Aðalfundur Hollvinasamtaka Grensáss
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Hollvinasamtaka Grensáss
10. maí 2012.
Kæru Hollvinir Grensásdeildar, góðir gestir.
Oft er talað um að hve gott sé að eiga hauk í horni og til þess varð mér einmitt hugsað þegar ég var beðinn að segja nokkur orð á aðalfundi Hollvina Grensásdeildar. Orðasambandið merkir að eiga sér hjálparhellu, - einhvern velviljaðan sem er tilbúinn til aðstoðar þegar á þarf að halda. Hefur þetta í skýringum verið tengt því að áður þóttu fálkar – sem einnig eru kallaðir haukar - afar dýrmætir, þá einkum vegna notkunar þeirra við veiðar.
Allt á þetta einkar vel við um hollvinasamtökin sem eru svo sannarlega velviljuð og hafa reynst öflugur stuðningur við starfsemi endurhæfingarinnar hér á Grensásdeildinni. Og varðandi tenginguna við veiðar, þá hafa Hollvinasamtökin verið fengsæl við fjáröflun fyrir starfsemina og lyft ótrúlegum grettistökum sem mikið hefur munað um.
Í ársskýrslu ykkar kemur fram að megináhersla í starfi hollvinasamtakanna hafa á þessu ári snúist um leiðir til að finna lausnir á húsnæðisvanda Grensáss - og að svo verði áfram í starfsemi komandi árs, jafnframt því sem aðstoð verði veitt til kaupa á tækjum og búnaði sem deildina vanhagar um.
Nú sér fyrir endann á framkvæmdum við stækkun bílastæðisins við aðalinngang Grensásdeildar og yfirbyggingu yfir hluta þess og ætti verkinu að ljúka í þessum mánuði. Þetta er góður áfangi sem bætir mjög aðstæður þeirra sem hingað sækja þjónustu. Það var því sjálfsagt að mínu mati að veita aukið fé til verkefnisins þegar þörf krafði þar sem lægsta tilboð í verkefnið var yfir kostnaðaráætlun. Velferðarráðuneytið lagði samtals til verkefnisins rúmar 36 milljónir króna á móti 30 milljónum króna úr söfnunarsjóði ykkar Á rás fyrir Grensás. Framlag ykkar skiptir sköpum og við eigum ykkur að þakka að þetta verkefni er nú brátt í höfn.
Ég er fyllilega meðvitaður um það að aðstöðunni til endurhæfingar hér á Grensási er áfátt og að hér er unnið ómetanleg starf við erfiðar aðstæður. Auðvitað vil ég að úr þessu verði bætt, því þörfin fyrir úrbætur er svo sannarlega fyrir hendi. Ég tek undir það sem fram kemur í ársskýrslunni ykkar að ekki eigi einungis að horfa í kostnað við framkvæmdir til að leysa úr húsnæðisvandanum hér - heldur einnig að skoða þjóðfélagslegan ávinning af hverjum þeim sem hægt er með endurhæfingu að styðja út í lífið á nýjan leik og aftur til starfa. Að sjálfsögðu eigum við að taka þetta með í reikninginn og auðvitað eigum við ekki aðeins að horfa í krónur og aura, heldur einnig til þess hve miklu endurhæfing getur skilað í bættum lífsgæðum þeirra sem í hlut eiga.
Nýlega mælti ég á Alþingi fyrir nýju frumvarpi um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsendurhæfingarsjóði. Ég nefni þetta hér til að draga það fram að stjórnvöld leggja í vaxandi mæli áherslu á mikilvægi endurhæfingar og aðgerðir almennt til að styðja fólk til atvinnuþátttöku og virkrar samfélagsþátttöku eins og kostur er.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt eigi allir einstaklingar rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, hvort sem þeir eru á vinnumarkaði eða standa utan hans, að því gefnu að þeir uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti. Stefnt er að því að atvinnutengd starfsendurhæfing verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að einstaklingar sem þurfa aðstoð til að verða virkir í samfélaginu fái þjónustu við hæfi hverju sinni og er því gert ráð fyrir að fagaðilar innan fleiri en eins þjónustukerfis, svo sem heilbrigðiskerfis og félagslega kerfisins, vinni mjög náið saman þegar þess gerist þörf.
Í ársskýrslu ykkar er vísað til þess að heilbrigðisráðherra hafi árið 2010 ákveðið að ræða óformlega við lífeyrissjóðina um mögulega aðkomu að fjármögnun við endurbætur og stækkun Grensásdeildar – en samkvæmt frumáætlun um verkefnið var kostnaðarmat slíkra framkvæmda árið 2010 um einn milljarður króna.
Þessar hugmyndir tengjast ekki fyrst og fremst Grensási, heldur umræðum um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun enn stærra verkefnis sem er uppbygging Nýs Landspítala við Hringbraut. Undirbúningur að uppbyggingu Nýs Landspítala stendur nú þannig að Reykjavíkurborg hefur kynnt tillögu að nýju deiliskipulagi og er það mál allt í lögbundnu ferli. Forhönnun bygginga liggur fyrir og forval og útboð vegna framkvæmda fara fram í sumar. Tilboð ættu því að liggja fyrir í haust, Alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar.
Lífeyrissjóðirnir eru reglulega upplýstir um stöðu þessara mála og framvindu verkefnisins en eiginlegar viðræður um fjármögnun framkvæmda hafa ekki átt sér stað enn sem komið er. Ég legg hins vegar áherslu á að þetta mál er geymt en alls ekki gleymt og stefnt að viðræðum strax og það er tímabært.
Góðir fundarmenn.
Samtök Hollvina Grensásdeildar voru stofnuð 5. apríl 2006 í þeim tilgangi að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemina á Grensási með því að afla fjár og vekja athygli á mikilvægi starfseminnar á opinberum vettvangi.
Það er óhætt að segja að þið hafið náð ótrúlegum árangri á skömmum starfstíma samtakanna. Óeigingjarnt starf ykkar, óbilandi kraftur og bjartsýni hittir fólk fyrir eins og sést á því hve margir eru reiðubúnir að leggja af mörkum til fjársafnana sem þið standið fyrir. Það er mjög mikilvægt að lyfta upp því starfi sem fram fer á Grensási og varpa ljósi á þau kraftaverk, smá og stór, sem eiga sér stað á hverjum degi. Þetta hafið þið gert einstaklega vel og án efa vakið fjölda fólks til umhugsunar um dýrmæti þess að búa við góða heilsu, um það hve skjótt getur skipast veður í lofti í lífi hvers og eins – og hve miklu skiptir að eiga hauk í horni þegar á reynir.
Þakka ykkur fyrir.
- - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir