Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp velferðarráðherra á námstefnunni „Foreldrar í vanda - börn í vanda“

Námstefnan; Foreldrar í vanda, börn í vanda; heilbrigð frumtengsl forsenda lífshæfni
Að námstefnunni stóðu Þerapeia ehf. Miðstöð foreldra og barna og Barnaverndarstofa
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Ágætu áheyrendur

Það er mér bæði ljúft og skylt að ávarpa ykkur í lok tveggja daga námstefnu þar sem fjallað hefur verið ítarlega um efnið „Foreldrar í vanda – börn í vanda“.

„Foreldrar í vanda – börn í vanda“ er viðfangsefni sem snertir mjög marga málaflokka hins nýja ráðuneytis velferðarmála sem  frá 1. janúar 2011 sameinaði félags- og heilbrigðismálin innan síns málefnasviðs.

Velferðarráðuneytið og einkum stofnanir þess hafa eða geta haft aðkomu að foreldrum og börnum í vanda á margvíslegan hátt. Það getur verið innan heilsugæslunnar, ungbarnaeftirlits og skólahjúkrunar þar sem nánast allir foreldrar og börn landsins eiga viðkomu. Í ljósi þess verður mikilvægi heilsugæslunnar og annarra heilbrigðisstofnana í því að koma auga á börn og fjölskyldur í vanda seint ofmetið og því skiptir samstarf heilbrigðiskerfisins og barnaverndarkerfisins miklu máli.

Þegar vandinn er orðinn sýnilegri, meiri eða alvarlegri kemur oft til kasta annars eða þriðja stigs þjónustustofnana svo sem  Þroska og hegðunarstöðvar eða sjúkrahúsa svo sem  barnaspítala Hringsins, Barna- og unglingageðdeildar, eða í tengslum við íhlutun barnaverndarnefnda, oft með aðkomu Barnaverndarstofu eða Barnahúss svo dæmi séu tekin.

Við vitum líka að vandi barna sem verður illa ráðið við í æsku flyst gjarna með börnum og ungmennum yfir á fullorðinsárin  og verður þá oft viðfangsefni opinberra stofnana velferðarkerfisins svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga, sjúkrastofnana, geðdeilda  og jafnvel dómskerfisins, lögreglu og fangelsismála. Því miður er hætt við að slíkur vandi flytjist milli kynslóða og birtist þá í því sem oft hefur verið kallaður „hinn félagslegi arfur.“

Sem skólamaður og skólastjóri til margra ára hef ég vitanlega ekki komist hjá því að mæta foreldrum og börnum í margvíslegum vanda. Oft er erfitt að segja til um orsakirnar en þó  hefur mér fundist augljóst að erfiðleikar barnanna í skólanum eigi oft rætur að rekja til  þess vanda sem foreldrar þeirra glíma við þótt hann sé oftast ekki  eins sýnilegur innan skólastarfsins  og sá vandi sem snýr beint að börnunum sjálfum.

Í skólaumhverfinu hefur löngum verið kallað eftir því að yfirvöld félag- og heilbrigðismála láti til sín taka með meira afgerandi hætti og fyrr á æviskeiði barnanna en bíði þess ekki að vandinn sé orðinn illviðráðanlegur.   Ég tel að skólinn sem slíkur hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna við að leysa vanda og hlú að  börnunum í  gegnum gott og uppbyggilegt uppeldis- og skólastarf en tek vissulega undir með þeim sem vilja öflugra samstarf allra þeirra sem koma að lífi og uppvexti barnanna  og þá sérstaklega með samstarfi foreldra við stofnanir  ríkis og sveitarfélaga en einnig með öflugra  samstarfi stofnananna innbyrðis.

Á þessari námstefnu hefur augum verið beint að mikilvægi frumtengsla barna við foreldra sína og hvaða afleiðingar það hefur ef börn verða fyrir tilfinningalegri vanrækslu  eða annarri  slæmri meðferð og vanrækslu í frumbernsku. Afleiðingar áfengis- og annarri vímuefnaneyslu mæðra á fóstur hafa verið sérstaklega til umfjöllunar.

Íslenskir skipuleggjendur námstefnunnar; Barnaverndarstofa, Miðstöð foreldra og barna og fyrirtækið Þerapeia ehf. hafa  fengið til liðs við sig tvær valinkunnar fræðikonur, annars vegar dr. Kari Killén frá Noregi og May Olofsson frá  Danmörku til þess að fræða fagfólk sem starfar að málefnum barna innan íslenska  velferðarkerfisins og enn fremur háskólafólk sem sér um að  mennta fagfólk til starfa á Íslandi sem mun vinna með foreldrum og börnum.

Þetta eru gífurlega mikilvæg viðfangsefni  ekki síst þar sem á síðustu árum hefur með rannsóknum verið hægt að sýna fram á  að „árin sem enginn man“ ,svo vitnað sé í bók eftir Sæunni Kjartansdóttur sálgreini,  hafi mun meiri áhrif á persónuleikaþroska einstaklingsins en áður var ætlað og geti hafa áhrif á sjálfsmynd hans og tengslamyndun til  allrar framtíðar.

Hér á landi hafa ýmsir sérfræðingar  vakið athygli stjórnvalda á því að koma þurfi upp sérhæfðri þjónustu fyrir foreldra, einkum mæður sem eru í vanda staddar á meðgöngu og eftir fæðingu barns, sem veldur því að þær geta illa myndað tengsl við barnið eða veitt því fullnægjandi umönnun, andlega og jafnvel einnig líkamlega. Þetta getur stafað af ýmsum ástæðum  svo  sem þunglyndi eða öðrum geðröskunum eða misnotkun áfengis og annarra vímugjafa.  Meðal þeirra sem hafa ýtt við stjórnvöldum eru frumkvöðlar á þessu sviði  og þar með taldir þeir sem standa að þessari námstefnu hér í dag. Þessir frumkvöðlar hafa verið duglegir að koma sjónarmiðum sínum og áherslu á framfæri við stjórnvöld og það er ánægjulegt að segja frá því að  Miðstöð foreldra og barna hlaut fjárstuðning frá velferðarráðuneytinu á síðasta ári og vonandi verður framhald á því á þessu ári.  Hins vegar væri mikilvægt að festa svona starf í sessi og möguleikarnir á því aukast eftir því sem landið rís.

Að mínu mati er eitt mikilvægasta verkefni ykkar einmitt það sem þið hafið verið að gera undanfarna tvo daga, að koma saman og læra af sérfræðingum og  hvert af öðru um þetta mikilvæga skeið í lífi hvers einstaklings og fjalla um það hvernig hægt sé að fyrirbyggja skaða og koma þeim börnum til  hjálpar sem mest þurfa á því að halda og sem allra fyrst.

Með aukinni þekkingu og vitundarvakningu um mikilvægi frumbernskunnar eru líkur til að hægt sé bæta lífsgæði barna og í auknum mæli koma í veg fyrir skaða af slæmu atlæti á bernskuárunum.

Það er von mín að þessi tveggja daga námstefna hafi gefið þátttakendum nægt veganesti að taka með sér á starfsvettvang með börnum og foreldrum. Ég þakka skipuleggjendum frumkvæðið að námstefnunni og erlendu fyrirlesurunum kærlega fyrir að heimsækja Ísland og miðla þekkingu sinni og reynslu til okkar.

Með þessum orðum segi ég námstefnunni slitið.

- - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta