Hættu nú alveg - málþing um tóbaksvarnir
Ávarp Óttars Proppé,
heilbrigðisráðherra
Málþing í Hörpu um tóbaksvarnir 14. mars 2017 - Dagskrá þingsins
Heil og sæl öll og velkomin til þessa málþings í Hörpu
um tóbaksvarnir.
And to our foreign guests: Thank you for being with us today and for sharing your time and your knowledge.
Áður en lengra er haldið vil ég þakka Embætti landlæknis, Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands og Krabbameinsfélaginu fyrir að efna til þessa málþings. Það er þarft og tímabært, því þótt sannarlega sé hægt að gleðjast yfir góðum árangri í tóbaksvörnum hér á landi á liðnum árum og áratugum eru ýmis mikilvæg verkefni framundan.
Þótt stórlega hafi dregið úr reykingum hér á landi, líkt og víðast á vesturlöndum í áranna rás, taka þær þó enn mikinn toll þegar við horfum til lífs og heilsu fólks og þær leggja á samfélagið ýmsar byrðar og þá einkum á heilbrigðiskerfið.
Skoðum aðeins tölur sem birtar voru í tengslum við alþjóðlega reyklausa daginn í fyrra. Þá kom fram að meira en 37.000 Norðurlandabúar deyja ár hvert af völdum sjúkdóma sem rekja má til tóbaksnotkunar. Á heimsvísu er áætlað að um sex milljónir manna deyji árlega af þessum völdum.
Ef við skoðum nýjustu gögn um íslenskan veruleika, þá er áætlað að árið 2015 hafi um 370 einstaklingar látist af völdum beinna eða óbeinna reykinga. Það eru um 17% af öllum dauðsföllum þetta sama ár.
Þessar íslensku tölur eru úr óbirtum niðurstöðum könnunar sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið að undanfarið til að meta kostnað samfélagsins af völdum reykinga. Þar kemur líka fram að áætlaður kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna reykinga árið 2015 er á bilinu 8 – 10 milljarðar króna.
Jónas Atli Gunnarsson mun hér á eftir fjalla um og skýra nánar frá þessum niðurstöðum og fleiri úr könnun Hagfræðistofnunar Háskólans. Ég vil nota tækifærið hér til að lýsa ánægju með að ráðist hafi verið í gerð þessarar könnunar en Embætti landlæknis á þann heiður. Eins vil ég þakka Hagfræðistofnun Háskólans fyrir að láta mér í té þær tölur sem ég hef nefnt hér og Jónas Atli fer í saumana á, á eftir.
Góðir gestir.
Það er margt hægt að segja um reykingar sem félagslegt fyrirbæri og ekki síst um viðhorf til reykinga og hvernig þau hafa breyst með tíð og tíma eftir því sem vitnesja um skaðsemi þeirra hefur komið betur og betur í ljós.
Þegar það fólk sem tilheyrir elstu kynslóðum samfélagsins var að byrja að reykja, fyrir svona sextíu árum eða svo, voru fyrstu sannanirnar um skaðsemi reykinga að koma í ljós. Langur tími leið áður en að vitneskja um skaðleg áhrif reykinga á heilsu fólks varð almenn og viðurkennd. Þekkingin varð heldur ekki til á einum degi. Allt til þessa dags hafa verið að koma fram nýjar upplýsingar um skaðsemi reykinga, bæði beinna og óbeinna en líklega velkist nú enginn lengur í vafa um að reykingar eru dauðans alvara.
Árum og áratugum saman fjölgaði reykingamönnum, þrátt fyrir að sannanir væru fyrir hendi um að reykingar væru skaðlegar heilsu fólks. Karlar reyktu mest framan af, síðar bættust konur í hópinn. Fólk reykti við allar hugsanlegar aðstæður; í vinnunni, í fjölskyldubílnum með börnin í aftursætinu, í flugvélum, rútum og lestum, í opinberum byggingum, á skemmtistöðum, matsölustöðum og jafnvel á sjúkrahúsum.
Með auknum upplýsingum og fræðslu, ásamt stuðningi og aðstoð við fólk til reykleysis, kom að því að það fór að draga úr reykingum.
Beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins af völdum reykinga er enn verulegur, eins og ég nefndi áðan, eða á bilinu átta til tíu milljarðar króna á ári. Þá er langt í frá talinn allur samfélagslegur kostnaður sem fylgir reykingum. Ávinningur samfélagsins af því að útrýma reykingum er stórkostlegur og það er allra hagur.
Gott fólk.
Mikilvægur árangur hefur náðst hér á landi undanfarin ár.
Samkvæmt könnun Gallup fyrir Lýðheilsustöð reyktu 19% landsmanna daglega árið 2007. Árið 2014 var þetta hlutfall um 14% samkvæmt vöktun embættis Landlæknis og árið 2016 var hlutfallið komið niður í 10%.
Daglegar reykingar eru algengastar hjá fólki á aldrinum 40 – 49 ára, eða 16% í samanburði við aldurshópinn 18 – 29 ára þar sem hlutfallið er einungis 8%. Mest er um vert að koma í veg fyrir að fólk byrji að reykja.
Ánæjulegt er að sjá umtalsverða minnkun reykinga meðal ungs fólks.
Samkvæmt glænýjum upplýsingum Embættis landlæknis hafa 68% fólks á aldrinum 18 – 34 ára aldrei reykt, samanborið við 34% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Tölur sýna því glöggt að stöðugt fjölgar í hópi ungs fólks sem lætur það alveg eiga sig að reykja og það er mikils virði. Ég nefni hér líka niðurstöður nýrrar könnunar Rannsókna og greiningar meðal framhaldsskólanema sem hafa verið kynntar – en ekki birtar. Þar kom m.a. fram að 5% þeirra sögðust árið 2016 reykja sígarettur daglega – en þegar þetta hlutfall var hæst árið 2000 voru reyktu 21% framhaldsskólanema daglega.
Framundan eru mikilvæg verkefni sem snúa að rafsígarettum, ekki síst í sambandi við ungt fólk.
Óbirt könnun Rannsókna og greiningar sem ég nefndi áðan leiðir í ljós að 52% stráka í framhaldsskólum höfðu árið 2016 prófað rafsígarettur einu sinni eða oftar um æfina og 45% stúlkna. – Um 12% stráka í framhaldsskólum höfðu reykt rafsígarettur daglega eða oftar og um 6% stúlkna.
Það sem er ekki síst alvarlegt er að rafsígaretturnar hjá þessum ungmennum koma ekki endilega í staðinn fyrir venjulegar sígarettur. Við sjáum til dæmis að 44% af þeim tíundu bekkingum sem sögðust hafa notað rafsígarettur höfðu aldrei reykt venjulegar sígarettur. Það er veruleg ástæða til að óttast að rafsígarettur geti orðið nýr faraldur þar sem ungt fólk ánetjast nikótíni.
Rafsígarettur geta tvímælalaust hjálpað einhverjum að hætta að reykja hefðbundnar sígarettur. Það er gott, því að rafsígarettur eru ekki taldar nærri eins skaðlegar og þær hefðbundnu. Nýtt frumvarpi um rafsígarettur verður lagt fram á Alþingi innan tíðar. Þar er ekkert sem hindrar notkun þeirra til að draga úr hefðbundnum reykingum því aðgengi að rafsígarettum verður alveg hið sama og er að venjulegum sígarettum. Möguleikar fólks til að nota rafsígarettur verða áfram þeir sömu en hins vegar snýr frumvarpið einkum að reglum varðandi sölu og markaðssetningu.
Varðandi skaðsemi rafsígaretta, þá eru þær ekki taldar skaðlausar. Í þeim er oftast nikótín sem er ávanabindandi og talið hafa ýmis skaðleg áhrif. Það eru líka vísbendingar um að fleiri efni í rafrettuvökvanum geti verið skaðleg heilsu. Við þekkjum ekki langtímaáhrif rafrettna á heilsu fólks og það eitt og út af fyrir sig segir mér að við verðum að fara varlega og sporna gegn því að rafrettunotkun verði almenn og viðurkennd sem lífsstíll eins og gerðist með sígaretturnar á sínum tíma. Við sjáum varhugaverða þróun hvað þetta varðar í framhaldsskólunum eins og ég nefndi áðan og það er áhyggjuefni.
Við getum nýtt okkur betur reynslu sem við höfum af tóbaksvörnum í gegnum tíðina. Þar vitum við að aðgengi og sýnileiki skiptir miklu máli auk þess að nýta almennar aðferðir forvarna og fræðslu.
Gott fólk.
Lýðheilsa og forvarnir eru sérstök áherslumál ríkisstjórnarinnar og tóbaksvarnir eru liður í þeim áherslum. Markvisst er stefnt að því að efla forvarnir og að styrkja einstaklinga til að lifa heilbrigðu lífi. Liður í þessari áætlun er að setja heildræna stefnu í heilbrigðismálum þar sem byggt verður á fyrirliggjandi stefnum og skýrslum, meðal annars því sem snýr að tóbaksvörnum. Heildræn nálgun er grundvöllur árangurs á sviði forvarna.
Árangur í forvörnum næst ekki hvað síst með markvissri samvinnu og samstilltu átaki bæði samvinnu þeirra sem vinna á sviði heilbrigðisþjónustu og ekki hvað síður með góðri samvinnu við skóla, vinnustaði, íþróttafélög og margra fleiri aðila. Hér getum við nýtt okkur enn frekar verkefni um heilsueflandi samfélög, heilsueflandi vinnustaði og heilsueflandi skóla.
Samvinna stofnana á sviði heilbrigðisþjónustu og forvarna skiptir líka miklu máli.
Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til þeirra sem standa fyrir þessu málþingi; Embætti landlæknis, Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands og Krabbameinsfélaginu og hlakka til áframhaldandi samstarfs til að efla enn frekar hið góða starf sem hér hefur verið unnið undanfarin ár.
Góðir gestir
Megi þingið verða okkur öllum til gagns og fróðleiks