Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana

Ávarp Óttars Proppé, heilbrigðisráðherra
24. mars 2017

Sæl öll.

Það er ánægjulegt að fyrir mig hitta ykkur hér, fólkið sem kalla má framverði heilbrigðisþjónustunnar, þar sem þið standið fremst meðal jafningja.

Hér í þessum sal er augljóslega fyrir hendi mikil þekking á breiðu sviði heilbrigðiskerfisins þar sem saman eru komnir fulltrúar sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, hjúkrunarheimila, endurhæfingarstofnunu og velferðarráðuneytinu auk fyrirlesara úr háskólasamfélaginu, að ógleymdum landlækni.

Það hlýtur að koma eitthvað gott út úr fundi sem þessum, - takk fyrir að bjóða mér.

Fyrir mig sem ráðherra heilbrigðismála er nauðsynlegt að geta sótt í ykkar þekkingarbrunn þegar kemur að stefnumótun fyrir þennan risavaxna málaflokk.

Eins er það algjör forsenda fyrir mig að geta átt samráð og samstarf við ykkur varðandi alla framkvæmd stefnu á sviði heilbrigðismála, þar sem okkar sameiginlega markmið á að vera að efla og bæta heilbrigðisþjónustu í þágu þeirra sem hennar þurfa með.

Viðfangsefni þessa tveggja daga fundar eru stór og mikilvæg. Stefnumótun og framkvæmd stefnu í heilbrigðismálum er viðvarandi verkefni og um það verður fjallað hér.

Svo er það mönnun og menntun fagstétta sem skiptir ekki síður máli, því þjónustan og  gæði þjónustunnar stendur og fellur með því að hægt sé að fullmanna heilbrigðiskerfið með vel menntuðu og færu fagfólki.

Hér á eftir fáum við að heyra um sýn á stefnu og skipulag heilbrigðisþjónustu frá sjónarhóli notenda annars vegar og hins vegar frá sjónarhóli veitenda þjónustunnar með aðgengið sem útgangspunkt. Hvoru tveggja mikilvægt og áhugavert.

Góðir gestir.

Ég ætla að nota tækifærið hér til að kynna þær áherslur sem mér sýnist augljóst að hafa að leiðarljósi í heilbrigðismálum á komandi misserum, eftir að hafa gert mitt besta til að kynna mér stöðuna frá því ég tók við embætti.

Þótt ég hafi fylgst grannt með og haft áhuga á heilbrigðismálum sem öðrum velferðarmálum lengi, bæði sem leikmaður og sem stjórnmálamaður, þá horfir allt nokkuð öðruvísi við úr stóli ráðherra yfir þessum víðfeðma og mikilvæga málaflokki.

Mér er vel ljóst að það tekur tíma að setja sig inn í skipulag heilbrigðiskerfisins og þar á ég margt ólært. Það er mikilvægt að átta sig á kostum þess og göllum, að finna veikleikana, meta styrkleikana og greina tækifærin.

Gleymum ekki því að við getum um margt verið stolt af heilbrigðiskerfinu okkar en við skulum líka muna í dagsins amstri að það eru alltaf tækifæri til að gera betur. Við þurfum því stundum að gefa okkur tíma til að hugsa hluti upp á nýtt, skoða mál í öðru samhengi en við erum vön, breyta um sjónarhorn og vera skapandi.

Til þess eru svona fundir – til þess er samráð og samvinna en þetta tvennt eru þættir sem ég vil leggja ríka áherslu á sem ráðherra.

Góðir gestir.

Nú ætla ég að víkja að þeirri sýn og þeim áherslum sem mig langar að koma á framfæri við ykkur hér í nokkrum orðum - en svo eigum við örugglega eftir að fá ýmis tækifæri til að ræða saman um heilbrigðismál í ýmsu samhengi á næstu misserum.

Fyrst af öllu vil ég gera það alveg skýrt hér að ég hyggst ekki bylta því kerfi sem við höfum með róttækum breytingum, hvorki varðandi skipulag né rekstrarform. Við höfum á að byggja ákveðnu grundvallarskipulagi sem er í meginatriðum gott og engin ástæða til að kollvarpa því, þótt ýmsu megi breyta til að laga þjónustuna betur að þörfum notenda.

Við höfum líka margt að byggja á varðandi mögulegar breytingar til að bæta heilbrigðiskerfið og þjónustu þess. Fyrir liggja margar greiningarskýrslur og tillögur nefnda og faglegra skipaðra vinnuhópa um slík efni sem er ástæða til að nýta.

Upp úr skúffunum mun verða ríkur þáttur í þeirri stefnumótun sem ég vil vinna að – en ég hef hug á að sett verið fram heildstæð stefna í heilbrigðismálum þar sem allt er undir, jafnt grunnþjónustan í heilsugæslunni, sérfræðiþjónustan, opinbera stofnanaþjónustan, sérhæfða sjúkrahúsþjónustan, endurhæfingarstarfsemin og heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða. Það verður að skoða þetta kerfi í heild, og allir þættir þess verða að vinna saman ef við ætlum að tryggja í verki samþætta þjónustu fyrir sjúklinga með þeirri heildarsýn sem liggur slíkri samþættingu til grundvallar.

Varðandi stefnumótunina, þá vitum við í meginatriðum hverju við viljum ná fram: Við viljum heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu, sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins – og við viljum að sjálfsögðu að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega og að þeir nýtist sem allra best.

Það er einnig grundvallaratriði að tryggja eins og kostur er jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum, eins og ég kem nánar að síðar.

Ég  held að við getum öll verið nokkuð sammála um hvert við eigum að stefna – en spurningin sem við þurfum einkum að glíma við er hvernig náum við best þessum markmiðum. Um það tel ég að sú heildstæða stefnumótun sem ég vil að ráðist verði í eigi að snúast. Og þar höfum við – eins og ég sagði áðan – á mörgu að byggja. Heilsugæslan á tvímælalaust að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Ýmis skref hafa verið stigin á síðustu misserum til að efla  hana og ég mun halda því starfi áfram.

Nýtt fjármögnunarkerfi sem hefur verið innleitt í heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu lofar góðu. Betri þjónusta og aukin afköst eru markmiðið. Í þessu kerfi sitja veitendur þjónustunnar við sama borð, óháð rekstrarfyrirkomulagi og inn í kerfið eru byggðir hvatar sem umbuna þeim sem best sinna sínum sjúklingum.

Það er mjög mikilvægt að byggja inn í heilbrigðskerfið heilbrigða hvata á borð við þetta nýja fjármögnunarfyrirkomulag í heilsugæslunni og beita aðgangsstýringu í auknum mæli.

Það er í þágu sjúklinga að þeir fái þjónustuna á viðeigandi þjónustustigi og það er allra hagur að heilsugæslan geti sinnt sem flestum verkefnum. Til þess þarf að efla þverfaglegt samstarf innan heilsugæslunnar með fleiri fagstéttum, svo sem sálfræðingum, sjúkraþjálfurum og næringarfræðingum.

Efling heilsugæslunnar tengist bæði aukinni áherslu á lýðheilsumál og eins og ekki síður áherslu á bætta geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn. Það er mjög mikilvægt að fólk geti innan heilsugæslunnar fengið meðferð og stuðning sálfræðinga og annarra þeirra sem þekkingu hafa á algengustu geðröskunum. Til að mæta þessu markmiði er áformað að ráða fleiri sálfræðinga með klíníska reynslu og þjálfun til heilsugæslunnar um allt land.

Varðandi Landspítalann þá þarf enginn að velkjast í vafa um hið mikla og afgerandi hlutverk sem hann hefur í heilbrigðiskerfi okkar landsmanna. Hann er svæðissjúkrahús fyrir þorra þjóðarinnar sem býr á Suðvesturhorni landsins og hann er sérhæft sjúkrahús allra landsmanna eins og nafnið bendir til. Síðast en ekki síst er hann háskólasjúkrahús með öllum þeim ríku skyldum sem fylgir því hlutverki, varðandi vísindarannsóknir, kennslu og þjálfun.

Ég legg áherslu á uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verði hraðað eins og kostur er og að byggingu meðferðarkjarna verði lokið árið 2023 og vil að það komi skýrt fram hér.

Góðir gestir.    

Sem kunnugt er stríðir Landspítalinn við útskriftarvanda vegna sjúklinga sem þar hafa verið fullmeðhöndlaðir en þarfnast annarra úrræða sem ekki eru fyrir hendi og geta ekki útskrifast heim. Til að mæta þessu þarf að setja aukinn þunga í uppbyggingu margvíslegrar þjónustu, sérstaklega heimahjúkrunar, endurhæfingar og hjúkrunarheimila. Að þessu er stefnt, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Aukið samráð milli Landspítalans, sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um land allt og þéttara samstarf þeirra á milli er eitthvað sem ég vil hvetja til og tel að þannig megi mæta enn betur þörfum einstaklinga sem næst heimabyggð sé þess nokkur kostur.

Ég nefni betri nýtingu aðstöðu og mannafla. Við höfum gott og öflugt sjúkrahús á Akureyri og heilbrigðisstofnanir um land allt. Mikilvægt er að sú fjárfesting sem þar er fyrir hendi nýtist sem best, að ekki sé talað um mannauðinn, auk húsnæðis, tækja og búnaðar.

Ég nefni líka samvinnu og samráð við álagsstýringu í tengslum við álagstoppa, t.d. varðandi sumarlokanir og fleira. Eins velti ég fyrir mér hvort með aukinni samvinnu eða breyttum áherslum megi tryggja fleiri námsstöður og efla þannig nýliðun þar sem skortur á námsstöðum er ákveðinn flöskuháls hvað það varðar.

Mig langar að geta hér um biðlistaátakið sem kynnt var í vikunni, þar sem ákveðið hefur verið að semja við þrjár heilbrigðisstofnanir um þátttöku í átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum völdum aðgerðum.

Stofnanirnar þrjár, sem eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands munu eiga þess kost að framkvæma aðgerðir sem falla undir átakið á öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum ef það hentar og er mögulegt.

Þetta er liður í þeirri viðleitni að nýta betur mannafla og aðstöðu á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins og gera fleiri íbúum utan höfuðborgarsvæðisins kleift að fá sérhæfða heilbrigðisþjónustu í eða nær sinni heimabyggð.

Í þessu sambandi hef ég í hyggju að boða á næstu vikum til samráðsfundar með fulltrúum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um land til þess að stilla enn betur saman strengi og ræða saman um leiðir til að bæta árangur á ýmsum sviðum.

Mikilvæg forsenda fyrir góðu samspili milli kerfa, samvinnu og samfelldri þjónustu eru samtengd upplýsingakerfi og þar með talin rafræn sjúkraskrá. Á þessu sviði er þróunin ör og ný tækifæri sífellt að opnast.

Embætti landlæknis hefur haldið vel utan um þessi mál og vinnur meðal annars að því að auka aðgengi notenda að upplýsingum sem varða þá sjálfa í heilbrigðiskerfinu í gegnum heilsugáttina Heilsuveru.

Við getum örugglega bætt þarna ýmsu við sem gagnast bæði notendum og veitendum heilbrigðisþjónustu. Til dæmis með aðgengilegum upplýsingum um þjónustu sem í boði er, t.d. hjá heilsugæslunni, og upplýsingar í rauntíma um bið eftir aðgerðum og annarri þjónustu. Með því móti má örugglega bæta álagsstýringu, stytta biðtíma og auka skilvirkni.

Gott fólk.

Við sjáum stöðugt hvernig nýjasta tækni á hverjum tíma opnar okkur nýjar víddir og gerir mögulegt eitthvað sem skömmu áður hefði þótt órum líkast. Fjarheilbrigðisþjónusta er tvímælalaust fyrirbæri þar sem við munum sjá ört vaxandi tækifæri á næstu árum.

Ég stóð ásamt fleiri þingmönnum að þverpólitískri þingsályktunartillögu um að mótuð yrði aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu svo bjóða megi landsmönnum, hvar sem þeir búa, upp á fjölbreytta, skilvirka og örugga heilbrigðisþjónustu. Tillagan var samþykkt og í framhaldinu fór fram ágæt vinna sem leiddi af sér tillögur um aðgerðir og verkefni í þessu skyni.

Ég býst við að geta fljótlega kynnt ákvarðanir um framkvæmd tilraunaverkefna á þessum grunni. Þið þekkið þetta eflaust vel mörg hér inni, enda sum hver fulltrúar stofnana sem hafa dregið vagninn varðandi þessa vinnu.

Efling heilsugæslunnar, samvinna sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um allt land, aukin áhersla á fjarheilbrigðisþjónustu, - allt eru þetta verkefni og áherslur sem hafa mikla þýðingu í þeirri viðleitni að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu um allt land.

Ég er þess líka meðvitaður að við þurfum að tryggja jafnt aðgengi óháð efnahag. Nýtt greiðsluþátttökukerfi sem tekur gildi 1. maí næstkomandi miðar að þessu, því þar er áherslan lögð á að verja fólk fyrir miklum útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu.

Í núverandi kerfi er ekkert þak á útgjöldum fólks, aðeins afsláttur þegar ákveðnum mörkum er náð. Í nýju kerfi verður sett þak á útgjöldin, þannig að fólk greiðir ekki meira en nemur ákveðnu hámarki innan hvers 12 mánaða tímabils.

Góðir fundarmenn.

Ég vil ljúka máli mínu á jákvæðum nótum og minna okkur öll á að það er býsna margt vel gert í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Við eigum auðvitað alltaf að hlusta á gagnrýni og leggja okkur fram um að gera betur, en við skulum líka stundum leyfa okkur að tala um það sem vel er gert og klappa svolítið fyrir okkur þegar við gerum vel og miðar í rétta átt.

Mín lokaorð eru eftirfarandi: Hlustum, tölum saman og vinnum saman. Þannig náum við árangri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta