Ávarp velferðarráðherra á ársfundi Landspítala
Ávarp velferðarráðherra, flutt af Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra fyrir hans hönd
Góðir ársfundargestir, stjórnendur og annað starfsfólk Landspítala.
Velferðarráðherra bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar. Hann hefði svo gjarna viljað vera með ykkur hér í dag en átti þess ekki kost. Hann situr nú fundi í Kaupmannahöfn með evrópskum kollegum sínum þar sem til umfjöllunar eru heilbrigðismál og önnur velferðarmál sem hvað heitast brenna á þjóðum á tímum efnahagsþrenginga. Ég flyt því ávarp á ársfundi Landspítala fyrir hans hönd.
„Landspítali er í fremstu röð háskólasjúkrahúsa. Sjúklingurinn og öryggi hans eru ætíð í fyrirrúmi. Hann er stolt landsmanna, sjúklinga og starfsmanna.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu Landspítala og framtíðarsýn til ársins 2016.
Stefnumótun fyrir stóran vinnustað og viðamikla og flókna starfsemi eins og hér er um að ræða er vandaverk sem krefst mikils af stjórnendum og starfsfólki. Skýr stefna er jafnframt ómetanlegur leiðarvísir fyrir starfsemina þegar vel tekst til. Hún felur þá í sér aðgerðir, skilgreind markmið og mælikvarða um árangur. Að baki stendur öflug liðsheild starfsfólksins sem er meðvitað um markmiðin og keppir að þeim saman með framtíðarsýnina að leiðarljósi.
Þetta hefur Landspítala tekist, þ.e. að móta og innleiða stefnu sem liggur til grundvallar öllu starfi sjúkrahússins frá degi til dags. Þið sem starfið á Landspítala hafið sýnt ótrúlega stefnufestu sem er án efa lykillinn að þeim ótrúlega árangri sem þið hafið náð við erfiðar aðstæður.
Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri Landspítala. Að margra mati hefur ykkur tekist hið ómögulega. Tvö ár í röð hefur reksturinn verið innan ramma fjárlaga, þrátt fyrir miklar kröfur um hagræðingu og sparnað. Hér hefur ekki verið hvikað frá því markmiði að halda rekstri innan fjárheimilda.
Aldrei hefur þó verið slakað á kröfum um öryggi og gæði. Faglegur metnaður er hér augljóslega í fyrirrúmi og gildin sem hér hafa verið sett um fagmennsku, öryggi, framþróun og umhyggju í hávegum höfð.
Landspítali er öryggisnet í eigu og þágu þjóðar segir meðal annars í stefnu sjúkrahússins um hlutverk hans. Þetta hefur Landspítali sýnt í verki og verkefni ykkar frá degi til dags eru til vitnis um það. Verkefni eru ekki valin hingað inn, hér er tekist á við hvers konar vandamál sem upp koma og þau leyst.
Það er ástæða til að þakka sérstaklega skjót og fumlaus viðbrögð Landspítala við PIP brjóstapúðamálinu þegar stjórnvöld ákváðu að bregðast við umfram það sem flestar aðrar þjóðir höfðu gert og bjóða konum brottnám þessara fölsuðu púða. Þetta var talið nauðsynlegt þar sem upplýsingar um mögulega skaðsemi púðanna og áhrif á heilsufar voru ófullnægjandi og því þyrfti að eyða óvissu og tryggja öryggi kvennanna.
Á örskömmum tíma skipulagði Landspítali hvernig verkefninu skyldi sinnt og hófst handa. Þegar við réttilega köllum Landspítala flaggskip heilbrigðiskerfisins ber að halda því til haga að ólíkt öðrum stórum skipum getur hann verið snar í snúningum, eins og liprasti léttabátur.
PIP brjóstapúðamálið sýndi glöggt hvernig opinbera heilbrigðiskerfið stendur vörð um öryggi sjúklinga og mætir hverjum þeim aðstæðum sem upp geta komið, ávallt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Í þessu máli vöknuðu fjölmargar spurningar sem við verðum að svara og það er einmitt hlutverk nefndar um athugun á starfsemi einkarekinna læknastofa sem Magnús Pétursson stýrir og er ætlað að skila niðurstöðum í maí.
Ég vil einnig þakka Landspítala sérstaklega fyrir skelegg vinnubrögð þegar ákveðið var að flytja starfsemi réttargeðdeildar frá Sogni á Klepp. Þetta var umdeilt mál í samfélaginu en af hálfu Landspítala tókst að draga fram faglegar forsendur ákvörðunarinnar og kynna þau rök sem máli skiptu og vörðuðu hagsmuni og velferð þeirra sjúklinga sem í hlut eiga. Nýja réttargeðdeildin tók til starfa á Kleppi í lok febrúar og gagnrýnisraddir virðast þegar hafa hljóðnað. Opnun deildarinnar í vel búnu húsnæði undir faglegri ábyrgð og stjórn Landspítala verður þessum málaflokki til framdráttar og sjúklingum og aðstandendum þeirra til mikilla hagsbóta.
Ágætu gestir.
Landspítali er stór stofnun með fjölda starfsstöðva sem eru dreifðar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið í húsakosti sem er vægast sagt upp og ofan að gæðum og í mörgum tilvikum ekki vel til þess fallinn að þjóna starfseminni. Að þessu leyti er starfsumhverfi ykkar á Landspítala ófullnægjandi og aðbúnaður sjúklinga háður þeim takmörkunum sem húsnæðið setur. Í þessu ljósi er sá árangur sem hér hefur náðst á sviði hagræðingar, gæðastarfs, stefnumótunar, bættra verkferla og aukinnar skilvirkni enn meira þrekvirki og hreinlega aðdáunarverður.
Það eru orðin býsna mörg ár síðan bygging nýs Landspítala var sett á dagskrá. Vonandi sér nú brátt fyrir endann á löngum aðdraganda. Viðamikill undirbúningur vegna skipulags og framkvæmda er á lokastigi og gangi allt eins og ætlað er fá framkvæmdir brátt að tala sínu máli.
Tillaga að nýju deiliskipulagi var kynnt á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur 29. mars síðastliðinn og er í lögbundnu ferli. Nú liggur fyrir forhönnun bygginga og unnið er að fullnaðarhönnun gatna. Forval og útboð vegna framkvæmda fara fram nú í sumar. Tilboð ættu því að liggja fyrir í haust, Alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar. Það er því skriður á málinu og verkefnið á áætlun.
Mikið hefur verið rætt um meintan stjarnfræðilegan kostnað við byggingu nýs Landspítala og margir spurt hvort ekki væri nær að hlúa að rekstrinum í núverandi húsnæði og sinna viðhaldi og tækjakaupum í stað þess að henda peningum í steypu á krepputímum undir fjársveltan rekstur sem þarf að gjalda fyrir framkvæmdirnar.
Það er auðvelt að svara þessari gagnrýni – en það kemur fólki alltaf jafn mikið á óvart þegar því er gerð grein fyrir kostnaði áformaðra framkvæmda í samhengi við rekstrarkostnað sjúkrahússins. Í stuttu máli er þetta svona: Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 45 milljarðar króna. Samkvæmt fjárlögum þessa árs kostar rekstur Landspítala árið 2012 39 milljarða króna. Framkvæmdirnar fela í sér einskiptiskostnað – eins og sagt er á vondu máli – og í þessu samhengi má segja að kostnaðurinn sé lítill miðað við ávinninginn sem er margvíslegur, hvort sem litið er til hagræðis í rekstri, öryggis sjúklinga, gæða þjónustunnar, starfsumhverfisins og þar með fýsileika þess að starfa á sjúkrahúsinu. Við megum ekki gleyma því að Landspítali er háskólasjúkrahús og gegnir þýðingarmiklu hlutverki í menntun heilbrigðisstarfsfólks okkar sem við höfum svo mikla þörf fyrir og megum ekki missa frá okkur.
Við þurfum nýjan Landspítala, um það verður ekki deilt. Nýr Landspítali í húsnæði sem uppfyllir kröfur um nútímalegan sjúkrahúsrekstur felur í sér margvísleg sóknarfæri í nútíð og framtíð. Óbreytt ástand rekstursins í gömlum og ófullnægjandi húsakosti sem er tvístraður út um allar koppagrundir er okkur aftur á móti fjötur um fót og ógnar stöðu okkar og markmiðum um framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, öryggi og gæði.
Góðir ársfundargestir.
Nýlega voru kynntar upplýsingar fyrir starfsemina eftir fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Þar kemur meðal annars fram að aukning hefur orðið á starfseminni á mörgum sviðum. Komum á bráðamóttöku hefur fjölgað um 5,7%, skurðaðgerðum hefur fjölgað um 2,5% og síðast en ekki síst hefur inniliggjandi sjúklingum fjölgað um 9,5% sem er gríðarleg aukning. Ég veit að þetta veldur áhyggjum og það er mikilvægt fyrir okkur að greina ástæðurnar að baki. Ein meginskýringin sem nefnd hefur verið fyrir fjölgun inniliggjandi sjúklinga er að ekki sé unnt að útskrifa fólk sem lokið hefur meðferð á sjúkrahúsinu og þarf á hjúkrunarrýmum að halda. Þetta er gamall vandi og nýr sem mikilvægt er að velferðarráðuneytið og Landspítalinn skoði í sameiningu til að finna viðunandi lausnir.
Verkefni heilbrigðiskerfisins eru óþrjótandi og við þurfum sífellt að takast á við nýjar áskoranir til að tryggja öllum landsmönnum örugga og aðgengilega heilbrigðisþjónustu eftir því sem þörf krefur. Við höfum úr minna að spila en áður og því þarf stöðugt að finna nýjar leiðir til að fá sem mest fyrir hverja krónu.
Síðastliðið haust setti velferðarráðherra á fót ráðgjafahóp sem fjallaði um skipulag heilbrigðisþjónustu og nýtingu fjármuna. Hluti starfsins fólst í greiningarvinnu sem fjölmargir tóku þátt í og nutu stuðnings ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group. Ráðgjafahópurinn skilaði tillögum til breytinga og úrbóta í heilbrigðiskerfinu í október og í beinu framhaldi af því voru settir af stað níu vinnuhópar um útfærslu og framkvæmd tillagnanna. Greining á heilbrigðiskerfinu sýnir að gæði þjónustu eru almennt mikil hér á landi og kostnaður sem hlutfall af landsframleiðslu sambærilegur við það sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Hins vegar eru ákveðnar brotalamir í kerfinu og ýmis tækifæri til breytinga sem geta falið í sér bætta þjónustu og betri nýtingu fjármuna.
Vinnuhóparnir níu hafa ýmist þegar skilað af sér eða munu skila af sér á næstu vikum og verða niðurstöður þeirra kynntar eins fljótt og auðið er. Eitt af viðfangsefnunum er hvernig megi innleiða þjónustustýringu milli heilsugæslu, sérgreinaþjónustu, göngudeilda og bráðamóttaka sjúkrahúsa líkt og almennt tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Hér held ég að við getum náð árangri, því eins og ráðgjafahópurinn benti á hefur gildandi fyrirkomulag valdið því að notkun sérgreinaþjónustu hefur aukist stöðugt og sömuleiðis heilsugæsluþjónusta þar sem boðið er upp á einkarekna vaktþjónustu utan dagvinnutíma. Kostnaður vegna sérgreinalækna hefur aukist um 7% frá árinu 2008 á sama tíma og útgjöld til flestra annarra þátta heilbrigðisþjónustu hafa dregist saman. Við verðum að stýra betur notkun þeirra úrræða sem við höfum í heilbrigðiskerfinu og sjá til þess að ekki séu notuð dýrari úrræði en nauðsyn ber til.
Í júní er von á niðurstöðum vinnuhóps um heildstæða rafræna sjúkraskrá á landsvísu sem er mjög mikilvægt verkefni og undirstaða margvíslegra framfara í heilbrigðiskerfinu. Samræmd skráning og birting heilbrigðis- og starfsemisupplýsinga var viðfangsefni annars vinnuhóps og eru tillögur þess hóps komnar til framkvæmda hjá Embætti landlæknis. Í þessum efnum verðum við að gera átak, því slíkar upplýsingar eru mikilvæg forsenda skynsamlegra ákvarðana um breytingar og úrbætur í heilbrigðiskerfinu.
Við höfum enn verk að vinna við sameiningu heilbrigðisstofnana, sjúkraflutningar þarfnast endurskipulagningar í samræmi við breyttar samgöngur og aðgang að heilbrigðisþjónustu, þörf fyrir skurðlækningaþjónustu og fæðingarþjónustu er eitt af því sem verður endurmetið og stefnt er að því að endurskoða greiðslufyrirkomulag heilbrigðisþjónustu til að auka sveigjanleika, hagkvæmni og skilvirkni.
Stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins er í vinnslu á mörgum sviðum og nefni ég sem dæmi nýja lyfjastefnu og sömuleiðis er unnið að gerð heilbrigðisáætlunar til næstu ára. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem felur í sér grundvallarbreytingar á greiðsluþátttöku fólks í lyfjakostnaði. Verkefnin eru því mörg og stór og skipta landsmenn alla miklu máli til framtíðar.
Eins og ég sagði í upphafi sendir velferðarráðherra ykkur sínar bestu kveðjur og bað mig jafnframt að skila þakklæti til stjórnenda og annarra starfsmanna Landspítala fyrir frábær störf og árangur eftir því. Samstarf sjúkrahússins og velferðarráðuneytisins hefur verið afar gott og verður án efa farsælt áfram í þeim verkefnum sem framundan eru, enda byggt á gagnkvæmu trausti og virðingu.
Þakka ykkur fyrir.