Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ráðstefnu Hollvinasamtaka líknardeilda

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
á ráðstefnu Hollvinasamtaka líknardeilda 24. september 2012

Góðir gestir.

Það er ekki lítið lagt undir á þessari ráðstefnu; – stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið eins og það snýr að notendum frá vöggu til grafar – og eins og segir í ráðstefnuboði: að hafa áhrif á Alþingi og ríkisstjórn að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi í samræmi við þarfir, skoðanir og vilja fólksins í landinu“.

Svo ég vísi áfram í ráðstefnuboðið þá verða hér kynntar frumhugmyndir að notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi – sem móta ætti í samráði við fólkið í landinu, notendur og aðstandendur sjúklinga – og enn fremur segir að fyrirmyndin sé sótt til sambærilegs kerfis í Noregi; „Samhandlingsreformen“ sem mótað var í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Ég vil í upphafi þakka Hollvinasamtökum líknardeilda fyrir að halda þessa ráðstefnu og það er gott fyrir mig að fá tækifæri til að ræða þessi mál hér og gera grein fyrir stefnumótun stjórnvalda á sviði heilbrigðismála.

Ég þekki nokkuð til norsku stefnunnar sem hér er vísað til og hún sýnir glöggt hvað viðfangs- og úrlausnarefni velferðarkerfa Norðurlandaþjóðanna á sviði velferðarmála eru áþekk og sömuleiðis áherslurnar.

- Mikilvægi lýðheilsu- og forvarnarstarfs verður mönnum æ ljósara til að sporna við vexti margvíslegra lífsstílstengdra sjúkdóma og snúa þróuninni við. Markmiðið er að ráðast að rót vandans í stað þess að bregðast við síðar þegar í óefni er komið. Áhersla á þetta var innsigluð hér á landi með stofnun Lýðheilsustöðvar árið 2003 og með sameiningu hennar og Embættis landlæknis á liðnu ári var lögð áhersla á að efla og styrkja lýðheilsustarf í landinu enn frekar.

- Þörfin fyrir samþættingu ólíkra þjónustukerfa liggur einnig fyrir; að veita fólki heildstæða þjónustu með því að brjóta niður múra og efla samstarf milli fagfólks og stofnana og síðast en ekki síst að efla nærþjónustuna þannig að grunnþættir heilbrigðis- og velferðarþjónustu séu sem mest aðgengilegir notendum í þeirra heimabyggð. Hér á landi var stigið stórt skref í þessa átt með flutningi ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og nú er unnið að sambærilegri tilfærslu á þjónustu við aldraða.

- Loks nefni ég aukið samráð við sjúklinga og aðra notendur velferðarþjónustu. Þetta er áhersla sem lengi hefur verið barist fyrir eins og endurspeglast glöggt í einkunnarorðum Öryrkjabandalags Íslands: „Ekkert um okkur án okkar.“ Þessi barátta hefur skilað árangri, bæði hér og annars staðar hjá nágrannaþjóðum okkar og óhætt að segja að snúið hafi verið frá þeirri forræðishyggju sem var einkennandi í velferðarþjónustu lengi vel til stóraukins samráðs og samstarfs við notendur og hagsmunasamtök þeirra.

Áætlanagerð og stefnumótun í heilbrigðismálum hér á landi hefur verið að festa sig betur í sessi á liðnum árum og áratugum. Fyrsta heilbrigðisáætlun stjórnvalda var samþykkt árið 1991 og gilti til ársins 2000. Ný langtímaáætlun í heilbrigðismálum var samþykkt árið 2001 og árið 2007 var birt heildstæð lyfjastefna fyrir árin 2007–2012 sem nú er verið að endurskoða.

Góður árangur

Þótt eflaust megi deila um marga þætti varðandi mótun og framkvæmd stefnu í heilbrigðismálum hér á landi sýnist mér augljóst að margt sé hér gert bæði rétt og vel. Ég nefni sem dæmi niðurstöður Euro Health Consumar Index árið 2012 sem kynntar voru á Evrópuþinginu í Brussel fyrir skömmu. Þar var Ísland í þriðja efsta sæti þeirra 34 landa sem úttektin náði til en þeir þættir sem voru skoðaðir sneru að réttindum sjúklinga og upplýsingum til þeirra, aðgengi að meðferð, árangri meðferðar, umfangi og útbreiðslu þjónustu og loks atriðum sem snúa að lyfjamálum.

Góður árangur hér á landi kemur einnig fram í mælingum OECD sem síðast birti samantekt árið 2011 um stöðu heilbrigðismála í 34 aðildarríkjum stofnunarinnar og segja má að góður árangur sem birtist þar sé studdur niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem leiðir í ljós að hvergi deyja færri sjúklingar í kjölfar skurðaðgerða en hér á landi. Rannsóknin náði til um 500 sjúkrahúsa í 28 Evrópulöndum, svo þetta er sannarlega eftirtektarverður árangur sem full ástæða er til að halda á lofti.

Gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar – undirbúningur og samráð

Síðastliðin tvö ár hefur verið unnið að gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2020 og verður hún lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar í október. Áætlunin hefur það að markmiði að stuðla að því að heilbrigði þjóðarinnar sé eins gott og verða má.

Undirbúningurinn hefur ekki farið fram í tómarúmi. Í byrjun unnu sérfræðingar ráðuneytisins í samstarfi við sérfræðinga Embættis landlæknis og Lýðheilsustöðvar ákveðinn ramma að grunngerð og megináherslum áætlunarinnar. Þeir höfðu einnig samráð við ýmsa sérfræðinga í tilteknum geirum heilbrigðisþjónustu. Þar að auki tóku þeir mið af þeirri þróun sem hefur verið erlendis og þá sérstaklega á vettvangi Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en á nýafstöðnu haustþingi stofnunarinnar var samþykkt heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

Í framhaldi af þessum undirbúningi sérfræðinga hófst víðtækt samráðsferli. Í desember 2011 var haldinn fundur með um 20 lykilaðilum úr heilbrigðisþjónustu, frá stærstu hagsmunasamtökum og háskólasamfélaginu um þær höfuðáherslur sem settar höfðu verið fram. Í mars 2012 var svo haldinn fundur með um 220 manns þar sem fjallað var ítarlega um fyrirliggjandi drög að heilbrigðisáætlun. Fulltrúar á þessum fundi komu frá heilbrigðisþjónustunni, háskólum, sveitarfélögum, lögreglu, ýmsum hagsmunasamtökum og faghópum. Fundurinn var í þjóðfundarformi og unnið í hópum sem hver og einn fékk eitt afmarkað viðfangsefni, fór yfir það sem þegar hafði verið sett fram og eftir atvikum gerði þær tillögur að sínum eða lagði fram nýjar.

Að loknum þessum fundi var samdóma álit þeirra sem héldu utan um undirbúninginn að dýpka þyrfti frekar umræðu um þjónustu sjúkrahúsa og þjónustu við fólk með geð- eða fíknivanda. Tuttugu og fimm manns tóku svo þátt í fundi sem haldinn var í maí um þessa þætti.

Í ágústlok var efnt til fundar til að skilgreina hver væru stærstu verkefnin sem þyrfti að takast á við á næstu árum til að tryggja sem best heilbrigði þjóðarinnar. Þarna kom saman stór hópur fólks úr heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustu, háskólum og frá heildarsamtökum notenda – allt einstaklingar með mikla yfirsýn og reynslu af heilbrigðis- og félagsmálum.

Eins og gefur að skilja var úr miklu efni að vinna eftir þetta samráðsferli og það hefur verið handleggur að vinna úr því öllu. Þann 10. september síðastliðinn voru drög að heilbrigðisáætlun birt opinberlega á vef ráðuneytisins til umsagnar. Öllum sem þátt höfðu tekið í samráðsferlinu var jafnframt send tilkynning um að drögin hefðu verið birt og sömuleiðis öllum stofnunum ráðuneytisins.

Boston Consulting Group

Samhliða vinnu við gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar hefur í velferðarráðuneytinu farið fram umfangsmikil greining á stöðu heilbrigðisþjónustunnar í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group og sérfræðinga utan ráðuneytisins. Á grundvelli þeirrar greiningar voru settir á fót sex starfshópar sem fjallað hafa um hina ýmsu þætti heilbrigðiskerfisins, s.s. þjónustustýringu, heilbrigðisumdæmin og verkefni á hverju svæði, sjúkraflutninga og fleira.

Það má segja að nokkrir þræðir hafi komið oftast fram í öllu því samráðsferli sem átt hefur sér stað í tengslum við heilbrigðisáætlunina. Viðfangsefni sem flestir virðast sammála um að þurfi að leysa til að við getum áfram verið með góða heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Við þurfum að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu betur en við höfum gert. Þegar fólk glímir við sjúkdóma, sérstaklega langvinna sjúkdóma, þá er samfella það sem sóst er eftir, að haldið sé utan um fólk þegar það þarf og það lendi ekki á milli þjónustukerfa.

Það þarf að koma á góðum rafrænum skrám og gagnagrunnum þannig að þeir sem annast sjúklinga hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum. Þetta sparar tíma bæði starfsmanna og notenda þjónustunnar og er ákveðin forsenda þess að hægt sé að fylgjast með gæðum og öryggi.

Tryggja þarf greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem fólk þarf á að halda á viðeigandi þjónustustigi. Í þessu felst að bið eftir þjónustu sé ásættanleg og að þjónustan sé aðgengileg bæði fjárhagslega og landfræðilega. Þjónustan sé veitt í nærumhverfi ef hægt er og að hún sé ekki dýrari en svo að allir hafi efni á henni. Öllum er ljóst að ekki er hægt að veita alla þjónustu alls staðar þannig að þarna koma líka inn sjúkraflutningar bæði á landi og í lofti.

Þessi atriði eru líka mjög mikilvægir áhersluþættir í heilbrigðisáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Að sjálfsögðu eru mjög margir aðrir þættir sem lögð er áhersla á. Svo sem að draga úr ótímabærum dauðsföllum af völdum sjúkdóma. Draga úr slysum. Mjög mikil áhersla kemur fram á að vinna gegn áhættuþáttum. Þar eru efst á blaði reykingar og óhófleg áfengisneysla, kyrrseta, fátækt og fleira.

Í heilbrigðisáætluninni eru sem sagt sett fram þau viðfangsefni sem mest geta ógnað góðu heilsufari landsmanna og takast þarf á við til að bæta um betur. Til að mæta þessu eru svo settir fram mælikvarðar og tímasettar aðgerðir sem flestar eiga að koma til framkvæmda á næstu 2–5 árum. Í undirbúningi fjárlaga hvers árs verður svo farið yfir áætlunina og reynt að tryggja fé til þeirra aðgerða sem áætlaðar hafa verið. Árið 2016 verður farið yfir heilbrigðisáætlunina og aðgerðaáætlunin uppfærð.

Markmiðið með ráðstefnunni í dag er að hafa áhrif á Alþingi og ríkisstjórn að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi í samræmi við þarfir, skoðanir og vilja fólksins í landinu, þetta segir í auglýsingu ráðstefnunnar.

Það er enginn vafi á því að allir geta deilt þeirri skoðun að velferðarþjónustan er fyrir fólkið í landinu, hún þarf að miðast við þarfir þeirra sem hennar njóta og það þarf að tryggja að þeir sem þurfa fái notið hennar. Fólk hefur hins vegar mjög mismunandi skoðanir á hvaða leiðir eru bestar til að tryggja þetta og því verður stefnumótun og ákvarðanataka aldrei óumdeild. Við teljum þó að með því mikla samráði sem haft hefur verið við fólk með mismunandi bakgrunn að við séum búin að fá fram aðalatriðin, þau viðfangsefni sem við brýnast er að takast á við til að tryggja sem best heilbrigði þjóðarinnar til ársins 2020. Hvernig tekst að takast á við þau viðfangsefni kemur meðal annars til með að velta á fjárveitingum til verkefnanna á næstu árum.

Í umræðum um velferðarkerfið og velferðarþjónustuna, ekki hvað síst heilbrigðisþjónustuna, er ekki hægt að aðskilja fjármagn og kostnað og þær kröfur um þjónustu sem við gerum. Íslendingum hefur gengið verr en flestum hinna Norðurlandaþjóðanna að sjá samhengi á milli skatta og velferðarþjónustu. Þessu þarf að breyta.

Hvernig greiðum við fyrir heilbrigðisþjónustu? Hvað ætlum við að greiða? Við erum að innleiða nýtt greiðslufyrirkomulag varðandi lyf þar sem markmiðið er að jafna greiðslur milli lyfja- og sjúkdómaflokka. Í framhaldinu þarf að vinna sambærilegar breytingar varðandi annan heilbrigðiskostnað. Hvert er eðlilegt hlutfall kostnaðar á milli notenda og hins opinbera? Beinn hlutur sjúklinga hefur verið á bilinu 16-20% af heildarkostnaði. Er það hæfilegt?

Mikil og hörð aðlögun í ríkisfjármálum hefur átt sér stað á liðnum árum, eftir hrun. Heilbrigðisþjónustan sem ríflega 20% af fjárlögum ríkisins hefur fundið verulega fyrir því. Nú er slíkri aðlögun lokið og komið að því að skila til baka á næstu árum því sem við teljum vera forgangsverkefni, skilgreina helstu veikleikana, bæta úr því sem brýnast er að laga; hvort sem það snýr að tækjum og búnaði, menntun fagfólks eða bættri mönnun.

Við höfum verið í fremstu röð, við erum í fremstu röð og við eigum að tryggja þá stöðu okkar með heilbrigðiskerfi sem byggist á traustu fagfólki með öfluga fagþekkingu, besta tækjabúnaði  - og jöfnu aðgengi óháð búsetu og efnahag, öryggi og gæðum.

En munum að meginverkefnið er að minnka þörfina fyrir heilbrigðisþjónustu með bættum forvörnum og bættum lífsstíl. Það er gott að þessi ráðstefna dregur þessi sjónarmið fram.

Kærar þakkir til Hollvinasamtakanna fyrir þessa ráðstefnu. Ég treysti á að samtökin komi sínum sjónarmiðum á framfæri við stefnumótun heilbrigðisáætlunarinnar og hafi þannig áhrif. Alþingi fær áætlunina til meðferðar og fer hún til umsagnar til fjölmargra aðila í þeirri umfjöllun, svo að í heild ætti að koma öflug áætlun, þótt auðvitað geti slík áætlun aldrei tekið á öllum viðfangsefnum samtímans.

Megi ráðstefnugestir eiga ánægjulegan og gagnlegan dag.

 

- - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta