Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins 2012
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins 21. júní 2012.
Góðir ársfundargestir.
Síung stofnun
Tryggingastofnun ríkisins er ráðsett, komin hátt á áttræðisaldur. Hún er hornsteinn þess velferðarkerfis sem byggt hefur verið upp hér á landi á löngum tíma og hún hefur gengið í gegnum margvíslegar breytingar á langri leið. En þrátt fyrir háan aldur og ákveðinn virðuleika er Tryggingastofnun ríkisins líka síung, nútímaleg og framsýn eins og ýmis nýleg dæmi sanna. Mikil vinna hefur verið lögð í stefnumótun, innleiðingu gæðastjórnunar og þá er rafræn þjónusta stofnunarinnar er til fyrirmyndar og í stöðugri þróun.
Frábærar viðurkenningar á starfi TR
Skemmtilegast er að sjá hvernig öll þessi vinna hefur skilað sér, eins og sést til dæmis á því að í fyrra fékk TR viðurkenningu fyrir að vera hástökkvari ársins í könnun SFR um starfsumhverfi og starfsánægju og áfram lá leiðin upp á við í könnun þessa árs. Vefur TR var svo á þessu ári útnefndur besti vefur ríkisstofnunar í könnun þar sem lagt var mat á 267 opinbera vefi hjá ríki og sveitarfélögum. Lagt var mat á innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu og var það mat dómnefndar að vefur TR hefði að geyma gríðarlegt magn upplýsinga sem settar væru fram á skýran og aðgengilegan hátt. Síðast en ekki síst hreppti svo Sigríður Lillý, forstjóri stjórnunarverðlaun Stjórnvísi árið 2012 sem er mikill heiður og viðurkenning fyrir það góða starf sem hér hefur verið unnið.
Það skiptir líka miklu að þjónusta Tryggingastofnunar sé traust, skilvirk og hnökralaus, því fjöldi viðskipavina er mikill og þjónustan varðar afkomu þeirra. Þar má því aldrei út af bregða.
Samskipti VEL og TR – niðurskurður – aðhald
Velferðarráðuneytið og TR eiga alltaf í miklu samskiptum en síðustu misserin hafa þau trúlega verið meiri en oftast áður, enda mörg og stór verkefni sem unnið hefur verið að sem krefjast mikillar yfirlegu, upplýsinga og útreikninga. Verkefnin hafa ekki öll verið jafn ánægjuleg þar sem mæta hefur þurft óhjákvæmilegum kröfum um niðurskurð og aðhald.
Endurskoðun almannatryggingakerfisins – ellilífeyrisþegar
Svo er það stóra verkefnið um endurskoðun almannatryggingakerfisins sem unnið er að í ráðuneytinu með dyggri aðstoð Tryggingastofnunar. Í þeirri vinnu er ómetanlegt hvað gagnagrunnar Tryggingastofnunar eru öflugir og starfsfólk stofnunarinnar vel fært til þess að kalla fram upplýsingar og sinna flóknum útreikningum, oft á ótrúlega skömmum tíma. Almannatryggingakerfið er flókið en það er augljóst að sérfræðingar Tryggingastofnunar þekkja vel gangverkið og geta séð fyrir áhrif mögulegra breytinga og bent á hvaða lausnir eru færar og hverjar ekki.
Nú er svo komið í starfi nefndar Árna Gunnarssonar sem leiðir endurskoðun almannatryggingakerfisins að á morgun verður lögð fram tillaga um breytingar á þeim hluta sem snýr að ellilífeyrisþegum. Ég hef þegar fengið upplýsingar um meginefni tillögunnar og hún mun augljóslega einfalda bótakerfið til muna. Tillagan felur í sér töluverðan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en þess ber líka að geta að ellilífeyrisþegar hafa fengið loforð stjórnvalda um aðgerðir á næstu þremur árum sem fela í sér að meiri fjármunir verða settir inn í kerfið.
Markmiðin eru skýr. Í fyrsta lagi að tryggja afkomu ellilífeyrisþega, þ.e. örugga lágmarksafkomu. Í öðru lagi einföldun á kerfinu og í þriðja lagi að styrkja tengsl lífeyristekna og almannatryggingar.
Öryggi – trygg framfærsla – einfaldleiki/gagnsæi og tveggja stoða kerfi
Stjórnvöld eru vel meðvituð um aukin réttindi aldraðra í lífeyrissjóðum og ekki er hægt að neita því að þessi auknu réttindi spara útgjöld hins opinbera í okkar tekjutengda bótakerfi. Ég skil að mörgu leyti vel gagnrýni lífeyrisþega á tekjutenginguna eins og hún snýr að framfærsluuppbótinni frá því að hún var innleidd og tel nauðsynlegt og réttmætt að bregðast við þeirri gagnrýni.
Framfærsluuppbótin tryggir einhleypum lífeyrisþegum 203 þúsund krónur á mánuði og þeim sem búa með öðrum 175 þúsund. Fái lífeyrisþegar einhverjar greiðslur úr lífeyrissjóði njóta þeir þess ekki í auknum tekjum þar sem framfærsluuppbótin skerðist sem nemur krónu á móti krónu. Ég tel fulla ástæðu til að breyta þessu og draga úr skerðingunni. Það er hins vegar nauðsynlegt að halda því til haga að þær lágmarkstekjur sem framfærsluuppbótin tryggir lífeyrisþegum er mikilvæg og hefur reynst mörgum vel á erfiðum tímum þegar atvinnutekjur lífeyrisþega og í ýmsum tilfellum greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa dregist saman og fjármagnstekjur þeirra sem þær höfðu í mörgum tilvikum hrunið. Framfærsluuppbótin tryggir fólki alltaf ákveðna lágmarksfjárhæð og þannig hafa margir fengið tekjutap sitt bætt í gegnum framfærslutrygginguna sem þeir hefðu ekki fengið án hennar. Þá má líka benda á að hvergi í Evrópu er lágmarkið sem framfærsluuppbótin tryggir lífeyrisþegum jafn hátt yfir lægstu launum og hér á landi.
Undirhópar
Á vegum nefndarinnar um endurskoðun almannatryggingakerfisins hafa verið settir á fót þrír undirhópar. Einn sem fjallar um barnatryggingar, einn um greiðslur til foreldra langveikra barna og sá þriðji um starfsgetumat. Hugmyndin um barnatryggingar snýst um að í stað barnalífeyris og mæðralauna frá TR, barnabóta frá skattinum og greiðslum með börnum atvinnulausra verði tekið upp eitt kerfi þar sem fyrst og fremst verði horft á tekjur foreldra og fjölda barna og þá á ekki að skipta máli hvaðan tekjurnar koma.
Hugmyndin að baki greiðslum til foreldra langveikra barna snúast um að sameina umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur. Aðstoð við foreldra þessara barna yrði þá sett undir einn hatt, hvort sem þörfin fyrir aðstoð kemur til vegna umönnunar, kostnaðar sem veikindin valda eða tekjutaps foreldra.
Sigríður Lillý Baldursdóttir leiðir vinnuhópinn um starfsgetumat en þetta mat er nauðsynlegur undanfari breytinga á bótakerfi öryrkja. Það var mat okkar í velferðarráðuneytinu að vinnan við þetta mikilvæga verkefni um mótun kerfisins væri hvergi betur komin en hjá Tryggingastofnun. Hér er miðað við að sama mat verði notað til að meta starfsgetu fólks, hvort sem í hlut eiga almannatryggingar eða lífeyrissjóðir og best væri að sama máli gegndi um tryggingafélögin. Fulltrúar allra þessara aðila eiga sæti í hópnum sem er afar mikilvægt til að ná sem bestri niðurstöðu.
Ég vil einnig geta um tillögur sem nýlega voru kynntar um upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Lúðvík Geirsson leiddi starf vinnuhópsins sem kynnti þessar tillögur nýlega en verkefni hópsins er raunar hluti af mótun opinberrar húsnæðisstefnu sem nú stendur yfir undir stjórn velferðarráðuneytisins. Húsnæðisbótakerfinu er ætlað að tryggja öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi, þ.e. hvort sem fólk kýs að búa í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttaríbúðum. Í gildandi kerfi eru almennar húsaleigubætur mun lægri en vaxtabætur og uppbygging kerfanna ólík. Gert er ráð fyrir að húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima og verði að fullu greiddar úr ríkissjóði, en í gildandi kerfi annast sveitarfélög greiðslu húsaleigubóta. Jafnframt verði teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fyrirkomulag aðstoðar við heimili sem þurfa meiri stuðning en felst í nýju húsnæðisbótakerfi. Miðað er við að húsnæðisbætur verði samtímagreiðslur líkt og húsaleigubætur eru nú en sama máli gegnir ekki um vaxtabætur sem eru greiddar út árlega.
Góðir gestir.
Síðustu ár hafa verið þjóðinni erfið en það er farið að rofa til og mörg batamerki sýnileg. Stjórnvöld hafa frá upphafi lagt áherslu á að verja lágtekju- og millitekjufólk fyrir áhrifum kreppunnar og sú áhersla hefur gengið eftir í framkvæmd. Árin 2008-2010 rýrnuðu kjör lágtekjufólks um 9% á móti 38% rýrnun hjá hæsta tekjuhópnum. Botni kjaraskerðingar var náð árið 2010, nú eykst hagvöxtur og kaupmáttur fólks og einkaneysla sömuleiðis.
Þær aðgerðir stjórnvalda sem helst hafa varið kjör lægri tekjuhópa fólust einkum í hækkun lágmarksframfærslutryggingu almannatrygginga og hækkun vaxtabóta og atvinnuleysisbóta, jafnframt því sem skattbyrði fólks í millitekju- og lágtekjuhópum var lækkuð meðan hún var aukin hjá fólki í hærri tekjuhópunum. Tekjuskattbyrði í kreppunni hækkaði hjá um 40% fjölskyldna, þ.e. hærri tekjuhópunum en stóð í stað eða lækkaði hjá sex af hverjum tíu fjölskyldum, þ.e. lægri- og millitekjuhópum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið um umfang kreppunnar og afkomu ólíkra tekjuhópa. Stefán Ólafsson, formaður stjórnar TR er höfundur skýrslunnar ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi. Von er á annarri skýrslu frá þeim innan tíðar þar sem fjallað verður um skuldavanda, fjárhagsþrengingar heimila og hvernig lágtekjuhópum hefur reitt af í kreppunni og verður fróðlegt að sjá niðurstöðu skýrsluhöfunda um þau efni.
Góðir ársfundargestir.
Eins og fram er komið er unnið að stórum verkefnum á sviði almannatrygginga sem eru svo sannarlega ekki einföld og veltur á miklu að vel takist til. Ég er sannfærður um að við munum ná árangri og takast að gera núverandi kerfi betra, einfaldara, aðgengilegra og réttlátara. Að þessu stefnum við og það mun okkur takast með áframhaldandi góðu samstarfi ráðuneytisins og Tryggingastofnunar. Starfsfólk TR lyftir grettistökum á hverjum degi og saman geta ráðuneytið og stofnunin flutt fjöll.
Þakka ykkur fyrir.
- - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir