Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Vinnumál-Frettir

Ávarp velferðarráðherra á 40. þingi ASÍ

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Forsetar - ágætu þingfulltrúar og góðir gestir.

Ég þakka það tækifæri að fá að vera með ykkur við setningu 40. þings Alþýðusambands Íslands og að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð.

Ég er alinn upp við það að barátta verkafólks og raunar alls launafólks, fyrir réttindum sínum og kjörum hefur skipt og mun ávallt skipta miklu máli. Áratugabarátta launþegahreyfingarinnar hefur skipt sköpum fyrir hag almennings í landinu.

Alþýðusambandið hefur allt frá stofnun þess 1916 verið sterkt afl í íslensku samfélagi. Það var stofnað í þeim tilgangi að auðvelda baráttu verkamanna fyrir bættum kjörum – og óhætt er að segja að upp frá því hafi félagsfólk ASÍ ekki aðeins haft mikil áhrif á eigin kjör og réttindi, heldur á samfélagið í heild.

Miklar samfélagsbreytingar hafa orðið á langri starfsævi ASÍ og margir sigrar hafa náðst í baráttu sambandsins fyrir bættum kjörum almennings. En það hafa líka átt sér stað miklar sviptingar og átök í gegnum tíðina, þar sem tekist hefur verið á um hugmyndafræði og pólitískar stefnur sem varða grundvallaráherslur í skipan samfélagsins og hvernig búið er að almenningi og einstaklingum. Þeir sem eldri eru muna áhrif heimskreppunnar miklu hér á landi, stórfelldan flutning fólks úr sveitunum samfara mjög örri þéttbýlismyndun – og margvísleg áhrif síðari heimsstyrjaldarinnar á íslenskt samfélag. Íslenskt samfélag hefur einnig þurft að glíma við ýmsar minni kreppur en alvarlegar þó. – Og loks er skemmst að minnast þess taumlausa neyslufyllerís sem átti sér stað undir merkjum frjálshyggjunnar, þegar til stóð að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, þegar þenslan var taumlaus og vöxtur hagkerfisins var gríðarlegur en reyndist þegar allt kom til alls byggður á sandi.

Ég hef áður á þessum vettvangi vakið athygli á að norræna velferðarkerfið hefur sýnt sig að fleyta Norðurlöndunum betur í gegnum kreppur liðinna ára, en öðrum löndum. Ísland er þar engin undantekning eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á í alls kyns samanburði milli landa, viðhorfskönnunum og mælingum.

Norræna velferðarkerfið byggir á nokkrum stoðum, sem vert er að muna. Grundvallarhugmyndin er jöfnuður og réttlæti, gott menntakerfi, öflug heilbrigðisþjónusta og öryggi borgaranna, velferðarkerfi sem tryggir öllum þegnum sínum viðunandi lífsviðurværi. Forsenda þess að það sé hægt er að fólk greiði til samneyslunnar, greiði sína skatta og skyldur. Þannig eru skattar á Norðurlöndum háir og það skattfé er nýtt til þess að færa verðmæti til í samfélaginu, jafna kjörin og tryggja afkomu allra. Norræna velferðarkerfið byggir á frjálsu hagkerfi með skýru regluverki, hagkerfi sem lýtur þeim lögum og reglum sem hafa hagsmuni neytenda, hagsmuni almennings, að leiðarljósi.

Enn ein forsenda norræna velferðarkerfisins er traust og gott samstarf milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og traust samfélagsins á stofnanir samfélagsins og stjórnvöld.

Gott velferðarkerfi er forsenda öflugs atvinnulífs, atvinnulífs sem um leið er lífgjafi velferðarinnar. Yfirskrift þingsins hér er einkar viðeigandi – atvinna og velferð í öndvegi.

En vinnum við í anda norrænnar velferðar? Vilja allir norrænt velferðarkerfi? Leggja allir sig fram um að endurvinna traust í þessu samfélagi? Er orðræðan til að  leita lausna, afla og miðla upplýsingum og leita nýrra leiða? Eða freistast menn til að reyna að bjarga sínu eigin skinni í örvæntingarfullri tilraun til að bæta ímynd sína eða sinna hagsmunasamtaka með alls kyns yfirlýsingum og fullyrðingum sem grafa undan trausti í samfélaginu?

Ég er ráðherra í ríkisstjórn sem í orðum sumra einkennist af „úrræðaleysi og aðgerðaleysi“, „svíkur öll gefin loforð“ og „hunsar vilja verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda“.

Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu af þessum toga, að reyna að koma sök á einhverja aðra en þá ríkisstjórn sem ber ábyrgð á stjórn landsins, þó ég verði að biðja alla um að rifja upp í huganum við hvernig búi ríkisstjórnin tók vorið 2009.

Ég tel að styrkleiki ríkisstjórnarinnar hafi verið að leita leiða, leita lausna, með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Markmiðin voru skýr, að ná tökum á ríkisrekstrinum, ná þar jöfnuði. Markmiðið var að búa þannig í haginn að við gætum endurreist nýtt og betra samfélag, breytt vöxtum í velferð, þar sem almannahagsmunir yrðu teknir fram yfir sérhagsmuni, þar sem ört vaxandi ójöfnuður er stöðvaður og jafnrétti og jöfnuður í samfélaginu aukinn, nokkuð sem á að vera og er sameiginlegt hagsmunamál stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar og almennt með góðu samstarfi við stéttarfélög.

Margt hefur ekki gengið eftir og auðvelt að segja eftir á, „við hefðum átt að gera þetta eða hitt öðruvísi“. Annað hefur tekist vel og í heildina er ég mjög stoltur af árangrinum sem íslenskt samfélag hefur náð á núverandi kjörtímabili á fjölmörgum sviðum.

En ef ég á að vera hreinskilinn, þá er sá árangur sem náðst hefur hvorki mér né ríkisstjórninni einni að þakka. Þjóðin í heild á hér stærstan þátt með sínu æðruleysi og þátttöku í endurreisn íslensks samfélags, en það eiga líka aðilar vinnumarkaðarins, bæði almennir og opinberir starfsmenn, sem hafa lagt mjög margt gott til málanna og tekið þátt í ótal lausnum, hugmyndasmíð og framkvæmdum, og lagt á sig ómælda vinnu svo halda mætti uppi góðri þjónustu.

Ég tel mikilvægt að draga þetta fram, sem og allt það jákvæða sem náðst hefur fram, hvernig hlutirnir eru nú fjórum árum eftir hrun miklu betri en nokkur einasti þingmaður, verkamaður, verkalýðsfélag eða atvinnurekandi, hvað þá ráðherra (Guð blessi Ísland), spáði haustið 2008 eftir hrun.


Góðir fundarmenn.

Eins og fram hefur komið velti ég því stöðugt fyrir mér hvernig við Íslendingar höfum það sem þjóð, hvernig líður fólki almennt og metur aðstæður sínar og ekki síður hvað viljum við og hvert stefnum við? Mér finnst oft þegar ég fylgist með fréttum og opinberri umræðu að hér hljóti allt að vera á heljarþröm og lífskjör almennings afleit og versnandi. Þannig er umræðan – því miður – og hún er oft víðsfjarri því að vera málefnaleg.

Skiljanlega braust út mikil reiði í samfélaginu við hrunið og traust fólks á stjórnvöldum beið hnekki. Lífskjör versnuðu, eignamissir, atvinnumissir, stórhækkaðar skuldir, minni kaupmáttur, glatað sparifé, allt eru þetta dæmi um raunveruleika sem fjölmargir þurftu að horfast í augu við eftir hrun. Þetta eru þær staðreyndir sem stjórnvöld hafa unnið með síðan, með það að markmiði að koma okkur aftur á réttan kjöl og ekki síst að jafna kjör og aðstæður fólks í landinu. Á hinum fölsku velmektarárum hafði nefnilega steingleymst að huga að þeim efnaminni og ójöfnuður og misskipting var ört vaxandi vandamál. Fátækt var bannorð, aðeins vandi þess sem við hana mátti búa.

Munum að á árunum 1995–2007 jókst ójöfnuður á Íslandi stöðugt og eins og fram hefur komið í nýlegri skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands eru engin fordæmi fyrir því að tekjuójöfnuður hafi aukist jafn ört og mikið annars staðar á Vesturlöndum allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. – Það var einfaldlega vitlaust gefið.

Ákveðin öfl í samfélaginu vilja ekki horfast í augu við þessar staðreyndir, vilja ekki viðurkenna þær ógöngur sem íslenskt samfélag var komið í löngu fyrir hrun og fyrir þeirra tilstilli. Þau vilja alls ekki kannast við hve uppbyggingarstarfið eftir hrun hefur gengið vel og afneita staðreyndum sem sýna að við erum á réttri leið. Þessi sömu öfl reyna markvisst að ala á reiði og óánægju í samfélaginu, afvegaleiða málefnalega umræðu og halda því blákalt fram að hvítt sé svart ef svo ber undir. Verkalýðshreyfingin má ekki vera í þessum kór.

Góðir gestir.

Ég ætla nú að fara yfir nokkrar staðreyndir um þau verkefni sem stjórnvöld hafa unnið að á síðustu árum og mikilvægar breytingar og úrbætur sem hafa skipt sköpum fyrir almenning í landinu, ekki síst þá sem áður báru skarðan hlut frá borði, meðan fáir og útvaldir mökuðu krókinn.

Áður en lengra er haldið vil ég undirstrika að sá árangur sem náðst hefur helgast að verulegu leyti af því mikla samstarfi sem verið hefur milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þótt vissulega hafi komið upp ýmis ágreiningsefni á langri leið hefur tekist að leysa úr þeim flestum. Verkalýðshreyfingunni vil ég þakka alveg sérstaklega fyrir góða og árangursríka samvinnu.

Velferðarkerfið varið og jöfnuður aukinn

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hlífa lægri tekjuhópum, jafna kjör fólks, sporna við atvinnuleysi og verja velferðarkerfið. Aðgerðir sem helst hafa varið kjör tekjulægri hópa hafa einkum falist í hækkun lágmarksframfærslutryggingar almannatrygginga og hækkun vaxtabóta og atvinnuleysisbóta, jafnframt því sem skattbyrði fólks í millitekju- og lágtekjuhópum var lækkuð en hækkuð hjá fólki í hærri tekjuhópum.

Vaxtabætur hafa verið stórauknar. Árið 2010 greiddi ríkið að jafnaði um 31% af vaxtakostnaði húsnæðislána með vaxtabótum. Hjá lægstu tekjuhópunum var niðurgreiðsla vaxtabóta mun meiri, eða allt að 45%.

Um áramótin 2011–2012 var búið að afskrifa hátt í 15% af heildarskuldum heimilanna og hátt í 5% til viðbótar voru komin í afskriftaferli.

Alvarlegur greiðsluvandi heimilanna hefur minnkað um nærri fjórðung eftir að hann náði hámarki árið 2009 vegna úrræða og verulegrar hækkunar vaxtabóta sem beindust einkum að hinum tekjulægstu.

Persónuafsláttur hefur verið verðtryggður og neðri mörk hans hækkuð umfram verðlag. Þessi breyting var gerð í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí í fyrra.

Frá kjarasamningum í fyrra hefur kaupmáttur launa vaxið um 6% og kaupmáttur lágmarkslauna enn meira, eða um 11%.

Ráðstöfunartekjur fara vaxandi. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 9,6% milli áranna 2010 og 2011 og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 5,1% samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Það hefur skipt geysilega miklu máli hve vel hefur tekist að halda atvinnuleysi í skefjum, það varð geysimikið fyrst eftir hrun á íslenskan mælikvarða en hefur dregið verulega úr því með margþættum aðgerðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Fyrir það er ég þakklátur.

Þarna þurfum við þó og eigum að gera betur.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka fjölbreytni vinnumarkaðsúrræða og skapa raunhæf tækifæri fyrir atvinnuleitendur til náms. Starfstengdum úrræðum fyrir atvinnuleitendur fjölgaði um allt að 1.500 árið 2011. Stofnaður hefur verið þróunarsjóður til að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og þróa styttri námsbrautir. Umfangsmikil átaksverkefni á borð við Vinnandi veg og Nám er vinnandi vegur hafa gefist afar vel og skapað fjölda atvinnuleitenda tækifæri til að efla sig og mennta til þátttöku á vinnumarkaði til framtíðar.

Þá hafa verið sett á stofn Atvinnutorg til að hlúa að ungum atvinnuleitendum og ungu fólki utan vinnumarkaðar og skóla.

Ég nefni hér einnig tilraunaverkefni um vinnumiðlun samkvæmt samkomulagi velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem var undirritað snemma á þessu ári og er nú komið á skrið. Markmiðið er að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum sem auka líkur atvinnuleitenda á því að fá störf á vinnumarkaði að nýju. Árangur af þessu verkefni verður metinn reglulega.

Framlög ríkis og lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar hafa verið lögbundin og raunar má segja að tímamót hafi orðið þegar Alþingi samþykkti í vor lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögin endurspegla ákveðna vitundarvakningu sem orðið hefur í þessum málaflokki og eru afdráttarlaus viðurkenning á mikilvægi starfsendurhæfingar. Eitt það mikilvægasta í lögunum er að þar er tryggður réttur allra til starfsendurhæfingar, óháð atvinnuþátttöku.

Góðir gestir.

Ég hef aðeins tæpt á nokkrum atriðum sem miklu hafa skipt við endurreisnina og átt þátt í þeim viðsnúningi sem orðið hefur til hins betra á síðustu misserum. Árangurinn lýsir sér meðal annars í nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands til ársins 2015 þar sem því er spáð að hagvöxtur muni aukast, fjárfestingar og kaupmáttur sömuleiðis og atvinnuleysi minnka, hagur heimilanna vænkast og fjárhagsstaða hins opinbera batna. Í spánni er réttilega bent á að efnahagsbatinn sé brothættur og auðvitað eru stjórnvöld meðvituð um áhrif þess hér á landi ef efnahagsvandinn í heiminum þróast á verri veg.

Ég tek heils hugar undir með Alþýðusambandi Íslands að við verðum að draga úr gengissveiflum og styrkja gengi krónunnar til að koma í veg fyrir háa verðbólgu sem skerðir hag heimilanna og sömuleiðis að til lengri tíma litið verðum við að taka upp annan og traustari gjaldmiðil. Það er hins vegar mjög ánægjulegt að í spá ASÍ er gert ráð fyrir að dragi úr verðbólgu á næstu árum.

Verkefnin framundan eru ærin og margt í deiglunni sem verið hefur í undirbúningi og stendur nú til að hrinda í framkvæmd. Eins og þið vitið flest hefur verið unnið að stefnumörkun í húsnæðismálum landsmanna með áherslu á að tryggja fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum og efla jafnframt leigumarkaðinn. Meðal annars hefur Íbúðalánasjóði verið fengin heimild til að stofna og reka leigufélög. Einnig verða húsaleigubætur lagaðar að nýju húsnæðisbótakerfi á næsta ári og er um einn milljarður króna er ætlaður í þetta verkefni í fjárlagafrumvarpinu.

Íbúðalánasjóði hefur sömuleiðis verið heimilað að bjóða óverðtryggð húsnæðislán og eykst þannig fjölbreytnin á lánamarkaði.

Verulegar breytingar verða gerðar á almannatryggingakerfinu til einföldunar og aukins réttlætis. Þar er ekki síst lögð áhersla á að draga úr víxlverkunum og að lækka skerðingarhlutföll lífeyrisgreiðslna, meðal annars vegna lífeyristekna. Frumvarp um endurskoðað almannatryggingakerfi verður lagt fram á Alþingi á næstu vikum.

Bent hefur verið á að betur þurfi að gera til að styðja við barnafjölskyldur (einhleypinga) og hafa stjórnvöld tekið þær ábendingar alvarlega. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að bæta um 2,5 milljörðum króna inn í barnabótakerfið og nemur aukningin um 30%.

Lög um jöfnun lyfjakostnaðar hafa verið samþykkt og koma til framkvæmda á næsta ári. Með sama hætti þarf að skoða allan sjúkrakostnað.

 

Framlög til Fæðingarorlofssjóðs verða aukin um 800 milljónir króna en markmiðið er að færa réttindi fólks í kerfinu til sama horfs og það var fyrir hrun og verður það gert í áföngum. Þá er stefnt að því að lengja orlofið í áföngum í tólf mánuði á næstu árum. Frumvarp um þetta verður lagt fram á þessu þingi.

Réttur til atvinnuleysisbóta og fjórða árið

Mikið hefur verið rætt um stöðu þeirra sem munu tæma rétt sinn innan atvinnutryggingakerfisins til greiðslu atvinnuleysisbóta, sérstaklega þar sem ekki er gert ráð fyrir að framlengja bráðabirgðaákvæði laga um rétt til bóta í fjögur ár. Þetta ákvæði var sett inn vegna sérstakra og tímabundinna aðstæðna. Skiljanlega jók þetta útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs en á móti var horft til þess að atvinnuleitendur þyrftu síður á fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna að halda.

Að óbreyttu mun töluverður fjöldi atvinnuleitenda tæma bótarétt sinn um næstu áramót og á næsta ári. Atvinnuleysi minnkar ekki við það eitt að fólk tæmi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta, það ætti öllum að vera ljóst. Meginviðfangsefni stjórnvalda er eftir sem áður að mæta stöðu þess hóps sem að hluta til hefur verið án atvinnu svo árum skiptir. Það er brýna verkefnið og reynslan hefur kennt okkur að mestur árangur næst á þessu sviði með samhentu átaki og í náinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Átaksverkefnið Vinnandi vegur hlýtur að verða okkur fyrirmynd en skilyrðið fyrir því að það takist er að sveitarfélögin taki á sig ríka ábyrgð í þeim efnum og komi af fullum hug að verkefninu. Þá þarf að nýta önnur úrræði eins og starfsendurhæfingu og atvinnu með stuðningi á markvissan hátt í þeim tilfellum sem það á við. Með því tryggjum við að einstaklingarnir haldi tengslum við samfélagið en týnist ekki áfram á atvinnuleysisbótum eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Til lengri tíma litið ætti ávinningurinn af slíku átaki að vera öllum ljós. Að sama skapi ætti flestum að vera ljóst að óbreytt ástand er ekki valkostur. Lausnin er ekki að hafa fólk ári lengur aðgerðalaust heima, heldur að skapa fólki aðstæður og tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Þess vegna kalla ég eftir aukinni samstöðu meðal þeirra sem koma að málefnum atvinnuleitenda, ekki síst þeirra sveitarfélaga þar sem atvinnuleysið er umfangsmest og brýnast er að allir þeir sem koma að þessum málum vinni saman.

Atvinnuleysistryggingar og hráefnisskortur

Í frumvarpi til fjárlaga koma fram áform um að hætta styrkgreiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslunnar vegna hráefnisskorts. Þær reglur sem um slíkt gilda eru barn síns tíma og tóku mið af allt annarri stöðu innan sjávarútvegs og fiskvinnslu en nú er uppi í þeirri öflugu grein. Aðgengi að hráefni hefur orðið allt annað og betra með tilkomu fiskmarkaða og atvinnugreinin sem áður þurfti á stuðningi stjórnvalda að halda er nú öflug, sterk og skilar góðum hagnaði.

Því skýtur það skökku við að verja árlega hundruðum milljóna af almannafé til að greiða niður launakostnað í fiskvinnslufyrirtækjum, sem sum hver stunda bæði útgerð og vinnslu og skila milljarðarhagnaði til eigenda sinna. Þessu verður að breyta. Í því ferli er hins vegar mikilvægt að virða ramma gildandi kjarasamninga og gæta að réttarstöðu fiskvinnslufólks. Eðlilegt er að lög, reglur og kjarasamningar innan fiskvinnslunnar lúti sömu lögmálum og almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Viðræður milli stjórnvalda, Starfsgreinasambandsins og Samtaka fiskvinnslustöðva eru í gangi og vonast ég eftir niðurstöðu í þeim fyrir afgreiðslu fjárlaga.

Launajafnrétti kynja

Ég hef talað lengi og ekki minnst orði á launajafnrétti kynja og þá brýnu þörf fyrir að ná tökum á því óþolandi misrétti sem felst í því að konum skuli greidd lægri laun en körlum af þeirri ástæðu einni að þær eru konur. Unnið er að sérstakri aðgerðaáætlun sem kunngerð verður á næstunni en lykilatriði er að skapa forsendur fyrir öflugu samstarfi samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna.

Ég bind vonir við lagasetningu til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja (og lífeyrissjóða) en í september 2013 taka gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns megi aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri fyrirtækja. Alls falla 285 fyrirtæki undir löggjöfina en af þeim uppfylla 45% ákvæði laganna nú þegar og hefur staðan batnað töluvert í aðdraganda gildistöku laganna.

Gerð jafnlaunastaðals hefur staðið yfir í nokkur ár í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Gerð hans er á lokastigi og er hann til umsagnar hjá Staðlaráði Íslands. Jafnlaunastaðallinn á að vera hagnýtt tæki fyrir atvinnurekendur sem nýtist þeim við endurskoðun launastefnu þannig að þeir sjálfir og starfsmenn þeirra geti treyst því að réttur kvenna og karla til launajafnréttis sé virtur.

Góðir þinggestir.

Það er mikil vinna framundan hjá ykkur á 40. þingi Alþýðusambands Íslands. Þetta er ykkar vettvangur til að stilla saman strengi, skerpa stefnuna, móta kröfur ykkar og brýna vopnin. Ég biðst ekki undan málefnalegri og skarpri gagnrýni, en höfum heildarhagsmunina, almannahagsmunina, að leiðarljósti, veltum fyrir okkur hvernig við viljum sjá Ísland og stöðu launafólks á næstu árum og áratugum. Sameinumst um að byggja upp öflugt norrænt velferðarkerfi á Íslandi.

Ég óska ykkur góðs þings og vonast jafnframt eftir áframhaldandi góðu samstarfi við ykkur í þeim verkefnum sem framundan eru.

-------------------------
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta