Þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis: Hver er staðan - hvert stefnum við?
Þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis: Hver er staðan - hvert stefnum við?
Ráðstefna í tilefni 20 ára starfsemi Neyðarmóttöku Landspítala
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Góðir gestir.
Til hamingju með baráttudag kvenna, til hamingju með 20 ára afmæli Neyðarmóttökunnar.
Fyrst af öllu þakka ég þeim sem standa að málþinginu hér í dag fyrir að efna til umræðunnar. Þetta eru alvarleg mál sem mikilvægt er að fjalla um á yfirvegaðan og faglegan hátt. Þannig gerum við okkur grein fyrir brýnustu viðfangsefnunum. Þannig getum við best séð hvað þarf að bæta, hverju þarf að breyta og hvernig við náum helst árangri til að bæta þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis.
Með opnun Neyðarmóttökunnar árið 1993 var viðurkennt í verki að þolendur kynferðislegs ofbeldis þurfa sérstaka þjónustu og sérhæfða sem er önnur en veitt er á bráðadeildum.
Afleiðingar kynferðislegs ofbeldis og misnotkunar eru víðfeðmar og langvarandi, einkum vegna hins sálræna tjóns sem þolendurnir verða fyrir. Þolendur kynferðisbrota þurfa mikla sálræna aðstoð og þeim þarf að sýna alveg sérstaka nærgætni við komu á neyðarmóttöku og í því ferli sem fylgir. Auk þess að veita þolendum stuðning og meðferð felst mikil vinna í því að safna sakargögnum og gera þau sem best úr garði fyrir réttarkerfið leggi brotaþoli fram kæru við komu á Neyðarmóttökuna eða á síðari stigum.
Sífellt bætist við þekkingu okkar á afleiðingum kynferðislegs ofbeldis og það kemur æ betur í ljós hvað þær eru alvarlegar og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks sem beitt er slíku ofbeldi. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við og haga þjónustu og stuðningi í samræmi við það eins og nokkur kostur er.
Árið 1998 var Barnahús stofnað á Íslandi, fimm árum eftir að Neyðarmóttakan á Landspítalanum var sett á fót. Þetta var stórt framfaraskref til betri þjónustu og bættrar málsmeðferðar þegar brotið er gegn börnum. Tilgangurinn var að skapa aðstæður sem tryggja að þarfir og hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi við rannsókn þessara mála með áherslu á að sinna öllum þáttum þess á einum stað, jafnt skýrslutöku, læknisrannsókn, greiningu og meðferð, í umhverfi sem sniðið er að þörfum barna. Ég held að fáir ef nokkur efist um mikilvægi Barnahúss og árangurinn af starfinu sem þar fer fram – enda hefur það orðið öðrum þjóðum fyrirmynd að stofnun sambærilegra húsa.
Í gær kom út viðamikil skýrsla UNICEF á Íslandi um Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir. Í tengslum við útkomu hennar sat ég ásamt fleiri ráðherrum fund með forsvarsmönnum UNICEF þar sem efni skýrslunnar var kynnt ásamt 16 gagnmerkum tillögum um hvernig vinna megi að því að fyrirbyggja ofbeldi gagnvart börnum. Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni og varpa ljósi á umfang ofbeldis og um áhrif kynferðislegs ofbeldis á líðan þolenda eru sláandi. Við ráðherrarnir fengum einnig tækifæri til að hlýða á sögu hugrakkra ungmenna sem greindu frá þeirri skelfilegu reynslu að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Það var einstök lífsreynsla að heyra sögu þeirra og öruggt að frásagnir þeirra myndu engan láta ósnortinn. Það sem er einmitt svo mikilvægt í þeirri vinnu UNICEF sem birtist í skýrslu hennar er að settur var á fót sérfræðihópur barna sem í sitja ungmenni sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Þessi hópur fór yfir tillögur fagfólksins, lagði fram ábendingar og setti fram eigin tillögur. Þótt tölfræðiupplýsingar sem birtast í skýrslu UNICEF hafi komið fram áður og komi því ekki á óvart er framsetning upplýsinganna önnur en við höfum áður séð. Mannlegi þátturinn er dreginn svo skýrt fram, þetta er skýrsla um fólk en ekki tölur. Þetta styrkir einnig þær tillögur og ábendingar sem þarna er komið á framfæri sem eru afar gagnlegar.
Það er augljóst að við verðum að herða róðurinn til að sporna við ofbeldi og afleiðingum þess. Þetta er viðamikið og viðvarandi verkefni sem krefst samstöðu og víðtækrar þátttöku í samfélaginu. Því ber að fagna öllu frumkvæði þar sem vinna er lögð í að draga fram staðreyndir og upplýsingar sem varpa skýru ljósi á vandann og eru til þess fallnar að vekja til vitundar og skapa málefnalega umræðu um leiðir til að takast á við hann.
Við þurfum að gera betur, þótt stöðugt sé unnið að verkefnum sem svo sannarlega skipta máli og ég ætla að fara um nokkrum orðum. Þar vil ég nefna fullgildingu Lanzarote-samningsins um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og einnig fullgildingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á grundvelli Lanzarote-samningsins var efnt til þriggja ára verkefnis um vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi sem nú stendur yfir og eru eftirtalin verkefni liður í því:
- Brúðuleikhús í alla skóla í samstarfi við Blátt áfram.
- Stuttmyndin Fáðu já, sem þið kannist eflaust við er liður í þessu verkefni,
- Efnt til landshlutaþinga fyrir grunnskóla um allt land í fræðsluskyni,
- Háskóla Íslands var falið að annast fræðslu fyrir dómstóla og fleira mætti telja.
Á Alþingi hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um barnavernd til ársins 2014 sem þar er til umfjöllunar og eins vil ég geta um samráðsfundi sem þrjú ráðuneyti, þar með talið velferðarráðuneytið, stóðu fyrir þar sem fjallað var um klám út frá lagalegu, heilbrigðislegu og samfélagslegu sjónarhorni.
Árið 2006 samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi. Áætlunin var í tveimur hlutum og fjallaði annars vegar um aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum en sá síðari fjallaði um aðgerðir vegna ofbeldis í nánum samböndum og kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Í tengslum við þessa áætlun var ráðist í gerð viðamikilla rannsókna á þessu sviði. Jafnframt voru samin fimm fræðslurit fyrir fagstéttir til að efla fræðslu og þekkingu þeirra sem sinna og vinna með konum sem hafa verið beittar ofbeldi af nákomnum aðilum. Eitt ritanna er ætlað til kennslu og fjallar á almennan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi ofbeldi gegn konum í nánum samböndum, rannsóknir sem gerðar hafa verið, birtingarmyndir ofbeldisins og afleiðingar þess. Hin ritin fjögur eru skrifuð með það að markmiði að nýtast tilteknum stéttum í starfi. Eitt er fyrir ljósmæður, annað fyrir aðrar heilbrigðisstéttir, þriðja fyrir starfsfólk félagsþjónustu og fjórða ritið er ætlað lögreglunni.
Á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar var Landspítala falið að gera tillögur um leiðir til að styrkja Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og Miðstöð áfallahjálpar þannig að starfssvið þeirra næði hvoru tveggja yfir heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Til að mæta kostnaði fékk sjúkrahúsið 6 milljónir króna til verkefnisins árlega á árunum 2008‒2011.
Samráðshópur á vegum forsætisráðuneytis var settur á fót í byrjun þessa árs til að fjalla um leiðir til að sporna við kynferðislegu ofbeldi, treysta burði réttarvörslukerfisins til að koma lögum yfir kynferðisbrotamenn, til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og til að skipuleggja markvissar forvarnaaðgerðir. Hópurinn hefur að undanförnu hitt fjölmarga aðila sem vinna á einhvern hátt að þessum málum, svo sem fulltrúa geðsviðs Landspítala, sjálfstæðra samtaka eins og Stígamóta, Drekaslóðar og Blátt áfram, auk fulltrúa barnaverndaryfirvalda og allra lögregluembætta. Tillagna hópsins um aðgerðir er að vænta innan skamms.
Ágætu fundarmenn.
Við höfum ítrekað séð hvernig opinber umfjöllun um kynferðisofbeldi og misnotkun getur orðið þolendum sem lengi hafa borið harm sinn í hljóði hvatning til að brjótast út úr þögninni, segja sögu sína og varpa þannig af sér sligandi byrði sem enginn á að þurfa að bera, hvorki barn né fullorðinn, og alls ekki einn. Þetta er mikilvægt og því verðum við líka að geta brugðist við þegar þolendur stíga fram og boðið þeim viðeigandi aðstoð og nauðsynlegan stuðning. Þetta er nokkuð sem þarf að huga að, því hér skortir úrræði.
Verkefnin í þessum erfiða málaflokki virðast óþrjótandi. Því skiptir svo miklu máli að láta ekki fallast hendur. Við þurfum að beita öllum hugsanlegum leiðum til að berjast gegn þessu skelfilega samfélagsmeini. Við verðum að sameina kraftana sem þurfa jafnt að beinast að fyrirbyggjandi aðgerðum og uppbyggingu meðferðar og stuðnings fyrir þolendur þannig að þeir geti byggt líf sitt upp að nýju. Það er mikið í húfi eins og öllum hér er ljóst.
Enn og aftur innilega til hamingju með afmælið – þakkir fyrir málþingið þið sem að því stóðuð – megi dagurinn vera lærdómsríkur og skila okkur fram á veginn.
Ég færi einnig þakkir til frumkvöðlanna og þakkir til ykkar allra sem vinnið gott starf með það að markmiði að hindra að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað, sem vinnið að því opna umræðuna og auka þekkingu, – þakkir til ykkar sem vinnið að því að lágmarka skaðann – sem hjálpið fólki að komast áfram í lífinu þrátt fyrir þá hræðilegu glæpi sem hafa verið framdir á þeim.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir