Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Notendastýrð persónuleg aðstoð

Málþing um innleiðingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Málþing á vegum Öryrkjabandalags Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Haldið í Hörpu 11. október 2012.

Góðir gestir.

Þetta er stórt þing um mikilvægt málefni sem lengi hefur verið unnið að hér á landi og er nú óhætt að segja að sé komið með góðan byr í seglin.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu 30. mars árið 2007. Þar með var staðfestur vilji íslenskra stjórnvalda til þess að skipa sér í fremstu röð meðal þjóða á sviði mannréttindamála, viljinn til þess að virða mannréttindi fatlaðs fólks jafnt í orði og á borði, viljinn til þess að tryggja eitt samfélag fyrir alla þar sem gengið er út frá rétti fatlaðs fólks til að standa jafnfætis öðrum í samfélaginu og vinna að nauðsynlegum úrbótum til að svo megi verða.

„Vilji er allt sem þarf“ er stundum sagt og raunar mikið til í því. Ég tel engum blöðum um það að fletta að þegar íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2007 hafi þau jafnframt staðfest skýran vilja þjóðarinnar til þess að styrkja stöðu og bæta aðstæður fatlaðs fólks með mannréttindasjónarmið að leiðarljósi. Þetta er grundvallaratriði, því hér erum við að ræða málefni sem er þess eðlis og þannig að umfangi að allir þurfa að leggja sitt af mörkum.

Með undirritun sáttmálans hafa stjórnvöld gefið út afdráttarlausa yfirlýsingu um hvert skuli stefna í margvíslegum réttindamálum fatlaðs fólks sem snerta flest eða öll svið samfélagsins. Þessi stefna var síðan innsigluð á afgerandi hátt þegar Alþingi fól velferðarráðherra með lögum vinnu við gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks þar sem fram kæmu meðal annars tímasettar aðgerðir til fullgildingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin var staðfest sem þingsályktun frá Alþingi í júní á þessu ári og þar með var jafnframt innanríkisráðuneytinu falið að leiða vinnuna við innleiðingu sáttmálans.

Ég þykist vita að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi í upphafsávarpi sínu gert grein fyrir því í hverju fyrirhuguð fullgilding felst og lýst þeirri ábyrgð sem stjórnvöld axla með því að undirgangast mannréttindaskuldbindingar á alþjóðlegum vettvangi líkt og hér er um að ræða. Við tökum þetta mjög alvarlega og nú þegar hefur fjölmörgum verkefnum vegna fullgildingarinnar verið hrint í framkvæmd eða eru í undirbúningi eins og ég kem nánar að síðar.

Góðir gestir.

Það má öllum vera ljóst að í þessu risavaxna verkefni dugir engin léttúð eða sýndarmennska. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er miklu meira en orð á blaði til að flagga á tyllidögum. Hann felur í sér skuldbindingu um að innleiða viðhorf og vinnubrögð, verklag og framkvæmd, aðhald og eftirlit á fjölmörgum sviðum sem varða réttindi, stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Grundvöllur sáttmálans byggist á virðingu fyrir persónufrelsi, banni við mismunun, þátttöku, aðgengi, virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins og jafnrétti kynja. Í fimmtíu greinum samningsins er kveðið á um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengismál, samfélagsþátttöku, rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, réttinn til atvinnu og svo mætti áfram telja.

Í þessu felast mörg og viðamikil verkefni sem krefjast mikillar vinnu, undirbúnings og samhæfingar milli stjórnsýslustiga og fjölmargra stofnana samfélagsins með þátttöku hagsmunasamtaka og raunar alls almennings. Allt þetta og meira þarf til að sá árangur náist sem að er stefnt og fullgilding sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér.

Mannréttindi í mótun

Mannréttindi eru okkur öllum hugleikin og ýmis mannréttindi hafa lengi verið tryggð í stjórnarskrám þjóða og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Vandinn felst hins vegar í því að tryggja mannréttindi allra, að búa svo um hnútana að allir fái í raun notið þeirra mannréttinda sem eiga að heita tryggð í viðkomandi samfélagi. Réttindabarátta fatlaðs fólks á liðnum árum hefur ekki hvað síst snúist um þetta: Að leiða stjórnvöldum og öllum almenningi fyrir sjónir að mannréttindi felast í því að fólk fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, njóti sjálfræðis og sjálfstæðis eftir því sem nokkur kostur er og þá með stuðningi eftir því sem þess gerist þörf.

Mikið hefur áunnist í þessari baráttu fatlaðs fólks og miklar breytingar orðið til hins betra í þessa veru. Skýrt dæmi er sú bylting sem varð þegar réttur fólks til sjálfstæðrar búsetu eða búsetu með stuðningi varð ofan á í stað stofnanabúsetu fatlaðs fólks sem lengi hafði verið landlæg.

Svokallað notendasamráð hefur öðlast sess í þjónustu við fatlað fólk og í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks er einmitt skilgreint verkefni um að efla og styrkja notendasamráð og valdeflingu. Sem kunnugt er stýrir velferðarráðuneytið verkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, líkt og kveðið var á um í breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks sem tók gildi í janúar 2011. Lög um réttindagæslu fatlaðs fólks voru samþykkt frá Alþingi á síðasta ári og hafa réttindagæslumenn tekið til starfa um allt land, en meginverkefni þeirra er að aðstoða og leiðbeina fólki sem vegna fötlunar sinnar á erfitt með gæta réttinda sinna sjálft. Í sömu lögum er einnig kveðið á um persónulega talsmenn fatlaðs fólks.

Í nýlega samþykktri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks eru tilgreind miklu fleiri verkefni en ég hef talið sem miða að bættri stöðu fatlaðs fólks á fjölmörgum sviðum.

Eftirlit

Ég veit að innanríkisráðherra ræddi í morgun hugmynd um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar á Íslandi í samhengi við þær skyldur sem við þurfum að axla á grundvelli 33. greinar sáttmálans um réttindi fatlaðs fólks varðandi eftirlit með framkvæmd samningsins. Þetta er sannarlega ástæða til að skoða alvarlega og íslensk stjórnvöld hafa verið hvött til þess að koma slíkri stofnun á fót vegna fleiri samninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að.

Eftirlit með framkvæmd samningsins er mikilvægt en við þurfum líka að huga að því á heimavelli hvernig við stöndum að eftirliti með velferðarþjónustu hins opinbera almennt. Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem unnið er að í velferðarráðuneytinu og er hugmyndin sú að sameina slíkt eftirlit á einum stað, með áherslu á að það verði sjálfstætt og óháð, þannig að skilið sé skýrt á milli framkvæmdar þjónustu og eftirlits.

Góðir gestir.

Umræðan heldur áfram. Innleiðing sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er ekkert áhlaupaverk því verkefnin eru mörg og stór og framkvæmd þeirra flókin. Við eigum örugglega eftir að rekast á ýmsar hindranir, deila um áherslur og aðferðir og takast á um forgangsröðun. Mestu skiptir að við erum sammála um meginmarkmiðin og stefnum í sömu átt og því er ég viss um að þótt upp komi ágreiningur um einhver atriði munum við leysa hann.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem staðið hafa að þessu málþingi fyrir þeirra framlag. Undirbúningur og skipulag er til fyrirmyndar og við förum án efa öll ríkari heim með góðar hugmyndir og aukna þekkingu í farteskinu.

- - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta