Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. apríl 2016 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Ávarp heilbrigðisráðherra á vorþingi Landssambands heilbrigðisstofnana

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Vorþing Landssambands heilbrigðisstofnana,
Reykjanesbæ 14. apríl 2016

Heil og sæl öllsömul, það er gaman að hitta ykkur hér á vorfundi Landssambands heilbrigðisstofnana, á þeim skemmtilega tíma ársins þegar birtan tekur völdin, gróandinn er á næsta leiti og dagarnir verða allir skemmtilegri og menn og málefni sömuleiðis.

Ég kom auðvitað ekki hér til að flytja ykkur náttúrustemmningu og vorljóð í eiginlegri merkingu – en aftur á móti finnst mér vel hægt að fara út í líkingamál og segja að nú sé vor, birta og gróandi í heilbrigðismálum okkar landsmanna. Ég tel það engar ýkjur þótt ég segi að það hafi verið tíðindamikið í heilbrigðismálunum á síðustu misserum – ýmsum verkum, stórum og smáum hefur verið komið í kring, önnur miklvæg verk hafa verið undirbúin og eru nú komin eða við það að komast á framkvæmdastig. Um þessi mál ætla ég að ræða hér.

Ég ætla að gefa barlóminum og svartsýninni langt nef og benda á það sem fyrir liggur svart á hvítu sem til framfara horfir í heilbrigðismálum. Hér er öflugt fólk og mér hefur fundist afar gott að vinna með ykkur og er viss um að við munum eiga gott samstarf áfram .

Fljótlega eftir að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra kunngerði ég áform um úrbætur í heilbrigðisþjónustu sem ég kynnti undir yfirskriftinni Betri heilbrigðisþjónusta.

Þau verkefni sem þar voru talin voru fæst ný af nálinni – heldur var um að ræða afar mikilvæg mál sem sum hver höfðu verið til skoðunar og umfjöllunar árum saman. Alltaf virtist eitthvað skorta á að ýta þeim áfram og koma þeim í verk. Með því að skapa þessum verkefnum ákveðið skipulag og fastmótaða umgjörð taldi ég meiri líkur á að vinna þeim fylgi og hrinda þeim í framkvæmd og ég leyfi mér að segja að það hefur að verulegu leyti gengið eftir.

Eitt þessara verkefna var að ljúka sameiningu heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum. Það tel ég hafa tekist vel.

Af smærri verkefnum vil ég nefna innleiðingu hreyfiseðla sem meðferðarform í heilbrigðisþjónustunni. Þótt verkefnið sé ekki stórt er það mikilvægt og ég er viss um að því eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg, því heilbrigðisþjónustan mun í vaxandi mæli snúast um að virkja fólk sjálft eins og kostur er til að taka ábyrgð á eigin heilsu.

Embætti landlæknis var falin formleg ábyrgð á því að þróa og innleiða samtengda rafræna sjúkraskrá á landsvísu. Með aukinni áherslu á verkefnið og skilgreindum fjármunum til að vinna að því að krafti hefur náðst mikill árangur og mörg stór skref stigin í átt til nútímalegs umhverfis á þessu sviði. Enn er þó mikið verk að vinna.

Það þarf ekki að fjölyrða í þennan hóp um ávinninginn af samtengdum sjúkraskrám þar sem heilbrigðisupplýsingar skila sér með öruggum hætti milli þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Ávinningurinn er mikill og ykkur öllum ljós.

Ég nefni líka heilsufarsupplýsingar fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar í rafrænu gáttinni Veru. Vera er þegar búin að sanna ágæti sitt, hún vex og dafnar vel og á tvímælalaust eftir að verða sjálfsagður förunautur allra notenda heilbrigðiskerfisins sem snjöll og þægileg leið til að fylgjast með eigin heilsufarsupplýsingum og eiga í samskiptum við heilbrigðiskerfið.

Og meira um hagnýtingu tækninnar. Mönnun sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hefur verið og er enn áhyggjuefni. Þar þarf að hugsa í nýju lausnum. Starfshópur á mínum vegum skilar innan skamms stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu svo bjóða megi landsmönnum hvar sem þeir eru í sveit settir fjölbreytta, skilvirka og örugga heilbrigðisþjónustu.

Af stórum verkefnum undir yfirskrift Betri heilbrigðisþjónustu má nefna fjármögnun eftir forskrift, þjónustustýring með áherslu á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og síðast en ekki síst nýtt og gjörbreytt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu.

Nýja greiðsluþátttökukerfið er nú fullsmíðað, það er kennt við hinn mikla tölfræðivölund Pétur heitinn Blöndal – blessuð sé minning hans - og ég kynnti frumvarp um nýja kerfið á Alþingi í vikunni. Leiðarljósið að baki er einföldun í þágu sjúklinga með áherslu á að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum.

Samkvæmt frumvarpinu verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark og sett verður þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá almennum notendum. Með nýja greiðsluþátttökukerfinu verður stigið mikilvægt skref í átt til þjónustustýringar með áherslu á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Þetta skref felst í því að tryggja börnum að 18 ára aldri fulla greiðsluþátttöku hins opinbera fái þau tilvísun heilsugæslu vegna þjónustu sem þau þurfa að sækja til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna.

Ég vil nefna í beinu framhaldi af þessu – af því að sumir gagnrýna að ekki skuli hafa verið stigið það skref að taka sálfræðiþjónustu inn í nýja greiðsluþátttökukerfið – að ég hef lagt áherslu á að bæta aðgengi að þjónustu sálfræðinga á landsvísu og hef unnið að því markvisst. Ég hef kosið að gera það í gegnum heilsugæsluna og nýta þannig tækifærið til að styrkja þá grunnstoð opinbera heilbrigðiskerfisins.

Ég held að flestir ef ekki allir telji verulegan akk í því að auka þverfaglega þjónustu heilsugæslunnar með aðkomu fleiri fagstétta og sálfræðingar geta gegnt afar mikilvægu hlutverki í þjónustu margra þeirra sem þangað sækja. Í fjárlögum þessa árs voru settar um 70 milljónir króna til að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar og það gerir kleift að bjóða sálfræðiþjónustu í heilsugæslu allra heilbrigðisumdæma landsins.

Í tillögu til ályktunar sem liggur fyrir Alþingi um stefnu í geðheilbrigðismálum er sett fram áætlun um fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu og er sú áætlun að breskri fyrirmynd. Ég tel rétt og sjálfsagt að vinna áfram í samræmi við þessa áætlun og styrkja þannig heilsugæsluna til að mæta betur þörfum þeirra sem þangað leita.

Góðir gestir.

Ég held áfram að tala um heilsugæsluna, því þar er svo margt nýtt að gerast. Nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæsluna hefur verið smíðað og verður til að byrja með innleitt í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, eins og nokkuð hefur verið rætt um opinberlega að undanförnu.

Nýja fjármögnunarkerfið byggist á aðferð sem þróuð hefur verið og er vel þekkt í Svíþjóð.

Í stuttu máli ráðast fjárframlög til reksturs heilsugæslustöðva af sjúklingunum sem stöðvarnar sinna.

Unnin hefur verið kröfulýsing um rekstur heilsugæslunnar í nýju fjármögnunarkerfi. Þessi lýsing verður viðmið fyrir allan heilsugæslurekstur á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem um ræðir stöðvar í opinberum rekstri eða einkareknar stöðvar. Í kröfulýsingunni er m.a. kveðið á um hámarksbið eftir þjónustu, kröfur til húsnæðisins, lækningatækja og annars búnaðar, skipulag lyfjamála, skráningu heilbrigðisupplýsinga, samtengingu sjúkraskráa og sérstaklega er kveðið á um gæði þjónustunnar sem mæld verður samkvæmt skilgreindum mælikvörðum.

Það skiptir mjög miklu máli í nýju fjármögnunarkerfi að þar munu ólík rekstrarform sitja við sama borð, andstætt því sem nú er. Opinberar stöðvar og einkareknar geta því keppt um að veita sjúklingum gæðaþjónustu á jafnréttisgrundvelli og þar með verður samanburður á þjónustu, gæðum og afköstum heilsugæslustöðva raunhæfur og sanngjarn.

Ég vil líka skjóta því að hér að unnið hefur verið að innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar í bráðaþjónustunni eftir svokölluðu DRG kerfi sem er notað í flestum okkar nágrannalöndum. Áformað er að taka kerfið í notkun í áföngum, fyrst á Landspítala árið 2017.

Ég og aðrir þeir sem unnið hafa að undirbúningi þessara miklu breytinga væntum þess að breytt fyrirkomulag fjármögnunar í heilsugæslunni og aðrar þær breytingar sem hér hefur verið lýst feli í sér margvíslegan ávinning, jafnt faglegan og fjárhagslegan í þágu allra sem hagsmuna eiga að gæta, jafnt sjúklinga, starfsfólks, rekstraraðila og skattgreiðenda.

Það eru mörg jákvæð teikn á lofti í heilsugæslunni. Í fjárlögum þessa árs voru settar 220 milljónir króna til að fjölga námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun og veita heilsugæslunni aukið fjármagn til að ráða í fleiri sérfræðingstöður í heimilislækningum eða aðrar stöður heilbrigðisstarfsfólks. Þetta er að skila árangri og við sjáum nú vaxandi áhuga fagfólks fyrir því að starfa í heilsugæslunni sem er mikið fagnaðarefni.

Góðir gestir.

Ég kynnti fyrir skömmu tvö stór og mjög brýn verkefni í heilbrigðisþjónustunni þar sem tekist er á við erfiðan og uppsafnaðan vanda eftir mögur ár og ýmsa erfiðleika sem við höfum þurft að takast á við. Bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist verulega og því var algjörlega nauðsynlegt að ráðast til atlögu við það mál með sérstökum aðgerðum og til að byrja með að stytta bið eftir völdum aðgerðum.

Annað stórt verkefni sem ráðist hefur verið í og ég kynnti fyrir skömmu eru ný og aukin úrræði til að mæta útskriftarvanda Landspítalans.

Í því skyni var opnuð 18 rúma útskriftardeild á Landspítala auk þess sem ákveðið var að fjölga endurhæfingarrýmum, efla heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu og taka að nýju upp helgaropnun á Hjartagátt Landspítala, svo nokkuð sé nefnt.

Burtséð frá þessum verkefnum varðandi útskriftarvandann var áður ákveðið með fjárlögum að stórefla heimahjúkrun um land allt. Góð heimahjúkrun gerir fólki kleift að búa lengur heima en það þarf líka að huga að uppbyggingu fyrir þá sem þurfa meiri aðstoð og dvöl á hjúkrunarheimili. Í upphafi árs kynnti ég framkvæmdáætlun um byggingu 214 nýrra hjúkrunarrýma. Byggð verða tvö ný hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu og verða fyrstu samningar þess efnis undirritaðir á næstu dögum. Einnig er gert ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis á Árborgarsvæðinu og svo má geta um ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði á lóð Sólvangs.

Góðir gestir.

Margt hef ég sagt og tíundað af verkefnum sem til framfara og úrbóta horfa í heilbrigðisþjónustunni. Ég gæti þó haldið lengi áfram, því ég hef sleppt því að tala um átak gegn lifrabólgu C og einnig um þá miklu uppbyggingu sem hafin er á Landspítalanum við Hringbraut eftir langan aðdraganda og viðamikinn undirbúning. Þar munum við sjá drauminn um öflugt og nútímalegt þjóðarsjúkrahús rætast.

Þetta er orðin býsna löng ræða og samt hefði ég svo gjarna viljað ræða aðeins við ykkur um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2022. Hún liggur nær fullsköpuð á skrifborðinu mínu og ég stefni á að kynna hana almenningi. Í stuttu máli eru þar sett fram það markmið að byggja upp og styðja við góða heilbrigðisþjónustu, efla lýðheilsu og stuðla að almennu heilbrigði og vellíðan landsmanna. Með heilbrigðisstefnunni verður lagður grunnur aðgerðaáætlana um uppbyggingu og úrbætur í heilbrigðisþjónustu og skipulagi hennar um allt land.

Ég læt þetta verða lokaorðin og óska ykkur öllum alls hins besta, gæfu og gengis í mikilvægum störfum og ánægjuríks fundar hér í dag.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta