Haustfundur Sálfræðingafélags Íslands 2015
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Heilir og sælir sálfræðingar og þakka ykkur fyrir að bjóða mér til árlegs haustfundar ykkar.
Mér var sagt að aðalumfjöllunarefni fundarins væri aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu – og ég í því sambandi get ég sagt strax að minn vilji stendur til þess að auka hlut sálfræðinga í heilbrigðisþjónustunni. Eins og þið vitið hef ég þegar tekið skref í þá átt þar sem gert er ráð fyrir að auka fé til heilsugæslunnar um nærri 70 milljónir króna á komandi ári, líkt og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, til að fjölga stöðugildum sálfræðinga.
Þessi áform um fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni tengjast áætlun sem ég ýtti úr vör í byrjun síðasta árs undir yfirskriftinni Betri heilbrigðisþjónustu og hefur það m.a. að markmiði að efla þjónustu heilsugæslunnar í landinu og bæta aðgengi að henni. Liður í því er að efla þverfaglegt samstarf innan heilsugæslunnar og stuðla með því að breiðari sérfræðiþekkingu í þágu sjúklinga.
Stefnt er að því að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni um átta á næsta ári og gangi það eftir verður þar með unnt að bjóða sálfræðiþjónustu í heilsugæslu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Til lengri tíma litið er stefnt að því að fjölga stöðugildunum enn frekar. Horft er til breskrar fyrirmyndar um aukið aðgengi að sálfræðingum – að er áætlun sem kallast Improving Access to Psychological Therapies en samkvæmt henni er áætlað að eitt stöðugildi sálfræðings þurfi á hverja 9.000 íbúa. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á Ísland þýðir þetta að þörf er fyrir 36,6 stöðugildi sálfræðinga í grunnþjónustu heilsugæslunnar.
Ég veit ekki hvort ykkur er öllum kunnugt um að nú er tilbúin tillaga til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem verður væntanlega birt á vef Alþingis strax eftir helgi. Stefnumótunarvinnan hefur staðið yfir í nefnd sem starfað hefur á mínum vegum um alllangt skeið og hefur að ég tel skilað mjög vandaðri vinnu. Í þeirri stefnumótun hefur einmitt verið gert ráð fyrir fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu á sömu forsendum og ég hef nú greint frá hér.
Það skal tekið fram að Alþingi á eftir að fjalla um þingsályktunartillöguna, en ég get sagt það hér að inni í stefnunni sem þar er lögð fram er sett það markmið að í árslok 2017 verði aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu á 50% heilsugæslustöðva og á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019.
Góðir fundarmenn.
Fyrir um það bil hálfum mánuði kynnti ég ákvörðun mína um átak til að stytta bið eftir þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Tilvísunum barna til stöðvarinnar hefur fjölgað verulega ár frá ári, en þangað er eins og þið vitið, vísað börnum til greiningar vegna ofvirkni og athyglisbrests, röskunar á einhverfurófi, hegðunarvanda, kvíða og depurðar. Árið 2013 voru tilvísanir til stöðvarinnar 405, árið 2014 voru þær 456 og á þessu ári stefnir í að þær verði yfir 500. Biðlistar hafa því lengst jafnt og þétt síðustu misserin og bíða nú hátt í fjögur hundruð börn sem fengið hafa tilvísun eftir þjónustu og meðferð.
Það er rétt að taka fram þessi mikla aukning tilvísana til Þroska- og hegðunarmiðstöðvarinnar endurspeglar alls ekki raunfjölgun tilvísana, heldur er að verulegu leyti um að ræða tilfærslur í kerfinu þar sem börnum sem áður var t.d. sinnt hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni eða á BUGL er nú vísað þangað. Eitthvað af þessu er þó raunaukning. Það segir sig sjálft að við Þroska- og hegðunarstöðin getur ekki mætt svo auknu álagi án aðgerða og því ákvað ég að auka fjárveitingar þangað með það að markmiði að veita á þessu og næsta ári allt að 200 fleiri börnum þjónustu en ella hefði verið mögulegt.
Það er mikilvægt að ekki sé of langur biðtími eftir greiningum, enda er greining er jafnan forsenda fyrir meðferð og nauðsynlegum úrræðum.
Að þessu sögðu langar mig að viðra svolítið hugleiðingar sem ég er alls ekki kominn langt með, en það eru í raun spurningar um hvort við séum mögulega komin með vott af greiningaráráttu og of ríka þörf fyrir að hengja merkimiða á fólk, bæði börn og fullorðna og gera það að algjörri forsendu fyrir því að veita stuðning eða aðstoð. Er hugsanlegt að hægt sé að bregðast við vandamálum, t.d. hegðunarvanda skólabarna, í meira mæli en gert er og án mjög flókinna greininga, t.d. innan skólanna sjálfra? Mér finnst ástæða til að velta þessu upp og þætti áhugavert að heyra fagfólk velta þessu fyrir sér með opnum huga.
Eins og ég greindi frá um leið og ég kynnti ákvörðun um átak til að stytta bið eftir þjónustu Þroska- og hegðunarmiðstöðvarinnar þá hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að skoða í víðu samhengi stöðu þeirrar þjónustu sem þar er veitt, í samvinnu við þá aðila sem málið varðar og er stefnt að því að ljúka þeirri vinnu fyrir lok næsta árs. Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða samspil þeirra stofnana sem koma að málefnum barna, raunar hvaða nafni sem þær nefnast, kortleggja þau ferli sem fyrir eru þegar vandi steðjar að og ræða hvort hægt sé að breyta ferlum, samvinnu eða vinnulagi til að bæta þjónustu og auka skilvirkni þannig að sem fyrst sé hægt að grípa inn í vandamál og bæta aðstæður barna og fjölskyldna þegar þess er þörf.
Þið eigið sjálfsagt eftir að hafa spurnir að þessari vinnu þegar hún fer af stað – sálfræðingar munu eflaust eiga þar einhverja aðkomu með fleirum, því ég legg áherslu á að vinnan verði fagleg með aðkomu þeirra sem lagt geta af mörkum vegna þekkingar sinnar.
Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni, en óska ykkur góðs í störfum ykkar.