Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2015 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Málþing félags íslenskra hjúkrunarfræðinga: Heilbrigðisþjónustan: Þátttaka, þróun og framtíðarsýn

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á málþingi
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Komið þið sæl öll sömul – og til hamingju með þetta málþing sem mér sýnist metnaðarfullt og áhugavert af dagskránni og viðfangsefninu að dæma.

Dagskráin fyrir hádegi ber yfirskriftina „Heilbrigðisþjónusta í nútíð og framtíð“ sem má segja að sé eimmitt viðfangsefni heilbrigðisráðherra í víðasta skilningi. Annars vegar snýst það um þær áskoranir sem blasa við í heilbrigðiskerfinu í dag þannig að unnt sé að veita landsmönnum heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög og þá vísa ég til laga um heilbrigðisþjónustu um að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Hins vegar lít ég á það sem verkefni heilbrigðisráðherra að fjalla um þær áskoranir sem fyrirsjáanlegar eru í framtíðinni vegna margvíslegra breytinga og þróunar sem mögulega þarf að mæta með breyttum áherslum og skipulagi svo áfram verði unnt að veita öllum landsmönnum fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á, líkt og segir í lögum. Og á það má jafnframt minna að það ríkir almenn samstaða um það hér á landi að allir landsmenn skuli eiga sama rétt til heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum félagslegum þáttum.

Heilbrigðismál og rekstur heilbrigðiskerfa eru með stærstu, viðamestu, flóknustu og útgjaldafrekustu viðfangsefnum hins opinbera á Vesturlöndum og margt veldur því að stöðugur þrýstingur er á hlutfallslega útgjaldaaukningu í heilbrigðiskerfum þjóða. Þetta veldur stöðugri glímu um fjármuni og kallar á látlausa endurskoðun einstakra viðfangsefna og heilbrigðiskerfisins í heild og þrotlausa leit að leiðum til að auka skilvirkni og hagkvæmni án þess að það bitni á þjónustunni eða gæðum hennar.

Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist ört þar sem öldruðum fjölgar hratt sem hlutfalli af heildinni. Þetta er staðreynd sem verður að taka inn í allt skipulag og stefnumótun á sviði heilbrigðismála. Það er jákvætt að margvísleg framþróun undanfarinna áratuga hefur leitt til betri heilsu og lengra æviskeiðs, en ört stækkandi hópi aldraðra fylgir jafnframt vaxandi byrði vegna fjölþættra langvinnra sjúkdóma. Á sviði lýðheilsu sjáum við margvísleg alvarleg heilsufarsvandamál vegna heilsuspillandi lífsstíls sem birtast jafnvel eins og faraldrar, svo sem sjúkdómar tengdir offitu og hreyfingarleysi og sjúkdómar tengdir ofneyslu áfengis og annarra ávanabindandi fíkniefna.

Í heilbrigðisvísindum fleygir tækninni fram. Ný tæki og ný lyf hafa komið fram á sjónarsviðið sem valda jafnvel straumhvörfum og geta breytt miklu um greiningu og meðferð tiltekinna sjúkdóma og þar með möguleika sjúklinganna til betra lífs. Í sumum tilvikum fela þessar nýjungar í sér slíkan kostnað að við það verður ekki ráðið án þess að beita forgangsröðun og afar ströngum skilyrðum.

Ég lít á stefnumótun til framtíðar sem eitt af mikilvægustu viðfangsefnum mínum sem heilbrigðisráðherra. Stefnumótun sem tekur mið af þeim þáttum og þróun sem ég hef rakið hér og skapar okkur traustan grunn að standa á þegar taka þarf ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Ég segi það gjarna að í hverri áskorun sem á vegi manns verður felast tækifæri og fyrir því á maður að vera vakandi. Í heilbrigðiskerfinu höfum við Íslendingar áratugum saman státað réttilega af því að vera í fremstu röð – en mig grunar að þessi góði árangur hafi að einhverju leyti staðið í vegi fyrir því að ráðist hafi verið í ýmsar breytingar og úrbætur þar sem þess hefur þó verið þörf. Við getum gert betur og það er margt varðandi skipulag heilbrigðiskerfisins em þarf að bæta til að auka hagkvæmni, skilvirkni og gæði. Þess vegna legg ég áherslu á að móta skýrari framtíðarsýn og stefnu á mikilvægum málefnasviðum. Slík stefnumótunarvinna hefur verið sett á oddinn í velferðarráðuneytinu á síðustu misserum. Þar má nefna mótun heilbrigðisstefnu til ársins 2020 sem lögð verður fyrir Alþingi á næstunni, stefnu í geðheilbrigðismálum sem ég hef nýlega lagt fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar og stefnu í lyfjamálum sem brátt verður kynnt. Loks nefni ég úttekt á heilbrigðishluta öldrunarþjónustunnar með skýrari sýn að markmiði sem nú er unnið að á mínum vegum, að ógleymdri skýrslu ráðgjafahóps sem unnið hefur ýtarlegar tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun.

Björn Zoega er formaður áætlunar um Betri heilbrigðisþjónustu sem ég ýtti úr vör fljótlega eftir að ég tók við ráðherrastóli. Hann mun kynna hvað í áætlunninni felst hér á eftir, en í raun er um að ræða nokkur stór verkefni sem unnið hefur verið að - sumum hverjum um margra ára skeið í einhverri mynd. Ég ákvað að skapa þessum verkefnum skýrari umgjörð og koma þeim í ákveðinn farveg, einfaldlega til skerpa sýnina og koma þeim hraðar áfram.

Eitt stórra verkefna sem þarna eru undir er þróun einnar samtengdrar rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu sem unnið er að hjá Embætti landlæknis. Þar hafa verið stigin stór skref á síðustu misserum með samtengingum og nýjungum sem skipta miklu og stuðla að auknum gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Sameining heilbrigðisstofnana var liður í áætlun um Betri heilbrigðisþjónustu. Því verkefni er lokið þar sem í hverju heilbrigðisumdæmi er nú ein öflug heilbrigðisstofnun í stað margra smærri stofnana líkt og áður.

Efling heilsugæslunnar og innleiðing þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu er eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnunum innan áætlunarinnar um Betri heilbrigiðsþjónustu. Við höfum rætt um það árum og raunar áratugum saman að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu, en í raun hefur lítið verið gert til að styðja þann vilja í verki. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að gera breytingar sem stuðla að því að heilsugæslan geti sinnt þessu hlutverki í raun og þar tel ég að innleiðing þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu sé mikilvægur þáttur. Við þurfum að bæta aðgengi fólks að heilsugæslunni og við þurfum að auka þverfaglegt samstarf innan hennar með áherslu á að nýta þekkingu einstakra fagstétta sem best. Þarna held ég að séu sóknarfæri og ég reikna með samvinnu við ykkur hjúkrunarfræðinga meðal annarra fagstétta við að þróa þessar hugmyndir frekar.

Góðir fundarmenn.

Við eigum að baki allmörg erfið ár í heilbrigðiskerfinu. Ár niðurskurðar, ár vinnudeilna og verkfalla og ár átaka af ýmsu tagi. Það hefur reynt á heilbrigðiskerfið, á starfsfólkið og á sjúklingana sem þangað þurfa að leita. Ég bind nú vonir við að við séum komin fyrir vind og horfum fram á betri tíma.

Síðustu ár hefur reynst mögulegt að auka framlög til heilbrigðiskerfisins og þar er nú hafin raunveruleg uppbygging á öllum sviðum. Á stóru sjúkrahúsunum er verið að endurnýja tækjakostinn með auknu fjármagni samkvæmt ákveðinni áætlun – og ekki má gleyma stórgjöf Íslenskrar erfðagreiningar sem gerir kleift að kaupa til Landspítala og setja upp svonefndan jáeindaskanna sem lengi hefur verið rætt um að sé mikil þörf fyrir og vaxandi í ljósi þeirra möguleika sem fylgja þeirri tækni.

Heilsugæslan verður efld til muna á næsta ári með auknu fé, líkt og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Framlag til heilsugæslu og heimahjúkrunar verður aukið um tæpar 500 milljónir króna með áherslu á ýmis ný verkefni. Sérfræðingum í heimilislækningum verður fjölgað, stöðum sálfræðinga sömuleiðis og framlög aukin til að bæta við námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun.

Uppbygging Landspítala við Hringbraut er hafin. Vilji og stefna stjórnvalda í því máli liggur fyrir og verkin tala nú sínu máli, því fyrsta skóflustunga að sjúkrahóteli við Landspítalann var tekin 11. þessa mánaðar og verkið því komið á framkvæmdastig.

Ég er bjartsýnn á framtíðina og sannfærður um að í heilbrigðismálum sé búið að snúa vörn í sókn. Auðvitað eru mörg verkefni sem þarf að leysa, margt sem þarf að bæta eða endurskipuleggja, verkefnin framundan eru óþrjótandi og að mörgu að hyggja. Íslenska heilbrigðiskerfið er gott af því að innan þess starfar öflugt og vel menntað fólk með mikinn metnað. Ég geri mér fulla grein fyrir því að heilbrigðisþjónustan stendur og fellur með starfsfólkinu og því þarf stöðugt að huga að því hvernig við getum haldið í það fólk sem við höfum, hvernig við getum laðað fleiri til starfa og hvernig við getum tryggt nauðsynlega nýliðun vel menntaðs heilbrigðisstarfsfólks.

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að nefna hér mál sem ég veit að liggur mjög þungt á hjúkrunarfræðingum – og raunar heilbrigðisstarfsfólki yfirleitt. Hér vísa ég til málaferla sem eru einstök hér á landi þar sem tiltekinn hjúkrunarfræðingur er sakaður um að hafa gert mistök sem leiddu til dauða sjúklings. Að sjálfsögðu legg ég ekkert mat á þetta tiltekna mál en lýsi samúð minni með öllum sem eiga um sárt að binda vegna þess. Ég vil minna hér á skýrslu starfshóps sem ég skipaði í byrjun þessa árs og fól að móta tillögur um verklag í tengslum við tilkynningar og rannsókn óvæntra dauðsfalla sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð sjúklings. Þessi starfshópur skilaði mér afar vel unnum tillögum um leiðir sem jöfnum höndum hafa það markmið að stuðla að auknu öryggi sjúklinga og bættu starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks. Ég held að þetta tvennt verði ekki sundur skilið ef vel á að vera og vil fullvissa ykkur hér um að ég mun gera allt sem í mínu valdi til að hrinda í framkvæmd tillögum hópsins til úrbóta.

Fleiri ætla ég ekki að hafa orð mín að þessu sinni. Gangi ykkur vel í störfum ykkar og njótið dagsins.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta