Þroskahjálp og Landssamband eldri borgara hafa verið ötulir talsmenn þessarar breyttu hugmyndafræði og eins hafa samtök launafólks lagt sívaxandi áherslu á aukin virkniúrræði á borð við starfsmenntun og starfsendurhæfingu. Að hluta til má rekja viðhorfsbreytinguna hér á landi til upphafs tíunda áratugarins þegar öryrkjum tók að fjölga umtalsvert og vitund manna vaknaði um þörf fyrir mun öflugri aðgerðir til að efla virkni og sporna við þessari þróun.
Tengsl milli atvinnuleysis og örorku eru vel þekkt og því má segja að þörfin fyrir virka velferðarstefnu hér á landi hafi aldrei verið meira knýjandi. Þegar þrengir að á vinnumarkaði hafa þeir minnsta fótfestu sem stríða við heilsufarsleg eða félagsleg vandamál, þeir sem eiga skemmsta skólagöngu að baki og hafa stutta starfsreynslu og eins þeir sem eru komnir fram á seinni hluta starfsævinnar. Þetta eru hópar sem þarf að huga sérstaklega að. Eins vitum við að langtímaatvinnuleysi hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks og er líklegt til að leiða til örorku ef ekki er gripið inn í með virkum aðgerðum.
Nýja lagafrumvarpið um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða snýst einmitt um þetta. Frumvarpið markar tímamót þar sem miðað er við að tryggja rétt allra til starfsendurhæfingar óháð fyrri þátttöku á vinnumarkaði, uppfylli þeir almenn skilyrði fyrir þátttöku í slíkum úrræðum. Þessi skilyrði snúast um að viðkomandi búi við heilsubrest sem hindrar atvinnuþátttöku en stefni á aukna atvinnuþátttöku eða inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik og hafi vilja og getu til að nýta sér starfendurhæfingu í þessu skyni.
Miðað er við að gerðir verði samningar milli velferðarráðuneytisins og starfsendurhæfingarsjóða um þjónustu við þá sem standa utan vinnumarkaðar og verða slíkir samningar eitt af skilyrðum fyrir viðurkenningu á starfsemi sjóðanna. Hér geta til dæmis átt í hlut einstaklingar sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Á þennan hátt er stefnt að því að tryggja heildstætt kerfi endurhæfingar fyrir alla sem á þurfa að halda og uppfylla almenn skilyrði til þátttöku í slíkum úrræðum. Gert er ráð fyrir að mótframlag ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða standi undir kostnaði vegna endurhæfingar þessa hóps.
Góðir gestir.
Mér verður tíðrætt um hugtakið virka velferðarstefnu því ég er ekki í vafa um að hugmyndafræðin sem liggur þar að baki er grundvallaratriði við uppbyggingu samfélagsins eftir reiðarslagið haustið 2008 og mikilvægur þáttur í því að verja velferðina til skemmri og lengri tíma litið.
Þetta er sú hugmyndafræði sem byggt hefur verið á við mótun og eflingu vinnumarkaðsúrræða hjá Vinnumálastofnun síðustu ár. Allt kapp hefur verið lagt á að forða fólki frá þeim doða sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur aðgerðaleysis með því að skapa fjölbreytt og áhugaverð tækifæri til virkni af einhverju tagi. Fjölmargir hafa tekið þátt í margvíslegum námskeiðum, starfsþjálfun og öðrum atvinnutengdum úrræðum eða nýtt sér stuðning til náms með góðum árangri, sjálfum sér og samfélaginu öllu til góðs.
Í febrúar síðastliðnum voru kynnt ný úrræði fyrir unga atvinnuleitendur sem við köllum atvinnutorg og hafa verið sett á laggirnar í Reykjavík, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ og Kópavogsbæ. Með atvinnutorgunum er brotið í blað þar sem boðin eru úrræði fyrir ungt fólk án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Áætlað er að rúmlega 400 ungmenni muni að jafnaði njóta þjónustu hjá atvinnutorgum umræddra sveitarfélaga. Mikilvægur hluti verkefnisins felst í að hafa uppi á þeim hluta hópsins sem stendur utan kerfisins og þarf því að leita að, en þá er átt við ungmenni sem hvorki eru skráð með fjárhagsaðstoð sveitarfélags né atvinnuleysisbætur og eru ekki í vinnu eða námi.
Þegar fengist er við stefnumótun og uppbyggingu úrræða á jafnmikilvægum sviðum og hér er um að ræða skiptir geysilega miklu máli að þekkja vel til aðstæðna þeirra sem aðgerðirnar eiga að beinast að. Árið 2010 kom út skýrslan Örorka og virk velferðarstefna á vegum Þjóðmálastofnunar sem unnin var fyrir örorkumatsnefnd forsætisráðuneytisins og Landssamtök lífeyrissjóða.
Skýrslan byggðist á könnun sem gerð var meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega veturinn 2008–2009 og var úrtakið 1.500 manns. Markmið könnunarinnar var að fá nýjar upplýsingar um aðstæður öryrkja og langveikra einstaklinga, orsakir örorku, fjölskylduhagi, menntun, starfsreynslu, endurhæfingu, atvinnuþátttöku og samfélagsþátttöku, auk viðhorfa til aðgengis, þjónustu og lífsgæða. Markmiðið var einnig að geta mótað virkari velferðarstefnu í þágu þessa hóps sem gæti nýst betur við endurskipulagningu örorku- og endurhæfingarmála og greitt betur fyrir samfélagsþátttöku öryrkja.
Ég geri ráð fyrir að mörg ykkar sem hér eruð þekkið könnunina og helstu niðurstöður hennar en þær hafa reynst ómetanlegar í því starfi sem fram hefur farið við mótun heildstæðs starfsendurhæfingarkerfis sem birtist í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi.
Ég ætla ekki að rekja niðurstöður könnunarinnar hér en nefni að meðal þess sem þar kemur fram er að mjög lítill hluti öryrkja á þeim tíma sem hún var gerð hafði fengið einhverja skipulagða starfsendurhæfingu eða starfsþjálfun. Þá kom fram að hlutfallslega fleiri karlar en konur höfðu notið slíkra úrræða. Það sem er sérstaklega áhugavert er að meirihluti þeirra sem höfðu fengið starfsendurhæfingu eða þjálfun töldu hana hafa skilað sér miklum árangri; — fyrst og fremst betri heilsu og sjálfstrausti, — en einnig sögðu tæp 40% að hún hefði stuðlað að atvinnuþátttöku þeirra. Um helmingur þeirra sem ekki hafði notið starfsendurhæfingar sagðist myndu hafa þegið hana hefði hún staðið til boða og mikill meiri hluti sagðist telja mjög mikilvægt að fólk ætti kost á starfsendurhæfingu.
Það er til mikils að vinna að forða sem flestum frá örorku og að stuðla að virkni fólks eins og nokkur kostur er á öllum æviskeiðum. Við höfum í gegnum tíðina horft um of á það sem fólk skortir til fullrar þátttöku í samfélaginu. Örorka hefur byggst á þessu vangetumati sem er afar neikvæð, óheppileg og niðurbrjótandi nálgun. Hið skynsamlega og rétta er að beina sjónum að styrkleikum hvers og eins og byggja upp úrræði til að efla getu viðkomandi í samræmi við það.
Við höfum svo sannarlega verk að vinna til að hrinda í framkvæmd þeirri hugmyndafræði sem ég held að allir séu sammála um; það er að tryggja öllum starfsendurhæfingu sem þurfa hennar með og vilja og geta nýtt sér hana. Heildstætt og samfellt kerfi fyrir alla er markmiðið. Þetta krefst þess að fagaðilar innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins vinni náið saman þegar þess er þörf og sömuleiðis starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.
Atvinnulífið gegnir hér einnig veigamiklu hlutverki. Vinnumarkaðurinn og atvinnurekendur þurfa að sýna sveigjanleika þar sem komið er til móts við þarfir fólks með skerta starfsgetu, svo sem í tengslum við starfsþjálfun, möguleikum til hlutastarfa og hverjum þeim aðgerðum sem annars vegar geta dregið úr brottfalli fólks af vinnumarkaði og hins vegar stutt við bakið á þeim sem eru að fóta sig þar á nýjan leik í kjölfar starfsendurhæfingar.
Góðir gestir.
Við erum á réttri leið og með samvinnu og einbeittum vilja þeirra fjölmörgu aðila sem koma að starfsendurhæfingarmálum á einn eða annan hátt munum við ná þeim árangri sem að er stefnt.
Ég vil þakka VIRK og aðilum vinnumarkaðarins fyrir mikið og gott starf og óska VIRK góðrar framtíðar með frábærum árangri í starfsendurhæfingu, öllum til hagsbóta. Ég treysti á að samstarf VIRK og stofnana á vegum ríkisins verði gott og myndi órofa heild þar sem enginn verður útundan eða nýtur þjónustu umfram aðra.
Við Íslendingar viljum félagslegar lausnir, jafnræði og samábyrgð og þannig treysti ég á að VIRK og hið opinbera uppfylli sameiginlega þau markmið.
Við eigum öll hagsmuna að gæta og berum mikla ábyrgð.
Sýnum í verki að við stöndum fyllilega undir henni.