Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi Landspítala
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Ágætu starfsmenn Landspítala – góðir ársfundargestir.
Velferðarmál hafa verið fyrirferðarmikil í samfélagsumræðunni síðustu misserin og hlutur heilbrigðismála í þeirri umræðu hefur verið stór. Þetta er skiljanlegt. Velferðarkerfið er ein af mikilvægustu stoðum samfélagsins. Velferðarkerfi sem stendur undir nafni stuðlar að jöfnuði í samfélaginu og tryggir aðgang allra landsmanna að mikilvægum lífsgæðum og fjölbreyttri velferðarþjónustu. Samfélag sem ekki rís undir þessu er í hættu, því félagslegt ranglæti grefur undan velferðinni og skapar margvísleg vandamál sem þegar uppi er staðið verður vandi okkar allra.
Íslensk velferðarþjónusta í erlendum samanburði
Við erfiðar aðstæður, þar sem fimmta hver króna tapaðist úr ríkissjóði, hefur verið reynt að verja velferðarkerfið eftir því sem kostur er á liðnum árum, með áherslu á að það þjóni sem fyrr öllum landsmönnum, óháð aðstæðum og efnahag. Þótt deilt sé um árangurinn, ekki síst nú í aðdraganda kosninga, hafa ítrekað verið birtar niðurstöður erlendra rannsókna sem sýna að varnarbarátta okkar hefur um margt verið árangursrík. Í fræðigrein veftímaritsins The Lancet frá 27. apríl síðastliðnum var fjallað um efnahagshrunið og áhrif þess á lýðheilsu í Evrópu. Þar kom fram að aðhaldsaðgerðir stjórnvalda í hinum ýmsu Evrópuríkjum hafa komið hart niður á heilbrigðiskerfum landanna, einkum á Spáni, í Portúgal og á Grikklandi. Þar hefur sjálfsvígstíðni farið vaxandi og smitsjúkdómar brotist út í síauknum mæli, auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefur versnað til muna. Aftur á móti segir í greininni að á Íslandi hafi verið brugðist við með öðrum úrræðum og sérstaklega nefnt að félagslega öryggisnetið hafi verið styrkt og áhersla lögð á að halda fólki virku í vinnu. Þetta og fleira hafi skilað sér í mun betri stöðu hér þegar litið er til heilsu og líðan þjóðarinnar.
Aðgengi – öryggi – hagkvæmni
Í niðurstöðum Euro Health Consumer Index árið 2012 var Ísland í þriðja efsta sæti þeirra 34 landa sem úttektin náði til. Þar kom fram að íslenskir sjúklingar hafa mikil réttindi, eru vel upplýstir, biðtími eftir þjónustu er stuttur í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og árangur meðferðar er með því besta sem gerist í Evrópu. Þessar kannanir liggja fyrir og segja sína sögu.
Frjálslega farið með staðreyndir í umræðum um heilbrigðismál
Velferðarmál, einkum heilbrigðismál, hafa að undanförnu verið áberandi umfjöllunarefni í kosningabaráttunni. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert en hins vegar veldur áhyggjum hve oft er farið frjálslega með staðreyndir og umræðan yfirborðskennd. Áberandi er hve margir virðast þeirrar skoðunar að þar sem húsnæði er fyrir hendi, þar sé komin meginforsendan fyrir því að veita heilbrigðisþjónustu. Það gleymist alveg að vel menntað heilbrigðisstarfsfólk, sérhæfing og tækjabúnaður er það sem þjónustan byggist á fyrst og fremst – húsnæðið er aftur á móti umgjörðin, þótt ég ætli síst að gera lítið úr mikilvægi þess þáttar. Sú stefna sem unnið hefur verið eftir í heilbrigðismálum á liðnum árum byggist á því að halda úti öflugri fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu um allt land, að styrkja heilsugæsluna en skilgreina sérhæfðari þjónustu á fáum tilteknum heilbrigðisstofnunum og loks sérhæfðustu heilbrigðisþjónustuna á sérgreinasjúkrahúsunum tveimur, FSA og LSH, þar sem Landspítali háskólasjúkrahús ber hitann og þungann eins og efni standa til. Þessi stefna er ekki úr lausu lofti gripin, hún er byggð á bestu þekkingu okkar á heilbrigðiskerfinu, jafnt varðandi faglegar kröfur og skynsamlega nýtingu fjármuna. Allar okkar aðgerðir hafa byggst á þeirri stefnu og þeim markmiðum sem endurspeglast í heilbrigðislögunum frá árinu 2007.
Niðurskurður til heilbrigðismála frá árinu 2004
Fyrir þá sem ekki þekkja til mætti ætla að niðurskurð fjármuna til heilbrigðismála megi einungis rekja til aðgerða í kjölfar efnahagshrunsins. Þetta er rétt og skylt að leiðrétta. Niðurskurður heilbrigðisútgjalda hófst árið 2004 og drógust útgjöldin saman sem hlutfall af landsframleiðslu ár hvert til ársins 2008. Efnahagshrunið hafði svo sannarlega sínar afleiðingar sem þið þekkið auðvitað manna best. Sjálfur hef ég sagt að markmið næsta kjörtímabils eigi að vera að ná þessu hlutfalli í 9,5% af vergri landsframleiðslu.
Heilbrigðiskerfið hefur vissulega mátt sæta miklum þrengingum, þótt við séum nú farin að sjá til lands þar sem ekki var skorið niður í fjárlögum þessa árs og aukið fé lagt fram til tækjakaupa á sérgreinasjúkrahúsunum tveimur, þ.e. hér á LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Niðurskurður til heilbrigðismála var einfaldlega óhjákvæmilegur miðað við þær aðstæður sem blöstu við eftir hrun, það sér hver maður. Í fjáraukalögum 2012 var samþykkt 150 milljóna króna fjárveiting til Landspítala vegna tækjakaupa og 50 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri. Jafnframt var fé til tækjakaupa á LSH aukið um 600 milljónir króna á þessu ári og 50 milljónir á Akureyri.
Þess má einnig geta að nú hefur verið unnin – að beiðni velferðarráðuneytisins – fjárfestingaráætlun í tækjabúnaði fyrir Landspítalann og í þingsályktunartillögu um velferðarstefnu – heilbrigðisáætlun til ársins 2020 sem lögð var fyrir síðasta þing er gert ráð fyrir að annað hvert ár liggi fyrir áætlun um endurnýjun og kaup á tækjabúnaði á sérgreinasjúkrahúsunum, þ.e. LSH og á Akureyri. Er þá miðað við að ákveðnu hlutfalli af veltu sjúkrahúsanna verði ráðstafað til tækjakaupa. Vonandi verður velferðaráætlunin samþykkt sem fyrst á nýju þingi, því hún er afar mikilvægt stefnuskjal í velferðar- og heilbrigðismálum landsmanna.
Í tengslum við umræðu um lyfjakaup á Landspítala undanfarið er rétt að benda á að framlög hins opinbera vegna S-merktra lyfja hafa verið aukin jafnt og þétt á síðustu árum, einkum síðastliðin tvö ár. Í fjáraukalögum 2012 var veitt 785 milljónum króna til að mæta auknum kostnaði vegna S-merktra lyfja og hátt í 900 milljónum króna var bætt við fjárlagagrunn S-merktra lyfja á þessu ári til að mæta kaupum á nýjum S-merktum lyfjum og aukningar vegna fjölgunar sjúklinga.
Öryggismenning í öndvegi
Yfirskrift ársfundar LSH að þessu sinni er Öryggismenning í öndvegi – sem er lýsandi fyrir áherslur og metnað starfsfólks og stjórnenda sjúkrahússins. Það liggur í hlutarins eðli að við þröngan fjárhag þar sem aðhalds hefur þurft að gæta á öllum sviðum, samtímis því sem sjúklingum hefur fjölgað, – þá hefur álag á starfsfólk aukist mikið og aðstæður langt í frá verið eins og best verður á kosið. Við þessar aðstæður þarf mikinn metnað, agaða verkferla, gott skipulag og sterka vinnustaðamenningu til að tryggja örugga og góða þjónustu. Þetta hefur engu að síður tekist sem er svo sannarlega aðdáunarvert. Ekki verður séð að alvarlegum atvikum hafi fjölgað á sjúkrahúsinu og niðurstöður þjónustukannana sjúkrahússins sem hófust á síðasta ári bera þjónustunni við sjúklinga gott vitni samkvæmt þeirra eigin mati.
Skjót viðbrögð við erfiðar aðstæður
Góðir gestir. - Verkefni starfsfólks Landspítala eru mörg og ströng hvern einasta dag, alla daga ársins. Hver og einn starfsmaður skiptir máli og hvergi má út af bregða í störfum nokkurs manns. En daglegar og miklar annir eru ekki einu áskoranirnar, því upp geta komið aðstæður sem krefjast sérstakra viðbragða og getu til að breyta skipulagi með litlum fyrirvara. Inflúensufaraldurinn í byrjun þessa árs reyndist mjög skæður og samfara herjuðu veirusýkingar þannig að deildir á sjúkrahúsinu urðu yfirfullar á skömmum tíma. Viðbragðsáætlun sjúkrahússins var virkjuð og lýst yfir óvissustigi. Starfsfólk var við erfiðar aðstæður reiðubúið að taka á sig ómælda yfirvinnu og með samhentu átaki og samvinnu allra sem gátu lagt erfiðu verkefni lið tókst að mæta þessu mikla álagi og veita sjúklingum örugga þjónustu. Þessar aðstæður kynnti ég fyrir ríkisstjórninni og það var strax gert alveg ljóst að Landspítalinn myndi fá aukaframlag á fjárveitingum til þess að mæta auknum kostnaði sem þetta alvarlega ástand hefði í för með sér. Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því hér að ríkisstjórnin lagði til á fundi sínum í morgun að á fjáraukalögum verði veitt fé vegna þessa sem nemur 125 milljónum króna, sem er í samræmi við áætlun spítalans um kostnaðaraukningu vegna ástandsins.
Aldraðir í bið eftir hjúkrunarrýmum
Umræða um aldrað fólk sem teppist á Landspítala að lokinni meðferð þar vegna skorts á endurhæfingar- og hjúkrunarrýmum er bæði gömul og ný. Vissulega er þetta alvarlegt vandamál og vont fyrir alla sem hlut eiga að máli. Langvarandi dvöl á sjúkrahúsinu er slæm fyrir aldrað fólk í þörf fyrir önnur úrræði. Þessi staða truflar eðlilegt flæði sjúklinga og þrengsli og legur fólks á göngum sjúkrahússins eru auðvitað ekki boðlegar aðstæður, hvorki fyrir sjúklinga né starfsfólk. Velferðarráðuneytið hefur eftir bestu getu reynt að finna lausnir til að mæta þessum vanda í samvinnu við hjúkrunarheimilin og áfram verður unnið á þeirri braut. Það munar líka um ný rými sem nýlega voru tekin í notkun í Garðabæ þar sem nýtt hjúkrunarheimili fól í sér fjölgun hjúkrunarrýma um 20 á höfuðborgarsvæðinu, að ekki sé talað um 30 ný hjúkrunarrými á nýju heimili í Mosfellsbæ sem brátt verður tekið í notkun. Auk þessa samþykkti velferðarráðuneytið nýlega 20 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til Heimaþjónustu Reykjavíkur til að mæta fyrirsjáanlega auknu álagi í sumar og jafnframt samþykkt tíu milljóna króna viðbótarfjárveiting til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins af sömu ástæðum.
Nýr Landspítali
Áform um byggingu nýs Landspítala hafa verið mikið hitamál til margra ára. Og enn er tekist á um þetta risavaxna þjóðþrifamál þar sem hver sjálfskipaði sérfræðingurinn heldur fram sínum sannindum um staðsetningu, forgangsröðun verkefna í heilbrigðiskerfinu, um stærð sjúkrahússins og byggingamagn, um samgöngur, um stærð bílastæða, um nýtingu eldri bygginga, um þarfir sjúklinga og þarfir starfsfólksins og svo mætti lengi halda áfram. Með fullri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum verður í þessu sambandi að hafa hugfast að það hefur ekki verið hrapað að niðurstöðum við undirbúninginn. Færustu sérfræðingar hafa lagst á eitt og síðast en ekki síst hefur áhersla verið lögð á notendastýrða hönnun með mikilli samvinnu við Landspítalann og þátttöku hátt á annað hundrað starfsmanna.
Ég held að flestir sem málið er skylt, sem þekkja til og vita hvað er í húfi, séu sammála um að það verður ekki lengur vikist undan því að ráðast í framkvæmdir án þess að stefna heilbrigðisþjónustunni í óefni. Þetta snýst ekki fyrst og fremst um þarfir dagsins í dag, þetta snýst um að tryggja landsmönnum örugga heilbrigðisþjónustu á sérhæfðasta sjúkrahúsi landsmanna á komandi árum og til lengri framtíðar. Ástæða er til að ítreka að hér er verið að byggja yfir núverandi þjónustu LSH en ekki verið að draga hingað á einn stað þjónustu sem er fyrir hendi á svæðisbundnum heilbrigðisstofnunum um allt land. Eins er gert ráð fyrir að byggingarkostnaður vegna nýs spítala muni endurheimtast að öllu leyti við það eitt að færa starfsemi LSH á einn stað.
Nú bendir loksins allt til þess að framkvæmdir geti brátt hafist. Alþingi samþykkti í lok mars að heimila Nýjum Landspítala ohf. að fara í forval vegna útboðs fyrir fullnaðarhönnun bygginganna. Í dag var auglýst eftir umsækjendum til að taka þátt í útboðinu og ættu gögnin nú að vera aðgengileg á vef Ríkiskaupa. Þetta er því stór dagur. Þeir fyrirvarar eru gerðir strax í upphafi að útboð á hönnun muni þá aðeins fara fram að verkefninu verði tryggð fjármögnun á fjárlögum. Niðurstöður forvalsins skulu gilda í níu mánuði eftir að þær liggja fyrir.
Jafnlaunaátak stjórnvalda
Í janúar síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin tillögu velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að ráðast í jafnlaunaátak með aðgerðum til að rétta hlut starfsstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Áður höfðu stjórnvöld látið vinna tímasetta aðgerðaáætlun til að eyða kynbundnum launamun og undirritað viljayfirlýsingu í lok árs 2011 með samtökum aðila vinnumarkaðarins um þetta efni. Ákveðið var að fyrstu aðgerðir í jafnlaunaátaki stjórnvalda skyldu beinast að stofnunum heilbrigðiskerfisins og starfshópum þar sem tveir þriðju hlutar starfsfólks eða meira eru konur. Fyrsta skref þessara aðgerða var stigið með nýjum stofnanasamningi hjúkrunarfræðinga á Landspítala og þegar hefur verið samið við tvær aðrar stéttir á Landspítalanum. Þetta átak er ekki bundið við Landspítala heldur nær til heilbrigðisstofnana um allt land þar sem hlutur starfshópa þar sem konur eru í miklum meirihluta verður bættur. Það lá alveg ljóst fyrir að stjórnvöld gætu ekki efnt til átaks af þessu tagi án þess að fé myndi fylgja til stofnananna sem eiga í hlut. Þessu verður fylgt eftir og fjármála- og efnahagsráðuneytið er í sambandi við stofnanir um allt land til að reikna út hve mikið framlag þarf til að mæta þessum aðgerðum. Þegar liggur fyrir að Landspítali fær tæpar 900 milljónir króna með launatengdum gjöldum á þessu ári til að mæta umræddum hækkunum. Í heildina liggur fyrir að átakið muni kosta um 1.500 milljónir króna.
Aukið fé og aukin þjónusta
Ég get alveg sagt það hér og nú að síðastliðið haust var í mínum huga orðið alveg ljóst að það yrði ekki gengið lengra í aðhaldsaðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Það þyrfti frekar að bæta í til að auka þjónustu og styrkja starfsemina. Það er verulegt áhyggjuefni að engir samningar eru í gildi við sérgreinalækna, því máli verður að lenda fyrr en seinna. Aftur á móti var það einstaklega ánægjulegt að nýverið náðist í höfn samningur um tannlækningar barna, eftir samningsleysi að meira eða minna leyti frá árinu 1998, þ.e. í 15 ár. Þetta var svo sannarlega langþráður samningur sem tvímælalaust mun skipta miklu máli fyrir fjölskyldur í landinu og vonandi verða til þess að tannheilsa þjóðarinnar batni á komandi árum.
Góðir gestir.
Ég hef komið víða við í langri ræðu, þótt margt sé enn ósagt ef rekja ætti það helsta sem hátt ber í starfsemi Landspítalans sem er jafnframt háskólasjúkrahús, rannsóknastofnun, sjúkrahús höfuðborgarbúa og síðast en ekki síst sjúkrahús allra landsmanna. Þessu margþætta hlutverki gegnir Landspítalinn með sóma, þökk sé vel menntuðu, reyndu og metnaðarfullu starfsliði. Það er ekki að ástæðulausu sem Landspítalinn nýtur mikils trausts í samfélaginu. Jafnvel þeir sem harðast hafa gagnrýnt niðurskurð fjármuna til sjúkrahússins og segja hann kominn á heljarþröm bæta því jafnan við að þrátt fyrir allt sé heilbrigðisþjónustan sem þar er veitt örugg og góð.
Þetta traust sem Landspítalinn nýtur á sinn þátt í því að almenningur vill veg hans sem mestan. Fjöldi félagasamtaka færir sjúkrahúsinu reglulega höfðinglegar gjafir sem hefur svo sannarlega munað um í rekstrinum og gert kleift að ráðast í mikilvægar framkvæmdir og tækjakaup sem ella hefði ekki reynst mögulegt. Þetta er ómetanlegt, þótt gjafir sem þessar hvorki geti né megi verða sjálfsagður hluti af rekstraráætlunum sjúkrahússins, heldur eigi fyrst og fremst að vera kærkomin viðbót sem nýtist til að gera gott betra.
Ágæta starfsfólk og aðrir gestir. Ég óska starfsfólki Landspítala velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum og færi ykkur öllum mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegt og eftirtektarvert framlag á erfiðum tímum.
- - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir