Ávarp velferðarráðherra á 36. þingi Sjálfsbjargar
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á 36. þingi Sjálfsbjargar
Reykjavík, 8. júní 2012
Ágætu þinggestir og félagar í Sjálfsbjörg.
Það er mér ánægjuefni að vera hér með ykkur á þessum fagra júnídegi þegar þið setjið 36. þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra. Tímasetningin er sjálfsagt engin tilviljun þar sem segja má að Sjálfsbjörg rekji upphaf sitt til Siglufjarðar fyrir 54 árum, ,,í byrjun sólmánaðar“ eins og frumkvöðullinn; Sigursveinn D. Kristinsson orðaði það, en félagið var formlega stofnað 10. Júní 1958.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum 54 árum - en það sem stendur þó óbreytt er að enn stendur Sjálfsbjörg í stafni og berst fyrir framförum og bættum lífsgæðum og lífskjörum fyrir fatlað fólk.
Þær miklu framfarir sem sannanlega hafa orðið á réttindum og kjörum fatlaðs fólks á þessu hálfrar aldrar tímabili eru kannski að mestum hluta að þakka sterkum hagsmunafélögum ýmissa hópa fatlaðs fólks. Með samtakamætti sínum og þrautseigju hafa bæði einstaklingar og félög stöðugt minnt stjórnvöld og Alþingi Íslendinga á nauðsyn umbóta og að fatlað fólk skuli njóta mannréttinda á við aðra þjóðfélagsþegna. Við stofnun landssambands Sjálfsbjargar 1959 var markmiðið einmitt að Sjálfsbjörg tæki forystu í baráttu fatlaðs fólks fyrir auknum réttindum og bættri aðstöðu með því til dæmis að auðvelda aðgengi að þjálfun og vinnu, auka menntun og koma á betri löggjöf.
Öll framantalin markmið hafa að meira eða minna leyti náð fram að ganga en vissulega er enn verk að vinna og Sjálfsbjörg heldur góðu heilli enn áfram að brýna stjórnvöld til dáða. Áður en lengra er haldið má ég til með að lýsa ánægju minni með að sjá hér í hópnum ýmsa frumkvöðla sem lengi hafa starfað með Sjálfsbjörgu, jafnvel frá fyrstu tíð. Mig langar að nefna sérstaklega Ólöfu Ríkarðsdóttur sem var um árabil forstöðumaður félagsmáladeildar hjá Sjálfsbjörg lsf. og í fylkingarbrjósti á vettvangi félagsmála hjá Sjálfsbjörg allt frá upphafi og er enn. Hún ætlaði að vera hér í dag, gat það því miður ekki vegna veikinda. Engu að síður vil ég nota tækifærið og þakka henni og öðrum frumkvöðlum framlag þeirra í þágu velferðarmála á Íslandi.
Ísland undirritaði Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 og segja má að sá samningur marki mikil tímamót fyrir allt fatlað fólk hvarvetna í heiminum og þar með talið á Íslandi. Alþingi hefur ákveðið að fullgilda samninginn, líkt og fram kemur í lögum um málefni fatlaðs fólks. Stefnt er að því undirbúningsvinnu vegna fullgildingarinnar ljúki á þessu ári og að frumvarp verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2013.
Undirbúningur að fullgildingu samningsins er hluti af þeirri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til 2014 sem ég lét vinna og lagði fyrir Alþingi í upphafi árs. Þar er einnig gert ráð fyrir mörgum öðrum framfaramálum sem meðal annars Sjálfsbjörg hefur barist fyrir. Af mörgum mikilvægum verkefnum sem þar er fjallað um, nefni ég sérstaklega aðgengismál fatlaðs fólks sem lengi hafa verið eitt helsta baráttumál Sjálfsbjargar. Nú eru aðgengismálin skilgreind á enn víðtækari hátt en hér á árum áður og aðgengi fyrir alla og algild hönnun er þar lykilatriði.
Aðgengilegar upplýsingar eru veigamikill liður í því að ryðja úr hindrunum úr vegi fólks með fötlun. Opnun Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar í dag er því merkilegur áfangi og stórt framfaraskref í þjónustu við fatlað fólk að þessu leyti. Guðbjörg Kristín, forstöðumaður Þekkingarmiðstöðvarinnar, segir nánar frá þessu á eftir og hversu þýðingarmikið þetta er fyrir margra hluta sakir. Fyrst og fremst vil ég óska Sjálfsbjörgu til hamingju með að hafa komið þessu verkefni til leiðar og þakka félaginu fyrir það alveg sérstaklega. Þessi þjónusta er mikilvæg, hún á eftir að nýtast vel og verður án efa stuðningur og hvati margra til aukinnar virkni og samfélagsþátttöku. Sjálfsbjörg hefur síðastliðin tvö ár verið í samvinnu við ráðuneytið vegna undirbúnings að stofnun Þekkingarmiðstöðvarinnar og nú sjáum við fram á gerð samnings ráðuneytisins við Sjálfsbjörg um hana og annan rekstur.
Góðir gestir.
Það hefur lengi vakið athygli mína og aðdáun hve Sjálfsbjörg er öflugur félagsskapur, hvað vinnubrögð ykkar eru fagleg og gagnrýni og aðhald gagnvart stjórnvöldum er jafnan málefnalegt og rökum stutt. Þess vegna er stjórnvöldum mikilvægt og nauðsynlegt að eiga við ykkur samstarf á sem flestum sviðum. Sú var reynslan við undirbúning að flutningi málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga, við gerð framkvæmdaáætlunar um málefni fatlaðs fólks sem nú liggur fyrir þinginu og eins við undirbúning að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem nú stendur yfir. Þið hafið einnig átt aðkomu að vinnu sem tengist mótun opinberrar húsnæðisstefnu og raunar fjölmörgum öðrum verkefnum eins og eðlilegt er þegar um er að ræða mál sem á einhvern hátt varða sérstaklega aðstæður fatlaðs fólks. Þannig er það oft, því enn eru margvíslegar hindranir í samfélaginu sem þarf að ryðja úr vegi til að tryggja rétt fatlaðs fólks til samfélagsþátttöku til jafns við aðra eins og vilji stendur til. Þetta er verkefni sem lýkur trúlega aldrei, en okkur miðar sífellt í rétta átt og hvert skref áfram er mikilvægt.