60 ára afmæli umdæmissjúkrahúss Austurlands
Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra
Komið þið sæl öll og til hamingju með daginn.
Eða kannski öllu heldur, til hamingju gott fólk, með að eiga hér í Neskaupsstað glæsilegt umdæmissjúkrahús sem hefur þjónað Austfirðingum og sinnt heilsufarsvandamálum þeirra í stóru og smáu um sextíu ára skeið.
Vígsludagur sjúkrahússins mun hafa verið 18. janúar 1957 og haldinn að viðstöddu fjölmenni við afar hátíðlega athöfn, eins og efni stóðu til. Höfðu þá framkvæmdir staðið yfir í nærri áratug, eða frá því að fyrsta skóflustungan var tekin í september 1948.
Guðjón Hauksson, forstjóri hér, var svo vænn að láta mér í té bók Stefáns Þorleifssonar; Heilbrigðisþjónusta á Norðfirði 1913 til 1990 þar sem m.a. er fjallað um vígslu sjúkrahússins hér í máli og myndum. Mikið var um ræðuhöld og góðar gjafir voru gefnar.
Ég gríp hér nokkrar línur úr bók Stefáns um þennan atburð þar sem segir: „Allar báru ræðurnar vott um aðdáun og hlýhug í garð stofnunarinnar og minntust menn með virðingu og þakklæti séra Guðmundar Helgasonar sem átti frumkvæði að þeirri stofnun, sem þarna var verið að fagna og vígja til starfrækslu. Einnig rómuðu menn mjög allan frágang og handbrað iðnaðarmanna og þá ekki síst hinn margbrotna og nýstárlega búnað sjúkrahússins, en fæstir af þeim sem þarna voru staddir höfðu áður séð búnað nýtísku sjúkrahúss“ – tilvitnun lýkur.
Ljóst er að það sem þótti nýstárlegt af búnaði og tækjum á þessum tímamótum þætti harla fornfálegt í dag. Það sem hefur hins vegar ekki breyst er hlýhugur heimamanna í garð umdæmissjúkrahússins síns – og ég þykist vita að í dag komi ýmsir færandi hendi, rétt eins og við vígsluna á sínum tíma.
Það er bæði rétt og skylt að nefna sérstaklega hvernig konur hafa jafnan verið öflugir bakhjarlar heilbrigðisstofnana, hvaða nafni sem þær nefnast. Í áður tilvitnaðri bók Stefáns segir til að mynda: „Strax frá byrjun, sem og nú, höfðu kvenfélögin í bænum sýnt þessari stofnun mesta ræktarsemi.“ Síðan eru taldar upp margvíslegar og raunsarlegar gjafir sem svo sannarlega hefur munað um. Hlutur kvenna í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi er alveg sérstakur kapítuli sem ber að halda í heiðri og er ástæða til að minnast í svo mörgu samhengi – bæði fyrr og nú.
Góðir gestir.
Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Fyrst og fremst erum við hér saman komin til að fagna tímamótum sjúkrahússins hér.
Það hefur hins vegar verið afar kærkomið fyrir mig að fá þetta tækifæri til koma hingað austur, ræða við heimamenn og gefast kostur á að kynnast svolítið í návígi starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands og áherslum þeirra sem stýra og stjórna rekstrinum sem fer fram á mörgum starfsstöðum í þessu víðfeðma umdæmi, allt frá Bakkafirði til Álftafjarðar, inn til lands og niður á firði.
Gott fólk. Ég ítreka góðar afmælisóskir og einnig óskir um bjarta framtíð og góða heilsu Umdæmissjúkrahússins í Neskaupsstað. Ástæða er til að ætla að þær óskir gangi eftir, þar sem framundan er grundvallarbreyting á aðstæðum öllum til góðs með opnun Norðfjarðarganga. Með göngunum batnar aðgengi Austfirðinga að sjúkrahúsinu hér – og margvísleg tækifæri opnast til samstarfs og samvinnu á sviði heilbrigðismála sem í öðrum mikilvægum málum.
Framundan eru spennandi tímar og tækifæri. Njótum þess og njótum dagsins í dag.
----------------------------
(Talað orð gildir)