Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð
Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra
Undirritun samnings Bláskógabyggðar og Embættis landlæknis um heilsueflandi samfélag.
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson og aðrir góðir gestir.
Það fer vel á því að hefja formlegt starf um heilsueflandi samfélag í dag þegar fimmtán ára afmæli Bláskógabyggðar er fagnað.
Heilsueflandi samfélag felur í sér mjög áhugaverð og mikilvæg tækifæri fyrir alla.
Það er ánægjulegt að nú slæst Bláskógabyggð í hóp þeirra þrettán sveitarfélaga sem þegar hafa undirritað samning við Embætti landlæknis um heilsueflandi samfélag, og fimm önnur sveitarfélög munu nú undirbúa undirritun.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er í stuttu máli að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra.
Jafnframt að bjóða upp á jöfn tækifæri til að móta heilbrigðan lífsstíl og gera holla valið að auðvelda valinu.
Í því skyni spila saman efnahagslegir þættir, stjórnsýsla, öryggismál, félagslegt umhverfi, fræðsla og hvatning til heilbrigðis.
Í Heilsuseflandi samfélagi er lögð áhersla á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum, og í starfinu kristallast meginstoðir sem tryggja árangur í lýðheilsu.
Árangur heilsueflandi samfélags felst í því að tengja saman alla þætti samfélagsins á markvissan hátt og stefna að sama markmiði um vellíðan allra.
Hér er til dæmis um að ræða stefnu og starf skóla, vinnustaða, heilsugæslu, sveitarstjórna, umhverfismála og menningar.
Mér er það sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag, að fagna þessum tímamótum og taka þátt í að ýta úr vör svo mikilvægu verkefni sem endurspeglar vel stefnu ríkisstjórnarinnar um lýðheilsu og heilsueflingu.
Stefna ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára þar sem áhersla er lögð á að efla heilsugæsluna.
Hlutverk heilsugæslunnar verður styrkt í sambandi við forvarnir og heilsueflingu, til dæmis með því að fjölga faghópum í framlínu þjónustunnar.
Þannig geta einstaklingar fengið betri þjónustu í sambandi við heilsueflingu og forvarnir.
Á næstu árum verða ráðnir inn á heilsugæslustöðvar fleiri næringarfræðingar og sjúkraþjálfarar bætast í teymi sálfræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga.
Styrking heilsugæslunnar og þverfagleg þjónusta á þeim vettvangi er mikilvæg stoð heilsueflandi samfélags og liður í því að draga úr ójöfnuði og styrkja almennt vellíðan allra.
Þverfagleg þjónusta, til dæmis í sambandi við lífsstíl, getur dregið úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.
Góðir gestir.
Alls búa nú um 74% landsmanna í sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu um heilsueflandi samfélög.
Það er óhætt að segja að hér hafi náðst góður árangur og markið er sett enn hærra og vonandi verða öll sveitarfélög heilsueflandi sveitarfélög innan fárra ára.
Samfélög velja sér ólíkar leiðir til heilsueflingar og áherslurnar mótast af aðstæðum, þörfum og áhuga á hverjum stað.
Það er ánægjulegt til þess að vita að í Bláskógabyggð er þegar búið að leggja drög að stefnumótun og setningu markmiða í anda heilsueflingar og framundan eru því mikilvæg skref þar sem starfið verður mótað að þörfum og áherslum hér.
Það verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með hvernig fram vindur og sjá verkefnin þróast og blómstra með samstöðu og tengingu marga þátta samfélagsins.
Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag og óska íbúum Bláskógarbyggðar til hamingju með að vera nú formlegir þátttakendur í heilsueflandi samfélagi.
Megi gæfan fylgja ykkur.