Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. apríl 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Alþjóðlegur heilbrigðisdagur gegn þunglyndi

Grein eftir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra
Birtist í Fréttablaðinu 7. apríl 2017

Þunglyndi! Tölum um það.“  Þetta eru skilaboð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á alþjóðaheilbrigðisdeginum 7. apríl sem að þessu sinni er helgaður þunglyndi og hvernig við getum spornað við þunglyndi og bætt aðstæður þeirra sem við það glíma.

Þunglyndi er ein af meginorsökum vanheilsu fólks og örorku um allan heim. WHO áætlar að yfir 300 milljónir manna eigi við þunglyndi að etja og að hlutfall þunglyndra hafi jafnframt hækkað um rúm 18% á árabilinu 2005 – 2015. Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu hefur WHO ákveðið að efna til herferðar sem standa mun í heilt ár, undir yfirskriftinni: ,,Depression: let´s talk.“

Ég mæli með því að við gerum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til. Tölum um þunglyndi, reynum að sporna við þunglyndi og styðjum þá sem þjást af því til að öðlast betra líf með viðeigandi úrræðum og þjónustu.

Hér á landi hefur margt verið gert til að opna umræðuna um þennan illvíga sjúkdóm sem svo lengi var þolendum og aðstendendum þeirra mikið feimnismál. Það hefur átt sér stað vitundarvakning, sem gerir það að verkum að fólk hefur opnað sig og ræðir nú opinskátt um veikindi sín. Slík umræða eyðir fordómum og opnar jafnframt augu almennings og ráðamanna fyrir því hve mikilvægt er fyrir samfélagið allt að þessi mál séu tekin alvarlega.

Eins og fram kemur í sáttmála ríkisstjórnarinnar og í nýrri fjármálaáætlun hennar er áhersla lögð á að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni og með aðgerðum til að stytta bið eftir þjónustu göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.

Við búum að því að eiga þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi á liðnu ári. Þar eru sett skýr markmið og áætlanir sem fylgja þarf fast eftir. Aukin vellíðan, betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka þeirra sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma, óháð búsetu er meginmarkmið þingsályktunarinnar. Að baki slíkri stefnu eigum við öll að geta staðið heilshugar.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta