Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Komið þið blessuð og sæl öll, góðir gestir og starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennt er við höfuðstað Norðurlands en þjónar svæði sem nær allt frá Blönduósi að Neskaupsstað og telur um 35.000 íbúa.
Ég buna út úr mér þessum stærðarstaðreyndum í upphafi máls míns, því þær segja svo mikið um nauðsyn þess að sjúkrahúsið hér sé öflugt og geti boðið upp á fjölbreytta og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á öllum helstu sviðum lækninga.
Sjúkrahúsið á Akureyri er einmitt slíkt sjúkrahús, það veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, það er kennslusjúkrahús og það er varasjúkrahús Landspítala. Hér er miðstöð sjúkraflutninga fyrir landið allt og hér er starfræktur Sjúkraflutningaskólinn sem skipuleggur og annast menntun allra sem starfa við sjúkraflutninga.
Tölur um starfsemi segja meira en mörg orð. Hér er árlega sinnt um 5.800 legusjúklingum, um 4.800 dagsjúklingum og komur á slysa- og bráðamóttöku eru rúmlega 16.000 ár hvert. Öll þessi starfsemi er í höndum um 580 starfsmanna sem vinna eftir gildum sjúkrahússins sem snúast um öryggi – samvinnu og framsækni.
Því miður erum við mörg um þessar mundir sem óttumst þáttinn sem lýtur að öryggi sjúklinga og hvort unnt sé að tryggja öryggi þeirra í skugga verkfalls. Læknaverkfallið fyrir áramót hafði umtalsverð áhrif sem tekið hefur tíma að vinna úr – og um alvarleika verkfallanna núna þarf ekki að fjölyrða.
Það er augljóst að þetta erfiða ástand reynir mjög á starfsfólk og stjórnendur – og því miður er óhjákvæmilegt að ástandið bitnar á sjúklingum og aðstandendum þeirra, sama þótt allir geri sitt besta að vinna vel úr erfiðri stöðu. Ég veit að þið leggið ykkur öll fram til að tryggja öryggi sjúklinga – og það ber að þakka – en ég verð að segja að sem ráðherra heilbrigðismála er ég orðinn mjög áhyggjufullur varðandi framhaldið ef ekki nást samningar sem allra, allra fyrst.
Ég ætla ekki að dvelja við verkfallsumræðuna – en legg áherslu á að öryggi sjúklinga - það góða gildi sjúkrahússins verður að hafa í hávegum alltaf, líka við þessar erfiðu aðstæður.
En áfram um gildin. Framsækni er annað mikilvægt gildi í starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri sem endurspeglast í starfseminni. Hér er unnið að því hörðum höndum að sjúkrahúsið fái alþjóðlega ISO gæðavottun, fyrst íslenskra sjúkrahúsa. Þetta metnaðarfulla verkefni er komið vel af stað og forúttekt þegar lokið.
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið fulltrúi Íslands í Norðurslóðasamstarfinu Nýráðningar og stöðugleiki heilbrigðisstarfsfólks í dreifbýli (gengur unndir heitinu Recruit and Retain), þar sem saman vinna fulltrúar sjö Norðurslóðaþjóða að lausnum á viðvarandi erfiðleikum við að ráða og halda í gott heilbrigðisstarfsfólk í dreifbýli. Þátttaka í svona verkefnum er mikilvæg, þar sem þjóðir sem búa við sambærilegar aðstæður skiptast á þekkingu og vinna saman. Í slíkri samvinnu felst styrkur sem við eigum að nýta.
Hér langar mig að bæta við nokkrum orðum um þriðja gildi Sjúkrahússins á Akureyri sem er samvinna en gildin framsækni og samvinna tel ég tvímælalaust að fari vel saman og styðji hvort við annað.
Ég var á ársfundi Landspítalans fyrir skömmu og ræddi þar meðal annars hve mikilvægt er að sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanirnar í landinu vinni saman og starfi sem ein heild. Eftir að lokaáfanga við sameiningu heilbrigðisstofnana lauk á liðnu ári erum við með eina nokkuð öfluga stofnun í hverju heilbrigðisumdæmi og hver þeirra með nokkrar starfsstöðvar í umdæminu. Ég hef rætt það við forstöðumenn þessara stofnana að við eigum að veita heilbrigðisþjónustu eins og kostur er sem næst fólki, heima í héraði. Til þess að það sé unnt þurfa heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins þar með talið Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn að vinna saman og virka eins og heild. Stóru sjúkrahúsin bera ríkar skyldur; Landspítalinn við alla landsmenn – Sjúkrahúsið hér á Akureyri við 35.000 íbúa á stórum hluta landsins og heilbrigðisstofnanirnar hafa hver um sig miklar skyldur við íbúa hver á sínu svæði. Hugsanlega er ástæða til að skilgreina þessar skyldur betur en nú er gert til að bæta samvinnu og nýtingu fjármuna.
Þessi mál þurfum við að ræða á sameiginlegum vettvangi
Heilbrigðismál og rekstur heilbrigðiskerfa eru stærstu, mikilvægustu, flóknustu og útgjaldafrekustu viðfangsefna stjórnvalda víða um heim.
Það skiptir því miklu hvernig á málum er haldið þannig að takmarkaðir fjármunir séu nýttir sem best til að tryggja almenningi örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Hluti vandans við að gera þetta vel felst einmitt í því að láta hina mörgu hluta gangverksins í heilbrigðiskerfinu vinna saman.
Sjúkrahúsrekstur og sjúkrahússþjónusta stendur og fellur með starfsfólkinu, um það þarf vart að deila.
Vel menntað og metnaðarfullt starfsfólk er lykillinn að góðum árangri og stöðugleiki í starfsmannahaldi skiptir miklu máli. Því er eins og ég sagði áðan mikilvægt að sinna þessum málum vel. Ég nefndi áðan Norðurslóðaverkefnið Recruit and Retain. Eins var fyrir skömmu hleypt af stokkunum metnaðarfullu átaki til að ráða í stöður sérfræðinga með áherslu á varanlegar ráðningar fyrir fólk sem vill setjast hér að. Ég veit að í allmörg ár hefur sjúkrahúsið gímt við undirmönnun í ýmsum sérgreinum og vonandi verður hægt að ráða bót á því til framtíðar með þessu átaki.
Góðir gestir.
Eftir margra ára undanhald vegna efnahagserfiðleika og erfiða varnarbaráttu hefur nú vörn verið snúið í sókn í heilbrigðisþjónustunni. Þessa er farið að gæta í öflugri starfseminni hér á Sjúkrahúsinu á Akureyri og ég held að við getum leyft okkur að vera bjartsýn, þrátt fyrir tímabundnar erfiðleika vegna verkfalla.
Árið 2013 var fé til tækjakaupa aukið til sjúkrahússins með 50 milljóna króna tímabundinni fjárheimild. Sama ár var framlag til sjúkrahússins hækkað til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni.
Þau mál voru í nokkru óefni en með útsjónasemi og vilja til að leysa vandann tókst það í góðri samvinnu við Landspítalann.
Með fjárlögum ársins 2014 var enn aukið í rekstur sjúkrahússins. Samanlagt voru framlögin aukin um 667 milljónir króna.
Þannig var rekstrargrundvöllur sjúkrahússins styrktur verulega um leið og ýmsum kostnaðarhækkunum var mætt.
Auknum fjármunum var ætlað að bæta vaktafyrirkomulag, bæta mönnun í sjúkraflugi á vegum spítalans, efla fæðingarþjónustu og koma til móts við aukið álag vegna geðlæknisþjónustu og slysa- og bráðamóttöku á svæðinu.
Á þessu ári var rekstrargrunnur Sjúkrahússins á Akureyri styrktur um 65 milljónir króna, auk þess sem fé til Sjúkraflutningaskólans var aukið um 12 milljónir til að styrkja rekstur hans.
Framlög til tækjakaupa hafa verið aukin frá árinu 2013 í samræmi við opinbera tækjakaupaáætlun fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann og smám saman eru þau mál að komast í þokkalegt horf, en þar var staðan orðin mjög alvarleg. Árið 2014 fékk Sjúkrahúsið á Akureyri 200 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til tækjakaupa í samræmi við áætlunina og á þessu ári eru til ráðstöfunar um 190 milljónir króna í tæki og búnað.
Góðir gestir.
Það er ekki hægt að nefna úrbætur í tækjamálum án þess að geta um Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri sem hafa heldur betur verið haukur í horni og fært sjúkrahúsinu stórgjafir sem virkilega hefur munað um. Í mínum huga er það þó fleira en verðmæti gjafanna og notagildi þeirra sem skiptir máli. Þessar gjafir segja svo margt um stöðu sjúkrahússins á Akureyri í hugum íbúa, félagsamtaka og fyrirtækja á starfssvæði þess. Hlýhugur heitir það og slíkur hugur skapast ekki af sjálfu sér, heldur vegna þess að fólk ber traust til sjúkrahússins og fólksins sem hér starfar og vilja veg þess sem mestan.
Eitt er það mál sem ég veit að er farið að brenna nokkuð heitt á fólki hér, en það er endurnýjun á húsakosti legudeildanna sem er kominn til ára sinna og verður fyrr en síðar að endurnýja. Þá er gott að vera undirbúinn þegar þar að kemur.
Starfshópur á mínum vegum sem vinnur að málinu telur rétt að byggja á svipuðum hugmyndum og lagðar voru til árið 2004, um viðbyggingu til suðurs á þremur hæðum, fyrir legurými lyflækningadeildar, skurðdeildar og geðdeildar. – Við ráðumst ekki í neinar framkvæmdir fyrr en við höfum til þeirra fjármuni. Það er ekkert í hendi og ég tel ekki góða latínu að lofa fólki fuglum í skógi. Það er hins vegar gott að búa í haginn, þá getum við hafist handa án langs aðdraganda þegar færi gefst.
Gott fólk.
Sjúkrahúsið á Akureyri er öflugt og framsækið sjúkrahús og þið sem hér starfið getið verið stolt af starfseminni. Það er uppörfandi fyrir okkur sem störfum í argaþrasi stjórnmálanna að sjá hér þann mikla vilja til að gera betur og auka sífellt við þjónustuna, allt í þágu íbúanna sem sjúkrahúsið þjónar. Nýlega var tekin upp blóðskilun við sjúkrahúsið. Það er kannski ekki stórt mál í rekstrinum, en mjög mikilvægt fyrir þá sem þurfa á blóðskilun að halda. Þá hef ég hug á að koma til móts við Sjúkrahúsið hvað varðar stuðning við þjálfun myndgreiningalæknis til að áfram verði hægt að sinna hópskoðun, klínískum krabbameinsbrjóstaskoðunum og því sem því fylgir hér á Akureyri. Við eigum að þjóna íbúum sem mest í heimabyggð, eða sem næst fólki eftir því sem það er mögulegt. Við getum örugglega gert betur hvað það varðar – en hvert skref sem stigið er í rétta átt skiptir máli.
Góðir gestir.
Það er sameiginlegt markmið okkar allra að heilbrigðisþjónusta sé sem best úr garði gerð. Stundum greinir okkur á um leiðir að þessu markmiði en öll viljum við heilbrigðiskerfi sem stenst samanburð þar sem öryggi sjúklinga, þjónusta og gæði eru í hávegum höfð.
Á undanförnum áratugum hefur skipulag heilbrigðisþjónustu tekið miklum breytingum með það að markmiði að gera hana betur í stakk búna til að bergðast við nýjum áskorunum og breyttu umhverfi.
Hér sem annars staðar, mun hnattvæðing, lýðþróun og efnahaglegur óstöðugleiki auka álag á heilbrigðisþjónustuna.
Af því leiðir að öll svið samfélagsins verða að takast sameiginlega á við þau viðfangsefni sem við blasa, okkur öllum til hagsbótar og velsældar.