Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2017 HeilbrigðisráðuneytiðÓttar Proppé

Matvæladagurinn 2017: Næring og heilsa á Íslandi - rannsóknir og samfélag

Ágætu gestir,

Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag á ráðstefnu Matvæla- og næringarfræðifélags Íslands, sem ber yfirskriftina: Næring og heilsa á Íslandi – rannsóknir og samfélag, þar sem ræða á viðfangsefni sem ég tel bæði mikilvægt og þarft.

Ég fyllist bjartsýni við að sjá hópinn sem stendur fyrir þessari ráðstefnu sem hefur með fagmennsku og metnaði unnið að dagskrá ráðstefnunnar.

Dagskráin er bæði fjölbreytt og endurspeglar það mikla rannsóknarstarf og heilsueflingu sem hefur verið í gangi á þessum vettvangi. Ég tel mikilvægt að nýta þá miklu þekkingu sem býr - bæði í þeim einstaklingum sem hér munu tala en einnig í þeim sem hér í salnum sitja og hafa áhuga og láta sér málið varða.

Næring og heilsa eru óaðskiljanleg og samofin hugtök.  Margir þættir hafa áhrif á heilsu okkar en tíminn leiðir ætíð betur og betur í ljós hve mikilvægur þáttur heilsusamleg næring er fyrir okkar heilsu, bæði líkamlega og andlega.

Það er ánægjulegt að sjá að næring í tengslum við geðheilbrigði er hér á dagskrá, en geðheilbrigðismál hafa verið eitt af mínum áherslumálum og fellur vel að auknum áherslum á þátt næringarráðgjafar, t.d. í heilsugæslu.


 

Með Ísland í fararbroddi í heiminum í notkun hinna ýmsu lyfja getur maður ekki varist hugsuninni um það hvort hægt væri að draga úr lyfjaneyslu, með bættu mataræði, aukinni hreyfingu og betri lífsstíl.

En hvernig búum við til samfélag þar sem heilsa er forgangsatriði? Hvernig vekjum við áhuga fólks fyrir næringu og mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu?

Ég tel að snar þáttur í þeirri vinnu sé fræðsla og með þekkingu skapist vilji og metnaður fólks til að lifa heilbrigðara lífi í þágu bættrar heilsu. Dagskráin hér í dag er liður í slíkri fræðslu og vinna þess fagfólks sem hér kemur fram mikilvægur þáttur í að byggja upp heilbrigðara samfélag.

Embætti landlæknis er faglegur ráðgjafi stjórnvalda um næringarmál og vinnur og gefur út fræðsluefni um næringu fyrir alla aldurshópa. Embættið leggur áherslu á að stjórnvöld skapi aðstæður fyrir heilbrigða lifnaðarhætti og hefur með höndum það hlutverk að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því  að efla og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.

Eitt af þeim verkefnum sem hefur verið unnið að síðustu ár hjá Embætti landlæknis eru verkefni um heilsueflandi samfélag og vöktun á mataræði, en því verður gerð nánari skil hér í dag.

Ráðstefna í dag er mikilvægur þáttur í að varpa ljósi á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma og ber dagskráin hér í dag þess merki að hér verði rætt um mikilvægar nýjungar á sviði næringar og heilsu.


 

En með hvaða hætti er hægt að tengja þá þekkingu sem hér kemur fram í auknum mæli inn í veitingu heilbrigðisþjónustu?

Þetta tel ég afar mikilvægt mál – en það snýst með öðrum orðum um þá spurningu hvernig við getum gert heilbrigðisþjónustu hér á landi heildrænni.

Það er sannfæring mín að heilsugæslan, sem fyrsti viðkomustaður einstaklinga í heilbrigðiskerfinu, eigi að gegna lykilhlutverki í þessu samhengi. Af þeirri ástæðu tel ég mikilvægt að sem flestar heilbrigðisstéttir veiti þjónustu sína inni á heilsugæslustöðvum.

Nú þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í að auka þjónustu sálfræðinga í heilsugæslunni. Samkvæmt fjármálaáætlun er jafnframt gert ráð fyrir að á heilsugæslustöðvum verði ráðnir sjúkraþjálfarar og næringarfræðingar til að mæta enn betur þörf einstaklinga fyrir ráðgjöf t.d. varðandi lífstílsvanda.

Tillögur að undirbúningsverkefni til að styðja við uppbyggingu þjónustu næringarfræðinga í Heilsugæslunni eru nú í burðarliðnum. Vonir standa til að verkefnið geti hafist á næstu mánuðum og verði mikilvægur liður í að undirbúa innleiðingu á þjónustu næringarfræðinga í heilsugæslu sem samkvæmt fjármálaáætlun mun hefjast árið 2019.


 

Nýverðlaunaði Nóbelsverðlaunahafinn Richard Thaler er þekktur fyrir kenningar sínar í atferlis-hagfræði. Kenningar hans fjalla um þætti sem hafa áhrif á ákvarðanatöku, - mikilvægi þess að einfalda og auðvelda fólki rétta ákvarðanatöku.

Þannig telur hann að hægt sé að fá fólk til að taka góðar ákvarðanir. Þetta á jafnt við um börn, ungmenni og fullorðið fólk. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að yfirvöld vinni ötulum höndum að því að gera fólki auðvelt fyrir í að taka heilsusamlegar ákvarðanir.

Með aukinni fræðslu og veitingu þjónustu, kröfum um merkingar, skattlagningu og öðrum aðgerðum geta yfirvöld lagt sitt af mörkum við að aðstoða einstaklinga við að taka góðar ákvarðanir um sitt mataræði og þar af leiðandi fyrir sína heilsu og framtíð.

Ágætu gestir – ég vil að lokum þakka aðstandendum þessarar ráðstefnu fyrir tækifæri til að taka til máls hér í dag og tel að þessi ráðstefna muni færa okkur áfram í þeirri vegferð að bæta lýðheilsu og stuðla að heilbrigði landsmanna.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta