Ávarp velferðarráðherra á aðalfundi Bandalags háskólamanna 26. apríl 2012
Aðalfundur Bandalags háskólmanna (BHM), 26. apríl 2012.
Ávarð Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra
Góðir háskólamenn og fulltrúar á aðalfundi BHM.
Takk fyrir að bjóða mér til fundarins, það er gott að hitta ykkur hér og ágætt tækifæri fyrir mig til að segja nokkur orð um ýmis mál sem eru ofarlega á baugi og varða þessi stóru samtök félaga háskólafólks.
Ég veit að framundan hjá ykkur í dag er stefnumótunarvinna þar sem stór mál eru á dagskrá og að hluta til varða þau beint verkefni velferðarráðuneytisins. Vinnumarkaðsmál vega þar þungt, ekki síst í ljósi þess erfiða árferðis sem við enn búum við, þótt staðan hafi svo sannarlega batnað frá því fyrst eftir hrun og allt stefni upp á við. Launamál eru auðvitað hluti af vinnumarkaðsmálunum og jafnréttismálin þar með sömuleiðis. Eins tengjast lífeyrismálin verkefnum velferðarráðuneytisins þegar horft er til samspils almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna.
Mikilvægt er að umræðan byggist á sem bestum upplýsingum á hverjum tíma og að þær séu metnar hlutlægt og með grundvallarsjónarmið að leiðarljósi.
Félög háskólamenntaðra hafa ekki farið varhluta af þrengingum liðinna ára á vinnumarkaði. Engu að síður er augljóst að háskólamenntun er mikils virði á vinnumarkaði, hvort sem horft er til atvinnumöguleika eða starfsöryggis.
Ef horft er til síðustu þriggja ára sést að hlutfall fólks með háskólamenntun er að jafnaði um 30% af vinnuaflinu. Hlutfall háskólamenntaðra af hópi þeirra sem eru atvinnulausir er aftur á móti um 16% samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuástandið í mars síðastliðinum en til samanburðar er hlutur þeirra sem eiga aðeins grunnskólanám að baki um 49% af heildarfjölda atvinnulausra. Þetta kemur vísast engum á óvart en er samt sem áður fróðlegt að skoða þessar tölur til marks um gildi menntunar.
Tölur um atvinnuleysi eftir kyni og menntun eru einnig áhugaverðar. Af heildinni eru karlar fjölmennari en konur í hópi atvinnulausra eða 7,3% á móti 6,9%. Munurinn í þessa átt er mestur í hópi fólks með iðnmenntun sem kemur heldur ekki á óvart því þar er hlutur karla svo stór af heildinni og eins er hlutur atvinnulausra karla mun hærri en kvenna meðal þeirra sem hætt hafa námi að loknu grunnskólaprófi. Hlutur atvinnulausra kvenna er hins vegar hærri meðal þeirra sem hafa lokið einhverju framhaldsnámi eða stúdentsprófi að loknum grunnskóla og eins meðal háskólamenntaðra. Í lok mars voru 826 háskólamenntaðir karlar án atvinnu á móti 1.080 konum sem sýnir töluverðan mun á atvinnuástandi kynja í hópi háskólafólks, konunum í óhag. Hér skiptir eflaust máli hve vinnumarkaðurinn er kynskiptur og starfsval fólks sömuleiðis, sem sést meðal annars á því að um þrír fjórðu hlutar fólks sem starfar hjá hinu opinbera eru konur.
Þótt atvinnuleysis sé hlutfallslega lægra meðal háskólamenntaðra en annarra er það engu að síður staðreynd sem mikilvægt er að takast á við. Langtímaatvinnuleysi og áhrif þess á einstaklinga eru alvarlegust. Miklu skiptir að grípa snemma inn í aðstæður þeirra sem missa vinnuna, stuðla að virkni þeirra með öllum ráðum og veita þeim liðsinni til að komast inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik.
Fyrir skömmu var lagt fyrir Alþingi frumvarp um atvinnutengda starfsendurhæfingu og ég reikna með að mæla fyrir því á næstu dögum. Frumvarpið fjallar um starfsendurhæfingarsjóði, framlög til þeirra og rétt einstaklinga til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Markmiðið er að tryggja þeim einstaklingum sem eru með skerta starfsgetu vegna veikinda eða slysa atvinnutengda endurhæfingu. Áhersla er lögð á að hún skuli vera þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfa saman með það að leiðarljósi að gera sem flestum kleift að vera virkir á vinnumarkaðnum.
Frumvarpið markar tímamót þar sem miðað er við að tryggja rétt allra til starfsendurhæfingar óháð fyrri þátttöku á vinnumarkaði, uppfylli þeir almenn skilyrði fyrir þátttöku í slíkum úrræðum. Þessi skilyrði snúast um að viðkomandi búi við heilsubrest sem hindrar atvinnuþátttöku en stefni á aukna atvinnuþátttöku eða inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik og hafi vilja og getu til að nýta sér starfendurhæfingu í þessu skyni.
Vinnumálastofnun gegnir afar mikilvægu hlutverki á sviði vinnumarkaðsúrræða og hefur í samvinnu við fjölmarga aðila sem þessum málum tengjast sinnt því afar vel á erfiðum tímum þar sem atvinnuleysi hefur verið miklu meira en við höfum áður þekkt.
Ég nefndi áðan að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og það verður að segjast sem er að það virðist breytast hægt þótt eitthvað þokist í áttina. Áður en lengra er haldið í þessum efnum vil ég samt minna á að samkvæmt alþjóðlegum mælingum á jafnrétti kynjanna hefur Ísland reynst standa sig best í heiminum síðustu þrjú ár. Staða í stjórnmálum, hátt menntunarstig og ýmis félagsmál skila okkur efsta sætinu, en staðan á vinnumarkaði er okkar veika hlið og það gengur illa að útrýma launamisrétti kynjanna.
Stór könnun árið 2008 sýndi mun meiri launamun kynjanna á landsbyggðinni en í þéttbýli. Samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum verður Byggðastofnun falið að greina orsakir þessa launamunar og síðan verður samin aðgerðaáætlun til að taka á honum. Fyrir nokkru tók til starfa á vegum velferðarráðuneytisins framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem á að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti. Ætlunin er að safna saman upplýsingum um árangursríkar aðgerðir og blása svo til sóknar. Enn er unnið að gerð jafnlaunastaðals en það hefur reynst mun flóknara verk en ætlað var.
Kynjahalli í stjórnum fyrirtækja í landinu hefur lengi verið þyrnir í augum en nú styttist í að lög um kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga gangi í gildi, þ.e. í september 2013. Einstaka fyrirtæki hafa þegar brugðist við og fjölgað konum en miklu betur má ef duga skal. Á vettvangi ríkis og sveitarfélaga hefur kvótum verið beitt í öllum nefndum, ráðum og stjórnum frá árinu 2008 og hefur það bæði tekist vel og gefist vel. Ég er ekki í vafa um að gildistaka laga um kynjakvóta mun til lengri tíma litið hafa veruleg áhrif til þess að eyða launamun kynja, enda munum við með því rjúfa glerþakið svokallaða og konum gefst í auknum mæli tækifæri til að hafa bein áhrif á launaákvarðanir og þar með launaþróun.
Áhrif breytinga sem gerðar hafa verið á Fæðingarorlofssjóði vegna aðhaldsaðgerða hafa verið til umræðu síðustu misserin. Það hefur sýnt sig að breytingarnar hafa dregið verulega úr áhuga karla – og raunar einnig kvenna - á því að nýta sér rétt sin til fæðingarorlofs en sparnaðaraðgerðirnar snerta einkum þá sem eru í hærri tekjuhópunum. Vilji stjórnvalda stendur til þess að hækka þakið á greiðslum í fæðingarorlofi sem vonandi eykur þátttöku feðra að nýju. Þetta er mikilvægt jafnréttismál sem við þurfum að takast á við, samhliða því að takast á við launamisrétti kynjanna.
Það má alveg nefna það hér að árið 2008 – fyrir hrun – var í undirbúningi að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði. Það er alveg ljóst að staðan í ríkisfjármálum hefur ekki gefið svigrúm til þess, en verkefnið er geymt, ekki gleymt og verður til skoðunar á næstu mánuðum.
Góðir fundarmenn.
Mótum framtíðina er yfirskrift þessa aðalfundar BHM. Það er stórt viðfangsefni en jafnframt eitthvað sem við glímum öll við á einn eða annan máta í lífi okkar og starfi. Fólk nálgast þetta hins vegar á mismunandi hátt. Ein leiðin er sú að horfa sífellt um öxl, líta með söknuði til þess sem áður var og hugsa fyrst og fremst um að endurheimta það sem við teljum hafa glatast. Auðvitað getur þetta í einhverjum tilvikum átt rétt á sér. Ég hvet þó til þess að við horfum fyrst og fremst fram á veginn með eftirvæntingu og vilja til þess að skapa eitthvað nýtt.
Ég kom í gær heim af fundi heilbrigðisráðherra Evrópuríkja sem fram fór í Horsens í Danmörku. Þar er verið að nýta tæknina til að stuðla að valdeflingu (e. Enpowerment) með áherslu á aukna ábyrgð fólks á eigin heilsu og þátttöku í meðferð. Þetta er viðamikið málefni sem gaman væri að ræða um í betra tómi.
Allsnægtatíminn sem kenndur er við árið 2007 kemur ekki aftur, enda vitum við nú að veisluföng þess tíma voru einkum burtflognar hænur og óorpin egg. Byggjum frekar á því sem við höfum í hendi og nýtum það vel. Síðast en ekki síst eigum við skipta með okkur þeim gæðum sem þjóðfélagið sannarlega hefur yfir að ráða á sanngjarnan hátt með jöfnuð að leiðarljósi.
Verkefnin eru næg og best gengi ef við gætum öll sameinað krafta okkar og togað í sömu átt.
Ég óska þess að lokum að þið eigið hér saman öflugan aðalfund, árangursríkan og skemmtilegan þar sem fram koma ótal hugmyndir sem innlegg í kröftuga stefnu sem móta mun framtíðina.
- - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir