Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Vinnumál-Frettir

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2012

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Ágæta stjórn og starfsfólk Vinnumálastofnunar og aðrir ársfundargestir.

Mér varð hugsað til þess þegar ég fór að undirbúa ávarp á ársfundi Vinnumálastofnunar að þetta er í þriðja sinn sem ég sæki ársfundinn eftir að ég varð velferðarráðherra, en sá fyrsti sem ég sótti var haldinn í október árið 2010.

Margt hefur gerst og margt hefur breyst til hins betra síðan þá. Í október árið 2010 mældist atvinnuleysi á landsvísu um 7,5%. Þann sama mánuð bárust Vinnumálastofnun fimm tilkynningar um hópuppsagnir þar sem tæplega 200  manns var sagt upp störfum. 

Samkvæmt nýjustu tölum um atvinnuástandið, þ.e. í ágúst síðastliðnum, mældist atvinnuleysi á landsvísu 4,8% og engin tilkynning barst Vinnumálastofnun um hópuppsagnir. Þetta er mikill bati en hann hefur svo sannarlega ekki orðið til af sjálfum sér. Snemma eftir hrun varð samkomulag um að ráðast í þjóðarátak gegn atvinnuleysi þar sem opinberir aðilar, aðilar vinnumarkaðarins, félagasamtök og raunar allir þeir sem eitthvað hafa getað lagt af mörkum hafa tekið höndum saman um að vinna gegn atvinnuleysi og afleiðingum þess. Það er líka mikið í húfi eins og margsinnis hefur verið bent á. Langtímaatvinnuleysi lamar þrek einstaklinganna sem fyrir því verða og hefur gífurleg og neikvæð áhrif fyrir samfélagið í heild. Það hefur reynst almennur skilningur fyrir þessari staðreynd og þess vegna hefur náðst samstaða um fjölmargar aðgerðir sem hafa skilað ótrúlega miklum árangri.

Ég þarf ekki að fræða starfsfólk Vinnumálastofnunar um þau viðamiklu verkefni og vinnumarkaðsúrræði sem ráðist hefur verið í til að mæta þörfum atvinnuleitenda, skapa þeim tækifæri til starfsþjálfunar, möguleika til þess að mennta sig eða komast í tímabundin störf. Vinnandi vegur – Nám er vinnandi vegur – Ungt fólk til athafna – ÞOR; þekking og reynsla, - allt eru þetta verkefni sem Vinnumálastofnun hefur stýrt og leitt áfram af óbilandi krafti og þrautseigju og fyrir það vil ég þakka ykkur sérstaklega.

Sannkallað þjóðarátak gegn atvinnuleysi og afleiðingum þess hefur skilað miklum árangri. Viljinn hefur staðið til þess að virkja fjármuni atvinnuleysistryggingakerfisins og nýta þá til að greiða fyrir nám eða niðurgreiða stofnkostnað við ný störf og hafa milljarðar króna sem ella hefði verið varið í bætur nýst í þessu skyni, samfélaginu öllu til góðs.

Efnahagsbati

Botni kreppunnar á Íslandi var náð um mitt ár 2010 og nú siglum við hraðbyri inn í bjartari framtíð. Hagvöxtur eykst hvort sem litið er til neyslu, fjárfestinga eða útflutnings og samhliða þessari þróun dregur úr atvinnuleysi og störfum fjölgar. Við höfum ástæðu til þess að vera bjartsýn og Íslendingar eru raunar, - samkvæmt fjölþjóðlegum mælingum þar sem væntingar eru mældar, - þjóða bjartsýnastir á framtíðina og eigin hag.

Stefna í vinnumarkaðsmálum þarf að hvetja fólk til atvinnuleitar

Í Fréttablaðinu í gær birtist prýðileg grein eftir Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar, þar sem hann lýsir mikilvægi þess að stefna í vinnumarkaðsmálum hvetji fólk til atvinnuleitar. Slík stefna segir hann að byggist á skilvirkri vinnumiðlun og atvinnuleit, þjálfunartækifærum og starfsendurhæfingu, mati á heilsufarsástandi, stuðningi við fyrirtæki sem eru þátttakendur í vinnumarkaðsúrræðum, mat á áhrifum af löngum bótatímabilum frá opinberum framfærslukerfum og stuðning við eigin atvinnusköpun eða útfærslu viðskiptahugmynda.

Ég tek heilshugar undir orð Gissurar og tel raunar að við höfum borið gæfu til að vinna í þessum anda í öllum meginatriðum. Ég tek líka undir orð Gissurar sem bendir á að Vinnumálastofnun sé eina sérfræðistofnun landsins í náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur, miðlun starfa og skipulag vinnumarkaðsúrræða og því ómetanlegt verkfæri stjórnvalda við innleiðingu ákvarðana sinna.

Auðvitað veit ég að forstjóri Vinnumálastofnunar beinir þarna spjótum sínum að þeirri ákvörðun stjórnvalda að fela Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins að annast vinnumiðlun og ráðgjöf við hluta atvinnuleitenda. Ég legg áherslu á að þetta er tilraunaverkefni til þriggja ára sem stjórnvöld skuldbundu sig til að láta á reyna í síðustu kjarasamningum. Við skulum ekki gefa okkur niðurstöðurnar fyrir fram og auðvitað munum við meta árangurinn og spyrja þá að leikslokum. Að óreyndu er það hins vegar skoðun mín að þetta séu verkefni sem eigi að vera á hendi hins opinbera en í sem mestu samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og aðra sem þessi mál varða. Það er staðreynd að þjónusta við atvinnuleitendur er mjög vandasöm og viðkvæm og það verður að tryggja jafnræði með atvinnuleitendum í öllu sem snýr að þjónustu við þennan breiða hóp fólks.

Atvinnuástand og sérstaða Íslands

Í gær var kynnt ný skýrsla Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif mótvægisaðgerða stjórnvalda á skuldavanda, fátækt og atvinnu. Þar er sérstaklega bent á hve vel  hefur tekist að halda atvinnuleysi niðri í samanburði við aðrar þjóðir sem glímt hafa við kreppu, eins og Finnar og Svíar á sínum tíma og nú Írar. Tilgáta skýrsluhöfunda er sú að vernd lægri tekjuhópa og endurdreifing velferðarútgjalda og byrða á Íslandi hafi haft mikla þýðingu fyrir viðhald einkaneyslu og skárra atvinnustigs en hjá öðrum kreppuþjóðum. Höfundarnir nefna einnig sérstaklega áhrif ýmissa verkefna hér sem miðað hafa að fjölgun nýrra starfa og virkniaukandi aðgerðir þar sem þeir geta sérstaklega um verkefnin Allir vinna, Ungt fólk til athafna; ÞOR-Þekking og reynsla; Nám er vinnandi vegur; og Vinnandi vegur.“ Það er mjög margt athyglisvert í þessari skýrslu sem ég hvet ykkur til að skoða.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er miðað við verulega lækkun framlaga í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem gert er ráð fyrir að útgjöldin dragist saman um 5,2 milljarða króna miðað við áætlunina 2012. Þar munar mestu um minnkandi atvinnuleysi og síðan er það margumrædd og umdeild ákvörðun um að framlengja ekki tímabundna heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta í fjögur ár. Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru þær að samtals muni um 3.400 atvinnuleitendur fullnýta bótarétt sinn árið 2013 og eru útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækkuð um 1,8 milljarð króna vegna þessa.

Enn fremur gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir verulegum niðurskurði í rekstri stofnunarinnar. Ástæða þessa er meðal annars að felldar voru niður tímabundnar fjárveitingar vegna framkvæmda á tilteknum verkefnum. Ég geri mér fyllilega ljóst að þessum verkefnum er hvergi nærri lokið og munum við fara yfir þessi mál með fjárlaganefnd þingsins.

Það liggur í augum uppi að vandamálin gufa ekki upp þótt atvinnuleitendur hverfi af atvinnuleysisskrá af því að þeir hafa fullnýtt bótarétt sinn og eitthvað þarf að gera til að mæta þessum vanda. Í fjárlagafrumvarpinu er raunar tekið á þessu, því þar er gert ráð fyrir töluverðum útgjöldum vegna mótvægisaðgerða sem nú er unnið að því að útfæra í samráði við fulltrúa sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins. Hvernig það svigrúmi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verður nýtt er sameiginlegt verkefni allra þeirra sem koma að málefnum þess hóps sem er án atvinnu og það skiptir miklu máli að sveitarfélögin taki þátt í því verkefni af fullum hug.  Verkefni næstu vikna eru að finna sameiginlega lausn og að því er unnið.

Starfsendurhæfing

Ég hef þegar talað lengi – og hef þó enn ekkert rætt um atvinnutengda starfsendurhæfingu sem er meðal okkar mikilvægustu verkefna eins og þið vitið gerst. Tímamót urðu í júní síðastliðnum þegar lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða voru samþykkt á Alþingi. Það er óhætt að segja að víðtæk samstaða hafi verið um þetta þjóðþrifamál, enda markmiðið að skapa heildstætt kerfi endurhæfingar þar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er með það að markmiði að gera sem allra flestum kleift að vera virkir á vinnumarkaði. Lögin skapa mikilvæga umgjörð um fyrirkomulag endurhæfingarmála en auðvitað þarf að þróa þetta risavaxna verkefni áfram til að ná sem mestum árangri og veita sem allra besta þjónustu þeim sem hafa getu og vilja til að nýta sér hana.

Góðir fundarmenn.

Eins og ég nefndi í upphafi er allt önnur og betri staða í þjóðfélaginu nú en var árið 2010 og við getum vel leyft okkur að vera bjartsýn. Verkefni Vinnumálastofnunar eru þó enn ærin og verða það sjálfsagt næstu árin. Þótt atvinnuleysi sé hér ekki svo ýkja mikið í samanburði við margar aðrar þjóðir er það enn raunverulegt vandamál sem verður að fást við af fullri alvöru. Langtímaatvinnuleysið er alvarlegast og eins og við vitum er sérstaklega mikilvægt að huga að þeim hópum sem hvað erfiðast eiga með að komast inn á vinnumarkaðinn; ekki síst ungt fólk, fólk með skamma skólagöngu að baki og innflytjendur.

Verum bjartsýn – vandamálin eru til þess að leysa þau. Það er raunar viðhorfið sem mér hefur virst starfsfólk Vinnumálastofnunar hafa að leiðarljósi í stórum verkefnum, við erfiðar aðstæður og oft undir ómálefnalegri gagnrýni úr ýmsum áttum þar sem stofnunin hefur ekki notið sannmælis.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil ljúka máli mínu á því að færa ykkur starfsfólkinu mínar bestu þakkir fyrir þrautseigju ykkar, bjartsýni og dugnað í öllum þeim vandasömu verkefnum sem þið hafið tekist á við og hrint í framkvæmd á undangengnum misserum.

 - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta