Ávarp heilbrigðisráðherra á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Ársfundur SAk 11. maí 2016
Sæl verið þið, ársfundargestir. Það er ánægjulegt að sjá ykkur öll og hitta eins og ævinlega.
Tækifæri til betri heilbrigðisþjónustu er yfirskrift ársfundarins. Það líst mér vel á, enda er það er í góðum samhljómi við áherslur mínar sem heilbrigðisráðherra og þau verkefni sem ég hef haft á oddinum sl. þrjú ár. Tækifærin til að bæta heilbrigðiskerfið og þar með þjónustuna eru fyrir hendi. Við eigum að hafa vökult auga fyrir slíkum tækifærum og nýta sem best í þágu þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.
Það hefur blasað við lengi að við þurfum skýrari verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu til að gera kerfið notendavænna og skilvirkara. Í því skyni hef ég m.a. lagt áherslu á að innleiða þjónustustýringu í áföngum líkt og sést í frumvarpi um nýtt greiðsluþátttökukerfi sem er til umfjöllunar á Alþingi og ég vík nánar að hér á eftir.
Ég fól Embætti landlæknis á sínum tíma ábyrgð á framgangi vinnu við samtengda rafræna sjúkraskrá og tryggði aukna fjármuni til þessa mikilvæga verkefnis. Þessari vinnu miðar nú vel og ávinningurinn er ótvíræður.
>Breytt fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar þar sem áhersla á skilvirkni, öryggi og gæði er byggð inn í fjármögnunarkerfið er verkefni sem mikið púður hefur verið sett í síðustu misserin. Velferðarráðuneytið hefur nú lokið gerð fjármögnunarkerfis að sænskri fyrirmynd sem á næstunni verður innleitt í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, svokölluð fjármögnun eftir forskrift. Með því nýja kerfi verður fullt jafnræði með rekstrarformum og hagsmunir notenda varðir sérstaklega með tengingu fjármögnunarinnar við gæði þjónustunnar og ýmsa mælanlega árangursvísa. Þetta fjármögnunarlíkan sé ég fyrir mér að verði innleitt á landsvísu þegar fram líða stundir.
Það segir sig sjálft að í litlu og fámennu landi eins og okkar er ekki hægt að tryggja sérhæfða heilbrigðisþjónustu á öllum sviðum í öllum landshlutum. Við höfum hvorki ráð né burði til að reka sérhæfð sjúkrahús víða um land. Aftur á móti þarf að vera alveg skýrt hvaða þjónustu fólk á að geta gengið að í héraði og sömuleiðis hvert á að vísa sjúklingum sem þarfnast sérhæfðrar þjónustu.
Við búum við aðstæður sem krefjast þess að heilbrigðiskerfið virki sem samhæfð heild. Hver stofnun eða starfseining þarf að hafa skýrt hlutverk og sinna því sem hún gerir best og þarna á milli verður að vera náin samvinna og samráð. Ég hef lagt á þetta mikla áherslu frá upphafi ráðherratíðar minnar. Okkur miðar í rétta átt en það skortir þó enn töluvert á samvinnu milli stofnana heilbrigðiskerfisins. Mér finnst blasa við að huga þurfi betur að þessu gangverki og sjá til þess að tannhjólin snúist viðstöðulaust þannig að sjúklingarnir verði ekki fórnarlömb kerfislægra gangtruflana.
Ennfremur þarf að vinna markvisst að því að tryggja öllum aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu, hvort heldur er innan opinberra stofnana eða þjónustu á vegum einkaaðila sem uppfylla kröfur um aðgengi, öryggi og gæði þjónustunnar.
Ég hef falið ráðuneyti mínu að hefja undirbúning að því að sérfræðiþjónusta hvers heilbrigðisumdæmis utan höfuðborgarsvæðisins verði endurskipulögð út frá þörfum íbúa. Í þeirri vinnu verði miðað við að skipulag og ábyrgð á þjónustu sérfræðinga verði í höndum stjórnenda hverrar heilbrigðisstofnunar.
Í mínum huga eru vaxandi möguleikar til þess að nýta nýjustu tækni fjarlækninga við veitingu heilbrigðisþjónustu. Fyrr i dag tók ég við skýrslu starfshóps sem ég fól að móta stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu undir styrkri forystu Dr. Eyjólfs Guðmundssonar. Ég hlakka til að kynna mér í þaula tillögur hópsins og er sannfærður um að þær munu gefa okkur tækifæri til að efla til muna heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ekki síst í hinum dreifðari byggðum.
En aftur að verkaskiptingu og samvinnu.
Embætti landlæknis lauk nýlega gerð könnunar á hlutverki, stefnumörkun og framsali valds á opinberum heilbrigðisstofnunum landsins þar sem stjórnendum þeirra um allt land voru sendar spurningar sem snúa að þessum þáttum. Niðurstöðurnar sýna að stjórnendur telja flestir að hlutverk stofnana sinna sé ekki nógu skýrt, hvorki í lögum né reglugerðum en aftur á móti hafa stofnanirnar sjálfar margar hverjar unnið vel að gerð eigin starfsáætlana og sett sér mælanleg markmið. Ég ætla ekki að fara í saumana á niðurstöðum þessarar könnunar hér enda verður hún kynnt af hálfu embættisins. Meginmálið er að þarna eru dregin fram atriði sem munu verða góður vegvísir til úrbóta og eins og Embætti landlæknis bendir á í skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar eru ýmsar leiðir færar til úrbóta, án þess að þær kalli á lagabreytingar. Það er alveg öruggt að hér felast tækifæri til bættrar þjónustu ef vel er að verki staðið.
Gott fólk.
Það er alltaf af hinu góða, hvaða nafni sem starfsemin nefnist, að vinna skipulega, að hafa mælanleg markmið, skýra verkferla og staðla um gæði, öryggi og svo framvegis. Í flóknu starfsumhverfi sjúkrahúsa sem veitir viðkvæma þjónustu sem varðar líf og heilsu fólks er það algjörlega nauðsynlegt.
Gott dæmi um vandaða vinnu af þessu tagi er Gæðingurinn ykkar, og það metnaðarfulla áform að Sjúkrahúsið á Akureyri verði fyrsta sjúkrahúsið hér á landi til að hljóta alþjóðlega vottun starfsemi sinnar. Ég hef fylgst með ferlinu og vinnu ykkar að þessu markmiði og styð ykkur heilshugar. Það var mér því mikil ánægja að geta um síðustu áramót veitt 25 milljónir króna til að styðja við þessa vinnu sem gengur eins vel og raun ber vitni. Öll snýst þessi vinna um að efla öryggi sjúklinga og auka gæði þjónustunnar, hvort sem litið er til þátta sem tengjast húsnæði, skipulagi gæðamála, þjálfun starfsmanna, yfirferð vinnuferla, gerð verklagsreglna eða gæðastaðla. Þið hafið nú þegar náð frábærum árangri og megið svo sannarlega vera stolt af störfum ykkar.
Sjúkrahúsið á Akureyri er önnur meginstoðin þegar kemur að sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu við landsmenn á eftir Landspítalanum. Það veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, er varasjúkrahús fyrir Landspítala, miðstöð sjúkraflutninga fyrir landið er rekin hér og sömuleiðis Sjúkraflutningaskólinn sem skipuleggur og annast menntun allra sem starfa við sjúkraflutninga.
Það er mikilvægt í öllu samhengi að byggja á sterkum stoðum og í ljósi þess hlutverks sem SAk hefur í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn hér norðan heiða, allt austur á Neskaupsstað hef ég lagt mig fram um að efla sjúkrahúsið hér og einnig tiltekna þætti í starfsemi þess eins og Sjúkraflutningaskólann sem fer með mikilvægt hlutverk á landsvísu.
Starfsemi SAk hefur aukist umtalsvert á liðnum árum og þrátt fyrir niðurskurð fjárheimilda árin eftir hrun tókst samhliða aukinni starfsemi nokkuð vel að halda rekstrinum innan fjárheimilda. En nú hefur vörn verið snúið í sókn. Árið 2014 voru fjárveitingar til SAk auknar verulega og áfram hefur verið haldið árin 2015 og 2016, bæði með því að styrkja rekstrargrunn sjúkrahússins en einnig með framlögum til mikilvægra umbótaverkefna, til viðhalds fasteigna og til tækjakaupa.
Þegar ég ræði hér um aukið fé til sjúkrahússins er vert að geta þess að þá eru undanskildar launa- og verðlagsbætur. Þar erum við að tala um háar fjárhæðir, ekki síst vegna kjarasamninga lækna og úrskurðar gerðardóms gagnvart hjúkrunarfræðingum og aðildarfélögum BHM.
Það var mjög alvarlegt ástand á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum vegna kjaradeilna á síðasta og þarsíðasta ári. Nú ríkir vinnufriður og ég trúi því að sú innspýting sem fólst verulegum kjarabótum skili sér í þeim mannauði sem er grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar þar sem starfsfólkið er vonandi sáttara við sitt en áður.
Verkföll heilbrigðisstarfsfólks í fyrravetur höfðu meðal annars þær afleiðingar að bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist. Á grundvelli upplýsinga frá Embætti landlæknis um fjölgun á biðlistum samþykkti ríkisstjórnin tilögur mína um áætlun um aðgerðir til úrbóta. Byggt var á tillögum landlæknis þar sem horft var til biðtíma og áhættu sem leiðir af bið eftir aðgerð. Niðurstaðan varð sú að ráðast í aðgerðir til að stytta bið eftir augasteinsaðgerðum, gerviliðaaðgerðum á hné og á mjöðm og hjartaþræðingu. Fyrr á þessu ári undirritaði ég því samninga við fjórar heilbirgðisstofnanir, þar á meðal Sjúkrahúsið á Akureyri, um styttingu biðlista. Sjúkrahúsið hér mun þar með fjölga liðskiptaaðgerðum um 120 á þessu ári og augasteinsaðgerðum um 100. Þetta er að mínu mati enn eitt stóra skrefið sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið.
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá ykkur, gott fólk, að tekið hafa gildi ný lög um opinber fjármál sem breyta töluvert vinnunni við fjárlagagerð hvers árs, og gera jafnframt auknar kröfur um stefnu á málefnasviðum til lengri tíma litið. Í tengslum við þetta hefur velferðarráðuneytið sett fram stefnu til næstu ára varðandi sjúkrahúsþjónustu í landinu. Liður í þeirri stefnu er undirbúingur að bættri aðstöðu við sjúkrahúsið á Akureyri. Þar eru fyrstu skrefin að hefja frumathugun og undirbúning hönnunar á nýrri legudeildarálmun.
Góðir fundarmenn.
Af því að ég legg áherslu á að stofnanir heilbrigðiskerfisins eiga að vinna saman og að góð og skilvirk heilbrigðisþjónusta veltur að miklu leyti á góðri samvinnu og flæði, ætla ég aðeins að nefna nokkur áhersluverkefni sem tengjast Heilbrigðisstofnun Noðurlands. Fjárframlög til hennar hafa verið aukin til muna – og við getum alveg treyst því að sterkari staða hennar til að sinna verkefnum sínum kemur SAk til góða. Ég nefni í þessu samhengi verulega aukin framlög til heimahjúkrunar, m.a. með auknum stöðugildum hér á Akureyri til að bæta þjónustu á kvöldin og um helgar. Jafnramt hefur þjónustan verið flutt í rúmbetra húsnæði og bílakostur verið endurnýjaður að mestu.
Framlög hafa verið aukin til að efla sálfræðiþjónustu og til að fjölga heilsugæslulæknum, auk þess sem fjármunir hafa verið merktir sérstaklega sérnámsstöðum í heimilislækningum og námsstöðum í heilsugæsluhjúkrun.
Eins og ég þreytist ekki á að ræða um, þá er samfellan í heilbrigðiskerfinu grundvallaratriði þess að veita sjúklingum sem allt á að snúast um góða þjónustu. En við skulum líka hafa það hugfast að stofnanir heilbrigðiskerfisins eru ekki hús eða tæki. Þær eru, númer eitt, tvö og þrjú fyrst og fremst fólkið sem starfar í húsunum og beitir þekkingu sinni og tækni. Góð og öflug heilbrigðisþjónusta stendur og fellur með mannskapnum sem þar starfar. Við erum að tala um liðsheildir sem saman standa af fólki með fjölbreytta menntun, þekkingu og reynslu sem vinna saman eins og einn maður að einu markmiði þar sem sjúklingurinn er í öndvegi.
Ágætu ársfundargestir.
Þar sem ég nefni hér sjúklinginn í öndvegi – sem á auðvitað alltaf að vera meginfókus allrar umræðu um heilbrigðismál, þá get ég ekki annað en vikið að því verkefni sem mér er hugstætt þessa dagana og snýr að breyttu greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. Nýtt kerfi er enn til umfjöllunar hjá Alþingi en ég trúi því að þingið beri gæfu til að koma þessu mikilvæga hagsmunamáli sjúklinga í framkvæmd með lögum.
Þeir sem fylgjast með fréttum hafa eflaust heyrt marga finna nýju greiðsluþátttökukerfi flest til foráttu og láta eins og verið sé að stórauka álögur á sjúklinga. Það er einfaldlega ekki rétt og ég held reyndar að margir gagnrýnendur tali gegn betri vitund. Árið 2013 var tekið í notkun skylt kerfi varðandi greiðsluþátttöku fólks í lyfjakostnaði. Markmiðið var nákvæmlega hið sama og varðandi heilbrigðisþjónustuna, þ.e. að setja þak á hámarkskostnað fólks til að verja þá veikustu fyrir miklum útgjöldum. Andstaða við þessi áform var mikil áður en þau komu til framkvæmda, en gagnrýnisraddirnar þögnuðu nær strax og kerfið var tekið í notkun og fólki urðu kostir þess ljósir.
Þetta nýja kerfi varðandi heilbrigðisþjónustuna er ekki flókið ef fólk vill skilja það. Það er rétt að þeir sem lítið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda geta þurft að greiða meira en áður. Aftur á móti munu þeir sem mestu skiptir að verja fyrir útgjöldum, af því að þeir eru veikir og þurfa mikið á þjónustunni að halda, hafa hag af breytingunni. Hér snýst málið líka um samfellu í kerfinu, þar sem haldið er heildstætt utan um útgjöld sjúklinga, hvert sem hann sækir sér heilbrigðisþjónustu og hann nýtur afsláttar um leið og samanlögð útgöld ná tiltekinni fjárhæð.
Líkt og áður verða ekki innheimt komugjöld fyrir börn í heilsugæslunni. Það er aftur á móti nýmæli að sjúkratryggingar munu greiða að fullu fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga við börn að 18 ára aldri leiti þau þangað á grundvelli tilvísunar frá heilsugæslunni.
Með þessu er stigið mikilvægt skref í þá átt að gera heilsugæsluna að þeim fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni sem alltaf hefur staðið til, þótt lítið hafi orðið úr efndum hvað það varðar. Og með þessum breytingum er um 40 þúsund barnafjölskyldum í landinu gert mögulegt að njóta gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu í þeim þáttum sem kerfisbreytingin tekur til.
Ágæta samkoma.
Nú líður að lokum þessarar tölu minnar. Ég vil þó áður en ég lýk máli mínu minnast Stefáns Gunnlaugssonar þess merkismanns, sem lést fyrr á þessu ári. Stefán var aðalhvatamaður að stofnun Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri í árslok 2013 og stjórnarmaður þeirra frá upphafi. Ekki síst fyrir hans tilstilli urðu Hollvinasamtökin fljótt að mikilvægum bakhjarli fyrir sjúkrahúsið, því honum tókst svo vel að fá fólk með sér og virkja það til góðra verka. Öflugir baráttumenn, bjartsýnismenn og framkvæmdamenn eru mikilvægir í hverju héraði. Við eigum á ýmsu slíku fólki að skipa hér um slóðir, bæði konum og körlum og því þarf ekki að kvíða framtíðinni hvað það varðar.
Gott fólk.
Okkur gengur allt í haginn og það er bjart framundan.
Þakka ykkur fyrir.