Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands 2012

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands
Hótel Kea, Akureyri 18. október 2012

Sæl öll og takk fyrir gott boð um að segja nokkur orð á aðalfundi ykkar. Af nógu er að taka og margt að ræða.

Fæstir hafa farið varhluta af því á síðustu árum hvað aðstæður hér á landi hafa verið erfiðar í mörgu tilliti. Það er ekki að undra í kjölfar efnahagshruns sem er eitthvert hið mesta og alvarlegasta sem orðið hefur í nokkru vestrænu ríki. Landsmenn hafa þurft að þola margt í kjölfarið, kaupmáttur hefur rýrnað, lánin hækkað og niðurskurður í flestum málaflokkum hefur komið illa við marga.

Verkefni stjórnvalda hefur verið að ná tökum á ríkisrekstrinum með erfiðum niðurskurði og aðhaldi sem hefur að sjálfsögðu sett mark sitt á allan rekstur, eins og heilbrigðisstarfsfólk þekkir vel af eigin reynslu; Nú hefur verið skorið inn að beini segja margir, heilbrigðisþjónustan í landinu er komin að þolmörkum og lengra verður ekki gengið.

Blessunarlega sjáum við nú fyrir endann á erfiðleikunum og þurfum því ekki að ganga lengra. Leiðin liggur upp á við. Þáttaskil eru að verða í þróun ríkisfjármála. Horfur eru á að jákvæður frumjöfnuður náist í ríkisrekstrinum á þessu fjárlagaári og að skuldir ríkissjóðs fari lækkandi. Með því að stöðva skuldasöfnun vegna hallareksturs ríkissjóðs munum við skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið.

Það er vissulega farið að hrikta í ýmsum stoðum og nauðsynlegt að bregðast við. Tækjakostur Landspítala hefur verið mikið til umræðu að undanförnu vegna tíðra bilana í gömlum tækjum og skorti á fé til nauðsynlegrar endurnýjunar. Þetta er alvarleg staða sem vilji er til að bregðast við með auknum fjárveitingum frá Alþingi. Ég veit að staðan er slæm víðar en á Landspítala – háskólasjúkrahúsi en auðvitað verður að forgangsraða og megináherslan verður því óhjákvæmilega lögð á úrbætur á stærsta sjúkrahúsi okkar landsmanna – Landspítala – háskólasjúkrahúsi – þar sem flóknustu læknisverkin eru framkvæmd og erfiðustu sjúkdómstilfellunum sinnt.

Undirbúningi vegna nýs Landspítala miðar vel og skipulagsmálin eru brátt í höfn. Áfram heyrast úrtöluraddir en þær verða æ meira hjáróma eftir því sem verkefnið tekur á sig mynd. Mest er klifað á því að fásinna sé að ráðast í byggingu nýs spítala þegar fé skorti til nauðsynlegs viðhalds húsnæðis, tækja og búnaðar við óbreyttar aðstæður. Ég held hins vegar að nú fækki ört í hópi þeirra sem raunverulega telja skynsamlegt að verja fjármunum til endurbóta og uppbyggingar á gamla spítalanum sem er með starfsemi sína dreifða út um allar koppagrundir í margvíslegu óhentugu húsnæði sem stenst ekki lengur lágmarkskröfur um rekstur af þessu tagi. Grannt er fylgst með kostnaðaráætlunum áformaðrar uppbyggingar og útreikningar sýna fram á að hagræðing við að færa starfsemina í nýja byggingu á einum stað muni leiða til mikils sparnaðar. Síðast en ekki síst verður aðstaða öll önnur, til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Stefnumótun og fjármögnun heilbrigðiskerfisins

Það veldur mér miklu hugarangri þegar ég hugsa til þess hve lítil rækt var lögð við grunnstoðir velferðarkerfisins á hinum meintu uppgangstímum samfélagsins þegar þjóðin var virkilega rík á pappírunum og ríkissjóður stóð vel. Hvorki var tímanum varið í að skoða veikleika í kerfinu, sem vissulega voru til staðar – eða til stefnumótunar fyrir framtíðina, né var fjármunum varið til uppbyggingar þar sem þess var þörf. Áherslurnar voru aðrar og ekki til þess fallnar að styrkja velferðarkerfið þótt tækifærin væru fyrir hendi.

Það á að vera skylda stjórnvalda á öllum tímum að fara vel með almannafé, að tryggja landsmönnum góða og skilvirka þjónustu en með lágmarkskostnaði. Heildarútgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafa vaxið ört á liðnum árum, hér á landi sem annars staðar á Vesturlöndum. Árið 2010 námu útgjöldin hér á landi um 9,3% af vergri landsframleiðslu eða rúmum 147 milljörðum króna. Það skiptir því miklu máli fyrir þjóðarhag hvernig við skipuleggjum heilbrigðiskerfið og að þessum fjármunum sé vel varið.

Með þetta að leiðarljósi hefur verið ráðist í umfangsmikla vinnu á síðustu misserum þar sem farið hefur verið í saumana á skipulagi heilbrigðiskerfisins, skilvirkni og útgjöldum en sú vinna hófst með greiningu sem unnin var með aðstoð alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group. Niðurstöður þeirrar greiningar sýndu að gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru almennt mikil í samanburði við Evrópuþjóðir og útgjöld til málaflokksins sambærileg. Aftur á móti eru margir stórir þættir sem þarfnast betra skipulags. Sérstaklega var tekið til þess að aðgengi að sérfræðilæknum er nánast ótakmarkað en aðgengi að heimilislæknum víða erfitt og áhyggjuefni. Eins er skráningu upplýsinga um heilbrigðisþjónustu áfátt sem mikilvægt er að bæta og þörfin fyrir samtengda rafræna sjúkraskrá fyrir allt landið og alla sjúklinga er æpandi.

Unnið hefur verið með niðurstöður Boston Consulting Group og tillögur þeirra til úrbóta um nokkurt skeið og níu stórir vinnuhópar um afmörkuð verkefni eru allir við það að ljúka störfum. Tillögur sem komið hafa út úr þeirri vinnu eru tillaga að áætlun um innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár, – verkefnaáætlun um skráningu og birtingu heilbrigðisupplýsinga – tillögur um innleiðingu þjónustustýringar í áföngum og um endurskoðun á fjármögnun heilbrigðiskerfisins – tillögur um sameiningu og endurskipulagningu heilbrigðisstofnana þar sem sérstaklega er tilgreint hvar sinna eigi einstökum verkefnum og þjónustustig stofnana skilgreind, – þarna eru tillögur með verkáætlun um endurskipulagningu sjúkraflutninga í landinu – tillögur sem snúa að því að samræma framboð öldrunarþjónustu á landsvísu samhliða yfirfærslu á þeirri þjónustu frá ríki til sveitarfélaga – og loks tillögur um innkaupastefnu og framkvæmd innkaupa á velferðarstofnunum um allt land.

Góðir fundarmenn.

Lyfjakostnaður er stór útgjaldaliður í heilbrigðisþjónustu og þar veltur líka á miklu að fjármunum sé skynsamlega varið og útgjöldunum stýrt með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Mikill árangur hefur náðst í því að koma böndum á ört vaxandi lyfjakostnað með því að beina lyfjanotkun eins og mögulegt er að þeim kostum sem hagkvæmastir eru án þess að ógna öryggi sjúklinga eða draga úr mikilvægri þjónustu. Áfram verður haldið á sömu braut. Læknar eiga mikið hrós skilið fyrir að sýna þessum nauðsynlegu aðgerðum skilning því án hans hefðu þær ekki gengið upp.

Í lyfjamálum ber það annars til tíðinda að nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar er nú orðið að staðreynd með lögum frá Alþingi, þótt þau hafi enn ekki tekið gildi. Ég legg ríka áherslu á – og vil koma því skýrt til skila, að markmiðið með þessu nýja kerfi er ekki að ná fram sparnaði eins og lesa má út úr texta fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps. Tilgangurinn er að jafna lyfjakostnað sjúklinga, setja þak á hámarksútgjöld einstaklinga og hætta að mismuna fólki í útgjöldum eftir sjúkdómum eins og raunin er í gildandi kerfi. Við stefnum hins vegar að því að bæta eftirlit með lyfjaávísunum lækna og væntum góðs samstarfs við lækna við að stemma stigu við fjöllyfjanotkun og draga úr mis- og ofnotkun lyfja.

Góðir fundarmenn.

Í gær var kynnt opinberlega skýrsla ráðgjafarhóps sem ég setti á fót í byrjun árs, einkum til að fjalla um rekstur og starfsemi einkarekinna læknastofa, – skýrsla sem ég er nýkominn með í hendur. Kveikjan að þessari athugun sem ég óskaði eftir var PIP-brjóstapúðamálið svokallaða sem vakti fjölmargar spurningar um fyrirkomulag einkarekinnar heilbrigðisþjónustu í landinu, öryggi hennar og gæði og stöðu sjúklinga í einkarekna kerfinu.

Ráðgjafarhópurinn kemur víða við í skýrslu sinni og fjallar raunar um margt fleira en einkarekstur. Í meginatriðum eru niðurstöðurnar jákvæðar þar sem hópurinn telur að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé góð og örugg fyrir sjúklinga, hvort sem í hlut á einkarekin þjónusta eða þjónusta á vegum hins opinbera. Í þessu sambandi má einnig vísa til þess að íslenska heilbrigðiskerfið kemur vel út í alþjóðlegum samanburði, svo þetta kemur raunar ekki á óvart.

Sitthvað telur ráðgjafarhópurinn þó þurfa að bæta og bendir á ýmislegt varðandi framkvæmd laga og reglna sem betur má fara.

Niðurstöður ráðgjafarhópsins styðja við margt af því sem heilbrigðisyfirvöld hafa þegar skoðað og vinna að því að bæta úr. Þar má nefna bætt eftirlit með lækningatækjum og skráningu þeirra sem fram er komið í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi. Einnig markvissara eftirlit með heilbrigðisþjónustu á vegum Embættis landlæknis – en nú er í smíðum frumvarp sem miðar við að sett verði á fót sjálfstæð eining hjá embættinu sem muni annast eftirlit með heilbrigðisþjónustu og fái til þess mun skýrari heimildir og lagafyrirmæli en verið hefur.

Niðurstöður ráðgjafarhópsins styðja einnig við stefnu heilbrigðisyfirvalda um samræmda rafræna sjúkraskrá fyrir alla landsmenn. Þetta er risastórt verkefni og kostnaðarsamt en fyrir vikið þeim mun mikilvægara að hefjast þegar handa við undirbúning þess og skipulag, því Róm var ekki og verður ekki byggð á einum degi.

Sú niðurstaða sem einkum fangaði athygli fjölmiðla eftir kynningu ráðgjafarhópsins í gær – og ekki að ósekju – eru efasemdir hópsins um lögmæti þess að hið opinbera greiði fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er án samninga. Raunar segir í skýrslunni að varðandi tannlæknisþjónustu verði tæpast annað séð en að þetta sé brot á lögum. Um þjónustu sérgreinalækna án samnings segir hins vegar að það sé óviðunandi að heimild til að endurgreiða sjúklingum útlagðan kostnað á grundvelli reglugerðar sé orðin að aðalreglu og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins þannig breytt í grundvallaratriðum án atbeina Alþingis.

Ég tel þetta mat ráðgjafarhópsins rökrétt og hef þungar áhyggjur af þessu umhverfi sem við erum komin í með heilbrigðisþjónustuna, þvert á það sem ég tel raunverulegan vilja samningsaðila. Hvort sem þetta mat ráðgjafarhópsins er rétt – sem ég hallast raunar að – eða ekki, þá stöndum við frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu sem verður að leysa. Heilbrigðisyfirvöld geta ekki átt þátt í því að brjóta lög og við svo búið má ekki standa. En það þarf tvo til að semja og þegar ber á milli verða báðir aðilar að gefa eftir af kröfum sínum. Ég trúi ekki öðru en að samningar muni takast, enda vil ég ekki hugsa þá hugsun til enda hvað gerist annars.

Nú hillir undir að tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2020 verði lögð fram á Alþingi. Unnið hefur verið stíft í því stóra verkefni á vegum velferðarráðuneytisins um alllangt skeið og áhersla verið lögð á víðtækt samstarf við fagfólk og hagsmunaaðila til að gera hana sem best úr garði. Forvörnum og lýðheilsustarfi er þar gert hátt undir höfði, því við sjáum sífellt betur að ein besta fjárfestingin í heilbrigðismálum felst í aðgerðum sem eru til þess fallnar að fyrirbyggja sjúkdóma og efla lýðheilsu.

Ég óska ykkur góðs aðalfundar og farsælla starfa.

- - - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta