Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra við útskrift nemenda frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Útskrift frá Hringsjá 14. desember 212

Góðir gestir, nemendur og starfsfólk Hringsjár, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn.

Það er alltaf stór stund að ljúka merkum áfanga, að ná markmiðum sínum og að uppgötva eitthvað nýtt. Nemendur sem útskrifast frá Hringsjá í dag finna án efa fyrir gleði og stolti – og kannski svolítilli eftirsjá líka eins og jafnan fylgir tímamótum og kaflaskilum í lífinu.

Þið nemendurnir hafið eflaust þurft að leggja mikið á ykkur í náminu hér og auðvitað er það ekki alltaf tekið út með sældinni að fást við erfið viðfangsefni. En þegar árangurinn kemur í ljós finnur maður að erfiðið hefur verið þess virði. Maður stendur sterkari eftir, finnur getu sína aukast, það sem áður var erfitt og olli jafnvel hugarangri er allt í einu orðið skemmtilegt að fást við og mann langar helst í fleiri og erfiðari verkefni.

Nám er okkur öllum mikilvægt og réttur fólks til náms er meðal mikilvægustu réttindanna í samfélaginu. Þetta hefur lengi legið fyrir og birtist fyrst í ákvæðum um almenna skólaskyldu og uppbyggingu grunnskólakerfisins. Eftir því sem fram liðu stundir jókst skilningur samfélagsins á því að nám á ekki að vera staðlað – að það er ekkert eitt kerfi sem hentar öllum heldur þarf að sníða námsframboðið og fyrirkomulag þess að ólíkum þörfum nemendanna. Áður var nám fyrst og fremst hugsað og skipulagt í kringum börn og ungt fólk, rétt eins og að nám væri ekki raunhæfur kostur fyrir fullorðna. Þetta hefur líka gjörbreyst og áhersla á fullorðinsfræðslu farið vaxandi með síauknu framboði af námi og námsleiðum.

Ég hef heyrt margar reynslusögur fólks sem hefur stundað nám hjá Hringsjá og nánast uppgötvað sjálft sig á nýjan leik, kynnst styrkleika og hæfileikum sem það vissi ekki að það byggi yfir, öðlast aukið sjálfstraust og í framhaldinu betra líf. Nám eru lífsgæði og það er óendanlega mikilvægt að allir sem mögulega geta fái tækifæri til að efla sig og styrkja með námi sem hentar áhugasviði þeirra, hæfileikum og getu.

Hjá Hringsjá starfar sérmenntað starfsfólk og kennarar með víðtæka reynslu úr skólastarfi, atvinnulífi, listum og félagsstarfi. Breiddin hér er mikil og lagt upp úr því að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og fengið margvíslegan stuðning til að rækta hæfileika sína og leiða þá fram í dagsljósið.

Hringsjá fagnaði á þessu ári 25 ára starfsafmæli. Það er óhætt að segja að mikilvægi starfsins hér hafi lengi legið fyrir, en með tímanum hafa æ  fleiri augu opnast fyrir gildi náms- og starfsendurhæfingar eins og hér fer fram.

Í sumar voru samþykkt á Alþingi lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögin endurspegla ákveðna vitundarvakningu sem orðið hefur í þessum málaflokki og eru afdráttarlaus viðurkenning á mikilvægi starfsendurhæfingar. Sérstaklega mikilvægt er að með lögunum er tryggður réttur allra til starfsendurhæfingar, óháð atvinnuþátttöku – sem ætti að opna mörgum dyr sem áður voru lokaðar.

Það eru mikilvæg mannréttindi að geta tekið sem allra virkastan þátt í samfélaginu. Forsendur fólks til þess eru misgóðar og þær geta breyst vegna ýmissa áfalla eða aðstæðna. Möguleikarnir ráðast ekki einungis af einstaklingsbundinni getu og færni heldur einnig af því hvort og hversu vel samfélagið er í stakk búið til að mæta fjölbreytileikanum, hversu sveigjanlegt það er og hvernig búið er að fólki almennt.

Hringsjá er og hefur lengi verið leiðandi á sínu sviði. Hér hefur þróast fjölbreytt og vel skipulagt nám sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Besti vitnisburðurinn um það eru nemendurnir sem héðan hafa útskrifast, reiðubúnir til þess að fara í frekara nám eða vel undirbúnir fyrir ýmis störf á almennum vinnumarkaði.

Ég óska ykkur og okkur öllum til hamingju með daginn.

Kæru útskriftarnemar. Ég var vanur því þegar ég útskrifaði nemendur úr mínum skóla að minna þá á að hver og einn er einstakur, það er aðeins til eitt eintak af hverju ykkar í heiminum. Þið eruð öll búin ótal hæfileikum og getu og það hafið þið nú sannað. Látið námið hér veita ykkur sjálfstraust, horfið á það sem þið getið og gangið bjartsýn inn í framtíðina, þá mun ykkur farnast vel.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta