Afmælisráðstefna Sjómannadagsráðs: Framtíðarsýn í málefnum aldraðra
Haldin 22. nóvember 2012 í tilefni 75 ára afmælis Sjómannadagsráðs.
Góðir gestir.
Sjómannadagsráð er 75 ára – upphaflega stofnað af ellefu stéttarfélögum sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember árið 1937. Ég ætla hvorki að rekja tildrögin né sögu félagsins, hana þekkið þið öll, en það er svo sannarlega ástæða til að minnast þessa og halda upp á merk tímamót. Það er heldur ekki fortíðin sem er ætlunin að ræða hér, heldur að fjalla um framtíðarsýn í málefnum aldraðra. Ég get þó ekki á mér setið að vitna í orð Einars Benediktssonar skálds í sambandi við framtíðarsýnina sem sagði; „að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja“ og vil gjarna gera þau að mínum.
Það er gott og nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvað vel hefur verið gert í gegnum tíðina, hver hefur verið stefnan og leiðarljósið, höfum við á einhverjum tímum látið nægja að halda sjó eða jafnvel rekið af leið og hvert stefnum við núna?
Velferðarkerfi í mótun
Eftir því sem leið á tuttugustu öldina tók samfélagsleg ábyrgð sem áður byggðist á samhjálp og samtakamætti einstaklinga að formgerast meir og meir, þótt vissulega hefði undir lok 19. aldar verið kominn vísir að því sem koma skyldi með stofnun tryggingasjóða, lögum um eftirlaun og stofnun fyrsta sjúkrasamlagsins. Tryggingastofnun ríkisins var stofnuð árið 1936 – ári fyrir stofnun Sjómannadagsráðs – með lögum um alþýðutryggingar. Í þeim lögum var meðal annars kveðið á um sérstaka elli- og örorkutryggingadeild. Lög um almannatryggingar tóku síðan við af lögum um alþýðutryggingar árið 1947 og var markmiðið að koma á almannatryggingakerfi „sem næði til allrar þjóðarinnar, án tillits til stétta eða efnahags“, svo vitnað sé í stjórnarsáttmála frá þessum tíma.
Ég ætla að gera langa sögu stutta – en eftir því sem fram liðu stundir byggðist hér upp formlegt velferðarkerfi þar sem áherslur breyttust frá því að aðstoð væri veitt undir formerkjum góðgerðarstarfsemi með ákveðnum ölmusublæ til þess að veita skipulagða velferðarþjónustu byggða á því að fólk ætti rétt til þjónustunnar og að samfélaginu væri skylt að veita hana eftir því sem hennar væri þörf.
Forsjárhyggja
Það verður ekki fram hjá því litið að öldrunarþjónusta hér á landi einkenndist lengi af mikilli forsjárhyggju í garð aldraðra og sömuleiðis var stofnanavæðing áberandi. Mikil áhersla var lögð á uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila og viðtekið að þegar aldurinn færðist yfir væri besta lausnin fyrir hinn aldraða að flytja í öruggt skjól inni á öldrunarstofnun. Það var ekki svo mjög horft til þess hvað fólk sjálft taldi eða vildi í þessum efnum, stofnun var einfaldlega álitin besta lausnin þegar Elli kerling bankaði á dyr.
Breytt viðhorf – sjálfsákvörðunarréttur aldraðra
Við erum ekki fjarri nútímanum þegar hér er komið sögu í upprifjuninni, en á síðustu árum hafa orðið verulegar breytingar á viðhorfum til þessara mála meðal þeirra sem best þekkja til í þjónustu við aldraða. Kannski skiptir hér mestu að þeir sem í hlut eiga hafa nú sjálfir meira um málin að segja en áður, eiga sína eigin talsmenn, hafa stofnað með sér félög og hagsmunasamtök og eru virkir þátttakendur í umræðu um stefnumótun og skipulag þjónustunnar og málaflokksins í heild.
Það þarf engum að koma á óvart að þegar aldraðir sjálfir eru spurðir hvernig þeir vilja haga efri árunum þegar heilsan tekur að gefa sig og hallar undan fæti – þá vill fólk fyrir það fyrsta halda reisn sinni, sjálfstæði og sjálfræði, fólk vill njóta friðhelgi einkalífsins og lifa lífinu eins mikið á sínum eigin forsendum og unnt er, líkt og fólk jafnan vill, óháð aldri. Sjálfstæð búseta á eigin heimili er sterk forsenda þessa alls og því hafa áherslur í öldrunarþjónustu tekið breytingum sem miða í þá átt og svo mun verða áfram.
Einstaklingsmiðuð þjónusta – sjálfstæð búseta
Stofnanahugtakið með öllum sínum stofnanalegu undirheitum er á útleið. Þjónusta við aldraða, líkt og aðra, tekur æ meira mið af einstaklingsbundnum þörfum með áherslu á stuðning við fólk til að lifa sem mest og sem lengst sjálfstæðu lífi.
Æ meiri áhersla er lögð á heimahjúkrun, heimaþjónustu og önnur úrræði, leiðir og lausnir – og búseta fyrir aldraða sem áður var kennd við stofnanir færist hröðum skrefum yfir á annað form þar sem hjúkrunarheimili afklæðast sínum gamla stofnanabrag með endurbótum og skipulagsbreytingum. Ný heimili rísa, byggð á breyttri hugmyndafræði og skipulagi sem gerir þau að heimilum sem standa undir nafni sem slík.
Liður í þessari þróun er að færa þjónustu nær notendum og þar er veigamikill þáttur fyrirhugaður flutningur málefna aldraðra til sveitarfélaganna, líkt og þegar hefur verið gert varðandi þjónustu við fatlað fólk. Vert er að geta þess að þótt ríkið fari með yfirstjórn og fjármögnun mikilvægra þjónustuþátta sjá sveitarfélög nú þegar um framkvæmd mikils hluta öldrunarþjónustu. Eins eru sjálfseignarstofnanir og aðrir sjálfstæðir rekstraraðilar mikilvægir þjónustuveitendur, eins og þið hér vitið manna best.
Vissulega er þessi tilfærsla frá ríki til sveitarfélaga ekkert áhlaupaverk, margt þarf að leysa svo verkefnið takist sem best og aldrei megum við missa sjónar af meginmarkmiðinu sem er að bæta þjónustuna. Að öllu þessu er unnið í samstarfi ráðuneytisins og þeirra fjölmörgu aðila sem að málinu þurfa að koma og ánægjulegt til þess að vita að víðtækur stuðningur virðist við þetta stóra verkefni hjá öllum aðilum.
Mér hefur orðið tíðrætt um þá áherslu að fólk á efri árum eigi kost á vel skipulagðri einstaklingsmiðaðri velferðarþjónustu sem styður það til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili eins lengi og það sjálft kýs og kostur er. Þetta leiðir hugann að þeirri þróun sem orðið hefur í uppbyggingu íbúða sem sérstaklega eru ætlaðar öldruðum og hafa verið reistar í töluverðum mæli í tengslum við hjúkrunarheimili, líkt og gert hefur verið í tengslum við Hrafnistuheimilin, Sunnuhlíð, Mörk, Eir og víðar.
Þegar ég nefni Eir verð ég að staldra aðeins við – en þið þekkið eflaust öll vandamál Eirar sem mikið hafa verið til umfjöllunar að undanförnu.
Eins og fram hefur komið er Eir eina sjálfseignarstofnunin þar sem uppbygging íbúða og rekstur hjúkrunarheimilis hefur verið undir einum hatti, rekið í nafni sama félags á einni kennitölu, sem aldrei skildi verið hafa. – Ég ætla ekki að fara í saumana á þessu alvarlega máli hér en verð þó að segja að margar spurningar hafa vaknað um stöðu og rétt þeirra öldruðu sem lögðu jafnvel aleiguna í það sem þeir töldu tryggan kost í íbúðum kenndar við öryggi. Fyrirkomulag íbúðarréttarins og rekstur þessara íbúða hjá Eir hefur stefnt fjárhagslegu öryggi íbúanna í hættu og það er gjörsamlega óskiljanlegt hvernig það mátti gerast. Allt þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn – og það verður að tryggja að svona nokkuð geti ekki átt sér stað undir neinum kringumstæðum. Það á ekki að skipta máli hvort fólk kaupir sér húsnæði eða kaupir svokallaðan íbúðarrétt – hvort sem um er að ræða verður að liggja að baki örugg trygging þar sem hagsmunir íbúanna eru hafðir að leiðarljósi.
Fjölbreytni og valkostir
Ég hef rætt hér þróunina sem átt hefur sér stað frá þeirri áherslu að allir skyldu flytja inn á stofnun – yfir í fjölbreyttari lausnir, með áherslu á sjálfstæði og sjálfsvirðingu eldra fólks. Sjálfur hef ég þó ávallt ítrekað að það er ekki til hin eina rétta og endanlega lausn hvað varðar búsetu og þjónustu við eldra fólk. Úrræðin og leiðirnar þurfa að vera margar, til að mæta ólíkum þörfum, og staðbundnum og einstaklingsbundnum aðstæðum verður að mæta.
Aldraðir líkt og aðrir þurfa að hafa ýmsa kosti að velja á milli í búsetumálum sem mæta ólíkum aðstæðum fólks, getu, þörfum og löngunum. Þótt fólk eigi jafnan margt sameiginlegt með sínum jafnöldrum og hvert æviskeið hafi sín einkenni og viðfangsefni er þó alltaf margt sem skilur að og gerir hvern og einn einstakan og sérstakan. Við þurfum fjölbreytta húsnæðiskosti og þjónusta við aldraða þarf jafnframt að byggjast á fjölbreyttri og einstaklingsmiðaðri þjónustu sem gerir þeim sem þess óska mögulegt að búa sem lengst á eigin heimili. Við þurfum stöðugt að huga að nýjum þjónustuformum, öflugri stoðþjónustu og endurhæfingu.
Setja þarf gæðaviðmið um þjónustu við aldraða, auka og bæta eftirlit með þjónustu og gera samninga um innihald og kröfur þeirrar þjónustu sem veitt er. Greiðsluþátttaka aldraðra sem búa á hjúkrunarheimilum er eitt þeirra mála sem við verðum að færa í eðlilegt horf. Fólk þarf að geta haldið fjárhagslegu sjálfstæði sínu og það þarf að vera alveg ljóst fyrir hvað er verið að greiða.
Aldursþróunin meðal landsmanna er að breytast. Þjóðin eldist, heilsufar fer almennt batnandi og fjöldi þeirra sem nær háum aldri fer vaxandi. Til að mynda sýna spár að fjöldi þeirra sem eru 85 ára og eldri mun fjórfaldast á næstu árum sem segir sitt um þróunina. Þetta eru staðreyndir sem verður að taka mið af við uppbyggingu og skipulag velferðarþjónustu til framtíðar.
Góðir gestir.
Framtíðin er viðfangsefni dagsins. Ég endurtek orð Einars Benediktssonar sem ég vitnaði til í upphafi máls; „að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja“.
Aðstandendum og velunnurum Sjómannadagsráðs óska ég innilega til hamingju með tímamótin sem er vel við hæfi að fagna með veglegri ráðstefnu um mikilvægt málefni. Ég vona að dagurinn verði ykkur ánægjulegur og að við öll getum horft björtum augum til framtíðar.