Ráðstefna Félags lýðheilsufræðinga
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, á ráðstefnu Félags lýðheilsufræðinga, 6. mars 2015.
Gott fólk. Kærar þakkir fyrir að leyfa mér að taka þátt í þessari ráðstefnu með ykkur hér í dag.
Það verður seint ofmetið hversu miklu máli heilbrigður lífstíll skiptir bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Stjórnvöldum ber að skapa aðstæður til að auðvelda fólki að efla heilsu sína.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að lýðheilsa og forvarnastarf er meðal forgangsverkefna. Þar kemur einnig fram að ríkisstjórnin hefur mikinn vilja til að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu og draga þannig úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar. Með það í huga var sérstakri ráðherranefnd um lýðheilsumál komið á fót.
Jafnframt var þriggja manna verkefnisstjórn sett af stað og einnig stofnaður opinn samráðshópur -lýðheilsunefnd sem skipuð er fulltrúum fjölmargra félaga og félagasamtaka sem hafa lengi unnið gott starf á þessu sviði.
Meginhlutverkið er að vinna drög að heildstæðri lýðheilsustefnu og aðgerðaáætlun og skal því verki vera lokið eigi síðar en við árslok 2015.
Fyrir mína hönd leiðir hópinn, Inga Dóra Sigfúsdóttir , prófessor við Háskólann í Reykjavík og Columbia sem einnig á sæti í ráðherranefndinni.
Lýðheilsunefndin hefur þegar lagt fram metnaðarfull drög að umfangsmiklum tillögum sem ég veit að Inga Dóra mun kynna ykkur hér á eftir.
Það skiptir miklu máli að virkja sem flesta til þátttöku og því ber að fagna framtaki eins og þeirri ráðstefnu sem hér er að hefjast.
Meðal annars af þeirri ástæðu hef ég sett af stað vinnu til undirbúnings íslensku lýðheilsuverðlaununum á árinu 2015, eftir ábendingu frá stjórn félags lýðheilsufræðinga, enda samræmast slík verðlaun ágætlega áherslum ríkisstjórnarinnar í málaflokknum.
Verðlaununum verður ætlað að styðja framtak stofnana, félagasamtaka eða fyrirtækja til að bæta lýðheilsu, svo sem með aukinni hreyfingu, bættu matarræði, eflingu geðheilbrigði, reykleysi, áfengis og vímuvörnum eða öðrum þáttum sem hafa áhrif á lífsstíl landsmanna.
Það er fagnaðarefni að stöðugt fleiri láta sig þessi mál varða og það er hlutverk stjórnvalda að styðja við slíkt starf og stuðla að aukinni samvinnu þegar kemur að málum sem tengjast lýðheilsu.
Að lokum vil ég óska ykkur allra heilla í þeirri mikilvægu vegferð sem framundan er.
Takk fyrir.