Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Afmælishátíð Samhjálpar 31. janúar 2013

 

Afmælishátíð í tilefni 40 ára afmælis Samhjálpar, 31. janúar 2013
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

Hr. forseti Íslands, góðir gestir.

Í fjörutíu ár hefur Samhjálp hefur verið mikilvægur þáttur í lífi fjölda fólks, verið því stuðningur og skjól og stuðlað að bættri velferð þess og aukinni getu til sjálfshjálpar. Það er svo sannarlega ástæða til að efna til afmælishátíðar af þessu tilefni, líta yfir farinn veg og rifja upp sögu félagsins. Það er eitt af einkennum Samhjálpar að láta ekki mikið yfir sér og verkum sínum, kraftarnir beinast inn á við til að sinna sem best þeim verkefnum sem félagið stendur fyrir, – til að sinna því fólki sem þarf aðstoðar við og á ekki í mörg hús að venda.

Ég hugsa að mörgum komi á óvart hvað starfsemi Samhjálpar er umfangsmikil og verkefnin mörg. Mikið hefur breyst frá upphafsdögum Samhjálpar. Karl V. Matthíasson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, rifjaði upp söguna í áhugaverðu viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, þar sem hann sagði frá fyrsta vísinum að starfseminni sem hófst í litlum bílskúr við Sogaveg fyrir rúmum fjörutíu árum. Þar hófst sú samhjálp sem síðar formgerðist með stofnun Hlaðgerðarkots fyrir tilstilli Einars J. Gíslasonar með stuðningi þáverandi heilbrigðisráðherra Magnúsar Kjartanssonar og Ólafs Ólafssonar landlæknis. Ævi Einars þekkja margir. Hann var Vestmannaeyingur, vann þar til lands og sjós framan af en hóf ungur guðfræðinám í Stokkhólmi. Ævistarf hans varð á vettvangi Hvítasunnusafnaðarins með áherslu á að liðsinna þeim sem höllum fæti stóðu í samfélaginu. Einar lést árið 1998 en hann hefði einmitt orðið níræður í dag, 31. janúar.

Stofnun Hlaðgerðarkots markar með öðrum orðum hið formlega upphaf að starfsemi Samhjálpar. Hlaðgerðarkot var upphaflega vistheimili fyrir áfengissjúka en varð síðar meðferðarheimili og er rekið af fjárlögum ríkisins. Samhjálp rekur einnig áfangaheimilin Brú og Spor, – Gistiskýlið í Þingholtsstræti í samvinnu við Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa Reykvíkinga og sömuleiðis Stuðningsbýlið M18, einnig í samvinnu við Reykjavíkurborg. Þá er ótalið fjölbreytt félagsstarf á vegum Samhjálpar, göngudeildarþjónusta vegna eftirmeðferðar sem mest er nýtt af þeim sem lokið hafa meðferð á Hlaðgerðarkoti og eins vil ég geta sérstaklega um Kaffistofu Samhjálpar sem er mikið sótt og skiptir án efa geysilega miklu máli fyrir þá sem þangað sækja sér skjól og félagsskap og andlega og líkamlega næringu. Enn er ekki allt upptalið, en þetta sýnir vel hvað Samhjálp er mikilvæg stoð í samfélaginu og starfið öflugt.

Góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að geta við þetta tækifæri sagt frá því að velferðarráðuneytið hefur nýlokið úthlutun rekstrar- og verkefnastyrkja til félagasamtaka – styrkja sem Alþingi úthlutaði áður. Ákveðið var að auka við styrki til Samhjálpar, annars vegar að hækka styrk til kaffistofu Samhjálpar úr fjórum í fimm milljónir og hins vegar að auka styrk til kvennastarfs Samhjálpar úr einni í eina og hálfa milljón króna.

Ég veit að Samhjálp er vel að þessum styrkjum komin og mun nýta þá vel í þágu þess fólks sem félagið sinnir af myndarskap og fagmennsku með samhjálpina að leiðarljósi.

- - - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta