Þing Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á þingi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
25. apríl 2017
Sæl öll
Það er sérstök ánægja að hitta ykkur hér á þingi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
Öflugt starf í heilbrigðisvísindum er mikilvæg stoð fyrir starf háskólans og ekki síður fyrir heilbrigðisþjónustuna sjálfa.
Háskólinn er uppspretta þekkingar og vísinda sem heilbrigðisþjónustan nýtur góðs af með hagnýtingu þekkingarinnar.
Háskólinn er líka mikilvæg menntastofnun fyrir þann fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem þaðan ljúka fræðilegu námi og klínískri þjálfun.
Og þá er háskólinn þýðingarmikill vinnustaður fyrir vísindamenn og ég veit að framlag vísindamanna á heilbrigðissviði hefur sýnt og sannað hversu framlag okkar í alþjóðlegu samhengi getur verið veigamikið.
Frumkvöðlar í röðum heilbrigðisvísinda eru fyrirmyndir að framsæknu vísindastarfi.
Þróttmikið vísindastarf getur verið mikilvægur þáttur í því að við getum haldið áfram að laða til okkar efnilega vísindamenn og efnilegt heilbrigðisstarfsfólk.
Hagnýting þekkingar sem verður til á vettvangi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands er án vafa einn af styrkleikum heilbrigðisþjónustunnar hér á landi.
Þegar ég lít á heimasíðu sviðsins sé ég eitt af mörgum dæmum um rannsóknir sem munu án vafa nýtast fyrir heilbrigðisþjónustuna, til dæmis til að efla forvarnir og lýðheilsu.
Rannsóknin sem ég vísa til er fjölþjóðlegt verkefni um næringu og heilsu og á heimsíðunni segir að ,,Markmið verkefnisins er að auka skilning á því hvort og þá með hvaða hætti næringarástand og fæðuvenjur tengjast offitu og þunglyndi“.
Það er ánægjulegt að lesa um þróun þekkingar um þessi tvö brýnu viðfangsefni, þ.e. offitu og þunglyndi.
Í stefnu nýrrar ríkisstjórnar er sérstök áhersla á forvarnir og lýðheilsu og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir aðgerðum sem lúta sérstaklega að offitu og geðheilbrigði.
Aðgerðirnar snúa til dæmis að því að styrkja starf heilsugæslunnar með aukinni áherslu á þverfaglega þjónustu sem snertir geðheilbrigði og heilbrigðan lífsstíl.
Þar er gert ráð fyrir að fjölga faghópum í framlínu heilsugæslu og má hér nefna sálfræðinga, sjúkraþjálfara og næringarfræðinga.
Hin nýja rannsókn sem ég nefni hér sem dæmi getur falið í sér mikilvæga hagnýtingu nýrrar þekkingar t.d. fyrir starf heilsugæslunnar á sviði forvarna og verið þannig merki um þann styrkleika sem fylgir samvinnu stofnana, bæði hér innan lands og ekki síður við stofnanir erlendis.
Góðir gestir
Samvinna og samráð eru lykilorð fyrir áframhaldandi árangur okkur í heilbrigðisþjónustunni.
Eitt meginverkefnið framundan á vettvangi heilbrigðisráðuneytis er að setja fram heildstæða stefnu sem skýrir enn betur markmið fyrir heilbrigðisþjónustuna, hvaða þjónustu á að veita, hver veitir þjónustuna og hvernig samvinnu hinna ýmsu aðila sem veita heilbrigðisþjónustu verður háttað.
Það er mjög brýnt að skerpa þessar línur og skýra mun betur verkaskiptingu og samvinnu innan heilbrigðisþjónustunnar. Með skýrari stefnu er leitast við að þekking og úrræði nýtist betur og fjármunir til þjónustunnar séu nýttir með markvissum og ábyrgum hætti fyrir velferð skjólstæðinganna.
Tilurð Landspítala sem háskólasjúkrahús árið 2000 er dæmi um ávinning af samvinnu stofnana. Tenging Landspítala við háskólasamfélagið gerir spítalann enn öflugri og gerir spítalann að ennþá áhugaverðari vinnustað.
Verkefnið framundan er að styrkja spítalann enn frekar þannig að hann blómstri sem eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fagfólk og fyrir vísindafólk á heilbrigðissviði.
Nú hillir undir Nýjan Landspítala. Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins er uppbygging Landspítalans við Hringbraut sett á oddinn og er gert ráð fyrir því að meðferðarkjarninn og rannsóknarkjarninn verði teknir í notkun árið 2023.
Í haust lýkur fyrsta áfanga framtíðaruppbyggingar við Hringbraut þegar nýja sjúkrahótelið tekur til starfa í 4.300 fermetra vandaðri byggingu með aðstöðu fyrir 75 sjúklinga og aðstandendur þeirra.
Það er sannarlega tilhlökkunarefni fyrir okkur öll að vinna á næstu árum að uppbyggingu Nýs Landspítala.
Með því bætist til muna öll aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk og gerir sjúkrahúsinu kleift að standast betur samanburð við erlend sjúkrahús sem áhugaverður vinnustaður og öflug vísindastofnun sem hefur bein áhrif á allt starf Heilbrigðisvísindasviðs háskólans.
Eins og mörgum er eflaust kunnugt leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á heilbrigðismál.
Auk eflingar heilsugæslunnar og forvarna sem ég hef nefnt verður sérstaklega litið til eflingar þjónustu við aldraða og þá ekki síst að gera öldruðum kleift að búa sem lengst á eigin heimili með þeirri þjónustu sem til þarf.
Geðheilbrigðismálin og bætt lýðheilsa fær sérstakan sess í stefnu ríkisstjórnarinnar.
Landspítalinn er grunnstoð sjúkrahússþjónustunnar og allt kapp er lagt á að styðja við það hlutverk og um leið og starf heilbrigðisstofnana um landið er styrkt.
Stofnanirnar um landið eru studdar meðal annars með því að gera þeim kleift að taka að sér ýmis verkefni og nýta þannig sem best mannafla, tæki og húsnæði sem fyrir er á hverjum stað.
Góð samvinna sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um landið styrkist með skýrari stefnumörkun og með nýtingu mismunandi úrræða, svo sem fjarheilbrigðisþjónustu.
Þegar ég lít á þessi mikilvægu viðfangsefni framundan er það tilhlökkunarefni að geta leitað í smiðju vísindafólks á Heilbrigðisvísindasviði. Hér starfar fjöldi starfsmanna og nemenda og starfsemin snertir allar hliðar heilbrigðisþjónustunnar.
Það er mikilvægt að eiga ráð háskólasamfélagsins um árangursríka uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og nýta þannig bestu þekkingu hverju sinni til hagsbóta fyrir almenning og skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar.
Ég óska ykkur allra heilla og hlakka til samstarfs við ykkur.
-------------------------------
(Talað orð gildir)