Málþing um líknarþjónustu á Norðurlandi
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
Komið þið sæl öll, gott er að sjá ykkur hér svona mörg – og eins er ánægjulegt fyrir mig að sjá hér mörg kunnugleg andlit.
Ég vil áður en lengra er haldið þakka þeim sem ákváðu að standa fyrir málþingi um þetta mikilvæga efni, þ.e. um líknarþjónustu á Norðurlandi, þróun hennar og framtíðarsýn. Öllum sem standa að þessum merku og góðu stofnunum og félögum færi ég mínar bestu þakkir fyrir frumkvæðið.
Ég vil nefna það strax að þótt yfirskrift málþingsins beri með sér að einungis sé til umfjöllunar líknarþjónusta á Norðurlandi, þá er hugsunin sú að taka umræðuna aðeins lengra. Þannig er horft til þess að skipuleggja líknandi meðferð og lífslokameðferð sem unnt verði að veita á Akureyri en nái einnig til starfssvæða heilbrigðisstofnana Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða. – Akureyri yrði miðpunkturinn í krafti þess að hér er stórt og sérhæft sjúkrahús með mikilli fagþekkingu og þar sem hér er fyrir hendi kunnátta, reynsla og sérhæfð þekking innan vébanda Heimahlynningarinnar sem starfar í beinum og nánum tengslum við sjúkrahúsið.
Ég kem betur að þessu síðar í tölu minni, en fyrst ætla ég í svolitla söguskoðun til glöggvunar og upprifjunar.
Um áratugaskeið hefur verið unnið að eflingu líknandi meðferðar á Akureyri og nágrenni og hefur fjöldi fólks með brennandi áhuga og þekkingu á málefninu komið að þeirri vinnu. Þótt enn sé ekki starfrækt hér líknardeild, þá hafa störf, áhugi og metnaður þessarra einstaklinga skipt afar miklu máli og ég vil nota tækifæri hér til að þakka þeim alveg sérstaklega.
Lengst var þetta mál komið haustið 2007 þegar heilbrigðisráðuneytið veitti Hjúkrunarþjónustu Eyjafjarðar ehf. leyfi til reksturs líknardeildar – en fyrir þá sem ekki vita þá var fyrirtækið í eigu sjö hjúkrunarfræðinga sem stóðu að Heimahlynningu á Akureyri. Í byrjun árs 2008 var undirrituð viljayfirlýsing milli hjúkrunarþjónustunnar og sjúkrahússins á Akureyri um að þeirra á milli yrði gerður samningur um þjónustu og rekstur líknardeildar við sjúkrahúsið. Heilbrigðisráðuneytið fól um þetta leyti sjúkrahúsinu að undirbúa og hefja rekstur líknardeildar og Alþingi veitti í því skyni fjárveitingar á fjárlögum árin 2007 - 5 milljónir króna - og 2008 -10 milljónir króna.
Því miður varð ekki úr þessum áformum, þótt þau væru komin vel á veg, en eflaust hefur þó undirbúningsvinnan og umfjöllun um þessa þjónustu komið að einhverju gagni, hvað sem öðru líður. Þótt þetta mál og framvinda þess sé miklu lengri og flóknari en hér hefur verið rakið ætla ég samt að rífa mig upp úr forsögunni og snúa mér að sögu framtíðarinnar sem við ætlum nú að fara að skapa. Það er mikill ábyrgðarhluti og vandaverk, svo við skulum leggja okkur öll í verkið.
Í júní í sumar barst mér bréf frá þeim Elísabetu Hjörleifsdóttur, sérfræðingi í krabbameins- og líknarhjúkrun hjá Heimahlynningunni og dósent við heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Ingvari Þóroddssyni, forstöðulækni endurhæfingar og öldrunarlækninga við Sjúkrahúsið á Akureyri, þar sem þau kynntu fyrir mér hugmyndinia um skipulagningu og framkvæmd líknarmeðferðarþjónustu sem tæki til starfssvæða heilbrigðisstofnananna á Austur, Norður og Vesturlandi með Akureyri sem miðpunkt.
Eftir því sem ég hef betur kynnt mér þessa hugmynd og sett mig inn í málið verð ég æ sannfærðari um að hér erum við með efni sem ástæða er til að vinna með og hrinda í framkvæmd. Það er mikilvægt að vanda til verka en þörfin fyrir þjónustu eins og hér um ræðir er svo sannarlega fyrir hendi.
Við tölum um það jafnan – og ég er þar einlægur talsmaður - að við verðum eftir megni að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni um allt land. Þegar fólk er komið í mikla þörf fyrir líknarþjónustu og orðið mjög veikt er ekki hægt að reikna með því að ferðalög um langan veg til að sækja slíka þjónustu komi til greina. Við þurfum að gera þessa þjónustu færanlega og nýta alla möguleika sem eru fyrir hendi til að veita hana fólki í heimabyggð. Þetta er raunhæft og möguleikarnir eru alltaf að aukast, ekki síst fyrir tilstilli nýrrar tækni þar sem þróunin er ör á sviði fjarheilbrigðisþjónustu. Viðtöl og ráðgjöf sem veitt er á miðlægum grunni frá miðstöðinni hér á Akureyri með aðstoð tækninnar, í náinni samvinnu við heilbrigðisstarsfólk á hverjum stað er örugglega góður kostur sem við getum þróað með markvissu skipulagi og góðum undirbúningi.
Það er rétt að leggja áherslu á að líknandi meðferð er ekki einungis veitt sem meðferð við lok lífs og hún er ekki einungis fyrir krabbameinssjúka, líkt og oft má ráða af umræðunni. Hún nýtist mun fleirum og er mjög mjö mikilvæg leið til að bæta lífsgæði einstaklinga með lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma, taugasjúkdóma og aðra erfiða langvinna sjúkdóma. Með þetta í huga er ljóst að á jafnstóru þjónustusvæði og við erum að tala um hér er umtalsverður hópur fólks sem hefur mikla þörf fyrir svona meðferð og því væri um mikla þjónustubót að ræða ef af verður.
Mig langar að geta þess hér undir lokin, - af því að meðal margra er nokkuð rótgróinn ótti við einkarekstur í heilbrigðisþjónustu - að á sviði líknandi meðferðar, sem er svo sannarlega mjög viðkvæm þjónusta, þar hefur þjónusta einkaaðila reynst vel og getið sér mjög gott orð. Hér þekkir fólk Heimahlynninguna á Akureyri sem á sér orðið langa og góða sögu og á höfuðborgarsvæðinu hefur Karítas starfað um langt skeið. Þá ber að geta geta Heimahlynningar Krabbameinsfélagsins sem síðar rann inn í þjónustu Landspítalans, árið 2006 að mig minnir, eftir langa og farsæla starfsemi. Þessir aðilar hafa jafnan unnið í nánu samstarfi við opinbera heilbrigðiskerfið þar sem gagnkvæmur stuðningur og faglegt samstarf hefur verið lykill að velgengni í þágu góðrar og sveigjanlegarar þjónustu í þágu sjúklinganna.
Ég fer nú að ljúka máli mínu en vil að lokum segja frá því að ég hef ákveðið að skipa starfshóp til að gera tillögu að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á Akureyri og á starfsvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Óskað hefur verið eftir tilnefningum í starfshópinn frá Heimahlynningunni ehf. á Akureyri, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sjálfur sem heilbrigðisráðherra mun ég síðan skipa tvo fulltrúa í hópinn, annan þeirra sem formann. Ég vonast til að geta tilkynnt um nöfn fulltrúa í starfshópnum fljótlega eftir helgi.
Hlutverk þessa hóps verður að taka saman yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur sjúklingum, sem eru í þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð og búa á starfsvæði umræddra stofnana, til boða -greina núverandi þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð á starfssvæði umræddra stofnana - setja fram tillögur um skipulag og framkvæmd líknar- og lífslokameðferðar á svæðinu og loks að gera áætlun um kostnað við undirbúning og rekstur í samræmi við tillögurnar.
Eins og ég hef þegar rætt um liggur þegar fyrir mikil hugmyndafræðileg vinna sem mun nýtast vel í vinnu starfshópsins og þarna veit ég að verða einstaklingar með mikla þekkingu og sterka sýn á uppbyggingu þessarar þjónustu. Því tel ég víst að hópurinn geti mjög fljótlega skilað tillögum sínum, jafnvel í byrjun næsta árs.
Gott fólk. Það er ánægjulegt að undirbúningur að þessu mikilvæga verkefni geti nú hafist formlega og ég er viss um að við munum sjá góða hluti gerast í þessum efnum strax á næsta ári.