Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ársfundur VIRK 2013

Ágætu fundarmenn.

Í dag er haldinn fyrsti ársfundur Virk eftir að ný lög um starfsendurhæfingar­sjóði tóku gildi. Beðið hefur verið lengi eftir lögunum og því heilmikill áfangi að baki. Að vísu eru þau framlög sem um var samið í samningum árið 2008 ekki farin að skila sér að fullu ennþá en mér er kunnugt um að starfsemi ykkar hefur vaxið mikið á þessu tæpa ári frá samþykkt laganna.

Með lögunum var brotið blað í málefnum endurhæfingar. Fjárframlög til málaflokksins hafa hækkað mikið og munu verða um sjöfalt hærri en áður var, þegar öll framlög hafa skilað sé. Ætli nokkur starfsemi á landinu, nema þá helst sérstakur saksóknari, hafi fengið annan eins meðbyr í starfsemi sinni á síðustu árum? Að vísu verða framlögin endurskoðuð fyrir lok árs 2014 í ljósi þeirrar reynslu sem þá verður komin á starfsemina. En í upphafi var ekki ljóst í hvort nauðsyn væri á þessum framlögum til að starfsemin gæti skilað því sem henni er ætlað þar sem úttekt á þörf fór ekki fram þegar samningar um starfsendurhæfingarsjóð voru gerðir árið 2008.

Þá verður starfsemin og árangur hennar tekinn út af óháðum aðilum fyrir árslok 2016 og vera kann að starfsemi sjóðsins eða fjárframlög verði endurskoðuð að þeirri úttekt lokinni.

Í 9. grein laganna er ákvæði um að ráðherra skuli gera samning við starfsendurhæfingarsjóði og á grundvelli þeirra samninga öðlast þeir rétt til þjónustu, sem ekki hafa aðild að sjóðnum í gegnum stéttarfélög. Þar sem aðeins einn starfsendurhæfingarsjóður er til í landinu stendur upp á okkur, það er velferðarráðuneytið og Virk, að ljúka samningi. Það hefur ekki enn tekist en undirbúningur er í fullum gangi og unnið er að kröfulýsingu á ábyrgð velferðarráðuneytisins en í fullu samráði við fulltrúa Virk. Hún er nú langt komin og þá ætti að fara að styttast í að við getum lokið samningum. Þótt samningum sé ekki lokið, þá hefur Virk opnað dyr sínar fyrir öllum sem uppfylla skilyrði um þjónustu skv. 11. grein laganna þótt þeir eigi ekki aðild að starfsendurhæfingarsjóði í gegnum stéttarfélög. Þetta gerið þið í trausti þess að samningar takist og eins og ég sagði áðan verður það vonandi fljótlega.

Annað sem við eigum eftir að ljúka er viðurkenning ráðherra, sem er krafist skv. 13. grein laganna. Þar segir að óheimilt sé að hefja rekstur starfsendurhæfingarsjóðs fyrr en viðurkenning ráðherra liggur fyrir. En til að viðurkenning ráðherra fáist þarf ekki aðeins að vera til skipulagsskrá og innkaupastefna heldur þarf einnig að vera fyrir hendi samningur við ráðherra skv. 9. greininni. Þetta bítur hvað í skottið á öðru og við höfum því ekki uppfyllt lögin enn þá. Virk starfar án viðurkenningar ráðherra.

Ég hef haft af því fregnir að aðsókn til ykkar hafi aukist mjög mikið og að þið hafið því þurft að bæta við fjölda ráðgjafa, en hafið þrátt fyrir það ekki náð að halda alveg sjó, fólk þurfi að bíða eftir að fá hjá ykkur viðtal. Það er auðvitað mjög bagalegt, þar sem markmiðið er að ná til fólks sem allra fyrst. Þetta er þó eitthvað sem mátti búast við þegar vöxtur í starfsemi er svo ör sem raun ber vitni og verkefnin flókin. Ég vona að úr þessu rætist sem fyrst þannig að Virk geti sinnt hlutverki sínu með snemmbæru inngripi, þar sem það bendir flest til að það skili mestum árangri.

Við samþykkt laganna var ákveðið að hluti þess fjár, sem ríkið hafði notað til starfsendurhæfingar, yrði þar áfram til þess að standa straum af kostnaði við að veita fólki þjónustu, sem er of veikt til að taka þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Stór hluti þeirra fjárhæðar, sem hafði verið varið til starfsendurhæfingar, var í samningum við starfsendurhæfingarstöðvar. Þessi breyting á starfsumhverfi þeirra hefur auðvitað valdið þeim nokkru óöryggi en með ákvörðun Virk um að greiða ákveðið rekstrarframlag til lítilla stöðva sem starfa út um land, hefur nokkru af óvissunni verið eytt. Enn á velferðarráðuneytið eftir að semja við aðila sem munu áfram sinna fólki sem er of veikt til að fara í atvinnutengda starfsendurhæfingu. Það þarf að skerpa betur á línunni sem þarna liggur á milli en við erum að vinna að því í ráðuneytinu þessa dagana og munum eins og alltaf eiga gott samstarf við Virk. Við hefðum viljað vera komin miklu lengra með þetta en svona gengur lífið stundum, að minnsta kosti í ráðuneytinu.

Ég nota þetta tækifæri til að minnast á verkefni sem við þurfum að ljúka – ýmist sameiginlega eða sitt í hvoru lagi. Engu að síður, eins og ég sagði hér í upphafi, hefur verið brotið blað í sögu starfsendurhæfingar með setningu laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu. Þetta er einstakt tækifæri til að efla atvinnuþátttöku fólks sem býr við skerta starfsgetu um lengri eða skemmri tíma. Ég veit að stjórn Virk og starfsmenn skortir hvorki dug né metnað til að ná árangri. Það er verið að feta nýja slóð og það verður að nota þetta tækifæri eins vel og nokkur kostur er en láta það ekki ganga okkur úr greipum.

Þar sem kosningar eru nú í nánd og harla óvisst um framtíð mína í þessu hlutverki, vil ég nota tækifærið og þakka ykkur fyrir samstarfið á liðnum árum og óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar á komandi árum, megi þau vera árangursrík fyrir íslenskt samfélag.

- - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta