Opnun nýrrar hjúkrunardeildar við Lund á Hellu
Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra
Heilir og sælir Rangæingar og aðrir góðir gestir sem hingað eru komnir til að fagna ánægjulegum áfanga í uppbyggingu öldrunarþjónustu hér á Suðurlandi.
Forveri minn í embætti heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, undirritaði með sveitarstjórum Rangárþings ytra og Ásahrepps samkomulag um byggingu þessarar nýju hjúkrunareiningar í september árið 2014 og þá var jafnframt tekin fyrsta skóflustunga framkvæmdarinnar. Nú kemur það í minn hlut sem heilbrigðisráðherra að taka þátt í formlegri opnun þessarar kærkomnu viðbótar við hjúkrunarheimilið Lund – og mér finnst það virkilega skemmtilegt verkefni.
Það er metnaður að baki þessari framkvæmd og hér hefur verið byggt í anda nútíma-hugmyndafræði um litlar einingar og heimilislegar aðstæður. Með tilkomu viðbyggingarinnar, í hverri eru átta afar vel búnar hjúkrunaríbúðir, heyra tvíbýli á Lundi sögunni til og það sem meira er, með henni hefur verið sköpuð vönduð aðstaða fyrir heilabilaða íbúa heimilisins. Hjúkrunarrýmum fjölgar um tvö og síðast en ekki síst verður öll aðstaða betri en áður, fyrir þá sem búa hér eða starfa – og auðvitað líka þá sem koma hingað að heimsækja ættingja sína eða vini.
Ágætu gestir.
Eins og ég sagði þá hefur hér verið framkvæmt af metnaði – og við eigum líka að sýna metnað til þess að búa vel að öldruðum í samfélaginu, veita þeim góða þjónustu og stuðning sem þess þurfa með og mæta ólíkum þörfum fólks af skilningi og virðingu. Að þessu sögðu get ég ekki látið hjá líðast að vísa í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að aukinn þungi verði settur í uppbyggingu öldrunarþjónustu með sérstakri áherslu á heimahjúkrun og hjúkrunarheimili, fjölgun dagþjálfunarrýma og styttri bið eftir þjónustu. Það er mikil þörf á því að efla þessa þjónustuþætti og sú þörf eykst samhliða fjölgun aldraðra.
Gott fólk.
Ég ætla ekki að hafa þessa tölu langa. Fyrst og fremst vil ég óska heimamönnum til hamingju með þennan góða áfanga og færa þakkir öllum sem að verkinu hafa komið og leyst það vel af hendi. Velferðarráðuneytið, sveitarstjórnir Rangárþings og Ásahrepps og framkvæmdasjóður aldraðra hafa unnið vel saman, hjúkrunarforstjóri og annað starfsfólk Lundar hafa lagt sitt af mörkum og svo eru það auðvitað þeir sem komu að verklegum hluta framkvæmdarinnar, þ.e. hönnun og byggingu og þar getum við sagt að verkin sýni merkin. Hér mun fara vel um fólk.
Til hamingju öll.