Málþing félagsmálastjóra um tækifæri og framtíð eldra fólks á Íslandi
Málþing félagsmálastjóra: Í kör- nei takk; um tækifæri og framtíð eldra fólks á Íslandi.
Haldið í Hlégarði í Mosfellsbæ, 6. desember 2012.
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, flutti ávarp fyrir hönd Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.
- Dagskrá málþingsins, http://www.samband.is/verkefnin/felagsthjonusta/frettir---felagsthjonusta/nr/1493
Ágætu félagsmálastjórar.
Yfirskrift þessa málþings er hressandi og góður útgangspunktur í umræðu um tækifæri og framtíð eldra fólks á Íslandi sem þið hafið rætt um hér í dag.
Nú er það svo í umræðum um samfélagsleg málefni að okkur hættir til að einblína um of á hið neikvæða, það sem illa gengur og betur mætti fara. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Oftar en ekki felast viðfangsefni dagsins í því að fást við brýn vandamál sem þola enga bið eða skipuleggja ráðstafanir vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika sem geta haft alvarlegar afleiðingar ef ekkert er að gert. Það sem vel gengur sætir ekki tíðindum, það truflar ekki dagleg störf, er ekki fréttnæmt og lætur því lítið yfir sér. Þetta þekkið þið félagsmálastjórar eflaust manna best. Fjöldi fólks nýtur daglega félagsþjónustu sveitarfélaganna í einhverri mynd með góðum árangri. Öll sú þjónusta vekur hins vegar ekki athygli eða umræðu – ekki nema eitthvað fari úrskeiðis.
Það er hins vegar öllum mikilvægt að líta upp úr annríki dagsins af og til. Gefa sér tóm og tíma til að skoða málin í víðara samhengi og huga að stefnunni til framtíðar í ljósi þess hvernig samfélagið þróast og breytist eftir því sem fram líða stundir.
Á síðustu öld byggðist upp formlegt velferðarkerfi hér á landi þar sem áherslur breyttust frá því að aðstoð við fólk sem aðstoðar þurfti með var veitt undir formerkjum góðgerðarstarfsemi með ákveðnum ölmusublæ til þess að veita skipulagða velferðarþjónustu byggða á því að fólk ætti rétt til þjónustunnar og að samfélaginu væri skylt að veita hana eftir því sem hennar væri þörf.
Ef við ræðum sérstaklega um öldrunarþjónustu verður að segjast að lengi vel einkenndist hún af mikilli forsjárhyggju í garð eldra fólks, sjúkdómavæðing og stofnanavæðing var áberandi. Ekki var mikið horft til þess hvað fólk sjálft taldi eða vildi – sem leiddi til þess að fólk var á vissan hátt steypt í sama mót og skilgreindar fyrir hópinn þarfir og þjónusta sem henta átti öllum. Þetta viðhorf sést ef til vill best á því að lengi vel var viðtekið að undanskilja eldra fólk þegar gerðar voru viðhorfs- og skoðanakannanir meðal almennings. Ef ég man rétt var miðað við 70 ára aldur – eftir það virtust skoðanir fólks ekki lengur skipta máli.
Verulegar breytingar hafa orðið á viðhorfum til málefna eldra fólks á seinni árum – og tvímælalaust til hins betra. Mestu skiptir að eldra fólk hefur nú meira sjálft um málin að segja en áður, aldraðir eiga sína eigin talsmenn, hafa stofnað með sér félög og hagsmunasamtök og eru virkir þátttakendur í stefnumótun og skipulagi þjónustu við aldraða og málaflokkinn í heild.
Ef við skoðum velferðarþjónustuna í víðu samhengi og þá þróun sem orðið hefur á liðnum árum og áratugum er áberandi hvað vaxandi áhersla á mannréttindi og þróun mannréttindahugtaksins skiptir þar miklu máli. Ísland er aðili að öllum helstu samningum um mannréttindi hvort sem er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins en trúlega hafa fáir samningar eða sáttmálar haft meiri áhrif á velferðarþjónustu í seinni tíð en sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks – sáttmálinn sem nú er unnið að því að innleiða hér á landi.
Rétturinn til þess að lifa sjálfstæðu lífi, rétturinn til sjálfræðis, friðhelgi einkalífs og heimilis getur reynst lítils virði fyrir fólk með fötlun eða skerta heilsu njóti það ekki viðeigandi stuðnings og þjónustu sem styrkir þessi réttindi. Við vitum að víða í samfélaginu eru hindranir sem geta torveldað fólki virka þátttöku í samfélaginu – hindranir sem oft reynist auðvelt að ryðja úr vegi þegar að er gáð og getur skipt geysilega miklu máli um tækifæri fjölda fólks til virkrar samfélagsþátttöku.
Í þjónustu við aldraða er stofnanahugtakið með öllum sínum stofnanalegu undirheitum á útleið. Þjónustan við aldraða, líkt og aðra, tekur æ meira mið af einstaklingbundnum þörfum með áherslu á stuðning við fólk til að lifa sem mest og lengst sjálfstæðu lífi.
Liður í þessari þróun er að færa þjónustu nær notendunum. Flutningur málefna faltaðs fólks til sveitarfélaga varð að veruleika í byrjun árs 2011 og nú er unnið að því að flytja þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna sömuleiðis. Þessi breyting felur í sér margvísleg tækifæri án nokkurs vafa, líkt og Lúðvík Geirsson fjallaði um á málþinginu fyrr í dag. Vissulega er tilfærslan ekkert áhlaupaverk og margt þarf að leysa svo verkefnið takist sem best. Markmiðið er að bæta þjónustuna og við megum aldrei missa sjónar á því.
Fjölbreytni, valkostir og einstaklingsmiðuð þjónusta eiga að vera leiðarljósið í velferðarþjónustunni. Eldra fólk þarf líkt og aðrir að hafa ýmsa kosti að velja á milli í búsetumálum sem mæta ólíkum aðstæðum, getu, þörfum og löngunum. Þótt fólk eigi jafnan margt sameiginlegt með sínum jafnöldrum og hvert æviskeið hafi sín einkenni og viðfangsefni er þó alltaf margt sem skilur að og gerir hvern og einn einstakan og sérstakan. Það er nauðsynlegt að taka mið af þessu í öllu samhengi.
Aldursþróun landsmanna er að breytast. Þjóðin eldist, heilsufar fer almennt batnandi og fjöldi þeirra sem ná háum aldri fer vaxandi. Spár sýna að fjöldi þeirra sem eru 85 ára og eldri mun fjórfaldast á næstu árum sem segir sitt um þróunina. Þetta eru staðreyndir sem verður að taka mið af við uppbyggingu og skipulag velferðarþjónustu til framtíðar. Við skulum líka muna að þetta snýst ekki einungis um þjónustu. Fjöldi fólks sem kominn er á hefðbundinn starfslokaaldur er með fulla heilsu og mikla orku og ekki endilega tilbúið til að draga sig í hlé og hætta atvinnuþátttöku. Samfélagið hefur þörf fyrir krafta allra þeirra sem vilja og geta lagt af mörkum og því ástæða til að stuðla að meiri sveigjanleika í þessum efnum.
Árið 1991 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun um stefnumið Sameinuðu þjóðanna í málefnum aldraðra. Aðildarþjóðirnar voru hvattar til að stuðla að almenni viðhorfsbreytingu til öldrunar í því skyni að styrkja stöðu eldra fólks og stuðla að aukinni samstöðu kynslóða í framtíðinni. Áhersla var lögð á fimm efnisþætti; sjálfstæði, virkni, lífsfyllingu, reisn og umönnun með áherslu á að eldra fólk eigi að njóta allra þessara þátta til jafns við aðra þegna þjóðfélagsins. Mikilvægi þessa var undirstrikað með áskorun Sameinuðu þjóðanna um að skapa þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri – en það voru einmitt einkunnarorð árs aldraðra árið 1999 – einkunnarorð sem ég spái að muni standa í góðu gildi um alla framtíð og við skulum því hafa að leiðarljósi í störfum okkar.
Ágætu félagsmálastjórar.
Þið eruð áhrifamikill hópur sem hafið mikið að segja um þróun velferðarþjónustu í landinu. Ábyrgð ykkar er mikil og fer vaxandi eftir því sem sveitarfélögin taka að sér fleiri verkefni. Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að helga þetta málþing tækifærum og framtíð eldra fólks á Íslandi. Þetta eru mál sem verða í deiglunni framundan og skiptir miklu máli að ræða.